20.04.1960
Neðri deild: 68. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2077 í B-deild Alþingistíðinda. (756)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar efnahagsmál Íslendinga eru rædd, virðast menn of sjaldan gera sér nægilega ljóst, hversu skammt er síðan Íslendingar tóku sjálfir að stjórna efnahagsmálum sínum. Fjárhagsaðskilnaður Íslands og Danmerkur 1871 losaði efnahagskerfi Íslands ekki úr tengslum við efnahagskerfi Danmerkur. Svipuðu máli gegndi um heimastjórnina 1904. Þótt hún hafi markað mjög þýðingarmikið spor í baráttu þjóðarinnar fyrir stjórnarfarslegu sjálfstæði og efnahagslegum framförum, hélt Ísland áfram að vera hluti af efnahagskerfi Danmerkur. Löndin höfðu sameiginlega gulltryggða mynt, og engin sjálfstæð stjórn var á peninga- eða gengismálum. Tolla- og skattakerfið var að vísu aðgreint, en tollarnir voru eingöngu fjáröflunartollar, og stjórn fjármálanna beindist ekki að því að hafa almenn áhrif á efnahagsþróunina.

Það var heimsstyrjöldin fyrri, sem mest áhrif hafði í þá átt að losa efnahagstengslin við Danmörku, og það var vegna ástands þess, sem hún skapaði, að Íslandsbanki var leystur frá þeirri skyldu að innleysa seðla sína með gulli 3. ágúst 1914. Var þá raunverulega tekinn hér upp pappírsmyntfótur, sem haldizt hefur siðan að stuttu tímabili frátöldu. Hér var um mjög þýðingarmikla breytingu að ræða og skapaði hún bæði skilyrði og nauðsyn á sjálfstæðri og öruggri stjórn peningamálanna. Það var þó varla von til þess, að menn áttuðu sig á þessu, enda varð sú raunin á, að hér hófst alvarleg verðbólga, er fyrst og fremst mátti rekja til lánsfjárþenslu Íslandsbanka. Þessi verðbólga olli síðan gengisfalli íslenzku krónunnar árin eftir styrjöldina. Þótt þetta gengisfall væri meira en gengisfall dönsku krónunnar, var sérstök gengisskráning íslenzku krónunnar ekki tekin upp fyrr en árið 1922. Þar með var íslenzka krónan orðin sjálfstæður gjaldeyrir og hin sérstöku tengsl efnahagskerfa Íslands og Danmerkur að mestu rofin.

Stjórn íslenzkra efnahagsmála á sér því ekki að baki nema rúmlega 40 ára sögu. Það er ekki við því að búast, að sú stjórn hafi alltaf farið vel úr hendi. Engar stofnanir voru í fyrstu til. er farið gætu með þá stjórn, og engir menn innlendir, er reynslu hefðu á þessu sviði. Þar við bættist, að efnahagslíf landsins hefur á þessu tímabili orðið fyrir miklum utanaðkomandi truflunum vegna styrjalda, heimskreppu og mikilla breytinga á mörkuðum fyrir útflutningsafurðir landsmanna. Það hefur ekki gert stjórn efnahagsmálanna auðveldari. Á þessu sama tímabili hefur einnig orðið mikil lýðræðisleg bylting í félagsmálum á Íslandi. Samtök verkamanna og bænda og margs konar hagsmunasamtök önnur hafa vaxið úr grasi, og þjóðin öll hefur reynt að hagnýta sjálfstæði sitt, stjórnmálafrelsi og almennan kosningarrétt til þess að auka efnahagslegar framfarir og bæta lífskjör sín.

Mig langar til þess að rifja hér upp í stuttu máli nokkur aðalatriði úr þessari stuttu sögu stjórnar Íslendinga á efnahagsmálum sínum. Mér virðist, að sú saga sýni nokkra einfalda og skýra drætti, er komi í ljós hvað eftir annað. Þær breytingar, sem nú er verið að gera í efnahagsmálum þjóðarinnar, ekki hvað sízt með því frv., sem hér liggur fyrir, verða þá fyrst skildar til hlítar, ef þær eru skoðaðar með þessa sögu í baksýn. Ég vil taka það fram, að það, sem ég segi hér, má ekki skilja sem sérstaka gagnrýni á nokkurn einstakan stjórnmálaflokk eða stjórnmálamann. Allir íslenzkir stjórnmálaflokkar og allir íslenzkir stjórnmálamenn, sem nú standa framarlega í flokkum sínum, hafa verið við þessa sögu riðnir að meira eða minna leyti. Það er ekki nema eðlilegt, að ákvarðanir um stjórn efnahagsmála líti öðruvísi út í ljósi þeirrar heildaryfirsýnar og þekkingar, sem nú er fyrir hendi, en þær gerðu, þegar þær voru teknar. Það, sem máli skiptir, er að læra af þeirri reynslu, sem fengizt hefur, en ekki hitt, hver ber meiri eða minni sök á því, sem miður hefur farið, eða eigi heiður skilið fyrir það, sem betur hefur tekizt.

Íslenzkri efnahagsmálastjórn hefur ekki tekizt vel að ná því þýðingarmikla takmarki allrar efnahagsmálastjórnar að halda verðgildi gjaldmiðilsins stöðugu inn á við og út á við. Síðan 1922, þegar íslenzka krónan varð sjálfstæður gjaldeyrir, hefur gengi hennar verið fellt formlega 6 sinnum: árin 1922–24, 1931, 1939, 1949, 1950 og nú síðast í febrúarmánuði 1960. Af þessum gengisfellingum voru þó þær tvær, sem framkvæmdar voru árin 1931 og 1949, aðeins gerðar til þess að fylgjast með gengisfellingu í nágrannalöndum, og sú, sem framkvæmd var nú síðast, að miklu leyti formleg viðurkenning á síendurteknum gengisfellingum, er framkvæmdar höfðu verið allan áratuginn á undan.

Allar hafa þessar gengisfellingar staðið í nánum tengslum við verðlagsþróun íslenzkra afurða erlendis og verðlagsþróun í landinu sjálfu. Verðfall á íslenzkum afurðum erlendis og innlend verðbólga, annað hvort eða hvort tveggja, hafa skapað misræmi á milli verðlags og kaupgjalds hér á landi og verðlags í viðskiptalöndum okkar. Af þessu hefur leitt, að innflutningur hefur orðið of mikill miðað við útflutning, halli hefur myndazt í greiðsluviðskiptunum og erlendar skuldir skapazt. Við þessari þróun hefur fyrst verið reynt að sporna með því að setja höft á innflutning og aðra gjaldeyrisnotkun. Þetta hefur komið í veg fyrir, að gjaldeyrisskortur leiddi til þess, að landið gæti ekki staðið við erlendar skuldbindingar sínar, þ.e. að til greiðsluþrots kæmi. Á hinn bóginn hafa höftin aldrei getað orðið sá varnargarður, er stæðist sívaxandi þunga innlendrar verðbólgu., og að lokum hefur orðið að lækka gengið, þótt reynt hafi verið í lengstu lög að komast hjá gengisfellingu eða fara í kringum hana.

