03.12.1959
Neðri deild: 9. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (72)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Eysteinn Jónsson:

Ég vil leyfa mér að benda hæstv. forseta á, að þetta mál, sem nú á að taka fyrir samkv. því, sem hann hefur tilkynnt og leitað afbrigða fyrir, er á vegum hæstv. fjmrh. Og hæstv. fjmrh. er ekki enn viðstaddur hér í d. Ég vil skora á hæstv. forseta að hætta við þá fyrirætlun að taka þetta mál fyrir hér um hánótt, að þeim ráðh. fjarstöddum, sem þetta mál heyrir undir. Ég vil benda hæstv. forseta á það, sem er tiltölulega ungur á þingi, að það er yfirleitt venja, að þeir ráðh. séu viðstaddir, sem þau mál heyra undir, sem rædd eru hverju sinni. Og forsetar þingsins hafa reynt að hafa í heiðri þessa venju undanfarið og veitt ráðherrum aðhald í þessu efni. Ég get vel um þetta vottað, vegna þess að það hefur oftar en einu sinni komið fyrir mig, ef ég hef hvarflað frá, að forsetar þingsins hafa gert ráðstafanir til þess, að ég kæmi og væri viðstaddur, ef eftir mér hefur verið spurt í sambandi við mál, sem undir mig hefur heyrt. Og ég hef líka reynt það, að forsetar hafa látíð hætta umræðum um mál, sem ég hef haft forustu um, vegna þess að ég þurfti að fara frá og ósk kom um það frá einhverjum í d., að ekki væri haldið lengur áfram, nema ég væri viðstaddur. Og þannig eru fleiri dæmi, ekkert siður um aðra ráðh. en mig, því að ég hef ekki verið svikulli við að sitja yfir málum mínum en aðrir ráðh. á undanförnum árum.

Hér er um mjög þýðingarmikið atriði að ræða í störfum þingsins og sambandi ríkisstj. og þings, — atriði, sem hæstv. forsetum er skylt að hafa gát á. Það eru þeir, sem eiga að gæta réttar þingsins í þessu efni. Sumir mundu kannske líta svo á, að það sé einkamál ráðh., hvort þeir eru viðstaddir umr. um þau mál, sem þeir leggja fyrir þingið, eða fjarstaddir, jafnvel heima hjá sér sofandi eða hver veit hvar. En það er alger misskilningur.

Það er ekki þeirra mál. Það er málefni þingsins, sem forsetarnir eiga að sjá um.

Ég vil því biðja hæstv. forseta að gera ekki þann óvinafagnað að láta nú fara fram umr. um þetta mál að hæstv. fjmrh. fjarstöddum, og vil biðja hann um að taka málið út af dagskrá, ef ráðh. getur ekki mætt. Og vil ég heyra undirtektir hæstv. forseta um þetta.