02.05.1960
Neðri deild: 74. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2242 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Í ræðum þeirra hæstv. viðskmrh. og hv. frsm. meiri hlutans hafa komið fram nokkur atriði í tilefni af því, sem ég sagði hér við 1. umr., og finnst mér rétt að gera nokkrar athugasemdir við þau.

Ég ætla þá fyrst að víkja að því, sem kom fram hjá hæstv. viðskmrh. og snerti afstöðu Framsfl. til innflutningshafta almennt, og því, sem hann sagði varðandi það atriði í hinni sameiginlegu stefnuskrá, sem Framsfl. og Alþfl. lögðu fram fyrir þingkosningarnar 1956. Það er alveg rétt, sem hæstv. viðskmrh. sagði, að í þeirri stefnuskrá var því lýst yfir, og er það í fullu samræmi við það, sem framsóknarmenn hafa jafnan haldið fram, að stefnt skyldi að því, að ekki þyrfti að beita innflutningshöftum. Það hefur jafnan verið afstaða Framsfl., að stefnan ætti að vera sú, þó að óhjákvæmilegt kynni að vera að hafa innflutningshöft um skeið, að þá eigi að draga úr þeim, eftir því sem hægt er. En til þess að draga úr innflutningshöftum eða gjaldeyrishöftum er um tvær leiðir að ræða. Önnur leiðin er sú að draga úr kaupgetu og torvelda framkvæmdir og fjárfestingu og reyna að draga úr eftirspurn eftir gjaldeyri á þann hátt. Það er sú leið, sem hæstv. núv. ríkisstj. fer. Hennar aðalstefna í þessum efnum er sú að skerða kaupgetuna, einkum hjá almenningi eða láglaunastéttum og millistéttum, gera allar framkvæmdir dýrari í landinu og draga þannig úr uppbyggingu og framförum. Með þessum hætti hyggst ríkisstj. draga úr eftirspurn eftir gjaldeyri og geta dregið úr innflutnings- og gjaldeyrishöftum vegna þess. Í raun og veru eru þetta, eins og sýnt hefur verið fram á, ekki annað en höft í nýrri mynd. Það eru höft fátæktar og skorts, sem eru látin koma í staðinn fyrir venjuleg innflutningshöft. En þetta er sem sagt sú leið, sem ríkisstj. fer til að draga úr innflutningshöftunum, þetta er sú leið, sem á sínum tíma var harðlega mótmælt af forustumönnum Alþfl. hér á Alþingi, þeim dóni heitnum Baldvinssyni, Héðni Valdimarssyni, Sigurjóni Á. Ólafssyni og öðrum, vegna þess að afstaða þeirra var sú, að ef um það tvennt væri að velja að beita gjaldeyrishöftum eða að draga úr kaupgetunni hjá alþýðustéttunum, þá væri fyrri leiðin betri. Hæstv. viðskmrh. og þeir, sem nú ráða Alþfl., virðast hins vegar á annarri skoðun og komnir á þá sömu skoðun sem sjálfstæðismenn héldu hér fram, þegar þeir voru að deila við Jón Baldvinsson, Héðin Valdimarsson og Sigurjón Á. Ólafsson.