Eins og ég minntist á áðan, leiddu of mikil útlán Íslandsbanka til verðbólgu hér á landi í fyrri heimsstyrjöld og á fyrstu árunum þar á eftir. Að lokinni styrjöldinni kom síðan alvarlegt verðfall íslenzkra útflutningsafurða. Þetta hvort tveggja leiddi til greiðsluvandræða og mikilla erfiðleika í efnahagsmálum yfirleitt á árunum 1920–24. Í þetta skipti var ekki ákveðið að halda genginu óbreyttu, enda voru menn, eins og ég drap á áðan, ekki búnir að átta sig á, að íslenzka krónan væri í raun og veru orðinn sjálfstæður gjaldeyrir, sem hægt væri að setja fast gengi á. Hins vegar voru gerðar ráðstafanir til þess að reyna að stöðva hið sjálfkrafa gengisfall. Samkv. l. frá 8. marz 1920 var ríkisstj. heimilað að takmarka eða banna innflutning á óþarfavarningi, og var innflutningshöftum beitt til stuðnings krónunni fram til ársins 1924 ásamt gjaldeyrislántökum erlendis, tollahækkunum og lækkun ríkisútgjalda.

Árið 1924 hefst eitt hið mesta góðæri, sem yfir þetta land hefur gengið. Stóð það fram til ársins 1929, og fór saman gott árferði innanlands og framúrskarandi góð viðskiptakjör út á við. Almenningur naut ávaxta þessa góðæris í lækkandi verðlagi innanlands, sem leiddi af gengishækkun þeirri, sem framkvæmd var árin 1924–26. Engra innflutningshafta var þörf á þessu skeiði.

Árið 1929 hófst heimskreppan og með henni mikið verðfall íslenzkra útflutningsafurða. Jafnframt hafði mikil aukning verklegra framkvæmda innanlands veikt gjaldeyrisaðstöðu landsins. Erlendar innstæður bankanna eyddust og skuldir söfnuðust í staðinn. Gengisfellingin 1931 hlaut að verða áhrifalítil, þar sem þar var aðeins um það að ræða að fylgja falli sterlingspundsins gagnvart gulli. Í framhaldi af gengisfellingunni var því gripið til innflutnings- og gjaldeyrishafta á nýjan leik. Hinn 2. okt. 1931 var gefin út reglugerð, sem veitti Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands h/f einkarétt til þess að verzla með erlendan gjaldeyri og skyldaði útflytjendur til afhendingar erlends gjaldeyris á skráðu gengi. Og hinn 23. s.m. var gefin út reglugerð um innflutningshömlur á nokkrum vörutegundum. Enda þótt telja megi, að þessar tvær reglugerðir marki upphaf þess haftatímabils, sem síðan hefur staðið í nær 3 áratugi, var höftunum lítið beitt í fyrstu. Mikið verðfall á innfluttum vörum og samdráttur framkvæmda innanlands skapaði jafnvægi í greiðslujöfnuðinum, er gerði beitingu innflutningshafta að mestu óþarfa.

Hallinn gagnvart útlöndum tók hins vegar að aukast, þegar frá leið, og kom þar þrennt til: versnandi aflabrögð, nýir erfiðleikar á útflutningsmörkuðum, þegar Spánverjar fara að draga úr saltfiskkaupum sínum 1934, og verðþensla innanlands, er stafaði af bankaútlánum umfram sparifjármyndun. Var þá mjög hert á höftunum, fyrst árið 1934 og siðan með setningu nýrra laga um gjaldeyris- og innflutningsverzlun í árslok 1937, þar sem ríkisstj. var heimilað að láta innflutningshömlur ná til allra vörutegunda og fastari skipan en áður var komið á gjaldeyrisverzlunina. Fram til 1939 var síðan innflutnings- og gjaldeyrishöftum beitt af alefli til þess að reyna að halda uppi gengi krónunnar og draga úr greiðsluhallanum við útlönd og erlendri skuldasöfnun. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir mjög góða síldveiði á þessum árum var svo komið vorið 1939, að óhjákvæmilegt var talið að lækka gengi krónunnar um 18%. Til þeirrar ráðstöfunar hefði þó að sjálfsögðu ekki verið gripið, ef menn þá hefðu gert sér ljóst, að heimsstyrjöld mundi skella á um haustið og hafa í för með sér gerbreytingu á viðskiptaaðstöðu landsins.

Verðbólga styrjaldaráranna skapar að nýju misræmi milli verðlags hér á landi og í viðskiptalöndum okkar. Þetta hafði þó ekki í verulegum mæli áhrif á greiðslujöfnuðinn í bili vegna þess, hve styrjöldin torveldaði innflutning til landsins. En um leið og viðskiptasambönd opnuðust aftur að styrjöldinni lokinni, olli hin lága skráning erlends gjaldeyris í hlutfalli við verðlag og kaupmátt innanlands gífurlegri eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri, er innflutnings- og gjaldeyrishöft megnuðu ekki að stöðva. Á skömmum tíma eyddist hinn mikli gjaldeyrissjóður, er myndazt hafði á stríðsárunum. Þegar svo var komið árið 1947, var enn gripið til strangra gjaldeyris- og innflutningshafta og þar að auki í fyrsta sinn beinna fjárfestingarhafta. Verðlagseftirlit var stórlega eflt og skömmtun nauðsynja tekin upp, en henni hafði ekki áður verið beitt nema á stríðstímum. Þessari stefnu var haldið fram til ársins 1950 gegn sívaxandi erfiðleikum. Kom þar þrennt til: Viðskiptakjör landsins versnuðu mikið. Innlend peningaþensla, fyrst og fremst vegna halla á ríkisbúskapnum, skapaði síaukinn þrýsting á gjaldeyrisstöðu og verðlag, og skortur á innfluttum nauðsynjum dró úr framleiðsluafköstum. Á móti þessu komu svo aftur áhrif Marshallaðstoðarinnar, en án hennar hefði verið óhugsandi að halda þessari stefnu eins lengi og gert var.

Vorið 1950 var breytt um stefnu. Gengi krónunnar var lækkað um 43% og gert ráð fyrir afnámi innflutningshafta og verðlagseftirlits að mjög verulegu leyti. Þetta var mesta breyt., sem framkvæmd hafði verið á stefnunni í efnahagsmálum um meir en tveggja áratuga skeið. Það er sérstaklega þýðingarmikið eimmitt nú að gera sér þess ljósa grein, hvers vegna þessi breyting leiddi ekki til þess árangurs, sem vænzt hafði verið, hvers vegna bátagjaldeyriskerfið var tekið upp innan árs, kerfið, er síðan leiddi til hins margbrotna yfirfærslu- og innflutningsgjaldakerfis, og hvers vegna gjaldeyris- og innflutningshöft voru aldrei afnumin að fullu og aukin á nýjan leik að fáum árum liðnum.

