08.04.1960
Efri deild: 59. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2046 í B-deild Alþingistíðinda. (640)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Mér hefur fundizt einkenni á vinnubrögðum hæstv. ríkisstj. vera helzt fljótfærni og óðagot, og mér finnst þetta stjórnarfrv. ekki skera sig úr að því leyti. Í des. s.l. skipaði hæstv. fjmrh. nefnd manna til að undirbúa þetta frv. ásamt öðrum störfum, þ. á m. að undirbúa frv. til bráðabirgðaútsvarslaga og jafnvel fleiri. Að vísu voru ágætir menn skipaðir í þessa nefnd, og þó hygg ég, að hún hafi ekki verið skipuð nægilega vel til þess, að hin ýmsu sjónarmið í þjóðfélaginu fengju að njóta sín. Þessari nefnd er gert að skila tillögum sínum innan tveggja til þriggja mánaða í stórum og vandasömum málum og viðkvæmum, og þessi nefnd gerir sér grein fyrir því, að ekki er um annað að ræða frá hennar hálfu á svo skömmum tíma en það, sem hún kallar bráðabirgðalausn.

Verkið er sem sagt rifið út úr höndunum á henni af hæstv. ríkisstj., svo mikið liggur við, og því dembt hingað inn á Alþingi. Þar tekur sama flaustrið við. Það er rekið á eftir, þannig að hv. alþm. fá lítinn tíma til athugunar mála. Í þessu tilfelli er hv. heilbr.- og félmn. Ed. ekki veitt neitt tóm til að athuga efni frv., og er efni þess þó mikilsvert og að ýmsu leyti viðkvæmt mál. Hin ýmsu ákvæði þess skipta sveitarfélögin, stór og smá, miklu máli, og því er þess mikil þörf, að þau séu athuguð frá öllum hliðum, áður en frv. verður samþ. En þess er nú sem sagt enginn kostur. Hv. heilbr.- og félmn. fékk ekki svigrúm til að halda nema einn fund um þetta mál, og af þessari hv. d. er þess nú krafizt, að hún noti ekki nema einn sólarhring til fullnaðarafgreiðslu frv. Þannig virðist hæstv. ríkisstj. lítt hirða um sómasamleg þingræðisleg vinnubrögð. Hún heimtar málið hespað af í flaustri.

Þó að ég sé samþykkur frv. í heild og nauðsyn þess, að það fái afgreiðslu á þessu þingi, hef ég ekki að svo stöddu haft tækifæri til að mynda mér skoðun á öllum einstökum atriðum þess. Ég efast t.d. um, að skerðingarákvæðið í 2. gr. frv. muni reynast happasælt, þegar til framkvæmda kemur. E.t.v. getur það ákvæði leitt til óæskilegra áhrifa á álagningu útsvara á ýmsum stöðum í landinu, leitt m.ö.o. til þess, að gert verði í því að ná sem mestu út úr jöfnunarsjóði. En slíkt væri auðvitað mjög óheppilegt og óæskilegt. E.t.v. væri heilbrigðast að miða úthlutun við íbúatöluna eina án nokkurs fyrirvara þar um. Þetta er eitt atriði af fleirum, sem ég hefði viljað fá tækifæri til að athuga betur og heyra álit annarra á. En til þess er nú hvorki gefinn tími né tóm.

Það er í raun og veru einkennilegt, að þess skuli nú krafizt af hæstv. ríkisstj., að þetta frv. verði afgr. endilega í dag hér á hinu háa Alþingi. Það væri þó eðlilegt, að afgreiðsla þess og afgreiðsla brbl. um útsvör hefði fylgzt að. Ákvæði eru náskyld í báðum þeim frv., og hefði verið eðlilegast, að þau hefðu nokkurn veginn fylgzt að hér á Alþ. Nú skal þessu frv. hespað af í dag, en útsvarslagafrv. fær að bíða fram yfir páska a.m.k., og skil ég satt að segja ekki samhengið í þeim vinnubrögðum. En eins og fram kemur í áliti hv. n., er ég samþykkur frv. í heild með þeim fyrirvara, sem ég hef nú gert grein fyrir, að ég tel undirbúning málsins og athugun hér á Alþingi ekki nándar nærri nógu góða.