Hin leiðin til þess að draga úr gjaldeyrishöftum og sú leið, sem Framsfl. er fylgjandi, og sú leið, sem Framsfl. taldi að fælist í stefnuyfirlýsingu bandalags Alþfl. og Framsfl. á sínum tíma, er sú að vinna að aukinni framleiðslu og uppbyggingu, auka gjaldeyristekjurnar á þann hátt og gera gjaldeyrishöft eða innflutningshöft óþörf af þeirri ástæðu, að nægur gjaldeyrir sé fyrir hendi. Að þessu var unnið mjög kappsamlega í tíð vinstri stjórnarinnar með margvíslegri uppbyggingu, sem þá átti sér stað. Þá var t.d. unnið að því að bæta stórkostlega aðstöðu útvegsins, með þeim árangri, að menn sóttust eftir því síðari hluta valdatímabils vinstri stjórnarinnar að afla aukinna fiskiskipa og bæta aðstöðu til fiskverkunar í landi, í staðinn fyrir að það hafði ríkt kyrrstaða í þessum efnum á árunum þar á undan. Þá var sementsverksmiðjan fullbyggð, og þá var síðast, en ekki sízt ráðizt í þá merku framkvæmd að færa út fiskveiðilandhelgina, sem sennilega meira en nokkuð annað á eftir að verða undirstaða aukinnar gjaldeyrisöflunar hér á komandi árum. Og þá var stutt að margs konar annarri uppbyggingu í landinu, með það fyrir augum annars vegar, að hægt væri að draga úr ýmsum innflutningi, vegna þess, að framleitt væri í landinu sjálfu það, sem áður hafði verið keypt utanlands frá, eða með því að auka gjaldeyristekjurnar, útflutninginn. Þetta er sú stefna og sú leið, sem Framsfl. vill fara til þess að draga úr innflutningsog gjaldeyrishöftum. Og það er hér eins og á ýmsum öðrum sviðum, sem koma fram glögg stefnumörk á milli Framsfl. annars vegar og núv. ríkisstj. hins vegar. Núv. ríkisstj. stefnir t.d. að því að draga úr allri uppbyggingu í landinu með því að gera allar framkvæmdir miklu dýrari en þær hafa áður verið. Að sjálfsögðu verður þetta til þess að lama framleiðsluna og verkar þannig, að framleiðsluaukningin og gjaldeyrisöflunin verður miklu minni á komandi árum en hún hefði þurft að vera og mundi hafa orðið, ef uppbyggingarstefnu vinstri stjórnarinnar hefði verið haldið áfram.

Þetta held ég að sýni það alveg nægilega ljóst, að það getur fullkomlega staðizt, sem stóð í áður nefndu ávarpi eða stefnuskrá umbótabandalagsins svokallaða, og það, sem Framsfl. heldur fram, að það er hægt að vinna að því að draga úr innflutnings- og gjaldeyrishöftum á annan og farsælli veg en þann, sem núv. ríkisstj. hefur farið inn á.

Þá hafa þeir gert allmikið að því, hæstv. viðskmrh. og hv. frsm. meiri hl., að tala um það, að núv. ríkisstj. fylgdi sömu stefnu og fylgt væri í efnahagsmálunum í nágrannalöndum okkar. Þetta er algerlega rangt. Í nágrannalöndum okkar flestum er fylgt þeirri stefnu, sem mætti kalla verðstöðvunarstefnu eða beinist að því að halda verðlagi sem mest niðri og tryggja bætt kjör almennings á þann hátt. Hér er nú undir forustu hæstv. ríkisstj. fylgt alveg gerólíkri stefnu, eða stefnu, sem mætti kalla verðhækkunarstefnu. Hér er markvisst stefnt að því að hækka verðlag meira en nokkru sinni hefur átt sér stað. Hæstv. ríkisstj. þótti það ekki einu sinni nægjanlegt að hækka verðlagið með gengislækkuninni, heldur bætti við margs konar sköttum til þess að hækka verðlagið. Það er fylgt gegndarlausari verðhækkunarstefnu en nokkru sinni hefur áður átt sér stað hér á landi og hefur átt sér stað í nokkru nágrannalanda okkar að minnsta kosti um langt skeið. Þess vegna er það algerlega rangt, þegar hæstv. viðskmrh. og hv. frsm. meiri hl. eru að halda því fram, að hér sé verið að fylgja sömu stefnu og í nágrannalöndum okkar, þar sem fylgt er verðstöðvunarstefnu. Hér er alveg gagnstætt því fylgt gegndarlausri verðhækkunarstefnu.

