02.05.1960
Neðri deild: 74. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2250 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Frá því að ég flutti hér mína framsöguræðu um þetta mál, hafa orðið hér nokkrar umr. og ýmislegt komið fram í þeim, sem nauðsyn er að ræða.

Í fyrsta lagi hefur hæstv. viðskmrh. rætt nokkuð af því, sem ég flutti fram af gagnrýni í minni ræðu, og gert nokkra grein fyrir afstöðu ríkisstj. og sínu áliti á því, hvernig hún hygðist að framfylgja þeirri stefnu, sem fælist í þessu frv.

Hæstv. viðskmrh. ræddi í fyrsta lagi, hver væri tryggingin fyrir því efnahagslega sjálfstæði, sem hann kvað ríkisstj. vilja viðhalda, en ég hefði efazt um að mundi haldast með þeirri pólitík, sem nú væri upp tekin. Og hann sagði í fyrsta lagi, að tryggingin fyrir slíku efnahagslegu sjálfstæði yrði ströng bankapólitík, m.ö.o. þegar ég talaði um, að það mikla lán, sem ríkisstj. nú tæki, mundi stofna efnahagslegu sjálfstæði Íslands í hættu, vegna þess að það gæfi of mikið undir fótinn með að flytja inn vörur til landsins og gæfi undir fótinn þeirri tilhneigingu að setja meira fé í veltu en heilbrigt væri, þannig að eftirspurnin eftir útlenda gjaldeyrinum og getan til að afla sér hans yrði þannig hlutfallslega meiri en rétt og eðlilegt væri. Hann áleit, að sú stranga bankapólitík mundi vera þarna stór og nokkurn veginn nægileg hindrun til að koma í veg fyrir slíkt undanlát.

Ég kom með eina fsp. einmitt í sambandi við þá ströngu bankapólitík í minni fyrstu ræðu, sem hæstv. viðskmrh. kom ekki inn á. Ég minnti á, hvernig ástandið mundi vera núna í Vestmannaeyjum í lok vertíðarinnar. Ég kastaði því fram, að það mundi vanta í Vestmannaeyjum 7, 9 eða 9 millj., jafnvel meira, til þess að það væri hægt að gera þar upp. Ég kastaði því fram, að einn einasti aðili og það einmitt aðili, sem á sjálfur sæti hér á þingi nú, hv. 3. þm. Austf. (EinS), mundi skulda jafnvel helminginn af þessu, þannig að svo framarlega sem ætti ekki að gera upp bæði vissa eigendur hraðfrystihúsa, sem væru meðal ríkustu manna landsins, og vissa útvegsmenn í Vestmannaeyjum núna, þá yrðu bankar landsins að fara inn á að lána meira en eðlilegt væri eftir þeirri ströngu bankapólitík, sem ríkisstj. hefur látið í ljós að ætti að reka. Hæstv. viðskmrh. treystist ekki til að svara þessu. Ég er alveg viss um, að hins vegar verður að svara þessu í reyndinni nú næstu dagana. Það er alveg vitanlegt, að verði þarna látið undan, þá er um leið verið að hverfa frá þeirri ströngu bankapólitík, sem hæstv. viðskiptamálaráðherra segir að sé önnur höfuðstoðin undir efnahagslegu sjálfstæði Íslands, ef eigi að halda við þá stefnu, sem nú er farið inn á.

Ég álít ákaflega hæpið að halda við þessa stefnu, ég álít hana ranga. Ég álít, að það sé enginn vegur að framfylgja hér á Íslandi þeirri bankapólitík, sem er framkvæmd í auðvaldslöndunum hér í kringum okkur. Það er alveg tvennt ólíkt, hvers konar ráðstafanir sterkir prívatbankar gera gagnvart iðnrekendum, sem eiga stórar verksmiðjur og lenda í vandræðum með þeirra rekstur, eða hvers konar ráðstafanir ríkisbankar í þjóðfélagi eins og okkar gera gagnvart útvegsmönnum og hraðfrystihúsaeigendum, þegar afli verður miklu minni en eðlilegt er, þegar það er alls ekki sök þessara manna, sem þarna er um að ræða. Við erum að það miklu leyti veiðimannaþjóðfélag, að við getum alls ekki, ef við ætlum að halda einhverju viti í okkar þjóðarbúskap, farið inn á að virða og framkvæma hrein-kapítalistískar viðskiptareglur. Iðnaðarþjóðfélag er upplagt fyrir slíkt. Það er mjög eðlilegt að framkvæma slíkt í iðnaðarþjóðfélagi. Það er nauðsynlegt fyrir okkur, sem byggjum allan okkar útflutning einvörðungu á afla, einvörðungu á fiski, og það er mismunandi mikið, hvað við getum fiskað af honum, — það er nauðsynlegt fyrir okkur að taka tillit til slíks. Það er ekkert vit af okkur, þó að einn útvegsmaður í Vestmannaeyjum, einn formaður, sem á bát og er óheppinn á einni vertíð, en er ágætis formaður, — það er ekkert sérstakt vit af bönkunum að taka af honum bátinn, þó að hann hafi tapað á einni vertíð. Það verður hvorki betra fyrir manninn, fyrir bankann né þjóðarbúskapinn, að það sé gert.

Við verðum að taka allt öðruvísi tillit í okkar þjóðfélagi en gert er úti í Frakklandi eða Englandi gagnvart hinum og þessum verksmiðjueigendum, sem geta alltaf reiknað með öllum sínum rekstri og verða bara að taka tillit til, við skulum segja viðskiptalegra sveiflna, verðsveiflna, kreppna og annars slíks. Það er allt, allt annað. Ég held þess vegna, að hæstv. ríkisstj. verði það mjög erfitt að framkvæma þessa ströngu bankapólitík. Og það verður prófsteinn á hana, hvort hún mundi þora t.d. að gera Einar Sigurðsson upp, hvort hún mundi álíta það rétt, — einn ríkasta mann landsins, — jafnvel þó að hann ætti miklu meira en fyrir skuldum, bara af því að hann væri í einhverjum vandræðum með að geta borgað út, sérstaklega ef illa gengi t.d. á einhverjum ákveðnum stað. Þess vegna er ekki til neins að ætla að yfirfæra þá pólitík, sem getur tíðkazt í löndum hér í kringum okkur, yfir á okkar þjóðfélag.

Hins vegar virtist hæstv. viðskmrh. meina, að bankahöftin annars vegar og hallalaus fjárlög hins vegar, það væru þau tvö höfuðráð, sem ríkisstj. ætlaði að beita.

Nú vil ég benda hæstv. viðskmrh. á annað í þessu sambandi. Hann talar um að beita strangri bankapólitík. Jú, slíku er mjög eðlilegt að sé beitt, við skulum segja í löndum eins og Vestur-Þýzkalandi, Englandi og öðrum slíkum. Bankarnir eru þar allir prívatbankar. Á síðustu 60 árum hafa bankarnir, — við skulum taka bara Vestur-Þýzkaland eða það gamla Þýzkaland, — og stóriðjufyrirtækin vaxið saman, þannig að þar eru að miklu leyti sömu stóru samsteypurnar, sem eiga, ef við tökum það gamla Þýzkaland, 4 stærstu banka Þýzkalands og ráða efnafræðihringnum, kemíska hringnum I. G. Farben, þeim gamla, og stálhringnum, þannig að þetta er alveg samgróið. Og frá sjónarmiði þessara einkabanka er það alveg eðlilegt að reka harðvítuga viðskiptapólitík, sem m.a. gengur út á að gera þessa stóru hringa sem allra hæfasta til allrar samkeppni. Og eitt af því, sem er alveg eðlilegt þess vegna fyrir þá hringa, er, að þeir geri sér háða alla þá smáu eða jafnvel troði þá undir fótum og útrými þeim.

Er nú hægt í ríki eins og okkar, þar sem bankarnir eru raunverulega allir ríkisbankar, að reka slíka pólitík? Hefur hún verið rekin á undanförnum árum, og mundi vera hægt að reka hana, mundi nokkur flokkur, meira að segja Sjálfstfl., treysta sér til þess? Ég held, að sú bankapólitík, sem rekin hefur verið á undanförnum áratugum á Íslandi, — það má margt um hana segja og margt í henni gagnrýna, og ég hef ekki síður gert það en aðrir hér, — en ég held, að það megi segja, að eitt gangi þó eins og rauður þráður þar í gegnum, og það er, að ríkisbankarnir hafi gjarnan viljað viðhalda allmiklum sjálfstæðum atvinnurekstri á Íslandi. Það hefur ekki verið fjandskapur af hálfu ríkisbankanna við þá smáu, sjálfstæðu atvinnurekendur, þeim hefur frekar verið haldið uppi en hitt. Bankarnir hafa ekki beinlínis verið að setja þá á hausinn og vinna að því að mynda hér stóra hringa. Hins vegar vitum við, að meðan efnahagsástandið á Íslandi var frjálst, þá var sú þróunin. Árið 1929 var þróunin á Íslandi orðin sú, að Kveldúlfur og Alliance hafa 90% af okkar útflutningi, og bankarnir eru þannig staddir þá, eins og sýnir sig rétt á eftir að kreppan skellur á, að jafnmikið fé og samfara er seðlaveltunni, ef ég man rétt, sem var þá 12 millj. kr., — ég bið velvirðingar, ef ég man ekki tölurnar rétt, — var sama upphæðin og Landsbankinn hafði lánað Kveldúlfi. Nú mun seðlaveltan vera 400 milljónir eða þar í kring, svo að við getum séð á þeim samanburði, hvað mikið þetta var.

