27.02.1960
Efri deild: 31. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2075 í B-deild Alþingistíðinda. (742)

68. mál, fyrningarafskriftir

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Árið 1946 voru sett lög um sérstakar fyrningarafskriftir. Í 1. gr. þeirra laga segir:

„Þær eftirtaldar eignir, sem teknar eru í fyrstu notkun á árunum 1944–1948, má í stað venjulegra fyrningarafskrifta afskrifa um 20% á ári í þrjú ár, frá því er þær eru teknar í notkun, þó ekki fyrr en frá 1. jan. 1946 að telja.“ Síðan eru þessar eignir upp taldar, en þær eru: „fiskiskip og önnur veiðiskip, flutningaskip, síldarverksmiðjur, dráttarbrautir og vinnslustöðvar fyrir sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir.“

Þremur árum síðar, 1949, voru samþ. lög um, að þessi heimild í lögunum frá 1946 skyldi einnig ná til eigna, sem teknar yrðu í fyrstu notkun á árunum 1949 og 1950. 1950 voru samþ. sams konar lög varðandi eignir, sem teknar yrðu í fyrstu notkun á árunum 1951, 1952 og 1953. 1954 var enn samþ. heimild fyrir árin 1954, 1955 og 1956, og þá var bætt við því ákvæði, að heimildin skyldi enn fremur gilda um farþega- og vöruflutningaflugvélar. Árið 1957 voru enn sett lög um, að þessi heimild skyldi ná til eigna, sem teknar yrðu í fyrstu notkun á árunum 1957, 1958 og 1959.

Frv. það, sem hér liggur fyrir, er sama efnis og lögin frá 1957, um það, að heimild l. frá 1946 til sérstakra afskrifta, þ.e.a.s. 20%, skuli einnig ná til eigna af þessari tegund, sem teknar verða í fyrstu notkun á árunum 1960, 1961 og 1962. Ég ætla, að sömu ástæður liggi nú til þess og á undanförnum árum, bæði þegar fyrstu lögin voru sett og þegar síðari lög hafa verið sett um framlengingu þeirra.

Ég legg til, að frv. verði vísað til hv. fjhn.