07.04.1960
Neðri deild: 63. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2035 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Þegar hæstv. fjmrh. tók til máls, vænti ég þess fastlega, að hann mundi upplýsa eitthvað málinu viðkomandi og mundi umfram aðra menn verða málefnalegur í sinni ræðu. En sannleikurinn er þó sá, að einasti maðurinn, sem hér hefur tekið til máls um þetta frv. hæstv. ríkisstjórnar og verið ómálefnalegur, er hæstv. fjmrh., hann hefur ekki komið nálægt málefninu.

Hann gaf í skyn, að hann byggi yfir tölulegum athugunum og útreikningum, sem sýndu það, að útgjaldaaukning sveitarfélaganna vegna efnahagsmálaaðgerða ríkisstj. væri ekki verulegri en svo, að þær tækju bara helminginn af því, sem þetta frv. gæfi, hinn helminginn í afgang. Ég tek undir það með hv. 6. þm. Sunnl. (KGuðj), að mig langar til að fá að sjá þessa útreikninga, svo að reynslan gæti lagt sinn dóm á þá á þessu ári, sem þeir eiga að prófast á. Það dugir engin silkitungumýkt til þess að hverfa svo um fyrir okkur að gefa í skyn einhverja tölulega vísdóma og liggja svo á þeim. Nei, það er bezt að þessar tölur komi, svo að þær verði athugaðar og fái dóm reynslunnar.

Það stendur einhvers staðar í einhverjum plöggum hæstv. ríkisstj., — ég hygg, að það sé í grg. með útsvarsfrv., — að það séu líkur til þess, að þær greiðslur, sem kaupstaðirnir fái úr jöfnunarsjóðnum, muni nema 10–12% af álögðum útsvörum þeirra, líklega miðað við s.l. ár. Eftir upplýsingum hæstv. fjmrh. á sú útgjaldaaukning, sem efnahagsmálaaðgerðir ríkisstj. hafa bakað sveitarfélögunum, yfirleitt ekki að vera nema 5–6%. Það hefur verið kallað 5–6% útsvarshækkun. Hver trúir? Ekki ég. Líklega eru það margir fleiri, sem trúa því ekki.

Eitthvað voru þeir að gefa það í skyn, að útgjaldaaukningin hjá einstaklingi, hjá þegnunum, muni nema um 13%, og því trúir heldur enginn, því að það vita allir, að útgjaldaaukningin hjá einstaklingnum í þjóðfélaginu vegna efnahagsmálaaðgerða ríkisstj. verður a.m.k. tvöfalt það. En fyrir sveitarfélögin á hún bara að vera tæpur helmingurinn af því, sem þeir áætluðu að efnahagsmálaaðgerðirnar mundu kosta einstaklinginn. Og það þarf sannarlega málsnjallan fjmrh. til að gera mönnum grein fyrir þessu, sannfæra þá um þetta, og það er alveg ástæðulaust að liggja á slíkum huggunarríkum vísdómi.

Hv. 6. þm. Sunnl. nefndi hér bæjarfélög til beggja handa við Reykjavík, þau ætluðu að laga hjá sér hafnirnar, og þau þurfa náttúrlega sitt hvað að gera. Það gerist á hverju einasta ári hjá bæjarfélögunum, og vafalaust hefði hann mátt koma við í Reykjavík og taka bara einn eða tvo framkvæmdaliði hjá Reykjavíkurbæ, og mundi þá sennilega koma í ljós, að fljótt saxaðist á limina hans Björns míns, að fljótlega saxaðist á tillagið, sem Reykjavíkurbær fær úr jöfnunarsjóðnum, vegna þeirra verðhækkana, beinu verðhækkana, sem verða á hverjum einasta framkvæmdalið hjá hverju bæjarfélagi. Efast ég þá ekkert um, að útkoman yrði sú hin sama sem hv. 6. þm. Sunnl. komst að niðurstöðu um að því er snerti Hafnarfjarðarbæ og Akraneskaupstað. En ég veit, hver er hugsunarháttur hæstv. ríkisstj. Hver getur reiknað með því, að bæjarfélögin séu með framkvæmdir? Þau áttu að stöðva allar framkvæmdir. Tilgangurinn með öllum efnahagsmálaráðstöfunum ríkisstj. var að stöðva allar framkvæmdir í landinu. Og þá er hægt kannske með því móti að hafa einhvern afgang af þeim huggunareyri, sem sveitarfélögin fá í gegnum þetta jöfnunarsjóðsfrumvarp, en öðruvísi ekki. Ef þau hafa framkvæmdir með höndum, verður lítið úr þessum peningum.

