07.04.1960
Neðri deild: 63. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2027 í B-deild Alþingistíðinda. (621)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Ég mun ekki ræða hér um útsvarsfrv., sem liggur fyrir þessari hv. d., en er enn til athugunar í n. Ég mun því ekki hefja hér umræður við hv. síðasta ræðumann varðandi þau mál, það kemur til umræðu síðar.

En í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir um jöfnunarsjóð sveitarfélaganna, þykir mér rétt að leiðrétta einn grundvallarmisskilning, bæði hjá hv. 4. landsk. þm. (HV) og hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj). Þeir slá því báðir föstu, að eftir að lagðar séu gífurlegar nýjar álögur á sveitarfélögin, séu það nú einhverjar hundsbætur, sem eigi að veita með þessum söluskatti, því að hinar nýju álögur og aukin útgjöld sveitarfélaganna séu a.m.k. jafnmikil eða væntanlega meiri en hluti þeirra af söluskatti. Þetta er allt saman byggt á misskilningi, enda hafa þeir vafalaust hvorugur reynt að gera sér nokkra tölulega grein fyrir þessu. Sannleikurinn í þessu máli er sá og byggist á athugunum á nokkrum stöðum, að aukin útgjöld bæjar- og sveitarfélaganna vegna efnahagsráðstafananna eru ekki nema nokkur hluti af þeirri upphæð, sem fellur í hlut sveitarfélaganna af söluskattinum. Á nokkrum stöðum, þar sem þetta hefur verið reiknað út, er það í mesta lagi um helmingur af hluta hvers bæjarfélags af söluskatti, sem kemur á móti auknum útgjöldum vegna efnahagsaðgerðanna, — ég segi helmingur sums staðar, en annars staðar er það minna. Þetta er því hin mesta fjarstæða, að aukin útgjöld sveitarfélaganna vegna efnahagsaðgerðanna éti upp að fullu hluta þeirra af söluskatti eða jafnvel meira, enda þykist ég vita, að hvorugur þessara hv. þm. hafi gert tilraun til þess að gera sér nokkra grein fyrir þessu frá tölulegu sjónarmiði, heldur er þessu aðeins slegið fram sem fullyrðingu út í loftið. En í þessu sambandi er rétt að geta annars.

Fyrir tveimur árum átti hv. 4. landsk. þm., sem hér talaði áðan og sló þessu fram, sæti í ríkisstj., sem kölluð hefur verið vinstri stjórnin, og hv. 6. þm. Sunnl. var einn ötulasti stuðningsmaður þeirrar ríkisstj. Hún lagði fram hér á Alþ. í maímánuði 1958 og fékk samþykktar efnahagsaðgerðir, sem stundum voru kallaðar bjargráðin, og þær efnahagsaðgerðir höfðu veruleg áhrif, ekki aðeins á hag alls almennings, heldur ekki sízt á hag bæjar- og sveitarfélaganna í landinu, og jukust stórlega þeirra útgjöld. Ýmsar bæjar- og sveitarstjórnir urðu þá þegar að gera sérstakar ráðstafanir til að mæta þeim nýju álögum, sem bjargráð vinstri stjórnarinnar höfðu í för með sér.

Ég vil í fyrsta lagi taka það fram, að aukin útgjöld sveitarfélaganna vegna efnahagsaðgerðanna nú eru alls ekki meira en aukin útgjöld þeirra vegna bjargráða vinstri stjórnarinnar 1958. Í öðru lagi er nú gert ráð fyrir auknum nýjum tekjustofnum til sveitarfélaganna, sem gera miklu meira en vega á móti hinum auknu útgjöldum, en hv. 4. landsk. þm., sem átti sæti í vinstri stjórninni, hann og samráðherrar hans, þeir hreyfðu ekki hönd eða fót til þess, að sveitarfélögin fengju einn einasta eyri til að mæta þeim auknu útgjöldum, sem leiddi af bjargráðum vinstri stjórnarinnar.