13.05.1960
Neðri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2076 í B-deild Alþingistíðinda. (751)

68. mál, fyrningarafskriftir

Frsm. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr., frv. til l. til breyt. á l. nr. 59 7. maí 1946, um sérstakar fyrningarafskriftir, á þskj. 132, hefur verið til athugunar í fjhn. deildarinnar.

Í frv. þessu felst aðeins framlenging á ákvæðum, sem áður hafa gilt. Lög nr. 90 frá 1957, um breyt. á l. nr. 59 7. maí 1946, um sérstakar fyrningarafskriftir, taka aðeins til tækja, sem tekin eru í notkun á árinu 1959 eða fyrr. Tæki þessi eru fiskiskip, önnur veiðiskip, flutningaskip, síldarverksmiðjur, dráttarbrautir og vinnslustöðvar fyrir sjávarafurðir og landbúnaðarafurðir og svo flugvélar til farþega- og vöruflutninga: Tæki þessi má samkvæmt gildandi lögum afskrifa um 20% á ári í 3 ár, frá því að þau voru tekin í notkun. En með frv. þessu er lagt til, að ákvæði áðurgreindra laga verði látin gilda einnig fyrir árin 1960, 1961 og 1962.

Fjhn. er öll sammála um að mæla með, að frv. þetta verði samþ.