Það eina, sem hæstv. ráðh. lagði til málanna í sinni ræðu áðan, var það, að útgjaldaaukning, sem sveitarfélögin hefðu fengið á sig á dögum vinstri stjórnarinnar vegna efnahagsmálaaðgerða, sem þá voru gerðar, hafi ekki verið bætt með nýjum tekjustofnum þá til sveitarfélaganna. Það er út af fyrir sig rétt. En vinstri stjórnin gerði annað, sem getur jafnazt á við tekjustofn eins og þennan fyrir sveitarfélögin. Vinstri stjórnin varði allmiklum fjárhæðum til þess að dreifa fjármagni út um landið og undirbyggja atvinnulífið, og það er á við góðan tekjustofn til sveitarfélaganna, að atvinnulífið sé eflt. En hvað er nú? Nú er ætlazt til þess, að hver þröskuldurinn eftir annan verði lagður í götu atvinnulífsins í landinu. Ég hef ekki enn hitt einn einasta atvinnurekanda, sem hefur viljað fallast á það, að nú sé blómlegt og bjart útlit, nú sé betri aðstaða hjá atvinnuvegunum en áður var, heldur barma þeir sér allir.

Hér eru þó menn innan veggja, sem gætu sannarlega gert meira að segja tölulega grein fyrir því, hversu mjög nú vænkist hagur sjávarútvegsins og annarra framkvæmda í landinu vegna efnahagsmálaaðgerða ríkisstj. Ef svo er, getur það verið á móts við drjúgan tekjustofn. En ég hygg, að sveitarfélögin hafi ekki fengið aukna erfiðleika á dögum vinstri stjórnarinnar með það að ná endum gjalda og tekna saman, sökum þess að atvinnulífið tók þá fjörkipp upp á við og gjaldstofnar allir urðu þannig traustari á að byggja og auðveldara fyrir sveitarfélögin að ná endum tekna og gjalda saman.

Ef maður ætlar nú að kaupa sér fiskiskip, er þá búið að auðvelda það fyrir honum? Nei, það er búið að torvelda það og það allískyggilega, þannig að litlar líkur eru til, að fiskiskip verði yfirleitt keypt í landið á þessu ári, meðan holskefla efnahagsmálaaðgerða núv. ríkisstj. ríður yfir. Og skip ganga úr sér, og það er kannske frekar hætt við, að efnahagsmálaaðgerðirnar verði til þess að stöðva endurnýjun og aukningu hjá undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar og þannig veikja grundvöll þeirra tekjustofna, sem sveitarfélögin hafa á að byggja. Gæti þar fljótt munað til aukinna erfiðleika, hvað sem þetta frv. að einhverju litlu leyti kann að bæta úr.

Ég vék að nokkrum efnisatriðum frv., þ. á m.

því, að óskir hefðu verið uppi í n. um það að fá aðra breyt. á 4. gr. frv., þá breyt., að eins og ríkið innheimtir söluskattinn fjórum sinnum á ári, þá greiddi það söluskattinn einnig fjórum sinnum á ári til sveitarfélaganna. Tveir meðnm. mínir hafa talað hér nú, eftir að ég hélt ræðu mína áðan„ en hafa ekki vikið að þessu. Ég heimta ekki endilega svör af þeim nú undir þessari umr., en veit, að þeir taka það til athugunar, eins og þeir lofuðu í n., hvort þetta geti ekki orðið, að gjalddagar jöfnunarsjóðsframlagsins til sveitarfélaganna yrðu fjórir. Hins vegar játa ég, samkv. ábendingu hv. 3. þm. Vesturl. (HS), að það væri strax til bóta, að gjalddagarnir yrðu þrír. En ég hygg, að hitt mundi vera framkvæmanlegt, að þeir yrðu fjórir eins og hjá ríkinu og að gjaldið kæmi þá í lok þess mánaðar, sem ríkið innheimti skattinn til sín.

Við því atriði, hvort fallizt yrði á það, að skerðingarákvæðin, sem bitna á fámennum og fátækum sveitarfélögum, fengjust niður felld að því athuguðu, hvað þessi sveitarfélög verða að ganga nálægt gjaldþegnum sínum, ef sýnilega er talin þörf á að byrja að leggja útsvör á 3000 kr. árstekjur, hef ég ekkert svar fengið, og mundi það þá helzt vera hæstv. fjmrh., sem gæti látið uppi skoðanir um það, hvort á það yrði fallizt eða það nokkuð tekið til athugunar. Hins vegar vil ég segja það, að við þá breyt., sem n. féllst á við frv., er búið að breyta þessari lagasetningu verulega. Þau eru mörg sveitarfélögin, sem skulda mjög háar upphæðir vegna áfallinna ríkisábyrgða. Og það er gefinn hlutur, að ef frv. hefði verið samþ. í því formi, sem það kom frá hæstv. ríkisstj., hefði þetta fyrst og fremst orðið innheimtustofnun fyrir ríkissjóðinn, en ekki til þess að létta þeim búsifjarnar af dýrtíðaraukningu þeirri, sem ríkisstj. hefur skapað.