08.04.1960
Efri deild: 59. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2047 í B-deild Alþingistíðinda. (641)

113. mál, Jöfnunarsjóður sveitarfélaga

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það voru aðeins nokkur orð, sem ég ætlaði að segja nú við þessa umr.

Í 10. gr. þessa frv., sem hér er til umr., er svo ráð fyrir gert, að VII, kafli framfærslulaga, nr. 80 5. júní 1947, falli úr gildi. En sem kunnugt er, fjallar hann um jöfnun framfærslukostnaðar í landinu, og er nokkuð greinilega kveðið á um, hver háttur skuli á hafður, þegar um jöfnun á milli sveitarfélaga er að ræða, því að samkv. þessum lögum frá 1947 og þessum VII, kafla framfærslulaganna er svo ráð fyrir gert, að hvert og eitt sveitarfélag í landinu beri það, sem kallað er meðaltalsframfærslukostnaður í landinu. En eftir að kemur fram yfir þennan meðalframfærslukostnað, sem talað er um í l., endurgreiðir jöfnunarsjóður eða ríkið 2/3 hluta af þeim kostnaði, sem fram yfir er þennan meðaltalsframfærslukostnað. Þetta er í þeim lögum, sem nú skal úr gildi fella. Ég skal fyllilega játa, að ég hef ekki haft aðstöðu til þess að kynna mér þetta frv. til hlítar, en þess vegna kem ég með fsp., ef vera kynni, að sú nefnd, sem hefur fjallað um þetta mál, gæti gefið frekari upplýsingar en þegar liggja fyrir í máli þessu.

Það er ráð fyrir gert í þessu frv., að öll sveitar- og bæjarfélög á landinu fái eigi minna en 56 millj. kr. á ári úr jöfnunarsjóði. Þessu er fyrst og fremst úthlutað eftir höfðatölureglunni, en þó með þeim takmörkunum, að ekkert sveitarfélag í landinu fái yfir 50% af álögðum útsvörum s.l. árs. Þetta er hin almenna regla, sem á að úthluta þessum söluskatti eftir. En nú vitum við það, að þarfir sveitarfélaganna í landinu eru ákaflega misjafnar, og þó að þessi regla hafi að vísu þann kost, að fámenn sveitarfélög með miklar byrðar eða mikil gjöld fái tiltölulega meira á íbúa en önnur, þá geta að vísu verið þær aðstæður til staðar, að þetta framlag hrökkvi ekki til og það jafnvel, þó að einnig sé notað það ákvæði útsvarslaganna, að hækka megi útsvör um 30% frá því, sem þau voru s.l. ár. En þá skilst mér, að við taki d-liður 3. gr. þessa frv., sem nú er til umræðu. Það eru svokölluð aukaframlög til sveitarfélaganna. En það liggur ekkert hér fyrir um það, á hvern hátt og eftir hvaða reglum skuli fara með þessi aukaframlög, því að mér skilst, að þau komi í meginatriðum í staðinn fyrir það ákvæði, sem nú skal úr lögum fella um jöfnunarsjóð sveitarfélaga, þ.e.a.s. að bæta úr því, sem framfærsluþörfin og framfærslukostnaðurinn fellur þyngra á sveitarfélögin en hann féll áður. Almenna reglan gildir ekki um þetta atriði, og sú regla, sem verið hefur, er numin úr gildi. En mér skilst, að það liggi ekkert fyrir í þessu frv. um, eftir hvaða reglum skuli fara við úthlutun á þessum aukaframlögum, ef þeirra þurfi með. En að sjálfsögðu sé ég fram á það, að jöfnuður þarf eftir sem áður þrátt fyrir þetta að verða á milli hinna einstöku bæjarog sveitarfélaga í landinu, engu síður en verið hefur til þessa.