Ég held, að ef maður heldur áfram með þennan útlenda samanburð, þá sé ekki hægt að finna þess dæmi nema í tveimur löndum í Evrópu, þar sem á síðari missirum hefur verið tekin upp svipuð stefna og sú, sem nú er verið að framfylgja hér. Í báðum þessum löndum var sú stefna tekin upp í samráði við Efnahagssamvinnustofnun Evrópu. Annað þessara landa, sem hefur tekið þessa stefnu upp, var Frakkland, þar sem ríkisstj. gerði margs konar samdráttarráðstafanir á síðastliðnu ári. Þetta hefur haft það í för með sér, að lífskjör almennings þar í landi hafa stórversnað. Og það, sem hefur valdið því, að ekki hafa átt sér stað stórkostleg verkföll í Frakklandi á undanförnum mánuðum, er, að verkföll mega í raun og veru heita þar bönnuð. Hins vegar hefur þetta þrengt svo að bændastéttinni í Frakklandi, að hún hefur boðað hvað eftir annað til stórkostlegra fjöldagangna til borganna og haldið þar stóra fundi og m.a. fengið því framgengt, að meiri hluti franska þingsins skoraði nýlega á stjórnina að kalla þingið saman. En stjórnin eða forsetinn beitti hreinu einræðisvaldi til að koma í veg fyrir, að á þetta væri fallizt. Og það er alveg víst, að sú þróun er fram undan í efnahagsmálum Frakklands, að hún er ekki neitt til fyrirmyndar og eftirbreytni. Og það má líka minna hæstv. viðskmrh. alveg sérstaklega á það, að sá flokkur, sem hann telur sennilega standa næst sér í Frakklandi, franski jafnaðarmannaflokkurinn, sem hefur verið talinn íhaldssamasti jafnaðarmannaflokkurinn í Evrópu, byrjaði á því að styðja núv. stjórn í Frakklandi og átti ráðherra í henni, en eftir að stjórnin hneig að þessari efnahagsstefnu, skarst jafnaðarmannaflokkurinn úr leik, sagði upp sinni hollustu við ríkisstj., dró ráðherra sína úr henni og stendur nú fyrir því í franska þinginu, að það sé borið fram vantraust á frönsku stjórnina vegna þeirrar efnahagsmálastefnu, sem hún fylgir. Það er líka álit kunnugra manna, að vegna þess, hvernig haldið hefur verið á efnahagsmálunum í Frakklandi, sé það ekki raunverulega nema líf eins manns, ef svo mætti segja, sem stendur í vegi þess, að þar brjótist út jafnvel blóðug bylting. Það er það traust, sem núverandi forseti Frakklands hefur, sem á meginþátt í því, að það er hægt að halda þessu stjórnarkerfi uppi, en ef hann félli frá af einhverjum ástæðum, þá mundu skapast harðari og alvarlegri stéttaátök í Frakklandi en hafa sennilega átt sér þar stað um langt skeið. Og í því á m.a. sinn þátt sú efnahagsmálastefna, sem þar var tekin upp á s.l. ári. Annars má það segja núverandi forseta Frakklands til hróss, að hann virðist gera sér grein fyrir því, að þessi stefna hafi verið eitthvað meira en lítið misheppnuð, því að hann lét þann mann, fjármálaráðherra eða efnahagsmálaráðherra, fara úr ríkisstj. á s.l. vetri, sem hafði meginforustuna um það, að þessi stefna var tekin upp, og þess vegna getur vel svo farið, vegna hygginda núv. Frakklandsforseta, að það verði tekin upp stefnubreyting þar, sem beinist frá því, sem gert var á s.l. ári.

