07.04.1960
Neðri deild: 63. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2024 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Í sambandi við þann þakkaróð, sem tveir hv, þm., hv. 5. þm. Vestf. (BF) og hv. 3. þm. Sunnl. (GuðlG), hafa hér flutt ríkisstj. sinni í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, þykir mér ástæða til þess að segja nokkur orð.

Ég vil í upphafi taka það fram, að ég tel sjálfsagt, eins og málum er komið og raunar hefði mátt vera fyrr, að tekin sé sú stefna og farið í þá átt, sem frv. gerir ráð fyrir, þannig að bæjarfélög og sveitarfélög landsins fái nokkra tekjustofna aðra en útsvör. Á hinn bóginn þykir mér hlýða að rekja aðeins þá sögu, sem gerzt hefur á þessu þingi í sambandi við efnahagsmál, og þá einkum þann þátt þeirra, sem snýr að sveitarfélögunum sjálfum, því að það er vissulega hann, sem hér er á dagskrá.

Í febrúarmánuði s.l. voru hér í þessari stofnun gerðar ráðstafanir til þess að auka dýrtíðina í landinu svo stórkostlega, að ég hygg, að engum manni detti í hug, sem hefur nokkra reynslu fyrir sér eða framsýni, að sú dýrtíðaraukning verði minni en 25–30%. Ég veit, að í helgiriti ríkisstj., Viðreisn, eru þessar tölur ekki tilteknar, heldur aðrar og lægri, en reynslan hagar sér ekki eftir því, hvað stendur í þeirri bók, og dýrtíðaraukningin er miklum mun meiri. Sveitarfélögin í landinu munu því verða fyrir þungum búsifjum af þessari dýrtíðarhækkun, og þau munu verða það á tvennan hátt: Í fyrsta lagi munu allar þær framkvæmdir og allur tilkostnaður, sem sveitarfélögin þurfa að bera uppi, að sjálfsögðu hækka og þar af leiðandi tekjuþörf þeirra á móti því. En auk þess verður gjaldþol þegnanna í hverjum hreppi fyrir sig auðvitað miklum mun minna, ef sú stjórnarstefna, sem hér hefur verið mörkuð, kemur til með að ríkja, að dýrtíðin hækkar, en launagreiðslur til hins vinnandi fólks eiga að standa í stað. Nú hljóta bæirnir að verulegu leyti að byggja sína tekjuöflun á því, hver er gjaldgeta þegnanna, og hún er óumdeilanlega skert með þeim ráðstöfunum, sem hér hafa verið framkvæmdar.

Þegar hér er komið sögu, að dýrtíðin — og þá ekkert síður fyrir sveitarfélögin en aðra er orðin mjög þungbær og hefur risið a. m. k., eins og ég nefndi, um fjórðung eða jafnvel meira, þá eru komnar á rökstóla nefndir, sem eiga að gera till. um útsvör og um hluta sveitarfélaganna af söluskatti. Þeir hv. alþm., sem ég tilnefndi, munu báðir hafa unnið að undirbúningi frv. um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem hér er á dagskrá, og auk þess frv. um útsvör, sem hér er líka til afgreiðslu í þinginu. Þeir tóku ótrauðir þátt í því með sinni ríkisstj. að lögleiða hér þær ráðstafanir, sem leiða til þeirrar dýrtíðarhækkunar, sem ég hér hef lýst, og ég hef ástæðu til að ætla, að þeir hafi báðir gert það harla nauðugir. En þeir sáu enga ástæðu til þess að æmta eða skræmta í þeim málum, þeir bara gerðu það, sem ríkisstj. setti þeim fyrir.

Nú hafa hér komið fram frumvörp til laga, sem gera ráð fyrir því, að sveitarfélögin eigi að fá bætt upp örlítinn hluta af þeim skaða, sem Alþ. hefur áður með sinni löggjöf bakað þeim. Því hefur verið lýst, að sá hlutur, sem falla muni sveitarstjórnunum til sem tekjur af söluskatti, muni máske nema 10–12% af útsvarsupphæðum í bæjum, en það þýðir, að á tekjum bæjanna verður hækkunin yfirleitt ekki meiri en 10% , því að þrátt fyrir allt hafa bæirnir nokkrar tekjur af öðrum hlutum en útsvörum. Sem sagt, þegar að því er komið, að búið er að kippa frá bæjarfélögunum tekjum eða samsvörun tekna, sem nemur um 25%, svo að ekki sé of djúpt tekið í árinni, og aftur eiga að koma í staðinn tekjumöguleikar kannske upp á 10%, risa þessir höfðingsmenn upp og sjá sérstaka ástæðu til þess að flytja ríkisstj. sinni lofgerð fyrir það, hvað hún taki miklu betur á málefnum sveitarfélaganna í landinu en aðrar stj. hafa gert. Það er vissulega mikils virði fyrir hverja ríkisstj., sem á svo lítilþæga stuðningsmenn, og henni eru náttúrlega leiðirnar mjög færar, á meðan það ástand er það almenna í hennar liði. En ég hygg, að jafnvel þessir tveir hv. þm. muni ekki vera eins þakklátir ríkisvaldinu fyrir það, sem gert hefur verið, eins og þær ræður, sem þeir hafa haldið hér í dag, annars gætu gefið tilefni til að ætla. Í sambandi við störf þeirra við útsvarsmálin sem slík, við undirbúning að útsvarsl., sem hér eru til meðferðar í þinginu, hafa þeir hins vegar ekki komið ár umbjóðenda sinna betur fyrir borð en svo, að í því frv. er gert ráð fyrir, að einmitt í þeim bæjarfélögum, sem þessir hv. þm. eru fulltrúar fyrir, verði útsvarsstiginn miklum mun hærri en í nokkrum öðrum sveitarfélögum á landinu, þ.e.a.s., ég á hér við útsvarsstigann í bæjum landsins utan Reykjavíkur, en fyrir slíka kaupstaði eru þessir hv. þm. sérstakir fulltrúar, þar sem annar mun vera forseti bæjarstjórnarinnar á Ísafirði, en hinn bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. En það er vitað, að öll þau bæjarfélög, sem eru með sams konar aðstöðu gagnvart útsvarslagafrv. og þessir tveir bæir, sæta þar hinum verstu kjörum.