M.ö.o.: meðan frjáls efnahagsþróun er á Íslandi, gengur það í sömu áttina og í ríkjunum í kringum okkur. Það er einn hringur, sem meira og minna sölsar þetta allt saman undir sig og reynir að einoka bankana fyrir sig.

Þessi þróun hefur ekki verið á Íslandi síðustu 30 árin. Það hefur raunverulega verið af hálfu bankanna miklu frekar viðhaldið sjálfstæðum atvinnurekstri hinna smáu atvinnurekenda. Og ég spyr hæstv. ríkisstj.: Ætlar hún að gerbreyta þessu ástandi? Ef á að taka hér upp stranga bankapólitík, ef það á að reka hér sams konar bankapólitík og rekin er í löndunum kringum okkur, Englandi og Vestur-Þýzkalandi, þá þýðir það, að hér verða á næstu árum allir þessir smáatvinnurekendur settir á hausinn og það verða örfáir stórir, sem drottna. Og ég spyr hæstv. viðskmrh.: Er það þessi bankapólitík, sem ríkisstj. ætlar að reka? Það má vel vera, að með því að reka slíka bankapólitík sé hægt að stuðla dálítið að því, sem hann talaði um, að draga úr innkaupunum. Það er vitanlegt, að hér í Rvík. hefur t.d. verið mjög stór millistétt, mjög mikið um þessa smáu, sjálfstæðu, bjargálna, jafnvel efnuðu atvinnurekendur. Ef það er meiningin að setja þessa millistétt á hausinn, þá minnkar mjög tilfinnanlega kaupgeta Íslendinga, þá minnkar um leið mjög tilfinnanlega það, sem við kaupum inn frá útlöndum, og þá er hægara að koma á þessum verzlunarjöfnuði.

M.ö.o.: ef ríkisstj. annars vegar, eins og ég kem að á eftir, ætlar að minnka kaupgetuna hjá verkalýðnum og heldur virkilega, að hún geti haldið henni niðri, og ef hún ætlar hins vegar að setja þá tiltölulega ríku eða a.m.k. efnuðu millistétt Reykjavíkur á höfuðið, þá er hugsanlegt, að henni takist það að einhverju leyti. En þá er bezt, að hún sé ekki að fara neitt í felur með það, að þetta sé hennar pólitík. Það er alveg skiljanlegt, að ef það verða þarna 10 menn á við t.d. hv. 3. þm. Austf., sem ráða megininu af öllum atvinnutækjum Íslands eftir 2–3 ár, af því að hinir séu komnir á hausinn, þá verður náttúrlega kaupgetan hjá millistéttinni á Íslandi allt önnur en hún er í dag. Ef ríkisstj. ætlar að reka þessa pólitík, þá er bezt fyrir hana að viðurkenna það strax. En þetta þýðir stranga bankapólitík, okurvexti, harðvítugt uppgjör, svo framarlega sem menn standa sig ekki, og annað slíkt. Ég hef heyrt raddir í þessa átt. Ég hef heyrt raddir um það frá hálfu nokkurra stórlaxa hér nú, þeir hafa sagt: Hvað gerir það til, þó að einhverjir útvegsmenn í Vestmannaeyjum og í Ólafsvík fari á hausinn. Látum þá bara fara á hausinn. Lofum bara hraðfrystihúsunum að kaupa upp bátana þeirra. — Ef það er meiningin að reka þessa pólitík, þá er bezt að viðurkenna það strax, þannig að við getum rætt það núna og að ríkisstj. komi ekki á eftir og segist verða voðalega hissa á, að þetta urðu afleiðingarnar af hennar stefnu.

Svo sagði hæstv. viðskmrh., að hitt aðalráðið, sem ríkisstj. ætlaði að beita, væri að hafa fjárlögin hallalaus. Það hefur verið gert síðustu 10–12 árin, alltaf öðru hvoru a.m.k., og ég held, að það ráði ekki úrslitum um að tryggja þetta, þó að það sé viss hemill, og ekki sýndist mér við fjárlagaafgreiðsluna vera mikil tilhneiging til þess að tryggja það jafnvægi, sem væri skilyrði fyrir að framfylgja þessari ströngu jafnvægispólitík, sem látin er í veðri vaka.

Hins vegar minntist hæstv. viðskmrh ekki á það atriði, sem hefur þó öðru hvoru verið mikið hampað af hálfu ríkisstj., og það var sjálf kaupgetuminnkunin, og ég vil í því sambandi koma með eina fsp. til hæstv. ríkisstj. Fyrst hann taldi aðeins upp þessi tvö atriði, sem ættu að tryggja þetta efnahagslega jafnvægi út á við eða tryggja efnahagslegt sjálfstæði landsins, bankahöftin og hallalausu fjárlögin, hvað segir hann þá viðvíkjandi kaupgjaldinu? Svo fremi sem kaupgjaldið er hækkað, — af því að hann minntist á það einu sinni í sinni fyrstu ræðu, að ríkisstj. vildi ekki, að kaupið hækkaði, — svo fremi sem kaupgjaldið er hækkað, ætlar þá hæstv. ríkisstj. að láta það afskiptalaust, eins og hún lýsti yfir upphaflega, að það væri einkamál atvinnurekenda og verkalýðssamtaka, atvinnurekendur yrðu aðeins að gera það upp á sínar eigin spýtur, þannig að þeir yrðu sjálfir að borga þetta? Er það meining ríkisstj.? Eða eins og hefur líka komið fram, án þess að það væri samræmi þarna á milli, í ræðum stjórnarliðsins hér stundum, væri það meining ríkisstj., svo framarlega sem kaup væri hækkað, að það yrði gripið til þess að lækka gengið á ný? Eins og við vitum, var tilætlun Marshallstofnunarinnar 1950, þegar gengislækkunin var ákveðin þá, að miklu leyti að undirlagi sömu stofnana og nú hafa haft frumkvæði um þessa gengislækkun, — eins og hæstv. viðskmrh. man, þá stóð í því lagafrv., sem útbúíð hafði verið í Washington, í 2. gr., að Landsbanki Íslands skyldi taka til endurskoðunar gengisskráninguna, því að það var hann, sem átti að fá gengisskráningarvaldið samkv. lagafrv. 1950, jafnóðum og almenn breyting yrði á kaupgjaldi á Íslandi. Ef þetta er skoðun þeirra aðila, í París og Washington, sem hafa haft hér nokkurt frumkvæði um þá efnahagspólitík, sem nú er upp tekin, þá vildi ég gjarnan fá að vita, hvort heldur væri, sem sé að ríkisstj. léti það afskiptalaust, hvernig verkamenn og atvinnurekendur semdu, eða hins vegar, hvort hún, svo framarlega sem verkamenn kynnu að knýja fram svo og svo miklar kauphækkanir, gripi til þess að endurskoða gengisskráninguna. Þetta tvennt fer ekki saman, en þetta hvort tveggja hefur komið í ljós í sambandi við þær umræður, sem fram hafa farið.

Það er hins vegar vitanlegt, að sú kaupgetuminnkun, sem skipulögð hefur verið með gengislækkuninni og afnámi vísitölunnar, mun ekki haldast. Það er vitanlegt, að verkalýðurinn í landinu mun hækka sitt kaup og er þegar byrjaður á því, og það verkalýðsfélag, þar sem stjórnarliðið hefur sjálft meiri eða minni forgöngu, þannig að það er alveg greinilegt, að kaup verkamanna og launþega kemur til með að hækka. Enn fremur er annað, sem ekki er minna atriði hvað snertir kaupgetu en tímakaupið sjálft, og það er lengd vinnudagsins. Er það meining hæstv. ríkisstj., að hennar efnahagsráðstafanir eigi að miða að því að afnema eftirvinnu eða jafnvel að koma að einhverju leyti á svokölluðu hæfilegu atvinnuleysi? Ég vil minna á, að í þeim kapítalístísku löndum hér í kringum okkur, eins og Vestur-Þýskalandi og slíkum, hefur allmikið atvinnuleysi verið skilyrði fyrir því, að hægt væri að halda niðri því kaupgjaldi verkalýðsins, sem hefur skapað þann mikla gróða, sem atvinnurekendurnir hafa haft þar, og það svokallaða jafnvægi í þeim kapítalistíska þjóðarbúskap, sem þar hefur komizt á. Það er nokkurn veginn gefið, að full atvinna, styrkleikur verkalýðssamtakanna og sæmileg afkoma almennings sprengir það venjulega borgaralega bankaeftirlit, sem ríkisstj. hér virðist treysta á.

Ég held þess vegna, að það væri heilbrigt að ræða þetta atriði alveg hreinskilnislega í upphafi þessa máls, vegna þess að það er miklu verr farið en heima setið, ef farið er inn á þá stefnu, sem þetta frv. markar, undir fölskum forsendum og þannig að ríkisstj. geri sér einhverjar tálvonir eða gyllivonir, sem ekki rætist.