Hitt ríkið, sem hefur tekið upp samdráttarstefnu fyrir fáum missirum að tillögu Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, er Tyrkland. Tyrkland fór inn á þá braut fyrir fáum missirum að gera ekki ósvipaðar ráðstafanir í efnahagsmálum og nú hafa verið gerðar hér og fékk til þess tilstyrk frá Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, m.a. talsverð lán til þess að geta haldið uppi innflutningi með líkum hætti og hæstv. ríkisstj. virðist ætla að gera hér. Ég man það í vetur, þegar þetta barst dálítið í tal, að þá var bent á það hér af hálfu stjórnarsinna til fyrirmyndar, að Ísland væri nú alls ekki eina ríkið, sem hefði farið inn á þessa braut, að taka upp samdráttarstefnu að ráðum hinna erlendu sérfræðinga, heldur hefði t.d. Frakkland gert það og ekki sízt Tyrkland, og þar virtist þetta ætla að ganga alveg ljómandi vel, þ.e. í Tyrklandi. En við sjáum árangurinn eða niðurstöðuna af því nú þessa dagana á þeim fréttum, sem eru að berast frá Tyrklandi og rekja fyrst og fremst rætur til þeirrar óánægju og þeirrar andspyrnu, sem efnahagsráðstafanir ríkisstjórnarinnar hafa valdið. Ég tel mig ekki þurfa að fara að rifja þær fréttir upp hér, vegna þess að ég hygg, að þær séu öllum, sem hér eru, nokkurn veginn kunnar. En ég held, að þær fréttir séu hins vegar með þeim hætti, að hæstv. núv. ríkisstj. ætti að hugsa sig um tvisvar, áður en hún heldur áfram lengra á sömu brautinni og tyrkneska stjórnin hefur gert eða áður en það kann að leiða til svipaðs ástands hér og nú ríkir í Tyrklandi.

Þess vegna held ég, að hv. stjórnarsinnar, viðskmrh. og frsm. meiri hl., ættu ekki að vera að vitna til erlendra dæma um, að það sé heppilegt, sem nú er verið að gera hér á landi, því að ef þeir skírskota til okkar nágrannalanda, þá er þar fylgt allt annarri stefnu en þeirri, sem núv. ríkisstj. fylgir. Þar er fylgt verðstöðvunarstefnu, í staðinn fyrir það, að núv. ríkisstj. fylgir hér stórkostlegri verðhækkunarstefnu, og einu tvö löndin, sem eru t.d. aðilar að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu og hafa farið inn á sömu braut og hæstv. ríkisstj. hefur gert hér, eru Frakkland og Tyrkland, og ég held, að dæmin þaðan séu sannarlega ekki til fyrirmyndar.

Það kom fram hjá bæði hæstv. viðskmrh. og hv. frsm. meiri hl., að ég hefði látið í ljós hér við 1. umr., að með þessu frv. væru ekki gerðar neinar meiri háttar breytingar, heldur væru höft látin koma í stað hafta. Ég held, að þetta sé ekki að öllu leyti rétt eftir haft, því þó að það sé alveg rétt eftir mér haft, sem ég sagði þá, að hér séu höft látin koma í stað hafta, eins og ég benti líka á, þá álít ég breytinguna samt mikla og slæma, vegna þess að þau höft, sem eru tekin upp í stað þeirra hafta, sem lögð eru niður, eru svo miklu verri en höftin, sem búið var við, þó að þau hefðu — það skal fullkomlega viðurkennt –marga ókosti. En þrátt fyrir það eru þau höft, sem búið var við, miklu betri en þau höft fátæktarinnar, sem nú er verið að innfæra og ná sérstaklega til láglaunastéttanna og millistéttanna, og miklu betri en vaxtahöftin eða vaxtaokrið, sem er rétta nafnið á því, og takmarkanir á bankaútlánum og aðrar svipaðar ráðstafanir, sem ríkisstj. hefur gert og stefna í þessa átt. Og þegar menn athuga öll þessi höft, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að innleiða undanfarna mánuði, þá er það náttúrlega alger fjarstæða að tala um, að hér sé verið að gefa verzlunina frjálsa og bæta aðstöðu manna til þess að njóta bættra verzlunarkjara, því að það leiðir af sjálfu sér, að þegar kaupgetan dregst eins stórkostlega saman og hér er stefnt að og þegar vaxtahöftin eða vaxtaokrið og útlánahöftin koma til viðbótar, þá þrengir stórlega að verzluninni. Það verður erfiðara hjá henni að veita góða þjónustu heldur en áður. Það verður til þess, að hún mun þurfa á hækkandi álagningu að halda, eins og vafalaust mun koma á daginn, áður en langt um líður. Og þetta verður jafnframt til þess, að hún mun eiga erfitt með að geta haft eins mikið vöruúrval á boðstólum eða haft eins miklar vörubirgðir og hún hefur þó getað haft að undanförnu. Þess vegna stefnir þetta í þá átt að þrengja að verzluninni, skapa henni verri aðstöðu til þess að láta almenning njóta heppilegra viðskiptakjara og verkar þess vegna alveg gagnstætt því, sem hv. stjórnarsinnar eru hér að halda fram. Og það er þó sérstaklega rangt í sambandi við þessi höft að framkvæma þau með þeim hætti, að þau bitni langsamlega þyngst á láglaunastéttum og millistéttafólki í landinu. Eins og hæstv. ríkisstj. hefur framkvæmt dýrtíðaruppbæturnar, þá eru það efnamennirnir og hátekjumennirnir, sem fá langsamlega drýgstan hluta þeirra og fá þá skerðingu nokkurn veginn að fullu eða öllu bætta, sem þeir verða fyrir vegna annarra ráðstafana ríkisstj., en hins vegar kemur til með að vanta stórkostlega á, að láglaunastéttir og millilaunastéttir fái þær dýrtíðaruppbætur, sem nægi á móti kjaraskerðingunni.

