07.04.1960
Neðri deild: 63. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2028 í B-deild Alþingistíðinda. (622)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta dagskrármál, sem fyrir liggur, en nokkur orð í ræðu hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj) gáfu mér þó tilefni til þess að koma hér fram aftur.

Það er alveg rétt, að bæði ég og hv. 5, þm. Vestf. (BF) höfum látið hér í ljós ánægju okkar yfir því, að jöfnunarsjóðsfrv. skuli vera komið fram. Þetta er að sjálfsögðu fyrst og fremst byggt á því, að þetta frv. markar stefnubreytingu á hv. Alþ. Bæjarfélögin hafa um langan tíma með mörgum áskorunum til Alþ. farið fram á, að farið væri inn á einhverja slíka braut og hér er gert í sambandi við tekjuöflun til handa sveitarfélögunum. Við þessu hefur alltaf verið daufheyrzt fyrr en nú, og er það að sjálfsögðu fagnaðarefni frá hendi okkar, sem að þessum málum vinnum úti um landið.

Það, sem hv. 6. þm. Sunnl. sagði um útsvarsstigana, bæði nú í ræðu sinni hér áðan og eins í ræðu sinni, þegar útsvarslagafrv. var til umr. hér í d., bendir alveg ótvírætt til þess og kemur mér satt að segja nokkuð á óvart, að hann sé gersneyddur allri þekkingu á málefnum og rekstri bæjarfélaga. Hann hélt því fram hér í umr., þegar útsvarslagafrv. var til umr., að það ætti að gera Reykvíkinga að nokkurs konar aðalsmönnum vegna þess, að þeir byggju við lægri útsvarsstiga en bæirnir úti um landið. Þessi hv. þm. veit sjáanlega ekki, að þótt útsvarsstigarnir séu þannig settir eins og þeir eru, er fyrst og fremst í 8. gr. laganna um jöfnunarsjóð gert ráð fyrir, að bæirnir geti eins notað Reykjavíkurstigann og kaupstaðastigann, ef hann nægir þeim.

Það hefur sýnt sig, að margir bæir, sérstaklega á Suðurlandi og Suðvesturlandi, hafa undanfarin ár notað Reykjavikurstigann og getað aflað sér tekna á þann hátt. Í Vestmannaeyjum árið 1959, þó að við værum þar með stiga, sem niðurjöfnunarnefndin bjó til sjálf, varð útkoman á útsvörum, að þau urðu lægri á sambærilegar tekjur en útsvör hér í Reykjavík. Útsvarsstigarnir eru því enginn mælikvarði á það, hvort menn á þessum eða hinum stað greiði hærra eða lægra útsvar en t.d. gert er ráð fyrir eftir Reykjavíkurstiganum. Það fer alveg eftir því, hver er heildarupphæð útsvaranna á hverjum stað og hver er tekjustofn sá, sem niðurjöfnunarnefndirnar hafa til að vinna úr.

Ef þetta aðalsmerki, sem Karl Guðjónsson var að setja á Reykvíkinga í sambandi við þeirra stiga, ætti að taka raunverulega, þá hefur það skeð í Vestmannaeyjum 1959, að íhaldsstjórnin þar — ég þar með — hefur alveg óafvitandi aðlað þennan hv. þm., 6. þm. Sunnl., með því að láta hann bera lægra útsvar en hann hefði gert, hefði hann verið búsettur hér í Reykjavik. Þessar umr. hans sýna það, að hann virðist ekki hafa gert sér nokkra grein fyrir því, hvernig útsvarsstigar eru byggðir upp eða hvernig þeir koma út fyrir þá, sem lagt er á eftir þeim. Það getur verið á svo margbreytilegan hátt, eins og ég hef sagt, að þeir eru fyrst og fremst reglur um, eftir hvaða hlutföllum hver einstakur skuli borga, frekar en það, hvort hann endanlega kemur til með að greiða þá upphæð, sem gert er ráð fyrir í stiganum, eftir þeim tekjum, sem þar eru tilgreindar.