Þá kom hæstv. viðskmrh. að útflutningseinokuninni, og hann kvað vera nauðsynlegt að viðhalda útflutningseinokuninni til þess að hindra undirboð. Ég vil benda hæstv. ríkisstj. á, að það eru til aðrar aðferðir til þess að hindra undirboð en að viðhalda einokuninni á þennan máta. Það er t.d. hægt að setja lágmarksverð á alla vöru, sem seld er út úr landinu, setja alveg ákveðið lágmarksverð og gera síðan öllum þeim, sem út flytja, að skildu að gera upp við hver áramót, skulum við segja, allt sem þeir flytja út, og skila gjaldeyri, eða að svo miklu leyti sem þeir þá fengju að ráðstafa sínum gjaldeyri sjálfir, eins og væri það eðlilega í frjálsu, kapítalistísku skipulagi, gera upp með a.m.k. þessu lágmarksverði gagnvart ríkinu og bönkunum fyrir öll slík viðskipti, það er alveg jafnmögulegt. Við vitum, að ef við á annað borð eigum að fara inn á það að aðhyllast þá hörðu, frjálsu samkeppni, sem vissulega skapar mjög mikið aðhald að mönnum, þá er annaðhvort að duga eða drepast, og náttúrlega gildir það lögmál jafnt í sambandi við útflutninginn og innflutninginn.

Náttúrlega ýtir sú harða, frjálsa samkeppni mönnum til þess að undirbjóða ekki hver annan. En ef við af gamalli reynslu óttumst undirboðin, vegna þess að íslenzkir útflytjendur yrðu háðir útlendum hringum, — og það var þess vegna upphaflega, að farið var inn á það að setja þessa einokun á, þeir urðu of miklir leppar fyrir þá útlendu hringa, og útlendu hringarnir fengu vöruna óþarflega ódýrt, — þá er sem sé alveg hægt að koma í veg fyrir þetta með lágmarksverði, setja bara lágmarksverð, sem menn verða síðan að gera upp fyrir, og samkeppni síðan um, hver selji mest. Og ef ríkisstj. trúir virkilega á sína stefnu í þessu, ætti hún að gera slíkt. Ég held, að það sé alveg ótækt að taka upp eitt efnahagskerfi fyrir útflutninginn og annað fyrir innflutninginn. Ég er á því, að það eigi að vera sama kerfið fyrir hvort tveggja. Þjóðnýting á hvoru tveggja er sem sé það, sem ég álít að væri heppilegasta aðferðin. En þeir, sem trúa á þá frjálsu samkeppni í þessu, eiga að þora að hafa hana jafnt í útflutningnum og innflutningnum. Útflutningseinokunin er þess vegna þarna ekki rökrétt hjá hæstv. ráðherra, það er hægt að gera þetta bara með lágmarksverði. Og ég held fast við mína fyrri fullyrðingu, að útflutningseinokuninni sé við haldið til þess að skapa sérréttindi fyrir ákveðna, volduga aðila núna.

Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og aðrir hringar, Sölusamband íslenzkra fiskframleiðenda og Skreiðarsamlagið, þetta eru hringar á þessum sviðum, og meðan þeir eru sem prívatökonómískir hringar, sem einkahringar í þessu, með eins konar stuðningi ríkisvaldsins, fá að vera þarna að verki í krafti svona einokunar, þá er svo að segja ómögulegt að taka upp baráttuna gegn þeim. Til þess að taka upp baráttu gegn þeim, bjóða hærra verð en þeir, verða menn frá upphafi að geta verið frjálsir, verða menn að geta skipulagt þau hraðfrystihús, sem vilja standa saman um að berjast og selja án þess að þurfa að sækja nokkuð undir öfl hjá ríkisvaldinu, án þess að þurfa að óttast það, að ríkisvaldið standi á bak við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Og svo framarlega sem ríkisstj. trúir eins mikið á frelsið í þessu og hún segir, þá á hún að þora að gera þetta.

Þá sagði hæstv. viðskmrh., að það hefði ekki tekizt að fá samkomulag við Alþb. í vinstri stjórninni um þá stefnu, sem gerði mögulegt að afnema höftin. Hann var að verja sig gagnvart ásökunum Framsóknar í þessum efnum.

Það var að vísu aldrei stefna Alþb. að vilja sérstaklega afnema höftin, vegna þess að Alþb. vildi stefna í þá áttina að reyna að koma á meiri áætlunarbúskap á Íslandi. En hins vegar býst ég við, að það, sem hæstv. viðskmrh. meini með þessu, sé, að frá sjónarmiði Alþfl. og Framsóknar hefði þurft að nást samkomulag í vinstri stjórninni um að minnka nokkuð kaupgetuna hjá almenningi með gengislækkun, eins og bæði Alþfl. og Framsfl. lögðu hvað eftir annað til í vinstri stjórninni, og um það fékkst ekki samkomulag við Alþb., það er rétt.

Hins vegar voru náttúrlega aðrir möguleikar til, sem líka gátu komið í staðinn fyrir slíka minnkun kaupgetunnar og hefðu getað gert jafnvel afnám hafta mögulegt. Það var annars vegar minnkun kaupgetu hjá yfirstéttinni í landinu og hins vegar sparnaður hjá því opinbera og viss sparnaður í vissri fjárfestingu. Hins vegar var okkar afstaða í vinstri stjórninni, Alþb., að knýja fram framfarir og kjarabætur fyrir almenning, og það var alveg greinilegt, að slíkt var ekki mögulegt nema með því að fara miklu meira inn á heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, svo að það var ekki von, að það næðist slíkt samkomulag við okkur um að afnema þó þessi litlu höft, sem voru. Við vildum hins vegar reyna að belta þeim skynsamlegar en var. Ég á satt að segja erfitt með að skilja út af fyrir sig, að það sé takmark í sjálfu sér að afnema höftin, hvort heldur eru viðskiptahöftin eða viðskiptafrelsið. Hvort tveggja er þó ekki neitt takmark í sjálfu sér. Takmarkið í sjálfu sér hlýtur að vera velferð almennings, og það, hvort tækið, hvora aðferðina maður notar, viðskiptahöft eða viðskiptafrelsi, það hlýtur einvörðungu að fara eftir því, hvort þeirra er aðferð til þess að ná slíku takmarki.

Þá kom hæstv. viðskmrh. inn á það að svara spurningu minni um, hvort ríkisstj. hefði tekizt á hendur nokkra skuldbindingu viðvíkjandi þeim lánum, sem ríkisstj. hefði tekið nú. Og hann svaraði því, sem er vafalaust alveg rétt hjá honum, að það væri skuldbinding sú, sem Ísland gekkst undir 1948 um að gefa 80–90% af innflutningnum frjálsan, sem Ísland þá hefði gert í sambandi við Marshall-aðstoðina, sem nú er raunverulega verið að framkvæma, þessi skuldbinding sé enn á okkar herðum, við hefðum nú í 12 ár ekki farið eftir henni. Hin nýja ríkisstj. hafði þess vegna ekki undirgengizt neinar nýjar skuldbindingar, heldur ekki í sambandi við núverandi lán, hún væri raunverulega aðeins að takast það á herðar að framkvæma þá skuldbindingu, sem gerð var 1948. Og þetta ætla ég að sé alveg rétt. En það er líka allalvarlegur hlutur. M.ö.o.: sú skuldbinding, sem við undirgengumst 1948 í sambandi við stórgjafir og lán, sem þá voru veitt á vegum Marshall-stofnunarinnar, hún á nú allt í einu að fara að verða áþreifanleg, hún á nú að fara að komast til framkvæmda. Og ég er hræddur um, að þetta þýði, að fjötur, sem hefur verið tiltölulega laus á okkur þessi 12 ár, geti herzt að okkur núna. Hvað um það, ef við vildum fara að segja okkur úr OEEC nú, ef okkur líkaði ekki það, sem þar væri að gerast? Skyldi ekki vera kallað að okkur með greiðslu á ýmsu af þessu. Ég er þess vegna hræddur um, að í þessu, sem nú er verið að gera raunhæft, felist þarna nokkuð hættuleg skuldbinding.

Þá sagði hæstv. viðskmrh., að ef viðskipti sósíalistísku landanna minnkuðu vegna þessara ráðstafana, þá væri það bæði óheppilegt og skaðlegt, en bætti við: En afleiðingarnar verða ekki slíkar. Það, sem okkur, sem fylgjumst með í viðskiptalífinu og framleiðslulífinu hér í dag, virðist hins vegar einsætt, er, að afleiðingarnar séu þegar að verða slíkar, að það séu að byrja að detta niður þau viðskipti, sem hafa verið við löndin þar austur frá, og ég rakti nokkuð í minni framsöguræðu, hvað þegar hefði minnkað, og skal að lokum koma aftur inn á það til þess að minna á það. En ég verð að segja það, að mér finnst ekki nægilegt, að hæstv. ráðherrar gefi hér yfirlýsingar um, að þessi viðskipti megi ekki minnka, það sé slæmt, ef þau minnki, ef þeir svo haga sér eins og strúturinn og stinga höfðinu í sandinn, þegar þau eru að minnka, vegna þess að það hefur verið dregið úr innkaupunum þar eystra.