Aflaleysi og versnandi verzlunarárferði af völdum Kóreustyrjaldarinnar gerðu það að verkum, að bátaútvegurinn gat ekki borið sig við hið nýja gengi. Verð- og kauphækkanir innanlands urðu einnig meiri en ráð hafði verið fyrir gert, og áttu áhrif Kóreustyrjaldarinnar einnig sinn þátt í því. Til þess að komast mætti hjá nýrri almennri gengislækkun, var bátagjaldeyriskerfið tekið upp. Svo virtist um skeið sem með þessari viðbót við gengislækkunina hefði náðst allgott jafnvægisástand, og svo hefði getað orðið, ef annað hefði ekki komið til: Sérfræðingar þeir, sem undirbjuggu gengislækkunina 1950, höfðu lagt á það mikla áherzlu, að tryggja yrði, að ekki ætti sér stað aukning bankaútlána umfram sparifjármyndun. Ljóst var, að þetta yrði því aðeins gert, að miklar breytingar væru gerðar á skipulagi og starfsemi bankanna. Þær breyt. voru hins vegar aldrei framkvæmdar, en aftur á móti voru haustið 1953 tekin upp sjálfvirk endurkaup Seðlabankans á afurðavíxlum landbúnaðarins, og hafa þau síðan aukið útlán Seðlabankans um allt að 50 millj. kr. á hverju einasta ári. Á árinu 7.954 voru hafnar fyrir atbeina ríkisins stórfelldar framkvæmdir innanlands, einkum raforkuframkvæmdir, og útlán aukin úr opinberum sjóðum. Fjár til þessara framkvæmda var að nokkru aflað með innlendum bankalánum og að nokkru með því að nota greiðsluafgang ríkissjóðs, sem hefði ekki veitt af að leggja til hliðar, til þess að hann mætti styrkja gjaldeyrisaðstöðuna. Þegar fram í sótti, stóðu þessar miklu framkvæmdir uppi févana, og hefur þeim undanfarin ár verið haldið áfram með notkun mótvirðisfjár erlendra gjaldeyrislána. Og mikil aukning bankaútlána, hinar miklu opinberu framkvæmdir, að ógleymdum mjög auknum framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli hrundu af stað öflugri verðbólguþróun innanlands, er hinar miklu kauphækkanir ársins 1955 juku síðan mjög.

Þessi innlenda verðbólguþróun leiddi til þeirrar aukningar útflutningsbóta, yfirfærsluag innflutningsgjalda, sem framkvæmd var að heita mátti árlega síðari helming áratugsins, og að lokum til þeirrar almennu gengisfellingar, sem nýskeð hefur verið framkvæmd. Hin árlega aukning gjalda á innflutningi nægði þó ekki til þess að koma í veg fyrir mikinn greiðsluhalla út á við og sívaxandi erlendar skuldir. Gjaldeyris- og innflutningshöftum var beitt í sama skyni af vaxandi hörku, án þess að hinn tilætlaði árangur næðist.

Aðalatriði þeirrar sögu íslenzkrar efnahagsmálastjórnar, sem ég hef nú rakið, eru þessi: 1) Ófullkomin stjórn peninga- og fjármála hefur hvað eftir annað leitt til innlendrar verðbólguþróunar. Ofþensla bankaútlána olli slíkri þróun í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar og á árunum þar á eftir, á árunum fyrir síðari heimsstyrjöld og nú síðast á sjötta áratug aldarinnar. Halli á ríkisbúskapnum olli ofþenslu á árunum 1947–50, og of miklar opinberar framkvæmdir veiktu gjaldeyrisstöðuna á árunum fyrir 1930. Enn hafa miklar opinberar framkvæmdir átt mikinn þátt í verðbólguþróun undanfarandi ára. Sigursæl barátta hinna öflugu verkalýðsfélaga fyrir mikilli hækkun grunnkaups ásamt tengslum kaups við verðlagsvísitölu hefur síðan hert á verðbólguþróuninni undanfarna tvo áratugi.

2) Reynt hefur verið í lengstu lög að komast hjá því að leiðrétta misræmi á milli innlends og erlends verðlags, þegar það hefur skapazt vegna verðfalls íslenzkra afurða erlendis eða verðbólgu innanlands. Í stað þess hefur hvað eftir annað verið gripið til gjaldeyris- eða innflutningshafta eða til þess að herða á þeim höftum, sem fyrir voru. Eðlilegt má telja, að þessi leið hafi verið reynd í fyrstu, ekki sízt þegar orsök erfiðleikanna var verðfall íslenzkra afurða, sem virtist ekki ósennilegt að stæði aðeins skamma hríð. Átti þetta sérstaklega við um árin eftir 1930 og árin eftir síðari heimsstyrjöldina, þegar flestar nágrannaþjóðanna beittu höftum í ríkum mæli. Hins vegar hefur það alltaf sýnt sig, að höft gátu ekki skapað jafnvægi í greiðsluviðskiptunum og gengisfelling reyndist óumflýjanleg, þegar til lengdar lét.

3) Hinn mikli dráttur, sem orðið hefur á því, að gengisskráning væri leiðrétt, hefur leitt til þess, að aukning framleiðslu og velmegunar hefur orðið minni en ella hefði getað orðið.

Þessi dráttur átti sinn mikla þátt í því, að kreppan á árunum eftir 1930 varð hér svo miklu langærri og alvarlegri en í flestum nágrannalandanna. Togararnir hefðu ekki legið bundnir hálft árið, ef rétt gengisskráning hefði búið sjávarútveginum eðlileg starfsskilyrði á þessum árum. Aukning og endurnýjun fiskiskipaflotans hefði ekki heldur stöðvazt. Á árunum eftir heimsstyrjöldina síðari hefur ríkisvaldið yfirleitt getað komið í veg fyrir, að hin ranga gengisskráning leiddi til þess, að framleiðslutæki lægju ónotuð, en það hefur ekki getað komið í veg fyrir, að röng gengisskráning ásamt innflutningshöftum leiddi til óhagkvæmrar notkunar framleiðsluþátta og beindi fjárfestingunni inn á rangar brautir. Þar við bætist, að sá skortur rekstrarvara og framleiðslutækja og jafnvel neyzluvara, sem innflutningshöftin hafa skapað, hefur beinlínis dregið úr framleiðsluafköstum. Var þetta einkum áberandi á árunum 1947–49. Verðbólgan innanlands hefur einnig haft mikil áhrif í þá átt að beina fjárfestingunni inn á rangar brautir. Þær miklu efnahagslegu framfarir og sú aukna velmegun, sem átt hefur sér stað á Íslandi á þessari öld, eiga ekki rót sína að rekja til góðrar stjórnar efnahagsmála. Þær eiga rót sína að rekja til þess, að Íslendingar hafa lært að nota nýja framleiðslutækni til hagnýtingar auðlinda lands og sjávar. Hefði stjórn efnahagsmálanna verið betri en raun hefur verið á, hefðu framfarir getað orðið enn örari og aukning velmegunar enn meiri.

4) Mikið hefur skort á það, að samræmis væri gætt í hinum ýmsu þáttum stjórnar efnahagsmálanna. Hægri höndin virðist oft ekki hafa vitað, hvað sú vinstri gerði. Árangur ráðstafana á einu sviði hefur iðulega verið torveldaður eða verið eyðilagður með ráðstöfunum á öðru sviði. Þannig stuðlaði ofþensla bankaútlána á árunum fyrir 1939 mjög að því, að ekki reyndist mögulegt að halda genginu óbreyttu„ Hallinn á ríkisbúskapnum á árunum 1947–49 vann beint gegn þeirri verðhjöðnunarstefnu, sem þáverandi ríkisstjórn fylgdi. Aðgerðarleysið í bankamálunum og hin mikla aukning opinberra framkvæmda eftir 1953 gerði beinlínis ómögulegt, að það jafnvægisástand skapaðist, sem þá hafði verið aðalmarkmið gengisbreytingarinnar 1950. Og svo að tekið sé enn nýrra dæmi, þá gerði ónóg tekjuöflun til útflutningssjóðs og ríkissjóðs ómögulegt að halda til lengdar þeirri verðstöðvunarstefnu, sem vinstri stjórnin beitti sér fyrir á árunum 1956 og 1957.

