07.04.1960
Neðri deild: 63. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2029 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara að tefja hér tímann. En út af því, sem fram hefur komið hér í umr. um það, að hv. stjórnarsinnar, sem hér hafa talað, hafi hælt sinni ríkisstj., þá gat ég afar vel skilið það. Það hefur fallið þeim í skaut annað á þessu þingi, hv. stjórnarsinnum, en að hafa ástæðu til þess að hæla þeirri ríkisstj., sem þeir styðja. Ég álít, að hér sé á ferðinni eitt það skásta frv., sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram, og ég gat því vel skilið það, þó að þeir vildu við þetta tækifæri láta koma í ljós, að þeir hefðu einhvern tíma ástæðu til þess að vera sæmilega ánægðir, og hæla þeirri ríkisstj., sem þeir oft og tíðum hafa vafalaust orðið að fylgja af litlum áhuga og enn þá minni ánægju. Ég vil ekki vera að meina þessum hv. þm. það.

Út af þessu frv. vil ég segja það, að mér er ljóst, að þetta frv. kemur til með að létta nokkru á í sambandi við álögur sveitarfélagana, eins og til er ætlazt, og ég hygg, að ef það nær fram að ganga, eins og ætlazt er til, muni það gera meira en að mæta þeim álögum, sem efnahagsmálin ein út af fyrir sig hafa á sveitarfélögin lagt í bili.

Hins vegar ber á það að líta, að hér eru nokkur atriði, sem geta orkað tvímælis og kannske orðið þess valdandi, a.m.k. fyrir sum sveitarfélögin í landinu; að þau njóti hér lítilla kjara samkv. frv. Í 4. gr. frv., síðari mgr., segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Nú er sveitarfélag í vanskilum með greiðslu vegna veittra ríkisábyrgða, og er ráðuneytinu þá heimilt að inna slíkar greiðslur af hendi af framlagi til sveitarfélagsins, eftir því sem til vinnst.“

Ég er ekki í nokkrum vafa um, að það eru mörg sveitarfélög á landinu, sem eiga eftir að kenna á þessu ákvæði frv., og það er hægt að rökstyðja, að það sé eðlilegt, að ríkissjóður vilji hafa hér einhvern varnagla um. En á hitt má líka benda, að með þessu móti er ríkinu gert auðveldara að innheimta þær ríkisábyrgðir, sem falla í vanskil hjá sveitarfélögum, heldur en aðrar ríkisábyrgðir. Þess vegna eru sveitarfélögin samkvæmt þessu verr sett en þeir aðrir, sem lenda í vanskilum með ríkisábyrgðir. Ég hygg, að í a. m. k. færri tilfellum gangi ríkið að, þó að það hafi veð.

Hins vegar eru hér atriði, sem ég vildi fá frekari upplýsingar um, og vildi ég leyfa mér að beina því til hæstv. fjmrh.: Liggur nokkuð fyrir um það, hvað hugsað er með e-liðnum, þar sem talað er um að styrkja eftir ákvörðun ráðherra tilraunir til að koma betra skipulagi og meira samræmi í framkvæmd sveitarmálefna og samstarf sveitarfélaga? Á að gera þetta í samráði við Samband íslenzkra sveitarfélaga og fela því þessa framkvæmd, eða á að gera þetta á annan hátt? Enn fremur vil ég benda á það, að hér er talað aðeins um tvo gjalddaga. Hv. 4. landsk. þm. (HV) fór fram á, að þetta yrði ársfjórðungslega. Ég vildi segja, að það væri til bóta, þótt þeir væru ekki nema þrír, að 15. okt. væri bætt þarna við. Það mun vera svo hjá öllum hinum stærri sveitarfélögum, að innheimta þeirra er með þeim hætti, að þau innheimta nokkurn veginn ákveðið mánaðarlega, og það er afar mikils virði fyrir þá aðila, sem eiga að sjá um framkvæmd í sveitarfélögunum, að þetta sé nokkuð reglubundið. Þess vegna kæmi það sér afar vel fyrir sveitarfélögin, ef þetta gæti verið ársfjórðungslega. En það væri þó bót í máli, að það væru þrír gjalddagar á ári, en ekki tveir. Ég vildi þess vegna beina því til hæstv. ráðh., hvort það væru ekki möguleikar á því að fá þessu atriði breytt, svo að gjalddagarnir yrðu þrír.

Ég sé ekki ástæðu til þess að segja meira um þetta mál og tek það fram, að ég tel, að að því sé nokkur bót, og það er þá viðleitni til þess að skila nokkru aftur af því, sem af almenningi hefur verið tekið. Ég skil þess vegna vel, þó að hv. stjórnarsinnar þakki það, því að þeir hafa ekki haft ástæðu til þess að þakka til þessa.