Hæstv. viðskmrh. kom inn á að svara minnt aths. viðvíkjandi þeim 13% , sem beinlínis væri gert ráð fyrir að viðskiptin við sósíalistískú löndin gætu minnkað um eingöngu vegna frílistans. Við höfum áður getið um, að viðskiptin við Sovétríkin ættu samkv ráðstöfunum hvað frílista snertir mjög lítið að minnka, ef aðrar orsakir kæmu ekki til, ekki nema um 1/2% miðað við 1958, en við hin sósíalistísku löndin, Tékkóslóvakíu og Austur-Þýskaland, gætu þau minnkað niður í 72% , ef ekkert af því, sem gert er nú alveg frjálst, kæmi þá þaðan. Og hæstv. viðskmrh. vildi verja þetta með því, eins og hann sagði orðrétt: „Þessi lönd geta ekki búizt við, að við getum gert meira til að vernda innflutninginn frá þeim.“ Og hann sagði beint til mín, að honum dytti ekki í hug, að stjórnarvöldin í þessum löndum ætluðust til þess, að við vernduðum meira en 87% af innflutningnum frá þeim, og vildi jafnvel gefa í skyn, að ég mundi vera þarna áhugasamari fyrir þessum innflutningi en sjálf stjórnarvöldin í þessum löndum. Í þessum orðum hæstv. viðskmrh. kemur fram reginmisskilningur, sem líka gengur í gegnum ræðu hv. 6. landsk. og kom líka fram í ræðu hæstv. forsrh. Spurningin, sem hér stendur, er alls ekki sú, hvort við séum að vernda innflutning frá þessum löndum eða hvort ríkisstjórnirnar í þessum löndum geti ekki ætlazt til þess, að það sé verndaður meiri innflutningur frá þeim en þetta og þetta. Það er alls ekki sú spurning, sem þarna liggur fyrir. Spurningin, sem liggur fyrir okkur, er sú: Hvað viljum við gera mikið að því að vernda íslenzkan útflutning? Hvað viljum við gera mikið að því að tryggja alveg íslenzkan útflutning? Ráðstafanirnar, sem við höfum verið að gera með sölu austur á bóginn, hafa verið trygging, bókstaflega hafa verið undirstaða fyrir íslenzkan útflutning, og vegna þess að við getum aðeins verzlað við þessi lönd með jafnvirðiskaupum, eru fastir samningar við þessi lönd trygging fyrir íslenzkum útflutningi. Það er þetta, sem við verðum að gera okkur ljóst. Það kemur ekkert málinu við í því sambandi t.d., hvort þessi lönd séu samkeppnishæf. Við skulum segja, að þau væru samkeppnishæf með allar þær vörur, sem við keyptum af þeim, og með miklu fleiri vörur, að þeirra iðnaðarþróun væri komin það hátt, að þau væru samkeppnishæf með þetta allt saman. Þetta eru lönd, sem haga sínu efnahagskerfi þannig, að hjá þeim eru ekki markaðsvandræði. Sjálf markaðsbaráttan, sjálft hugtakið markaður, framleiðsla fyrir markað, sem í mörg hundruð ár er búið að vera einkennandi í því hagkerfl, sem við miðum við, það er ekki til hjá þeim. Það, sem þessi lönd eru að skapa, er framleiðsla, sem sé samkv. ákveðinni áætlun, þar sem markaður og framleiðsla fyrir markað er smátt og smátt að hverfa úr sögunni. Á meðan sá kapítalistíski heimur enn þá er til og viðskipti þess sósíalistíska hluta heimsins við hann haldast, þá verður það hvað snertir viðskiptin við þann kapítalistíska markað, en hugtakið „framleiðsla fyrir markað“ sem slíkt, með allri þeirri óvissu, sem það þýðir, hverfur smátt og smátt úr sögunni. Þarna verður ekki, þegar fram í sækir, um annað að ræða en ákveðna, skipulagða, fyrir fram áætlaða framleiðslu, þar sem markaðsvandræði, kreppur og annað slíkt, sem af því leiðir, geta aldrei skapazt og geta aldrei orðið til. Þess vegna verðum við að gera okkur ljóst, að það, sem við höfum verið að gera með því að reyna að afla okkur viðskipta við þessi lönd, hefur verið að reyna að tryggja svo og svo mikinn hluta af okkar útflutningi, með því að gera hann óháðan markaði og óháðan markaðssveiflum, óháðan kreppum, með því að losa hann út úr markaðskerfi kapítalismans, og tryggja þennan útflutning okkar með beinum, stórum fyrirframsamningum, helzt til margra ára, við þann sósíalistíska heimsmarkað. Og meðan stjórnarvöldin skilja ekki þessa aðstöðu, geta þau í sínu skilningsleysi gloprað út úr höndunum á okkur þessum viðskiptum. Haldið þið t.d., að Sovétríkin væru ekki samkeppnisfær með olíu og gætu ekki, ef þau vildu, keppt við okkur á frjálsum grundvelli, keppt við hringana í heiminum, ef þeim byði svo við að horfa? En það, sem við höfum áhuga á, er að tryggja okkar eigin útflutning með því að gera þannig viðskiptasamninga, helzt til margra ára, að við seljum okkar fisk og fáum m.a. olíu í staðinn. Hefðum við hagsmuni af því að segja á morgun við Sovétríkin: Seljið þið olíu hingað til Íslands eins og þið viljið, við skulum reyna að selja hjá ykkur fisk, — og láta svo slag standa um, hvað við getum selt og hvað við getum keypt? Okkar hagsmunir eru að gera fyrirframsamninga í stórum stíl, í sem allra stærstum stíl, vegna þess að við erum yfirleitt alltaf í vandræðum með markaði, og því meiri markaði sem við höfum, því meira getum við eflt okkar flota, aukið okkar fiskveiðar og framleitt og þar með aukið velgengni okkar þjóðar. Þess vegna má hæstv. ríkisstj. ekki gera þá kórvillu í sínum hugsanagangi að leggja þetta tvennt að jöfnu, segja bara: Já, þeir þarna austur frá, þeir eiga að taka upp þann hátt að keppa hér á Íslandi, rétt eins og hringarnir gera í Englandi eða Þýzkalandi. — Þá er ríkisstj. að gera sig seka um kórvillu í þessum efnum. Þvert á móti, hún á að gera allt annað. Hún á að segja við stjórnirnar í hinum sósíalistísku löndum: Ég vil semja við ykkur til eins árs, til þriggja ára, til fimm ára, um eins mikið og þið getið keypt af okkar fiski, og ég skal finna út þær vörur, sem við viljum gjarnan kaupa af ykkur í staðinn. Og við skulum semja um þetta alveg fast og tryggja okkur þannig. Og þegar við erum búnir að tryggja okkur þannig, þá sláumst við síðan á þeim kapítalistíska heimsmarkaði, eins og okkur er mögulegt, til þess að ryðja okkar vörum þar braut. Þá stöndum við þannig að vígi á Íslandi, að t.d. af 75 þús. tonna framleiðslu á freðfiski erum við búnir að tryggja okkur með 50 þús. og eigum aðeins 25 þús. á hættu. Haldið þið, að það væri gaman fyrir okkur á morgun að eiga að slást með 75 þús. tonn, að selja það? Væri í raun og veru nokkur stjórnandi á Íslandi svo vitlaus, að honum dytti í hug í dag að vilja sleppa þeim fyrirframsamningum, sem við höfum? En þessir fyrirframsamningar eru sérstaks eðlis. Þeir eru fyrirframsamningar við lönd, sem eru ekki rekin á grundvelli þeirrar frjálsu samkeppni, heldur á grundvelli allt annars fyrirkomulags, á grundvelli sósíalismans, sem smám saman er að útrýma vörumarkaðinum sem fyrirkomulagi og kerfi hjá sér og gera öll viðskipti háð áætlunum, sem að vissu leyti koma fram gagnvart okkur sem fyrirframsamningar. Þess vegna þarf hæstv. ríkisstj. að gera sér það alveg ljóst, að það er enginn að biðja hana um að vernda neinn innflutning frá Sovétríkjunum eða þessum ríkjum. Það er aðeins verið að biðja hana um að vernda íslenzkan útflutning, og hún er að neita að gera það. Hún er að minnka verndunina á íslenzkum útflutningi. Hún er að draga úr því, sem við getum selt til þessara landa. Hví að draga þarna úr um 13%? Hví ekki að selja þessi 13% líka með fyrirframsamningum og reyna svo þar að auki að selja meira?