Þeir lærdómar um stjórn efnahagsmála á Íslandi, sem af þessari reynslu má draga, eru ljósir og einfaldir. Það er í fyrsta lagi ljóst, að umfram allt verður að koma í veg fyrir myndun innlendrar verðbólgu. Gæta verður þess, að bankaútlán séu ekki meiri en sparifjármyndun, að ríkisbúskapurinn sé hallalaus og fjárfesting í landinu ekki meiri en svarar innlendum sparnaði og erlendum framkvæmdalánum. Það er í öðru lagi ljóst, að hafi misræmi skapazt á milli innlends og erlends verðlags, hvort sem það stafar af því, að viðskiptakjör hafi breytzt eða þrátt fyrir allt hafi ekki tekizt að halda innlendri verðbólgu í skefjum, þá má leiðrétting misræmisins ekki dragast nema skamma hríð. Sú leiðrétting þarf ekki nauðsynlega að eiga sér stað með gengisbreytingu. Almenn niðurfærsla kaupgjalds kæmi einnig til greina, ef t.d. viðskiptakjörin hafa versnað, ag almenn kauphækkun, hafi þau batnað. Aðalatriðið er, að leiðréttingunni sé ekki skotið á frest. Reynslan hefur sýnt, að hún er óumflýjanleg fyrr eða síðar, en að drátturinn getur valdið miklu og sáru tjóni. Það er í þriðja lagi ljóst, hversu þýðingarmikið það er, að samræmis sé gætt í stjórn efnahagsmálanna, að aðgerðir í bankamálum séu í samræmi við aðgerðir í gengismálum og að stefnan í fjármálum brjóti ekki í bág við hina almennu efnahagsmálastefnu, svo að nefnd séu tvö hinna þýðingarmestu atriða.

Það er skoðun mín, að sé þessara atriða gætt, geti þær aðgerðir í efnahagsmálum, sem nú er verið að hrinda í framkvæmd og þetta frv. er einn liður í, markað þáttaskil í efnahagsmálasögu Íslendinga.

Þá skal ég víkja að þeim breytingum á gjaldeyris- og innflutningsmálum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir.

Grundvallarstefna frv. er sú, að innflutningur og gjaldeyrisgreiðslur skuli vera frjálsar, nema annað sé sérstaklega ákveðið. Það er skoðun ríkisstj., að hið nýja gengi og sú stranga stjórn peninga- og fjármála, sem nú hefur verið tekin upp og ríkisstj. ætlar sér að framfylgja af fullri festu, geri almenn innflutnings- og gjaldeyrishöft óþörf. Þar með er ekki sagt, að hafta sé ekki þörf á vissum sviðum, og gefur frv. ríkisstj. heimild til þess að beita slíkum höftum. Nauðsyn innflutnings- og gjaldeyrishafta á vissum sviðum byggist fyrst og fremst á tvennu, hinum þýðingarmiklu viðskiptum Íslands, sem fram fara á jafnkeypisgrundvelli, og þeirri vantrú, sem búast má víð enn um langt skeið að verði á íslenzku krónunni vegna sífelldrar rýrnunar á verðmæti hennar um langt árabil undanfarið.

Nálega einn þriðji hluti af utanríkisviðskiptum Íslendinga fer nú fram samkvæmt jafnkeypissamningum, sem aðallega eru við lönd í Austur-Evrópu. Hætta er á því, að innflutningur frá þessum löndum mundi dragast mikið saman, ef heimilt væri að flytja allar vörur inn frá hvaða landi sem væri. Stafar þetta ekki af því, að þessi lönd geti ekki verið samkeppnisfær um vöruverð, þó að þau hafi freistazt til þess að hækka verðlag á vörum sínum, þegar skortur á samkeppni hefur gert það mögulegt, alveg eins og við sjálfir höfum gert á þeim vörum, sem fluttar hafa verið til þessara landa. Ástæðan er miklu fremur sú, að mikið af þeim vörum, sem þessi lönd framleiða, eru óhentugri fyrir íslenzkar aðstæður en vörur framleiddar annars staðar, að gæði þeirra eru einatt minni og gerð þeirra er íslenzkum neytendum síður að skapi en gerð vara frá öðrum löndum. Minnki innflutningur frá þessum löndum, hlýtur útflutningur til þeirra að dragast saman að sama skapi og fyrir þann útflutning allan er ekki hægt í skyndi að finna viðunandi markaði. Af þessum ástæðum er það ætlun ríkisstj. að halda innflutningshöftum á öllum þeim vörutegundum, sem mestu máli skipta í viðskiptunum við jafnkeypislöndin og mögulegt má telja að flytja þaðan með góðu móti. Þessar vörur munu taldar í sérstakri reglugerð, sem gefin yrði út skv. 1. gr. frv. Undirbúningi þessarar reglugerðar er að mestu lokið. Nefnd sérfróðra manna hefur unnið að þessum undirbúningi á vegum viðskmrn. Till. n. hafa verið sendar samtökum innflytjenda, útflytjenda, kaupmanna og iðnrekenda, og frá þeim samtökum hafa komið till. og athugasemdir. Innflutningsskrifstofan hefur svo að sjálfsögðu verið með í ráðum um þessi efni. Ríkisstj. hefur svo sjálf athugað till. n. og þær aðrar till. og athugasemdir, sem fram hafa komið.

Gera má ráð fyrir, að um 40% af heildarinnflutningnum muni verða háð leyfum, en 60% frjáls frá öllum löndum, og er þá miðað við innflutning ársins 1958, eins og einnig mun gert í þeim tölum, sem hér fara á eftir. Skiptingin verður þó mjög misjöfn eftir viðskiptasvæðum. Um 83% af innflutningi í frjálsum gjaldeyri verður frjáls, en um 87% af innflutningnum frá jafnkeypislöndunum háð leyfum. Allmikill mismunur hlýtur þó í þessu efni að verða á milli einstakra jafnkeypislanda eftir því, hvers eðlis útflutningsvörur þeirra eru. Hlutfallstalan verður óhjákvæmilega hærri fyrir þau jafnkeypislönd, sem flytja hingað fáar vörutegundir í miklu magni, en lægri fyrir þau, sem flytja hingað margar vörutegundir, ýmsar þeirra í litlu magni. Þannig er gert ráð fyrir, að 99% af innflutningi frá Sovétríkjunum verði háð leyfum, en um 72% af samanlögðum innflutningi frá öðrum jafnkeypislöndum.

Þá skal ég gera nokkra grein fyrir því, hvaða vöruflokkar verða háðir leyfum. Er þá fyrst að telja kartöflur, mjölvörur og sykur, þungavöru alls konar, svo sem kol, olíu, járn, stál og timbur, enn fremur krossvið og hvers konar veggplötur. Vefnaðarvörur úr baðmull verða yfirleitt háðar leyfum, enda er hér um að ræða einn þýðingarmesta vöruflokkinn í viðskiptunum við jafnkeypislöndin, enn fremur sokkar úr gerviþráðum og gólfábreiður. Sömuleiðis er gert ráð fyrir, að gúmmískófatnaður og hjólbarðar verði háðir leyfum, einnig búsáhöld úr leir og gleri og rúðugler. Járn- og trésmíðavélar, sem fluttar hafa verið inn frá jafnkeypislöndunum með góðum árangri, verða háðar leyfum, enn fremur ritvélar, rafmagnsmótarar, rafmagnsgeymar og spennar og jarðstrengur. Þá verða bifreiðar háðar leyfum að undanteknum vörubifreiðum, langferðabifreiðum og strætisvögnum.