Ég vil af þessu tilefni enn þá rifja það upp, sem ég hef minnzt á áður, að útsvarslagafrv. er byggt á því, að Reykjavík eigi að halda allri sinni sérstöðu til útsvarsöflunar. Þar hefur ekki verið hróflað við því augljósa ranglæti, að Reykjavík situr svo að segja ein að aukaútsvörum ríkisstofnana og tekur af þeim tveimur stofnunum, Áfengisverzlun ríkisins og Tóbakseinkasölu ríkisins, álíka mikið í útsvör og t.d. öll útsvörin í Vestmannaeyjum eru áætluð. Á þessu hefur engin leiðrétting fengizt. Ég veit ekki, hvort þessir hv. þm. hafa prófað að fá leiðréttingu á þessu, en ég verð að lýsa því yfir, að hafi þeir ekki reynt það, lít ég svo á, að þeir hafi staðið heldur illa í stöðu sinni sem málsvarar bæjanna utan Reykjavíkur. En ef þeir skyldu nú samt hafa reynt þetta, þá er sýnilegt, að þeir hafa ekki komizt þar upp með moðreyk.

Samkv. útsvarslagafrv., sem samið er af sérstakri n., þar sem þessir hv. þm. eru fulltrúar, er gert ráð fyrir því, svo að ég nefni dæmi, alveg nákvæmlega, að af 40 þús. kr. skattskyldum tekjum skuli Reykvíkingur borga 3890 kr. í útsvar, en þeir, sem búa í öðrum kaupstöðum landsins, borgi af sömu upphæð ekki 3890 kr., heldur 5700 kr. Og ef gripið er annars staðar niður í útsvarsstigann, kemur í ljós, að af 70 þús. kr. útsvarsskyldum tekjum er Reykvíkingi ætlað að greiða 10890 kr., en þeim, sem býr í bæ utan Reykjavíkur, 13500 kr. Af 100 þús. kr. útsvarsskyldum tekjum er Reykvíkingi ætlað að greiða 18390 kr., en öðrum kaupstaðarbúum landsins 22200 kr. í útsvar. Það þarf vissulega mikinn vilja til stuðnings við hæstv. ríkisstj. til þess á eftir þessu öllu saman að geta komið hér upp í ræðustól og flutt lofgerðaróð um, að það eigi þó ekki að láta þetta með öllu óhætt, því að nú hafi bæirnir von um að fá kannske eins og 10% tekjuauka upp á móti öllu því stórkostlega, sem hér hefur verið á þá ráðizt.

Við að rifja upp þessa harmsögu dettur mér í hug svolítill sögukafli, sem ég einhvern tíma fyrir mörgum árum las. Það var í þeirri frægu skáldsögu um Don Quijote. Þar segir frá því, að eitt sinn hafi ræningjar hitt hefðarfrúr á för þeirra. Þeir réðust þegar á þær, reyttu af þeim þá gildu sjóði, sem frúrnar reiddu, en þegar þeir stóru fjársjóðir voru fallnir í hendur ræningjanna, opnuðu þeir sjóðina og gáfu kerlingunum, sem þeir höfðu rænt, örfáa skildinga, til þess að þær skyldu þó ekki vera með öllu örsnauðar, þegar þær færu að fundi þessara ræningja, en þær luku miklu lofsemdarorði um það, að ræningjarnir væru hinir göfugustu menn og þær hefðu ekki hitt aðra slíka á för sinni. Mér finnst næstum því eins og þeir hv. alþm., sem hér hafa lofað sína ríkisstj. fyrir þær ráðstafanir í útsvarsmálum, sem hér eru gerðar, séu á eitthvað svipuðu stigi um mat á því, hvað sé göfgi, og þessar háttvirtu frúr, sem ég hef tilnefnt úr sögunni um Don Quijote.