Þetta þarf að reyna að fá inn í heila hæstv. ríkisstj., því að ef hún skilur þetta ekki, gloprar hún þessum viðskiptum út úr höndunum á sér. Þá kemur hún til með að koma hér til okkar á eftir, þegar hún er búin að glata þessum viðskiptum, og segja: Nú, þeir voru ekkert að keppa þarna austur frá, — verða kannske aldeilis hissa á því, að þeir skuli ekki vera að slást um hitt og þetta. Ég veit ósköp vel, að það er alveg rétt, sem hæstv. viðskmrh. segir, að þeir verzlunarerindrekar, sem hér eru fyrir þessi ríki, hafa vafalaust áhuga á að selja hér. Það er þeirra starf, þeir eiga að gera það. En bara á sama tíma, einmitt með þá vöru, sem er samkeppnisfærust og þess vegna kannske mest eftirsótt, þá eru allt annars staðar í heiminum menn, sem segja við Sovétríkin eða Austur-Þýzkaland eða Tékkóslóvakíu: Heyrið þið, viljið þið ekki selja mér ritvélarnar ykkar eða reiknivélarnar ykkar, helzt tveggja ára framleiðslu fyrir fram. — Og viðskiptaráðunautar Sovétríkjanna eða Austur-Þýzkalands eða Tékkóslóvakíu hér eiga þá til með að koma eftir nokkra daga til viðskiptamannanna hérna, sem hafa verið að spyrja þá um hitt og þetta, og segja: Því miður er það komið svoleiðis, að við erum búnir að selja alla framleiðsluna. — Ég veit, að hvað eftir annað á markaðinum í Leipzig hefur það verið svoleiðis, að það hafa verið gerðir samningar jafnvel fyrir alla framleiðsluna í einstökum greinum fyrir eitt og tvö ár fram í tímann, og við höfum svo ekki getað fengið vöru, sem okkur hefur langað í, af því að við höfum ekki passað upp á að gera þessa samninga eitt til tvö ár fram í tímann. Það er þetta, sem þarf að komast inn í heilann á hæstv. ríkisstj., að það er ekki þarna um venjulega samkeppnisaðstöðu að ræða. Það er um skipulagningu á framleiðslu að ræða. Þessi ríki ráðstafa sinni framleiðslu fram í tímann, og jafnvel það, sem við mundum sækjast mest eftir að fá frá þeim, ættum við á hættu, ef við ekki pössuðum okkur í tíma, að vera búnir að missa út úr höndunum á okkur. Og missum við það út úr höndunum á okkur, þá erum við að missa markaði fyrir íslenzkar útflutningsafurðir um leið.

Mér fannst hæstv. viðskmrh. vera hálfgerður fangi þessara samkeppnishugmynda. Við verðum að setja okkur inn í, að það eru tvenns konar heimskerfi, sem við stöndum frammi fyrir, og ef við einblínum bara á annað og látum hugsunarhátt þess móta okkur, þá fer illa fyrir okkur. Við verðum að geta lagað okkur að því að skipuleggja okkar framleiðslu og okkar sölu hvað snertir þau sósíalistísku ríki og berjast á grundvelli frjálsrar samkeppni með allri þeirri harðvítugu skipulagningu, sem slík samkeppni heimtar, á mörkuðum þess svokallaða frjálsa kapítalisma. Ég verð að vekja athygli á því, að jafnvel þótt einstakir verzlunarráðunautar í sendiráðum, eins og hæstv. viðskmrh. kom inn á, þessara sósíalistísku ríkja hafi áhuga á að vinna að útbreiðslu ýmissa vörutegunda þar, þá ræður það ekki viðskiptapólitík þessara ríkja. Sjálf þessi sósíalistísku ríki hafa áhuga á viðskiptunum við Ísland, að svo miklu leyti sem þetta eru jafnvirðisviðskipti, þau kaupa af okkur jafnmikið og við kaupum af þeim, og á meðan við þess vegna getum aukið okkar viðskipti við þau, þá getum við um leið aukið okkar sölu til þeirra. Þetta verður að haldast í hendur. Það þýðir, að við þurfum að skipuleggja þetta. Við skulum ekki láta okkur detta það í hug, að við ætlum að fara að kenna sósíalistísku stjórnunum í þessum löndum samkeppniskerfið. Þær hafa sitt kerfi og þær halda því áfram, og við verðum, ef við ætlum að halda þessum viðskiptum, annars vegar að laga okkur að þeirra kerfi með þessum stóru fyrirframsamningum, eins og við hins vegar, þegar við viljum halda okkar viðskiptum við þann kapítalistíska heim, verðum við að laga okkur að þeirra kerfi þar. Við verðum að geta vegið þannig með báðum höndum.

Svo kom hæstv viðskmrh. inn á eitt atriði, sem ég minntist á, og svaraði því alveg nákvæmlega. Það var viðvíkjandi þeim 500 bílum. Hann upplýsti, að samið væri um 500 bíla í rammasamningum við Sovétríkin, hins vegar hefðu verið gerðir kaupsamningar um 250 bila og við þá kaupsamninga yrði auðvitað staðið. Hvað hitt snertir, þá er auðséð, eins og ég held að hæstv. viðskmrh. hafi gefið í skyn, að við verðum að bíða og sjá, hvernig viðskiptin halda áfram. Mér skildist það eiginlega vera hans viðhorf viðvíkjandi hinum. Nú vil ég spyrja: Er það ekki svo viðvíkjandi þessum 250 bílum, sem þegar hafa verið keyptir, að það gengur erfiðlega með sölu á þeim, alveg eins og er með jeppana, sem ég var að minna hv. 6. landsk. á, eftir að jeppanefndin var lögð niður og frelsið kom, að jeppainnflutningurinn mundi að öllum líkindum detta úr 300 umsóknum niður í 10 raunverulega selda jeppa, þegar viðreisnin á efnahag almennings færi að láta til sín taka hjá þeim, sem kaupa vildu jeppa? Mér sýnist m.ö.o., eftir því sem hæstv. viðskmrh. upplýsti, að þó að íslenzka ríkið nú kaupi 250 bíla, þá muni ekki vera einu sinni öruggt með söluna hér innanlands á þeim, og í öðru lagi muni ríkisstj. í dag engan veginn vera örugg um, að það verði gerður kaupsamningur um hina 250 bilana, sem gert var ráð fyrir í rammasamningnum. M.ö.o.: rammasamningurinn var samningur, sem gerði ráð fyrir, að hve miklu leyti Ísland gæti flutt út til Sovétríkjanna. Kynni að fara svo, að það minnkaði um 250 eða um helming bílanna, sem hér yrðu fluttir inn, þýðir það þá ekki um leið, að það komi til með að minnka fiskurinn, sem við seljum til Sovétríkjanna? Hins vegar það, sem hæstv. viðskmrh. svaraði ekki viðvíkjandi viðskiptunum við Sovétríkin, var í fyrsta lagi: Minnkar ekki innflutningurinn til Íslands vegna minnkaðrar fjárfestingar á Íslandi og þar að auki minnkaðrar eftirspurnar, t.d. á járni, stáli og öðru slíku? Í öðru lagi: Minnkar ekki innflutningurinn frá Sovétríkjunum vegna minnkaðrar neyzlu, sem ríkisstj. gengur út frá að skipuleggja? Það var meiningin að minnka innflutninginn til Íslands um a.m.k. 200 millj. kr., ef ég man rétt, eftir gamla genginu, og að einhverju leyti mundi það koma niður á þessum vörum. Hvorugu þessu svaraði hæstv. viðskmrh. En ef það reyndist svo, að það minnkaði innflutningur á vörum, bæði neyzluvörum og fjárfestingarvörum, frá Sovétríkjunum og öðrum sósíalistískum ríkjum, þá kemur það til með að þýða um leið, að það minnkar útflutningurinn á íslenzkum fiskafurðum til þeirra landa, vegna þess að allt byggist þetta á jafnvirðiskaupaprinsipinu.

Þá kom hæstv. viðskmrh. heldur ekki inn á að svara þeirri spurningu, sem ég beindi til hans viðvíkjandi Matborg, framleiðslunni á sjólaxi, sem framleiddur hefur verið í verksmiðju hér í Reykjavík og seldur til Tékkóslóvakíu á undanförnum árum, þar sem verið hefur öruggur markaður, en virðist vera alveg stöðvað núna og hér liggja birgðir upp á 21/2 millj. kr., og verksmiðjueigendurnir eru í vandræðum, vegna þess að það hefur dregið svo mikið úr innkaupunum frá Tékkóslóvakíu, að Tékkarnir virðast vera að kippa að sér hendinni um kaup á þessu. Er þetta ekki eitt af því, sem er að koma fram sem dæmi einmitt um það, að austurviðskiptin eru að minnka vegna þessara ráðstafana, sem nú hafa verið gerðar? Og það kom einmitt fram í Alþýðublaðinu, í hans eigin blaði, í viðtali við Sturlaug Böðvarsson á Akranesi, að hann sagði beinlínis frá því, eins og hv. 4. þm. Austf. minnti á í sinni ræðu í dag, að það hefði af hálfu kaupmanna verið dregið úr innkaupum frá Tékkóslóvakíu og Austur-Þýzkalandi vegna umtalsins um frílistann.

