22.03.1960
Efri deild: 45. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2054 í B-deild Alþingistíðinda. (663)

75. mál, jarðræktarlög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. 1. þm. Vesturl. (ÁB) talar um, að það sé ný stefna að veita hærri styrk til ræktunar í sandlandi vegna þess, að sú jörð þurfi meiri áburð en önnur jörð, sem ræktuð er. Ef þetta er ný stefna, má segja, að það sé eðlileg stefna og það hafi verið röng stefna 1955 að breyta jarðræktarlögunum og lækka styrkinn til sandræktunar á þeim forsendum, að það væri ódýrari ræktun, m.a. vegna þess að sandarnir væru oftast nær sléttir. Hvers vegna skyldi lögunum hafa verið breytt 1955 og lækkaður styrkur til sandræktunar nema af þeirri ástæðu, sem var á misskilningi byggð? Reynslan síðan hefur sýnt, að það er ekki tiltölulega ódýrara að rækta sand en aðra jörð, ef sandurinn á að vera vel ræktaður. Þess vegna er farið fram á það með þessu frv., að það verði jafnhár styrkur til sandræktunar og annarrar ræktunar, en ekki hærri styrkur. Og þetta er nánast sagt leiðrétting á því, sem gert var 1955 af misskilningi.

Svo er fsp. um það, hvort ríkisstj. hafi á prjónunum nokkrar hugleiðingar um að breyta jarðræktarlögunum eða lagfæra, til þess að þau geti innt af hendi það hlutverk, sem þau hafa gert áður, vegna dýrtíðarinnar. Ég vil upplýsa það, að vitanlega hefur ríkisstj. hugleitt þetta, en hún er ekki tilbúin með tillögur um það. Og ég hygg, að það sé meira en hægt er að segja t.d. um vinstri stjórnina. Ég varð ekki var við, að það örlaði á neinum breytingum hjá henni á árinu 1958, eftir þær hækkanir, sem þá skullu á, á ræktunarlögunum eða t.d. í því skyni að hækka styrk til jarðræktarvéla eða þess konar. Það bar ekkert á því þá. En ég er þakklátur hv. 1. þm. Vesturl. fyrir það, að hann treystir núv. stjórn betur en þeirri stjórn, sem hann studdi þá. Og ég get upplýst hv. þm. um það, að núv. stjórn hefur í hyggju að láta endurskoða ýmiss konar löggjöf landbúnaðarins einmitt með það fyrir augum, að landbúnaðurinn verði ekki mjög hart úti vegna þeirra verðhækkana, sem verða óneitanlega á mörgum vörum, svo sem rekstrarvörum og öðru slíku, enda þótt núv. ríkisstj. taki þessi mál allt öðrum tökum en vinstri stjórnin gerði.

Það er bersýnilegt, að hv. 1. þm. Vesturl. treystir núv. stjórn miklu betur en þeirri, sem hann studdi áður, og ætlast til meira af henni. Hv. þm. var t.d. ekki á árinu 1958 að gera kröfur til þess, að fóðurbætir og áburður væri lækkaður í verði, eftir þær verðhækkanir, sem þá urðu, en hann ætlast til þess af núv. ríkisstj., og núv. ríkisstj. mun ekki bregðast því trausti, sem hv. 1. þm. Vesturl. hefur á henni.