22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2053 í B-deild Alþingistíðinda. (662)

75. mál, jarðræktarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hæstv. ráðh. hefur hér mælt fyrir frv. til laga um breyt. á jarðræktarlögunum. Hann gat þess, að ástæðan fyrir því, að farið væri fram á að láta þá, sem rækta sandjörð, njóta jafnmikils framlags og þá, sem rækta annan jarðveg, væri fyrst og fremst sú, að sandjarðvegurinn væri miklu áburðarfrekari en annar jarðvegur. Því skal ég ekki á móti mæla, ég hugsa, að þetta sé rétt hjá hæstv. ráðh., en ég vil bara út af því benda á það, að hér er um nýja leið eða nýja stefnu að ræða í ræktunarmálum, ef veita skal ríkisframlag út frá auknum rekstrarkostnaði við ræktunina, því að þarna skilst mér að við það sé miðað, að rekstrarkostnaður við sandgræðslutúnin sé meiri en við önnur tún. Þarna er farið inn á þá leið að hækka ríkisframlagið vegna þess, að reksturinn muni verða dýrari, og tel ég, að slíkt sé nýjung, þegar um ríkisframlag er að ræða til jarðræktar í landinu.

En um leið og þetta mál ber á góma, hefði ég viljað spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort ríkisstj. hefði eitthvað á prjónunum um það að koma til móts við þá, sem eru að rækta landið, með því að hækka ríkisframlagið til jarðræktar, þar sem vitað er, að jarðræktin verður mörgum sinnum dýrari nú en hún hefur verið til þessa, og þar af leiðandi það framlag, sem veitt hefur verið, miklu minni hluti af kostnaðinum. Og það væri sannarlega ekki vanþörf á því að endurskoða ýmis ákvæði jarðræktarlaganna almennt með tilliti til þess, sem er að gerast í efnahagsmálum landsmanna almennt. Þótt ríkisframlagið til jarðræktar og annarra framkvæmda hafi hjálpað mikið til þessa, er vafasamt, hvort það er fullnægjandi nú til að hjálpa þeim, sem hjálpar þarfnast. Ég vil því nú á þessu stigi, áður en þetta mál kemst til n., vita, hvort hæstv. ríkisstj. hefur nokkuð á prjónunum í þessum efnum.