Í því sambandi vil ég líka minna hæstv. viðskmrh. á, að hann svaraði ekki heldur minni spurningu viðvíkjandi vorsíldinni núna, þeirri miklu vorsíld, sem hér er fyrir utan, og hvað ríkisstj. hyggist gera í sambandi við hana og möguleikana á að hagnýta hana. Hingað til hefur það verið svo, að menn hafa reynt að selja þessa vorsíld fyrir fram, og hún er einvörðungu seljanleg fyrir fram til þessara sósíalistísku landa, svo framarlega sem jafnmikil kaup eru gerð um leið á vörum þaðan. Um þetta er ekki hugsað nú. Ég get að vísu trúað því, að einhverjir áhugasamir útvegsmenn leggi máske í það að reyna að veiða þessa síld og salta hana eða frysta eða eitthvað slíkt, upp á von og óvon, en ólíkt meira yrði að slíku gert, svo framarlega sem búið væri að selja fyrir fram. Og af því að ég hef sjálfur einmitt upplifað það og séð, hvað það þýðir, þegar ráðleggingar manns um stóra fyrirframsamninga einmitt í síld eru ekki teknar til greina, þá finnst mér ákaflega hart að horfa upp á það nú, að það skuli ekki vera skeytt um, hvað þarna eigi að gerast, það sé sem sé látið undir höfuð leggjast að reyna að tryggja þessa markaði. Hins vegar verða þessir markaðir ekki tryggðir nema með afskiptum ríkisstj., skipulagningu ríkisstj.

Þá talaði hæstv. forsrh. hér í dag og lýsti því yfir, sem einhvern tíma hefði þótt merkilegt, að hæstv. viðskmrh. hefði gert málstað hæstv. forsrh. svo góð skil, að hann þyrfti þar engu við að bæta. Það gerist nú margt á langri ævi, og fátt sýnir betur samruna þessara tveggja flokka en þessi mikla ánægja hæstv. forsrh. með málsvörn hæstv. viðskmrh. í þessum málum.

Hæstv. forsrh. sagði, eins og hæstv. viðskmrh. hafði sagt, að óttinn um austrænu viðskiptin væri alveg ástæðulaus, en færði hins vegar engin rök fram fyrir því. Mér virtist satt að segja, að ræða hæstv. forsrh. ætti aðeins að vera eitt, hún ætti aðeins að vera undirstrikun af hálfu ríkisstj. á því, að ríkisstj. vildi ekki, það væri ekki hennar vilji, að þessi viðskipti brotnuðu niður. En hæstv. forsrh. sagði í því sambandi eitt, eina setningu, sem er rétt að vekja athygli á. Hann sagði, að ef þessi viðskipti minnkuðu, þá væri það af einhverjum annarlegum ástæðum. Og það er vert að vekja athygli á þessu. Það er slæmt, að hæstv. forsrh. skuli ekki vera hér, en ég get ekki verið að draga það að svara honum, þó að hann sé ekki við.

Ég vil taka greinilega fram, að það er ekki til neins fyrir hæstv. ríkisstj. að ætla eftir á, ef hún með vítaverðu gáleysi, svo að ekki sé verra sagt, — ekki með ásetningi, — brýtur niður þessi viðskipti, að kenna neinum annarlegum ástæðum þar um. Það er bezt fyrir hana að taka tillit til þeirra aðvarana, sem hér og nú koma þegar fram, og þeirra ábendinga, sem hér hafa verið gerðar, og þeirra tilhneiginga, sem þegar koma fram í okkar viðskiptalífi, áður en þetta frv. nær fram að ganga.

Hæstv. forsrh. endurtók alveg sömu rakaleysuna og hæstv. viðskmrh. var með. Hann sagði, að það væri vantrú á samkeppnishæfni sósíalistísku landanna, ef það væri ekki óhætt að gefa svo og svo mikið frjálst til þeirra. Þessu átti auðsjáanlega að vera beint til mín, hvort ég hefði einhverja vantrú á þessum löndum, og ef ég segði honum, að ég hefði trú á samkeppnishæfni þeirra, mundi hann líklega á morgun setja allt á frílista, — væri það ekki það eina rökrétta af honum? — setja allt á frílista. Og það einasta, sem þá vantaði, það væri, hvort sósíalistísku löndin hefðu nokkurn sérstakan áhuga á að vera að keppa hér á Íslandi, hvort t.d. Norðmenn byðu þeim ekki að gera stóra fyrirframsamninga um sölu á síld, eða jafnvel einhverjar aðrar þjóðir, og kaupa svo og svo mikið í staðinn. Þetta gera allar þessar þjóðir. Við skulum þess vegna gá að því, af því að það hefur komið einu sinni fyrir áður, að þessi viðskipti hafa verið brotin niður af íslenzkri ríkisstj., að það fari ekki eins nú.

Hæstv. forsrh, sagði, að Íslendingar vildu halda þessum viðskiptum. En það er ekki nóg að segja svona. Menn verða líka að gera það. Ég get vitnað hér í, ef ég færi að lengja hér mál mitt, ótal yfirlýsingar frá forustumönnum OEEC og öðrum slíkum um andúðina á þessum viðskiptum, yfirlýsingar einmitt í sambandi við Marshall-samninginn um, hvernig beinlínis þyrfti að brjóta niður þessi viðskipti, hvernig einn aðaltilgangur Marshall-aðstoðarinnar væri sá að eyðileggja þessi viðskipti. Ég vil þess vegna segja við hæstv. forsrh.: Það er ekki til neins að vera með svona yfirlýsingar. Það eina, sem verður nokkurs metið í þessum efnum, er verknaðurinn. Og verknaðinn er ríkisstj. þegar búin að sýna og það er þegar búið af hálfu Sambands ísl. samvinnnufélaga og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna að gera aths. við frílista ríkisstj. um, að miðað við 1958 séu viðskiptin við þessi lönd minnkuð um 55 millj. eða 13%, þannig að það, sem liggur fyrir þegar, er vilji ríkisstj. að fara að minnka þessi viðskipti, og eina vörnin, sem hæstv. ráðh. hafa hér fram að færa, er, að þessi lönd eigi að vera samkeppnishæf. Út frá því sjónarmiði væri hægt að minnka það eins um 50% . Það væri hægt að setja alla olíuna á frílista. Líklega efast ekki hæstv. ríkisstj. um, að Sovétríkin séu samkeppnisfær í henni. Þess vegna er þarna um hættulega hluti að ræða. Það er að ræða um það kerfi, sem ríkisstj. er að taka upp, að byrja að brjóta þessi viðskipti niður, og það er ekki til neins fyrir hana að reyna að fela sig á bak við neinn þar. Og af því að ég veit, að það er hjá ýmsum mönnum í ríkisstj. enn þá góður vilji í þessu, ber þeim ráðh., sem hafa einhvern góðan vilja í þessum efnum, að ræða þessi mál af fullri alvöru, og það gildir alveg sérstaklega um hæstv. forsrh., sem nú er ekki við og ætti þá a.m.k. við 3. umr. þessa máls að sýna sig hér og taka þátt í umr. Hins vegar hefur hæstv. viðskmrh. gert það, en hann reynir að koma sér hjá því að svara sumu af því, sem nauðsynlegt er að ræða í þessum efnum.

Hv. 4. þm. Austf. hélt hér mjög eftirtektarverða ræðu í dag, þar sem hann jafnframt beinlínis sýndi fram á, að lærifaðir hæstv. ríkisstj., þessi legáti frá Efnahagsstofnuninni í París, sem var pantaður hingað í haust og átti víst að setja einhvern vísindablæ á þetta hrófatildur, sem nú er verið að hrófa hér upp, hann tók sérstaklega fram í sinni ræðu, að hann harmaði, hvað við hefðum mikil viðskipti austur á bóginn. Hann var ekki að lýsa ánægju sinni yfir því, maðurinn, að fátæk fiskimannaþjóð hefði getað tryggt sér viðskipti, að hún hefði getað aukið viðskipti, að við hefðum getað á 6 árum þrefaldað okkar framleiðslu á hraðfrystum fiski, úr 25 þús. tonnum upp í 75 þús. tonn, í krafti þessara viðskipta, á sama tíma sem öll freðfiskframleiðsla Noregs er 20 þús. tonn. Hann var ekki að lýsa ánægju sinni yfir því, hvað okkur hafi tekizt þetta vel. Nei, hann var að harma þessi viðskipti.

Og þar talar hann frá hjartanu. Þessir herrar í París hatast við þessi viðskipti. Þeir vilja þau feig, af því að þessir menn og auðhringarnir í Vestur-Evrópu eru af pólitískum ástæðum að reyna að draga Ísland algerlega inn í sinn áhrifahring, þó að það kunni að kosta fyrir Ísland hrun á sjávarútveginum, hrun á fiskvinnslustöðvunum. Þeir eru ekki að skeyta um slíkt. Þeim er sama. Þeir mundu kannske tala um, ef mikið væri í húfi, hvort þeir ættu að reyna að fara að koma upp þungavatnsframleiðslu eða einhverju slíku hérna, e.t.v. að bjóða að bjarga okkur, þegar atvinnuleysið væri komið, með einhverri alúminíumverksmiðju eða einhverju þess háttar, með því að við gengjum alveg í greiparnar á þeim.

