03.12.1959
Neðri deild: 9. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Eysteinn Jónsson:

Mér skilst, að þetta beri að skilja svo, að hæstv. forseti ætli að láta hér fara fram umræður um þetta mál að hæstv. fjmrh. fjarstöddum, af því að hann viti ekki, hvar hann er. En hvaða nauður rekur hæstv. forseta til þess að pína þetta mál hér fram til umr. um hánótt, að hæstv. fjmrh. fjarstöddum, í byrjun þings? Hvers vegna slítur hæstv. forseti ekki þessum fundi? Hvernig dettur honum í hug að traðka þannig á virðingu þingsins að láta ráðherranum haldast þetta uppi, að leggja hér þessi mál fyrir og fara síðan burt og skeyta ekkert um framgang þeirra í þinginu? Ráðherrann getur ekki ætlazt til þess af hæstv. forseta, að hann hagi störfum á þennan hátt, sem brýtur gersamlega í bága við allar venjur. Og hæstv. fjmrh. getur vitaskuld ekki sett fyrir sig neinn annan ráðh. í þessu sambandi, þannig að það fullnægi nokkrum eðlilegum þingræðisreglum eða eigi á nokkurn hátt að fullnægja þeim kröfum, sem hæstv. forseta er skylt að gera fyrir þingsins hönd til ráðherra og ríkisstjórnar.

Ég hélt satt að segja, að það væri nóg komið hér í nótt, þó að þessu væri ekki bætt við, og neyðist til þess að álíta, að við höfum nú fengið hér á Alþingi alveg nýja tegund alþingisforseta, sem ekki hefur áður þekkzt hér á Alþingi. Ég hef getað virt það við alþingisforsetana, að þeir hafa á undanförnum árum veitt ríkisstj. og öðrum fullkomið aðhald í því að sýna Alþ. sóma og gæta skyldu sinnar gagnvart því, enda hafa þetta yfirleitt verið menn, sem hafa skilið sitt hlutverk og rækt það á þessa lund, áreiðanlega til gæfu bæði fyrir þing og stjórn. En nú sé ég, að hér hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að taka upp nýja siði og velja nýja tegund forseta á Alþingi, og slíkt ber að harma. Nú virðast vera komnir hér í forsetastólana menn, sem láta algerlega stjórnast af óbilgjörnum kröfum einstakra ráðherra, sem eru fjarstaddir, einhvers staðar úti í bæ, enginn veit hvar eru, en samt stýra þessum mönnum, hæstv. forsetum Alþingis.

Ég leyfi mér að mótmæla þessu sem algerri óhæfu og skora enn á hæstv. forseta að forða Alþingi frá þessu og bjarga einnig sjálfum sér með því að slíta nú fundi og láta ekki umræður um þetta mál fara fram, nema hæstv. fjmrh. mæti nú hér þegar í stað.