Á undanförnum árum hafa hér verið í gildi tveir frílistar. Hefur annar gilt fyrir öll lönd, en hinn fyrir jafnkeypislöndin. Þessir frílistar hafa ekki verið raunhæfir lengst af. Hefur þar hvort tveggja komið til, að bankarnir hafa ekki getað gefið út greiðsluheimildir, eftir því sem um hefur verið beðið, og eins hitt, að innflutningur allmargra vörutegunda á almennum frílista hefur í reynd verið bundinn við jafnkeypislöndin. Hin nýja skipan mun því geta haft í för með sér breytingar fyrir margar þær vörur, sem áður voru á almennum frílista og verða áfram, ekki síður en fyrir hinar, sem nú flytjast milli lista. Mér þykir þó rétt að gera sérstaka grein fyrir því, hvaða vörur það eru helztar, sem nú verða frjálsar frá öllum löndum, en voru áður háðar leyfum eða frílista frá jafnkeypislöndum. Vörurnar eru taldar upp í þeirri röð, sem þær koma fyrir í tollskránni: Málning, handsápa og raksápa, björgunarbátar, ýmiss konar smíðavörur, sima- og raflagnastaurar, smíðatól og handverkfæri, dagblaðapappír og ýmiss konar annar pappír, þó ekki skrifpappír, pappírspokar, vefnaðarvörur úr ull, laufaborðar og leggingar, ýmiss konar tilbúinn karlmannafatnaður, skófatnaður úr leðri, reiknivélar, saumavélar, hvers konar vélar til iðnaðar og framleiðslu að undanteknum járn- og trésmíðavélum, raflagningaefni, ljósaperur, vörubifreiðar, langferðabifreiðar og strætisvagnar, sjúkrabifreiðar, slökkvibifreiðar og kranabifreiðar, skip og bátar, flugvélar og hlutar til þeirra, hljóðfæri, ljósmyndavélar og hlutar til þeirra.

Það hefur frá upphafi verið ljóst, að gefa verði þeim íslenzkum iðnaði, sem mest á í húfi vegna aukinnar samkeppni, sem af þessum breytingum í viðskiptamálum hlýzt, nokkurt svigrúm til þess að búa sig undir þá samkeppni. Í samráði við iðnmrn. og samtök iðnrekenda hafa því verið valdar nokkrar vörur á hinum almenna frílista, og verða þær á sérstökum frílista, sem gengur í gildi 6 mánuðum síðar en almenni frílistinn. Endanlega hefur ekki verið gengið frá þessum lista, en á honum munu verða tiltölulega fáar vörur, að innflutningsverðmæti ekki meira en 20 millj. kr. í hæsta lagi. Ein helzta þessara vörutegunda er leðurskófatnaður.

Enda þótt innflutningur frá jafnkeypislöndunum verði að mestu háður leyfum, eins og ég hef gert grein fyrir, mun ekki verða um neina úthlutun leyfa að ræða til þessara landa. Leyfi fyrir innflutningi frá þeim munu gefin út viðstöðulaust, og verður innflutningur frá þeim því ekki takmarkaður, þó að hann sé háður leyfum. Úthlutun innflutningsleyfa mun því aðeins þurfa að eiga sér stað fyrir viðbótarinnflutningi frá frjálsgjaldeyrislöndum á ýmsum þeirra vörutegunda, sem fyrst og fremst eru fluttar inn frá jafnkeypislöndum. Slíkur viðbótarinnflutningur er nauðsynlegur vegna sérstakra gæðaflokka og sérvara, sem eru ekki fáanlegar frá jafnkeypislöndum. Gert er ráð fyrir, að þessi innflutningur muni nema rúmlega 10% af heildarinnflutningi til landsins. Ætlunin er, að þessi úthlutun fari fram með þeim hætti, sem á erlendu máli er kenndur við „Glóbalkvóta“. Í upphafi árs er ákveðið, hve mikilli upphæð muni úthlutað fyrir hverja vörutegund á árinu, og það auglýst. Jafnframt er ákveðið, að leyfin gildi jafnt fyrir öll lönd, nema þau, sem verzlað er við á jafnkeypisgrundvelli, og leyfin muni gefin út í tilteknum áföngum yfir árið, t.d. á fjögurra mánaða fresti. Skipting þessara „glóbalkvóta“ milli innflytjenda er svo ákveðin eftir sérstökum reglum og þá oftast miðuð við fyrri innflutning á tilteknu tímabili. Það er ljóst, að sú úthlutun innflutningsleyfa, sem hér um ræðir, er ekki svo viðamikil, að sérstök stofnun þurfi að annast hana. Gerir því frv. ráð fyrir því, að innflutningsskrifstofan verði lögð niður, en viðskiptabankar þeir, sem kaupa og selja gjaldeyri, taki úthlutun leyfa að sér samkv. reglum, sem ríkisstj. setur, og mun viðskmrn. fylgjast nákvæmlega með úthlutuninni. Mun þetta fyrirkomulag gera alla framkvæmd innflutningsmála stórum einfaldari og ódýrari en verið hefur.

Að því er snertir gjaldeyrisgreiðslur fyrir annað en vöruinnflutning, er það einnig grundvallarstefna þessa frv., að þær greiðslur skuli frjálsar. Á hinn bóginn verður að horfast í augu við þá staðreynd, að verðrýrnun krónunnar innanlands um langt árabil og þær mörgu gengisfellingar, sem af þeirri verðrýrnun hefur leitt, hafa skapað rótgróna vantrú á íslenzku krónunni utanlands og innan. Gjaldeyrishöft undanfarinna áratuga hafa ekki getað komið í veg fyrir, að þessi vantrú leiddi til fjárflótta, en þau hafa getað haldið þeim fjárflótta í verulegum skefjum, og sama hlutverki verða þau að gegna enn um skeið. Úthlutun leyfa fyrir gjaldeyrisgreiðslum til annars en innflutnings mun einnig falin viðskiptabönkunum, en leitazt mun við að gera þá úthlutun eins sjálfvirka og framast er kostur.