Þá var hv. frsm. meiri hl. að tala um, að þær ráðstafanir, sem hér er verið að gera, væru gerðar í þágu einkaframtaksins og einstaklinganna. Ég held, að þetta sé mikil missögn hjá honum, svo að ekki sé sterkar að orði kveðið, hvað snertir meginþorra allra einstaklinga í landinu. Þessar ráðstafanir verða tvímælalaust til þess að skerða möguleika meginþorra einstaklinganna í landinu til athafna og framkvæmda frá því, sem verið hefur, eins og glöggt sést á því, að allar framkvæmdir eru nú gerðar miklu dýrari en þær voru áður. Þetta verður t.d. til þess að lama alveg stórkostlega framtak bændastéttarinnar. Þetta verður til þess að lama framtak láglaunastétta og millistétta í bæjunum, t.d. möguleika manna þar til að koma sér upp eigin húsnæði o.s.frv. Þess vegna er það algerlega rangt, að þessar framkvæmdir séu gerðar til þess að styrkja og styðja hið almenna einkaframtak í landinu. Hins vegar er það alveg rétt, að þessar ráðstafanir geta orðið til þess, að mestu stóreigna- og gróðamennirnir hafi betri aðstöðu en áður til þess að koma ár sinni fyrir borð. Og að því er líka fyrst og fremst stefnt með þessu frv. Það hefur líka komið alveg greinilega fram hjá hv. frsm. meiri hl., að aðaltilgangurinn með þessu sé að koma upp stóreignamönnum í landinu. En að sjálfsögðu leiðir það af sér, ef hér rísa upp margir stóreignamenn í landinu, að þá verða aðrir menn fátækari í staðinn, því að það er þó aldrei hægt að skipta meira, — svo að maður noti þá samlíkingu, sem heyrist hér oft, — það er þó aldrei hægt að skipta meira en því, sem þjóðin aflar, og ef á að skipta þessum afla þannig, að hann lendi mjög mikið hjá einstöku mönnum, þá verður þetta til þess, að allur fjöldinn ber minna úr býtum. Og það er líka það, sem að er stefnt með þessum ráðstöfunum.

Það er ekki úr vegi að benda á það í þessu sambandi, hvílíkur munur er á afstöðu aðalflokkanna í landinu, Sjálfstfl. og Framsfl., til einkaframtaksins, vegna þess að það kemur mjög skýrt fram í sambandi við þessar ráðstafanir. Stefna Framsfl. er sú að stuðla að því, að sem allra flestir einstaklingar í landinu geti orðið efnalega sjálfstæðir og bjargálna, og þess vegna vill Framsfl. miða efnahagsráðstafanir fyrst og fremst við það, að þeim tilgangi verði náð. Sjálfstfl. vill fyrst og fremst hlaða undir fáa, sem hann kallar hina „sterku“ einstaklinga í landinu, láta þá njóta fyrst og fremst þess arðs, sem þjóðin aflar, þó að það verði hins vegar til þess að skerða möguleika alls fjöldans til efnalegs sjálfstæðis og bjargálna.