Við skulum gera okkur ljóst, hvað þarna býr á bak við. Okkar framfarir, okkar stórkostlega aukning á útflutningnum og ekki sízt á freðfiskinum hefur byggzt á viðskiptunum við sósíalistísku löndin. Og voru það kannske þessir vondu kommúnistar, sem juku þetta svona stórkostlega, — eða jafnvel kratarnir, svo að farið sé að gruna þá um eitthvað ljótt í sósíalistískum efnum? Ónei. Það var eitthvað illt að vísu. Það var Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksstjórnin 1952, sem fór til Sovétríkjanna og bað þau um að gera stór viðskipti í freðfiski. Af hverju? Af því að England, bandamaðurinn England, okkar viðskiptavinur í OEEC, sem hefur heitið því með samningi að hafa efnahagslega samvinnu við okkur, það setti bann á fiskinn hjá okkur. M.ö.o.: sjálfir aðalborgaraflokkarnir á Íslandi hafa til þess að bjarga sér undan hrammi brezka ljónsins, brezku auðhringanna leitað til sósíalistísku landanna til þess að stórauka kaup þeirra frá Íslandi og forða okkur undan árásum og lífskjaraskerðingu og banni þessara efnahagssamvinnuþjóða, sem standa með okkur í OEEC.

Þá ræddi hv. 6. landsk. þm„ frsm. meiri hl. fjhn., hér nokkuð um ýmis atriði í minni ræðu. Hann sagði í fyrsta lagi, að ég hefði sagt eða meint, að haftabúskapurinn hefði skapað hin góðu lífskjör. Að vísu verð ég að biðja hann afsökunar á, að ég hef náttúrlega ekki alltaf getað skrifað orðrétt upp það, sem hann sagði, en ég held, að hann hafi gert mér það orðalag upp, að ég héldi, að haftabúskapurinn hefði skapað þetta. Það er ekki rétt, og ef ég hef með mínum ummælum gefið honum þá hugmynd, hefur mér tekizt klaufalega. Það, sem hefur skapað þau sæmilegu lífskjör, sem íslenzkur verkalýður hefur búið við á síðustu 20 árum, er ekki haftabúskapurinn, heldur barátta verkalýðshreyfingarinnar. Það er barátta verkalýðshreyfingarinnar, mjög harðvítug barátta hennar á þessum tíma, sem hefur skapað þessi tiltölulega sæmilegu lífskjör, sem eru frábrugðin því, sem var fyrir stríð. Við vitum allir, að það var meining aðalborgaraflokkanna hér í landinu, að alþýða Íslands ætti að búa við sömu kjör eftir stríðið og hún hafði búið við áður. Þess vegna voru gerðardómslögin sett á sínum tíma. En okkur tókst að brjóta þau á bak aftur 1942 og hækka kaupið og halda því á árunum á eftir og bæta við, og lífskjörin urðu með þeirri stökkbreytingu það góð, að þau hafa ekki síðan verið betri og vart lafað í því. Hins vegar er gefið, að allan þennan tíma hefðu þessi lífskjör ekki getað haldizt án þessa haftabúskapar, hefði hér verið frjáls verzlun þennan tíma allan, hefði verið hér atvinnuleysi, þannig að hér hefði verið svipuð fátækt og var fyrir stríð. Það er alveg gefið, að án þeirra ráðstafana, sem verkalýðurinn sumpart gat gert með nýsköpuninni, og þar var skilyrði, að svokölluðum höftum væri beitt á jákvæðan hátt, með eftirliti og stjórn á innflutningi, og hins vegar með viðskiptunum við sósíalistísku löndin, — án þessara tveggja ráðstafana hefði ekki haldizt full atvinna á Íslandi mestallan þennan tíma, að undanteknum árunum 1950 –1952, og án þessarar miklu atvinnu hefðu ekki heldur lífskjörin getað verið eins góð og kaup verkalýðsins haldizt eins hátt og það var. M.ö.o.: það var óhjákvæmilegt vegna þeirrar faglegu og pólitísku baráttu, sem verkalýðurinn háði, að hafa hér haftabúskap. Hins vegar var þessum höftum mestallan þennan tíma beitt fyrst og fremst af Framsfl. og Sjálfstfl. Það eru þessir tveir flokkar, sem hafa verið valdamestu flokkarnir allan þennan tíma og hafa ráðið því, hvernig þessum höftum hefur verið beitt, og jafnvel um langt skeið ráðið því svo algerlega einir, að þeir gerðu sérstakar ráðstafanir til þess í 6–7 ár, að engir aðrir gætu fylgzt með því, hvernig þeir beittu þessum höftum, hið svokallaða tímabil hinna alræmdu helmingaskipta.

Það er á vissan hátt rétt hjá hv. 6. landsk. þm., að lífskjörin hafa verið góð þennan tíma, þrátt fyrir þau höft, sem Framsókn og Sjálfstfl. hafa beitt, þrátt fyrir það að ekki hafi tekizt nema um stutt skeið að umhverfa þessum höftum í t.d. þau jákvæðu, skapandi afskipti hins opinbera af fjárfestingunni á Íslandi, sem gert var á nýsköpunartímanum. Við urðum t.d. um tíma, Sósfl., að berjast mjög harðvituglega á móti þessum höftum Sjálfstfl. og Framsóknar. Það var á þeim tíma, þegar þessir flokkar innleiddu það á Íslandi, sem aldrei hafði tíðkazt áður, að menn máttu ekki byggja hús á Íslandi nema sækja um leyfi til Reykjavíkur, og þá upplýstist það, þegar ég var hér m.a. í fjhn, eins og oftar að berjast fyrir því, að menn fengju frelsi til þess að byggja sín íbúðarhús, að það lá hvorki meira né minna við — það var 1952 — en að sjálf efnahagsstjórnin í Washington mundi jafnvel hætta aðstoðinni við okkur, beita sérstökum ráðstöfunum í sambandi við jafnvirðissjóð, svo framarlega sem Nd. dirfðist að samþykkja þá till., sem ég hafði í góðri trú fengið sjálfstæðisþm. í fjhn. með á, nefnilega um að gera íbúðarhúsabyggingar frjálsar. Það var Benjamín Eiríksson, þáverandi eftirlitsmaður Ameríkumanna með þjóðarbúskap Íslendinga, sem upplýsti þetta, og ég upplýsti það síðan í mínu nál. og var þetta lengi á árunum á eftir notað sem dæmi um, hve náin afskipti rentukammersins í Washington voru af efnahagsmálum okkar Íslendinga. Þrátt fyrir þessi höft Sjálfstfl. og Framsóknar gátum við gert hitt og þetta á þessum tíma, þó að við yrðum stundum að berjast á móti þessum höftum, þegar okkur fannst þau ganga svo langt, að það var þjarmað meira að Íslendingum en danska einokunarverzlunin hafði gert nokkurn tíma á öllum þeim öldum, sem hún réð yfir okkur, því að hún bannaði okkur þó aldrei beinlínis að byggja, þó að hún léti okkur kannske fá fúinn við og annað slíkt.

Ef við viljum vera alveg sanngjarnir viðvíkjandi þessum höftum, sem vissulega hafa orðið illræmd, þá hafa þau verið og voru í upphafi viðleitni fátæks borgaralegs þjóðfélags á Íslandi til að bjarga sér út úr þeirri kreppu, sem kapítalisminn hafði leitt yfir það. Og þau voru jafnt innleidd á þeim tíma sem slík haltrandi björgunarviðleitni af Sjálfstfl. hvað útflutning snerti og Framsfl. hvað innflutning snerti, og lengst af skiptu þeir því bróðurlega á milli sín að stjórna þessu og jafnvel að úthluta til sinna gæðinga í helmingaskiptum bæði innflutnings- og útflutningsleyfum eins og lánum úr bönkunum. Þótt ég hafi lent í því að verða að neyðast til þess að verja ýmislegt af þessum höftum, þá er það ekki vegna þess, að ég sé með þeim, heldur vegna hins, að mér er ljóst, að það, sem nú á að taka við, er helmingi verra. Ég hef allan þennan tíma gagnrýnt þessi höft, gagnrýnt spillinguna, sem hefur verið í sambandi við þau, gagnrýnt skammsýnina og þröngsýnina í sambandi við beitingu þeirra. En ég hef reynt að láta beita þeim þannig, að það mætti að einhverju leyti verða íslenzku þjóðinni til góðs, sem sé að umskapa þau í áætlunarbúskap, og er hann þó jafnframandi höftunum og þeirri frjálsu samkeppni.

Hv. 6. landsk. sagði, að það hefði verið lánsbúskapur, sem hefði haldið okkur uppi. Það er ekki rétt, við höfum ekki lifað af lánum. Hitt er annað mál, að við höfum tekið lán til framkvæmda. Það út af fyrir sig er ekki það sama og lifa á þeim. Það, sem hefur aftur á móti verið óskynsamlegt hjá okkur í sambandi við slík lán, það er, hvernig við höfum varið þeim, og það stafar aftur af því, að við höfum ekki haft hjá okkur áætlunarbúskap, þannig að við ráðstöfuðum þessum lánum til þeirra hluta, sem nauðsynlegastir væru fyrir okkar þjóðarbú. Það hef ég hins vegar rakið svo ýtarlega, að ég þarf ekki að gera það nánar.