Nú munu menn spyrja, hvaða ástæða sé til þess að ætla, að það afnám gjaldeyris- og innflutningshafta, sem nú er gert ráð fyrir, reynist raunhæfara í framkvæmd en það, sem boðað var fyrir 10 árum. Er ekki sennilegt, að höftin muni enn sem fyrr lífseigari en góðar fyrirætlanir stjórnarvalda? Það er von, að þessi spurning sé mönnum ofarlega í huga, og ég mun leitast við að svara henni skýrt og afdráttarlaust. Ég held, að svarið sé fólgið í þeim einföldu lærdómum, sem draga má af reynslu sjálfra okkar. Takist að forðast innlenda verðbólgumyndun og sé misræmi á milli innlends og erlends verðlags leiðrétt tímanlega, þarf ekki að grípa til hafta eða viðhalda þeim. En þá má spyrja: Hvaða líkur eru til þess, að komizt verði hjá innlendri verðbólgumyndun og að misræmi á milli innlends og erlends verðlags sé leiðrétt í tíma? Það er ekki komið undir neinu öðru en því, hversu ákveðnum og einbeittum tökum stjórnarvöldin taka efnahagsmálin á hverjum tíma og hvers stuðnings þau njóta frá almenningi í því efni. Það er fastur ásetningur núverandi ríkisstj. að taka efnahagsmálin þeim tökum, sem til þarf, til þess að gjaldeyris- og innflutningshöft þurfi ekki að auka á nýjan leik. Til þess að ná þeim árangri hafa í fyrsta skipti í efnahagsmálasögu þjóðarinnar verið gerðar róttækar ráðstafanir til þess að hindra ofþenslu bankalána. Fjárlög hafa verið afgreidd hallalaus, og komið hefur verið í veg fyrir, að opinberar framkvæmdir utan fjárlaga valdi ofþenslu. Það er von ríkisstj., að samtök launþega skilji til fulls nauðsyn þess, að engar kauphækkanir eigi sér stað fyrst um sinn og þegar frá líður aðeins að sama skapi og framleiðsluafköst aukast. Til þess standa einnig vonir, að markaðir fyrir íslenzkar útflutningsafurðir muni yfirleitt haldast góðir þrátt fyrir þá erfiðleika, sem verðfall fiskimjöls hefur skapað undanfarna mánuði. Fari svo þrátt fyrir allt, að slíkt misræmi skapist á milli innlends og erlends verðlags, sem á undanförnum áratugum hefur leitt til beitingar gjaldeyris- og innflutningshafta, er það fastur ásetningur ríkisstj. að skjóta ekki á frest þeim ráðstöfunum, sem reynslan hefur svo ljóslega sýnt að nauðsynlegar eru.

En til þess að reka þjóðarbúskapinn án gjaldeyris- og innflutningshafta þarf meira en að skapa jafnvægisástand í efnahagsmálum. Það þarf einnig verulegan gjaldeyrisvarasjóð, sem Ísland fram að þessu hefur aldrei átt nema í lok síðustu heimsstyrjaldar. Lítill vafi er á því, að miklu lengra hefði verið gengið í því að gera innflutning frjálsan eftir gengislækkunina 1950, ef slíkur varasjóður hefði þá verið fyrir hendi. Eins og kunnugt er, hefur í sambandi við efnahagsráðstafanirnar nú slíks varasjóðs verið aflað með aukningu á svonefndum kvóta Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og yfirdráttarláni hjá Evrópusjóðnum. Samtals nemur það fé, sem þannig er hægt að nota um takmarkaðan tíma til að mæta árstíðasveiflum á innflutningi og þeirri innflutningsaukningu, sem í bráð leiðir af auknu verzlunarfrelsi, 20 millj. dollara, eins og kunnugt er. Hluti af þessu fé eða tæpar 8 millj. dollara, hefur nú verið notaður í bili til að greiða yfirdráttarskuldir íslenzkra banka við erlenda banka, sem eins og kunnugt er voru óvenjumiklar um síðustu áramót. Yfirdráttarheimildir bankanna standa þó áfram, þannig að nota má þær á nýjan leik, þegar nauðsyn krefur. Það var skoðun ríkisstj. og þeirra alþjóðastofnana, sem hér áttu hlut að máli, að 20 millj. dollara gjaldeyrisvarasjóður mundi nægja til þess að mæta árstíðasveiflum og þeirri tímabundnu aukningu innflutnings, sem leiðir af afnámi innflutningshaftanna. Ekkert það hefur komið fram, er bendi til þess, að þessi skoðun sé ekki á rökum reist. Fari hins vegar svo, að gjaldeyrisvarasjóðurinn reynist ekki nægilega mikill, mun ríkisstj. tafarlaust gera ráðstafanir til þess, að hann fáist aukinn.

Þá skal ég víkja að öðrum þýðingarmiklum breyt., sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Samkvæmt frv. á að afnema þær hömlur, sem verið hafa á fjárfestingu og innflutningsskrifstofan hefur farið með undanfarin ár. Aftur á móti er gert ráð fyrir, að söfnun upplýsinga um fjárfestingu sé aukin og einnig látin ná til fyrirætlana um fjárfestingu. Hömlur voru settar á fjárfestingu hér á landi eins og í mörgum öðrum löndum álfunnar skömmu eftir lok styrjaldarinnar. Voru þær hömlur settar á til þess að reyna að tryggja það, að sú fjárfesting, sem mest áríðandi var talin vegna endurbyggingar eftir styrjöldina, sæti fyrir annarri fjárfestingu, og til þess að reyna að halda heildarupphæð fjárfestingarinnar innan hæfilegra marka. Talið var nauðsynlegt að nota beinar aðgerðir til að hafa áhrif á heildarupphæð fjárfestingarinnar vegna þess mikla peningamagns, sem í lok styrjaldarinnar var í höndum einstaklinga og fyrirtækja og gerði það að verkum, að hægt var að ráðast í fjárfestingarframkvæmdir án notkunar lánsfjár. Reynsla okkar af fjárfestingarhöftunum hefur um margt verið svipuð og af innflutningshöftunum. Hún sýnir, að í bili er hægt með slíkum aðgerðum að hafa hemil á heildarfjárfestingunni, en það er ekki hægt til lengdar, nema því aðeins að peninga- og fjármál þjóðarinnar séu undir öruggri stjórn. Sé peninga- og fjármálunum hins vegar rétt stjórnað, er óþarfi að halda fjárfestingunni niðri með beinum aðgerðum: Fyrst eftir að fjárfestingarhöftum var komið hér á, á árunum 1947 og 1948, var þeim beitt af hörku, og þau höfðu talsverð áhrif í þá átt að draga úr heildarfjárfestingu. Vaxandi peningaþensla skapaði hins vegar síaukinn þrýsting á fjárfestingarhöftin. Fyrir þeim þrýstingi var svo látið undan eftir tiltölulega skamma hríð, alveg eins og innflutningsyfirvöld hafa ætið eftir nokkra hríð látið undan þrýstingi vaxandi eftirspurnar.

Árið 1953 var sú þróun, sem orðið hafði árin á undan, formlega viðurkennd og mjög úr höftunum dregið. Bygging íbúðarhúsa, útihúsa í sveitum og framleiðslufyrirtækja í sjávarútvegi var að heita mátti algerlega undanþegin hvers konar hömlum. Óhætt mun að fullyrða, að síðan þessi breyting var gerð og raunar talsverðan tíma þar áður hafi hin beina fjárfestingarstjórn engin áhrif haft á heildarfjárfestinguna í landinu. Hvaða áhrif hefur þá stjórnin getað haft á það, í hvaða átt fjárfestingin hefur beinzt? Þau áhrif hafa tvímælalaust verið nokkur, en þó að verulegu leyti önnur en ætlazt hafði verið til og að mörgu leyti óheppileg frá þjóðhagslegu sjónarmiði. Engin hliðstæð stofnun í nokkru lýðræðislandi mun hafa haft jafnmikil völd til þess að hafa áhrif á fjárfestinguna og fjárhagsráð hafði á sínum tíma. Það vald var þó aldrei reynt að nota til að beina fjárfestingunni á skipulagðan hátt inn á sem hagkvæmastar brautir. Afskipti fjárhagsráðs af íbúðarhúsabyggingum leiddu til þess, að byggingar fjölbýlishúsa stöðvuðust með öllu, og um margra ára skeið voru því nær eingöngu reist lítil einbýlishús. Það var fyrst eftir að fjárfestingarhömlur á byggingu íbúðarhúsa höfðu verið afnumdar, að hagkvæmar stórbyggingar gátu rutt sér til rúms. Á undanförnum árum hafa fjárfestingarhömlurnar fyrst og fremst orðið til þess að koma í veg fyrir byggingu verzlunar- og skrifstofuhúsnæðis í Reykjavík. Þetta hefur orðið til þess, að gömul íbúðarhús hafa með ærnum tilkostnaði verið tekin til notkunar fyrir verzlanir og skrifstofur.

