26.04.1960
Efri deild: 65. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2060 í B-deild Alþingistíðinda. (671)

75. mál, jarðræktarlög

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Hv. 10. landsk. þm. (BGuðm) mælti gegn þeirri brtt., sem við höfum hér fram borið, hv. 5. þm. Austf. (PÞ) og ég. Og aðalrökin hjá hv. þm. gegn till. voru þau, í fyrsta lagi, að útgjöld hins opinbera mundu hækka verulega mikið, ef þessi till. yrði samþ. Ég vil benda hv. þm. á það, að ég er ekki svo smeykur við það, að útgjöld ríkisins hækki svo verulega nú á þessu ári, vegna þess að bæði hann og aðrir, sem hæstv. ríkisstj. styðja, eru búnir að búa svo um hnútana, að á þessu sviði sem öðrum verður mikill samdráttur í landinu. Það mun vera þegar nokkurn veginn ákveðið, að leigan eftir skurðgröfurnar hækki nú á þessu vori um 30%, og þá bagga er þegar búið að binda bændastétt landsins, að ég tel, að ef það er ekki beinlínis knýjandi nauðsyn hjá þeim á næstunni að láta ræsa fram hjá sér land, þá reyni þeir að láta ræsa eins lítið og unnt er. Það er því fyrirsjáanlegur samdráttur á þessu sviði, svo þó að brtt. mín yrði samþ., mundi heildarupphæðin. sem ríkið þyrfti að greiða vegna skurðgrafar eða þurrkunar lands á þessu ári, tæplega verða eins há og nú þegar er áætlað í fjárlögum.

Þá gat hv. þm. þess, að hann hefði ekki orðið var við neina óánægju hjá bændum sérstaklega varðandi styrkinn til framræslu. Það hygg ég að hann segi nokkurn veginn rétt. En málið horfir bara allt öðruvísi nú í dag en það hefur gert á undanförnum árum. Og þessi framkvæmd er líka í röð þeirra framkvæmda, sem ég hygg að bændur muni ekki hafa eins mikinn áhuga á og verið hefur, af því að þeir verða augsýnilega mikið við sig að spara, og því meiri hætta að verði svo mikill samdráttur á þessu sviði nú, að við biðum þess ekki bætur í framtíðinni, þegar tímarnir breytast.

Ég vil líka á það benda, að umfram það, að leigan hækkar nú, fellur einnig söluskattur á þessa þjónustu, sem bændastéttinni er veitt. Það eru miklar líkur til þess, að 3% söluskatturinn falli nú í fyrsta skipti á þessa þjónustu, sem bændunum er veitt með því, að ýmiss konar ræktunarsambönd og ríkið veita þeim aðstoð með að láta vélar fara um landið til að vinna.

Í þriðja lagi vil ég benda á það, að útjöfnun ruðninganna, sem koma upp úr skurðunum, kostar álíka mikið og skurðgröfturinn sjálfur, svo að ég sé ekki, þó að ríkið kosti jafnvel skurðgröftinn að öllu leyti, að þessir aðilar séu betur settir í landinu með sína ræktun en fjöldamargir aðrir, og þótt þeir fengju skurðgröftinn greiddan að fullu, þá eru þeir samt sem áður verr settir og miklu verr settir en þeir, sem við erum nú að auka styrk til með því að hækka hann til þeirra, sem hafa sandjarðveg á að ganga, vegna þess að sandjarðvegurinn er einhver sá ódýrasti jarðvegur í vinnslu, þótt ég hins vegar skuli viðurkenna, að hann er rekstrarfjárfrekari, hann krefst meiri áburðar árlega, — en þegar tekinn er stofnkostnaður við ræktunina, verður hann langódýrastur. Að sjálfsögðu er dýrasti jarðvegurinn, sem unninn er, sá, sem er mikið grýttur, og þar næst sá jarðvegur, sem þarf að ræsa :fram mikið og þarf lengi að bíða eftir að hann komist í ræktunarhæft ástand. Mér finnst því, að öll rök, hvernig sem maður veltir þessu máli fyrir sér, hnigi í eina og sömu átt, að þetta sé knýjandi nauðsyn nú eins og sakir standa, að þessi till. verði samþykkt.