Grundvöllurinn að þessu frv., sem hér liggur fyrir, er í raun og veru útsvarslögin og það frv., sem hér liggur fyrir Alþ. um breytingar á þeim lögum, og skal ég ekki fara langt út í að ræða það frv. En þó vil ég drepa á nokkur atriði, sem mér finnst vera mjög vafasöm í því frv., og ekki sízt það, að þegar maður fer að bera saman hina einstöku skala fyrir Reykjavík og aðra kaupstaði í landinu og sveitarfélögin, er þar mikill greinarmunur á gerður um það, hvað menn skuli greiða hátt útsvar, miðað við sömu tekjur. Ef maður tekur t.d. einstakling í Reykjavík, sem á að greiða útsvar af 25 þús. kr. tekjum, greiðir hann 940 kr. Væri þessi einstaklingur staðsettur í einhverjum öðrum kaupstað annars staðar á landinu, mundi hann greiða 2150 kr. Væri hann í einhverju litlu sveitarfélagi, mundi hann af sömu tekjum greiða 2630 kr. Hann greiðir því, ef hann væri í kaupstað, um 129% hærra útsvar af sömu tekjum en ef hann væri í Reykjavík, og væri hann í einhverri sveit, mundi hann greiða sem næst 180% hærra útsvar af sömu tekjum. Þetta finnst mér ákaflega óréttlátt, og ég held, að a.m.k. að því er varðar einstaklinga mundu þeir smám saman flýja land, þar sem þeir þurfa að greiða tiltölulega miklu hærra útsvar, og fara til þeirra staða, þar sem útsvörin væru lægri, og þetta hlýtur því að gera hinum fámennari sveitarfélögum mjög erfitt fyrir um að halda því fólki til heimilis innan síns sveitarfélags, sem það að sjálfsögðu mundi annars geta. Þetta finnst mér ákaflega vafasamt, og að sjálfsögðu verður þetta tekið nánar til athugunar, þegar útsvarsfrv. kemur til umr. hér í þessari deild, en þar sem útsvörin eru raunverulega grundvöllurinn að því frv., sem hér liggur fyrir, vildi ég drepa á þetta atriði.

Það er líka annað atriði í því frv., sem er mjög vafasamt, og það er, að það skuli mega breyta þeim grundvelli, sem tekinn er gildur, þegar á að leggja á tekju- og eignarskatt fyrir ríkið, en ef niðurjöfnunarnefnd líkar ekki þessi grundvöllur, getur hún kollvarpað honum eins og henni sýnist og jafnað niður útsvörum eftir eigin höfði. Þetta er ákaflega vafasamt ákvæði, því að ég tel, að á meðan framtalsskylda er af tekjum og eignum í landinu, beri að leggja það framtal til grundvallar hvort tveggja í senn tekju- og eignarskatti og einnig að hafa það sem megingrundvöll við útsvarsálagninguna. Það getur verið mjög hættulegt að leyfa niðurjöfnunarnefnd að skapa sér sjálf þann grundvöll, sem hún á að jafna niður eftir lögskipuðum útsvarsskölum, eins og nú á að lögleiða í landinu, og ekki sízt þegar maður rekur augun í það, að þessir útsvarsskalar eru ákaflega mismunandi eftir því, hvar menn eru staðsettir.

Ég er ekki í neinum vafa um það, að því er áhrærir hin fámennari sveitarfélög í landinu, að þá er gamla og sígilda reglan, sem þar hefur verið notuð, og ég vil halda því fram, að það hafi gengið mjög árekstralítið og árekstralaust að jafna niður útsvörum eftir þeirri meginreglu að fara eftir ástæðum og efnum manna. Ég tel, að hún mundi vera farsælust einnig í framtíðinni, þótt hins vegar sveitarfélögin geti sjálf skapað sér skala, en þau hafi leyfi til að bregða út frá þeim skölum eftir þeirri gömlu sígildu reglu. Það má vel véra, að þetta geti ekki gilt fyrir hin fjölmennari bæjarfélög, það hef ég ekki kunnugleika um að dæma. En hins vegar finnst mér sú regla, sem hér á að skapa, að mega breyta grundvelli þess, sem skattaskalinn á að reiknast eftir, þ.e.a.s. framtölunum, vera ákaflega varhugaverð.

Ég vænti þess, að sú nefnd, sem hefur fjallað um þetta frv., geti gefið mér upplýsingar um það, á hvern hátt jöfnuður fer fram á milli bæjar- og sveitarfélaga í landinu, þegar almenna reglan, sem á að úthluta söluskattinum eftir, hrekkur ekki til, þ.e.a.s. þegar búið er að úthluta milli bæjar- og sveitarfélaganna þessum 1/5 hluta söluskattsins eða 56 millj. eftir höfðatölureglunni með skerðingarákvæðinu 50%, og einnig með því ákvæði, að leyfilegt er að hækka útsvör um 30%, og í hvorugu tilfellinu dugir það fyrir því, sem sveitar- eða bæjarfélagið þarf, hvaða regla tekur þá við, samkv. 3. gr. frv., d-lið, til að jafna þar á milli sveitarfélaganna? Almenna reglan, sem gilt hefur til þessa, er afnumin, um leið og þetta frv. verður samþ. En liggur nokkuð fyrir um það, hvaða reglur verði notaðar í framtiðinni, þegar þarf að viðhafa jöfnuð á milli sveitarfélaganna? Það væri fróðlegt að fá upplýsingar um þetta nú við þessa umræðu málsins.