Á því getur ekki leikið vafi, að fjárfesting hér á landi hefur á undanförnum árum að verulegu leyti beinzt inn á alrangar brautir, og fjöldi fjárfestingarframkvæmda hefur verið stórlega misheppnaður, enda bendir samanburður á fjárfestingu og vexti þjóðartekna á Íslandi og í öðrum löndum eindregið til þess, að Íslendingar hafi borið minna úr býtum af sinni fjárfestingu í aukinni þjóðarframleiðslu en flestar þjóðir aðrar. Enginn vafi er á því, að strangara val fjárfestingarframkvæmdanna og betri skipulagning þeirra hefði mikið getað bætt úr þessum göllum. En hitt verður einnig að gera sér ljóst, að sú beina fjárfestingarstjórn, sem hér hefur verið við lýði í tæp 13 ár, hefur aldrei getað gegnt þessu hlutverki, enda aldrei verið til þess ætlazt. Ég er þeirrar skoðunar, að því hlutverki beri að gegna, en til þess verði að finna aðrar leiðir en þær, sem farnar hafa veríð fram að þessu. Það er auðvelt í landi, þar sem jafnmikill hluti fjárfestingarinnar er annaðhvort beinlínis í höndum opinberra aðila eða studdur af þeim á einhvern máta. Í þessum efnum er því aðalábyrgðin á herðum stjórnmálaflokkanna og Alþingis. Heilbrigð afstaða þessara aðila getur tryggt, að hin opinbera fjárfesting sé fólgin í vel völdum og stranglega skipulögðum framkvæmdum undir stjórn embættismanna ríkisstj., en ekki illa völdum og flausturslega undirbúnum framkvæmdum, sem stjórnmála- eða héraðahagsmunir hafa óeðlilega mikil áhrif á og því eru ekki sem hagkvæmastar frá þjóðhagslegu sjónarmiði. En skynsamleg stjórn á fjárfestingu hins opinbera á að vera undanfari heilbrigðrar íhlutunar um fjárfestingu annarra aðila í þjóðfélaginu.

Þetta frv. gerir ráð fyrir aukinni upplýsingasöfnun um fjárfestingu, er einnig nái til fjárfestingarfyrirætlana. Það er von mín, að þetta geti orðið skref í áttina til skynsamlegri vinnubragða í fjárfestingarmálunum en áður hafa tíðkazt. Þá gefur það ríkisstj. einnig nýtt og þýðingarmikið vald í fjárfestingarmálum, að þetta frv. gerir ráð fyrir, að framvegis þurfi leyfi ríkisstj. til að semja um erlend lán til lengri tíma en eins árs. Áður þurftu aðeins opinberir aðilar á slíku leyfi að halda, en því lagaákvæði hefur þó raunar aldrei verið framfylgt. Það er ljóst, að óhjákvæmilegt er, að ríkisstj. geti haft á því fullt vald, hvaða skuldbindingar um greiðslu erlendis fram í tímann hérlendir aðilar taka á sig. Það er einnig ljóst, að nauðsynlegt er, að notkurt erlends fjár beinist að hagnýtum verkefnum, sem með gjaldeyrissköpun eða gjaldeyrissparnaði gera endurgreiðslu lánsfjárins mögulega. Til þess er ætlazt með þessu ákvæði frv., að ríkisstj. sjái til þess hvors tveggja, að erlend skuldasöfnun haldist innan hæfilegra takmarka og að erlent lánsfé verði notað á þann hátt, sem þjóðarbúskapnum er að mestu gagni.

Áður en ég lýk máli mínu, þykir mér rétt að gera nokkra grein fyrir því, hvernig þær aðgerðir í gjaldeyris- og innflutningsmálum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, koma heim við grundvallarskoðanir jafnaðarmanna. Því hefur verið haldið fram, að með því að standa að slíkum aðgerðum, væri Alþfl. að hverfa frá þeim meginsjónarmiðum í efnahagsmálum, sem hann hefur fylgt, og snúast til hægrisinnaðrar stefnu. Það er skoðun mín, að þetta sé byggt á misskilningi, bæði á eðli þessara ráðstafana og skoðunum jafnaðarmanna. Það er einn af hornsteinum þeirra skoðana um þjóðfélagsmál, sem Alþfl. aðhyllist, skoðana lýðræðisjafnaðarstefnunnar, að því aðeins sé hægt að tryggja næga atvinnu og öra framleiðsluaukningu, að ríkisvaldið stuðli að því með markvíssum aðgerðum. Atvinnurekstur ríkisins eða afskipti þess af atvinnurekstri annarra eiga þó aldrei að ganga lengra en þarf, til þess að þessi markmið náist, og aldrei svo langt, að frelsi einstaklingsins sé hætta búin. Ríkið á að þjóna manninum, maðurinn ekki ríkinu. Ríkisvaldið á að vera ábyrgt fyrir því, að ekki komi til atvinnuleysis og að náttúruauðlindir séu hagnýttar með hagkvæmum hætti. Það á einnig að koma á og viðhalda félagslegu jafnvægi í þjóðfélaginu og tryggja það, að einstaklingar og félög misnoti ekki auð og aðstöðu. Til þess að ríkið geti valdið þessum verkefnum, þurfa opinberir aðilar sumpart að hafa bein yfirráð yfir nokkrum hluta atvinnulífsins og fjárfestingarinnar, og sumpart þarf ríkið sjálft að hafa aðstöðu til þess að geta ráðið vissum atriðum í efnahagskerfinu, svo sem gjaldeyrisgengi, heildarútlánum banka og vöxtum. Sé stefna launþegasamtaka í launamálum og verðlagning þeirra innlendra afurða, sem lýtur sérstökum reglum, svo sem hér á landi á við um landbúnaðarafurðir, í samræmi við þá stefnu, sem ríkisvaldið fylgir, hefur það með þessu móti aðstöðu til þess að tryggja fulla atvinnu, stöðugt verðlag, styðja tækniframfarir og framgang sérstakra stórframkvæmda og geta þannig stuðlað að sem örastri framleiðsluaukningu, auk þess sem það getur haft úrslitaáhrif á tekjuskiptinguna. Innflutningshöft eru ekki eðlilegur eða nauðsynlegur þáttur í þessari meginstefnu í efnahagsmálum, enda þótt jafnaðarmenn í heimskreppunni miklu væru viða talsmenn þess, að til þeirra væri gripið sem fljótvirks ráðs til þess að mæta skyndilegum gjaldeyrishalla og stórfelldu atvinnuleysi. Hvorki þá né síðar hafa jafnaðarmenn talið æskilegt að beita innflutningshöftum til frambúðar né verið þeirrar skoðunar, að þau ein megnuðu að koma í veg fyrir greiðsluhalla gagnvart útlöndum. Innflutningshöftum þeim, sem tekin voru upp á kreppuárunum og erfiðleikaárunum eftir stríðið, var einnig fljótlega létt af að mestu eða öllu leyti, ekki siður í þeim löndum, þar sem jafnaðarmenn réðu, en í hinum, þar sem hægrisinnaðir flokkar fóru með völd.