Þá hafa fulltrúar stjórnarflokkanna, sem hér hafa talað, talað mjög digurbarkalega, þegar þeir hafa verið að ræða um fjárfestingareftirlitið og að það væri nú alveg látið hverfa úr sögunni og með því væri stigið spor í rétta átt. Ég hef látið það í ljós hér áður og vil endurtaka það, að ég tel, að þetta sé algerlega rangt. Það má til sanns vegar færa, og ég skal ekki bera á móti því, að það hefur mátt ráðstafa þeirri fjárfestingu, sem hefur átt sér stað í landinu á undanförnum árum, kannske á ýmsan hátt hyggilegar en gert hefur verið. En úr þeim ágöllum verður ekki bætt með því að gefa þetta allt saman frjálst, eins og nú er stefnt að, heldur var það, sem þurfti að gera, að reyna að tryggja enn betur en að undanförnu, að fjármagninu og fjárfestingunni væri beint að hinum réttu framkvæmdum. Ég nefni það aðeins sem dæmi í þessu sambandi, að þjóðinni kemur til með að fjölga mjög mikið á næstu áratugum og hún verður sennilega orðin allt að því helmingi fjölmennari um aldamótin en hún er nú. Það er eitt stærsta vandamálið, sem við þurfum að horfast í augu við í þessu sambandi, hvernig við ætlumst til, að búsetu landsmanna verði t.d. háttað í landinu um næstu aldamót. Ætlumst við til, að landsmenn verði þá aðallega búsettir á litlum bletti í landinu, ellegar ætlumst við til, að byggðinni verði hagað þannig, að gæði landsins verði nytjuð sem bezt um landið allt? Að því eigum við að sjálfsögðu að stefna. En það er alveg tvímælalaust, að ef við ætlum að stefna að því, þá verðum við að hafa mjög gott aðhald að fjárfestingunni, þeirri takmörkuðu fjárfestingu, sem við ráðum yfir, og beina henni að þeim réttu viðfangsefnum, þannig að byggðin rísi upp á þeim stöðum, þar sem hún þarf að vera með tilliti til nýtingar náttúruauðæfanna í framtíðinni. Við þurfum þá að byggja upp ýmsa staði úti á landi, og þetta verður ekki gert öðruvísi en þannig, að hið opinbera hafi forgönguna, beini fjármagninu þannig, hafi forgönguna um ýmsar helztu framkvæmdirnar, því að það er ekki hægt að ætlast til þess, að einkaframtakið taki sér fyrir hendur að hafa forustu um slík verkefni, sem oft og tíðum eru þannig, að þau gefa ekki arð fyrr en eftir langan tíma. En einkaframtakið leitar sér að sjálfsögðu verkefna fyrst og fremst þar, sem það hefur von um að fá fljótfenginn arð. Og það er ekkert óeðlilegt, þó að það hagi sér á þann hátt. En ég álít líka, að þó að við hefðum að ýmsu leyti meira fjárfestingaraðhald og eftirlit en við höfum núna, þá þarf það ekki að vera neitt til þess að skerða möguleika einkaframtaksins í landinu og félagsframtaksins, vegna þess að það getur fundið sér nóg verkefni, þó að hið opinbera hafi heildarstjórnina og heildarforustuna með höndum. Hins vegar innan þess ramma, sem slíkur áætlunarbúskapur mundi hafa í för með sér, á einkaframtak og félagsframtak að geta fundið sér alveg næg verkefni.