Um skoðanir kommúnista gegnir hins vegar öðru máli. Sú allsherjarstjórn á öllu atvinnu- og viðskiptalífinu í smáu sem stóru, sem efnahagskerfi kommúnismans byggist á, hlýtur að framkvæma ströng og nákvæm innflutningshöft. Jafnaðarmenn trúa ekki á slíka allsherjarstjórn. Þeir játa, að hún getur verið áhrifaríkt tæki til þess að tryggja framkvæmd tiltekinna stórframkvæmda, til þess að hægt sé að verja ákveðnum og stórum hluta þjóðarframleiðslunnar til hernaðarframkvæmda og mjög dýrra vísindarannsókna, en þeir telja, að hún sé óheppileg aðferð til þess að skipuleggja framleiðslu á þann hátt, að hún taki tillit til fjölbreyttra þarfa neytenda og hafi að markmiði að fullnægja sem bezt margbreytilegum óskum þeirra. Auk þess er það ljóst, að sú gagngera allsherjarstjórn á efnahagslífinu, sem tíðkast í ríkjum kommúnista, er ekki framkvæmanleg nema samfara flokkseinræði. Jafnaðarmenn telja, að hægt sé að ná sama árangri og kommúnistaríkin ná á sviði stórframkvæmda og vísindarannsókna með því að beita þeirri aðstöðu, sem ríkisvald hefur eða getur haft í þróuðu lýðræðisþjóðfélagi, án þess að horfið sé frá grundvallarsjónarmiðum lýðræðisins. Það er unnt, ef hægt er að skapa nógu mikinn einhug á stjórnmálasviðinu í lýðræðisþjóðfélagi og þá um leið nógu sterkt lýðræðislegt ríkisvald. En þá er augljóst, að vandamálið er í rauninni orðið stjórnmálalegt, en ekki efnahagslegt.

Um skoðanir borgaralegra flokka á þessum málum, bæði þeirra, sem frjálslyndari eru, og hinna, sem eru lengra til hægri, er það að segja, að þeir hafa ekki verið fylgjandi gjaldeyris- og innflutningshöftum, en hafa samt viða staðið að þeim í heimskreppunni og á árunum eftir stríðið. Menn gera sér ekki alltaf nógu ljóst, hve mikil breyting hefur orðið á grundvallarskoðunum frjálslyndra borgaralegra flokka á s.l. 20–30 árum. Þessir flokkar viðurkenna nú bæði í orði og á borði nauðsyn þess, að ríkið taki forustu um stjórn efnahagsmála til að halda uppi framleiðslunni og auka hana, þótt þeir hafi ekki mátt heyra slíkt nefnt áður fyrr. Þessi breyting hefur valdið því, að á milli þeirra og jafnaðarmanna er að þessu leyti alls ekki lengur sá grundvallarskoðanamunur, sem ríkti áður fyrr. Skoðanamunurinn er í raun og veru ekki um hið sérstaka hlutverk ríkisins í efnahagsmálum, heldur um það, hversu víðtæk áhrif ríkisvaldsins þurfa að vera til þess að gegna þessu hlutverki. Það er þýðingarmikill skoðanamunur, en hann snertir í raun og veru ekki grundvallaratriðið sjálft. Að því er gjaldeyris- og innflutningshöftin snertir, geta bæði jafnaðarmenn og borgaralegir flokkar verið sammála um það og hafa verið það í öðrum löndum, að þau eru hvorki nauðsynlegt né heppilegt tæki í stjórn efnahagsmálanna.

Af því, sem ég hef nú sagt, ætti að vera ljóst, að það afnám hafta, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, brýtur síður en svo í bága við stefnu Alþfl. og jafnaðarmanna yfirleitt, hvorki fyrr né síðar. Alþfl. mun framvegis eins og hingað til berjast fyrir því, að hér á Íslandi sé þjóðfélag, þar sem hið opinbera sé svo áhrifamikið í atvinnumálum, fjármálum og félagsmálum, að hér haldist ávallt full atvinna, framleiðsluaukning sé sem örust og tekjuskipting sem réttlátust, án þess þó að ríkið sé með nefið ofan í hvers manns kirnu, að ríkið hafi m.ö.o. þau afskipti af atvinnu- og viðskiptalífinu, sem örva það og auka framleiðslu og viðskipti, en lama ekki og hefta. Afnám þeirra innflutnings- og fjárfestingarhafta, sem framkvæmt verður, ef frv. þetta nær fram að ganga, er í fullu samræmi við þessa grundvallarstefnu. Þessi höft geta við núverandi aðstæður ekki örvað til aukinnar framleiðslu og viðskipta, heldur mundu þau lama hvort tveggja og tefja þjóðina í baráttu hennar fyrir framförum og bættum efnahag. Og á það ber að leggja sérstaka áherzlu, að þrátt fyrir afnám þessara hafta heldur ríkisvaldið allri forustu um stjórn efnahagsmálanna. Það má meira að segja staðhæfa um þær ráðstafanir í heild, sem núv. ríkisstj. hefur tekið sér fyrir hendur að framkvæma, að aldrei fyrr í hinni stuttu sögu íslenzkra efnahagsmála hafi ríkisvaldið tekið að sér jafneinbeitta forustu um heildarstjórn efnahagsmálanna, aldrei fyrr hafi verið gerðar í einu átaki jafnvíðtækar ráðstafanir á öllum þeim sviðum efnahagslífsins, sem máli skipta, til þess að sá árangur geti náðst, að jafnvægi komist á greiðslur þjóðarinnar gagnvart öðrum löndum og heilbrigt ástand skapist í fjármálum þjóðarinnar inn á við, þannig að fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar sé tryggt. Um þessi markmið ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að vera ágreiningur milli vinstrisinnaðra manna og hægrisinnaðra. Við því er ekkert að segja, þótt menn greini á um, hvort ráðstafanir þær, sem ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa orðið sammála um, muni ná þessu markmiði, þótt þar skipti raunar alls ekki meginmáli þau sjónarmið í þjóðfélagsmálum, sem skipta mönnum í hægrisinnaða menn og vinstrisinnaða. Alþfl. styður þessar ráðstafanir af því, að hann trúir því, að með þeim muni nást það markmið, sem að er keppt, og að hann sé með því að þjóna brýnum hagsmunum þjóðarheildarinnar, að það hafi verið þjóðarnauðsyn að gera þær breytingar, sem nú er unnið að. Þær eru gerðar undir einbeittri forustu ríkisvaldsins. Það mun halda áfram að hafa aðstöðu til þess að koma fram þeirri heildarstjórn á íslenzku atvinnu-, viðskipta- og fjármálalífi. sem nauðsynleg er til þess að tryggja vaxandi framleiðslu og velmegun á Íslandi.