Ég veit nú ekki, hvort það er ástæða til þess að fara að eltast hér við ýmis minni háttar atriði, sem hafa komið fram í umr. og eru röng, eins og t.d. það, þegar hv. frsm. meiri hl, fjhn. var að tala um, að framsóknarmenn væru feður haftanna hér á landi. Þetta skýtur dálítið skökku við, vegna þess að þeir menn, sem höfðu forustu um fyrsta haftafrv., sem hefur verið samþykkt á Alþingi, þegar stríðstímar eru undanskildir, það eru hinir gömlu leiðtogar núverandi Sjálfstfl., Jón Magnússon og Magnús Guðmundsson. Fyrstu haftalögin voru sett á þingi 1920, þegar þessir menn höfðu stjórnarforustuna og höfðu líka forustu um setningu þessara laga, og það var vegna þess, að þeir litu þannig á, að þær aðstæður gætu skapazt, að það væri nauðsynlegt að grípa til innflutnings- og gjaldeyrishafta, og vildu þess vegna hafa löggjöf um þetta. Og þannig hafa sjálfstæðismenn, þegar þeir hafa látið skynsemina ráða, unnið oft og tíðum á undanförnum árum. Og ég held, að það sé miklu hyggilegra af Sjálfstfl. að fara að ráðum þessara gömlu leiðtoga sinna, því þótt þeir væru íhaldssamir, þá viðurkenndu þeir, að undir ýmsum kringumstæðum væri óhjákvæmilegt að grípa til hafta og jafnvel betra að grípa til hafta en kjaraskerðingar, eins og nú er stefnt að. Og ég held, að það mundi gefast Sjálfstfl. betur að láta skynsemina þannig ráða heldur en fara eftir einhverjum trúaratriðum og ismum.

Hv. frsm. meiri hl. var einnig að tala um, að Framsfl. hefði verið með höftum og væri með höftum, vegna þess að hann vildi tryggja forgangsrétt samvinnufélaganna. Ja, maður hefur heyrt þetta áður. En aldrei hef ég heyrt nefnt eitt einasta dæmi því til sönnunar, að Framsfl. hafi beitt aðstöðu sinni í sambandi við gjaldeyris- og innflutningsmál til þess að tryggja sérstaklega aðstöðu samvinnufélaganna, enda er það þannig, að Framsfl. hefur aldrei haft meiri hluta í þeim nefndum, sem um þessi mál hafa fjallað, og þó að hann hefði viljað — sem hann hefur alls ekki viljað — tryggja einhver slík forréttindi, þá hefur hann ekki haft aðstöðu til þess, og þar með fellur þessi málflutningur alveg um sjálfan sig. Og ég er nú alveg hissa á því, að hv. frsm. meiri hlutans, sem er greindur maður og getur verið öfgalaus, skuli vera að fara hér með í deildinni annan eins þvætting eins og þetta, sem hann veit að er algerlega ósatt.

En það vildi ég svo segja að síðustu eða endurtaka það, sem ég hef áður sagt, að ég álít, að heildarstefnan í þessu frv. beinist að því að taka upp ný höft, sem séu verri og heppilegri almenningi en þau, sem áður var búið við. Og ég vil að endingu mega gefa hæstv. ríkisstj. eitt ráð í sambandi við allar þessar ráðstafanir hennar. Þm. hafa sennilega lesið það í blöðunum, að hæstv. ríkisstj. gerðist allathafnasöm fyrir nokkrum dögum. Það var með mikilli skyndingu kvaddur saman stjórnarfundur fyrir hádegi uppi í stjórnarráði og þar tekið fyrir, að því er ráðh. álitu, mikið stórmál, sem var það, að þjóðleikhúsráð, þar sem menntmrh. á sæti, var búið að ákveða að halda eitthvert stórt ball í Þjóðleikhúsinu 17. júní. Það gerðist á þessum fundi, að ríkisstj. samþ. alveg einróma, að þessu balli skyldi aflýst, og hæstv. menntmrh. var sendur í skyndi á fund þjóðleikhúsráðs, sem líka var kallað saman í skyndi, til þess að koma því til vegar, að þessu balli yrði aflýst. Og það var líka gert. Ég skal alls ekki gagnrýna ríkisstj. fyrir að hafa gert þetta. Það má vel vera, að þetta sé rétt ráðið hjá henni, þó að ég dragi það í efa. En hæstv. ríkisstj. hefur byrjað á öðru og miklu verra balli en því, sem þarna var um að ræða, og það er það ball, sem hún hefur byrjað á í efnahagsmálum þjóðarinnar. Og ég er alveg viss um, að það bezta, sem ríkisstj. gæti gert, væri að aflýsa því balli sem fyrst.