Þá sagði hv. 6. landsk. í öðru lagi, að ég hefði verið að segja, að prívatkapítalisminn væri dauður hér á Íslandi, og vildi mótmæla því. Ég held, að ég hafi ekki sagt, að hann væri dauður, — ég veit að vísu, að hann mun deyja, en ég held, að ég hafi ekki sagt það, ég held, að ég hafi sagt, að hann hafi orðið að starfa hér í banni laganna, og það hef ég sagt hér oft og það hafa jafnvel aðalfulltrúar prívatkapítalismans eða einkaauðvaldsins nokkurn veginn gengið inn á, að í skjóli gjaldeyrissvika og skattsvika hafi einkaauðvaldið myndazt á Íslandi. Það kunna að vera þar örfáar heiðarlegar undantekningar, sem sanna regluna, en í aðalatriðum býst ég við, að við séum nokkurn veginn sammála um þetta, menn hafi orðið að starfa í þessu banni og einmitt þetta bann sé meiningin nú að brjóta með því skattfrelsi og með því gjaldeyrisfrelsi, sem verið sé að koma á; þannig að héðan í frá skuli prívatkapítalisminn á Íslandi geta starfað alveg löglega, og veit ég þó ekki, hvort megi treysta því fyllilega, að héðan í frá muni íslenzkir kapítalistar aldrei svíkja skatt. En betur væri, að rétt væri. Hins vegar kann að vera, að ég hafi sagt annað í sambandi við mínar hugleiðingar um prívatkapítalismann, og það er, að hann mundi ekki eiga langt eftir, ef hann legði í þessa frjálsu samkeppni sína, eða væri sem sé sama sem dauður. Ég hef nefnilega stundum borið dálitla umhyggju fyrir prívatkapítalismanum á Íslandi, þótt undarlegt megi virðast, vegna þess að hann hefur lengst af verið svo aumur síðustu 30 árin, að hann hefur varla getað séð fyrir sér sjálfur. Ég held satt að segja, að við höfum að sumu leyti orðið að endurreisa hann hér 1944, því að þau ár voru sjálfir prívatkapítalistarnir orðnir svo vantrúaðir á sjávarútveg og togaraútgerð, að þegar við í nýbyggingarráði fórum að tala við þá um að kaupa nú togara og gera út, þá svöruðu þeir okkur með því, að í fyrsta lagi vildu þeir alls ekki kaupa togara fyrst um sinn, það dytti þeim ekki í hug fyrr en eftir hálft annað ár, og í öðru lagi vildu þeir ekki líta við öðru en kolatogurum. Og þeir voru svo vonlaust komnir aftur úr öllu og svo vantrúaðir á sinn eigin kapítalisma, að það var alveg ótrúlegt, þegar maður miðar við þær framfarir, sem þeim hefur verið draslað út í síðan, hvað svartnættið í þeirra huga og heila var mikið þá. Ég hef þess vegna alltaf þá hugmynd, að okkar veika einkaauðvald hér á Íslandi, 650 milljónamæringa, að það mundi drepast í samkeppninni við þá útlendu auðhringa, strax og því væri hætt út í ólgusjó prívatkapítalismans hér í kringum okkur. Ég hef nefnilega orðið var við þá hugmynd hjá helztu forsvarsmönnum prívatkapítalismans hér á Alþingi, bæði í hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðinu, að þeir halda, að heimurinn í kringum okkur, Vestur-Þýzkaland, Bretland, sé eins og hann var fyrir 50–60 árum, það séu ósköp litlir karlar hver með sína verksmiðju að dunda þar við að framleiða eitthvað og hver sé að keppa við hinn og þess vegna geti okkar íslenzku kapítalistar ósköp vel farið að taka upp samkeppni um að selja alla mögulega hluti, sem við framleiddum hér, til Bretlands eða Vestur-Þýzkalands. Það er nú eitthvað annað. Þessir kapítalistar, sem eru á borð við okkar íslenzku kapítalista hér heima, eru löngu dauðir í öllum þessum löndum. Mér er sem ég sjái Ragnar okkar í Smára eða þá í sápuframleiðslunni hér heima eiga að fara að keppa við Unilever úti í Bretlandi, við Bláa bandið eða eitthvað slíkt.

Ég hef ofur litla hugmynd um aðfarir þessara hringa við að keppa. Ég hef sjálfur átt þátt í því að reyna að fá allt íslenzka ríkið í baráttu við þá, og ég hef lýst því hér og skal ekki gera aftur, eins og þegar við keyptum inn vélarnar til þess að koma hér upp lýsisherzluverksmiðju, hvernig þetta fór. Það, sem drottnar í Vestur-Þýzkalandi, Englandi, Frakklandi, Hollandi, Belgíu og þessum löndum, eru voldugir auðhringar, risar, þar sem þessir litlu íslenzku kapítalistar eru eins og peð. Þeim finnst þeir vera voðastórir hérna, ef þeir eru milljónamæringar, jafnvel þótt þeir skuldi kannske meginið af milljónunum og séu í vandræðum með að borga út á föstudögum. En ef þessir veslings íslenzku kapítalistar okkar hér eiga svo að fara að slást þarna úti, þá eru þeir troðnir undir þegar í stað. Ég hef horft á þá troðna undir. Ég hef vitað þessa íslenzku kapítalista okkar gera samninga við útlend auðfélög, sem við höfum orðið að rifta, sem íslenzka ríkið og þess „organisasjónir“ hafa orðið að eyðileggja, af því að þeir voru búnir að selja þannig íslenzkar afurðir, að það var ekki hægt að framleiða þær með því verði. Þeir voru búnir að undirbjóða allt, hálfgjaldþrota braskarar, sem gera óforsvaranlega samninga, sem íslenzka ríkið raunverulega verður að rifta með því að koma á einkasölu. Nei, við skulum ekki láta þá fara að eiga við þetta.

Íslenzka ríkið hefur allan tímann, í 30 ár, sem þessir íslenzku kapítalistar okkar hafa starfað, verið sá aðili, sem hefur bjargað þeim. Ég er ekki að segja, að þetta væri sérstaklega ánægjulegt, að íslenzka ríkið skuli hafa verið að bjarga þeim. Ég skal bara taka smádæmi, – það er verst, að hæstv. forsrh. skuli ekki vera við. Þegar t.d. fulltrúi Gismondi kemur til Íslands og býðst til að kaupa fisk af Íslendingum fyrir hærra verð en fiskhringurinn Kveldúlfur og Alliance gaf, hvað er gert? Það er ekki aðeins gert það, að það er reynt að múta Gismondi á Ítalíu til þess að hætta að bjóða hátt verð í fisk á Íslandi. Nei, það er líka gert annað, það er hert á einokuninni á útflutningnum á fiski frá Íslandi, til þess að íslenzki fiskhringurinn hafi aðstöðu til þess að geta mútað suður á Ítalíu og geta hindrað útlenda kapítalista í því að bjóða í fisk á Íslandi. Hann hefði ekki getað það, hefði hann ekki haft það á bak við sig, að íslenzka ríkið bannaði íslenzkum fiskimönnum að flytja út sinn fisk. Meira að segja stærstu og voldugustu og ríkustu kapítalistar á Íslandi voru svona veikir, að þeir stóðust ekki snúning, þegar þeir útlendu hringar fóru að keppa við þá hér heima. Það er bezt að hafa þetta fyrir augum.

Alveg sama gildir um innflutninginn. Hvað ætli stæðist af þessum veslings iðnaði hérna hjá okkur heima, ef við ætlum að opna þetta allt saman fyrir þessum voldugu útlendu auðhringum? Við vitum, að það er ein höfuðregla allra þessara auðhringa, að raunverulega svo að segja okra þeir á sínum heimamarkaði og selja heldur ódýrara á þeim mörkuðum, sem þeir eru að vinna sér.

Nei, það er nauðsynlegt að hafa stjórn á innflutningi og útflutningi á Íslandi, m.a. vegna okkar íslenzku atvinnurekenda, til þess að þeir séu ekki drepnir í samkeppninni við stóru útlendu auðhringana. Það er vegna þess, að ég vil hafa efnahagslífið hér íslenzkt, að Íslendingar ráði því, að ég sé enga aðra leið en yfirstjórn ríkisins á innflutningi og útflutningi, ekki aðeins til að vernda það, sem væri af ríkiseinkasölu, ekki aðeins til þess að vernda það, sem væri af samvinnufyrirtækjum, heldur beinlínis líka til þess að vernda það, sem til er af íslenzkum prívatkapítalistum, vegna þess að ég kæri mig ekki um að láta trampa þá niður af útlendum auðhringum, sem drottna síðan yfir okkar atvinnulífi. Ég álít, að íslenzki prívatkapítalisminn, svo veikur sem hann er, mundi drepast í samkeppninni við útlendu auðhringana, og kæri mig ekkert um það.

Viðvíkjandi tölu milljónamæringanna, þá er þetta alveg rétt hjá mér. Að vísu hef ég þetta upp úr Tímanum. En engu að síður býst ég við, að það sé nokkurn veginn rétt, vegna þess að Tíminn mun hafa þetta upp úr skattskýrslunum um stóreignaskattinn. Og náttúrlega vitum við ósköp vel, sem þekkjum til hér í Reykjavík, þó að þetta hljómi ákaflega flott með 650 milljónamæringa, að mjög mikið af þessum mönnum eru menn, sem eiga t.d. húseign, kannske á góðum stað í bænum, og slík húseign er náttúrlega ákaflega fljótt komin upp í eina millj. með núverandi verðgildi, ég tala nú ekki um, ef ætti að meta það núna, eftir að hæstv. núverandi ríkisstj. er tekin við völdum, þá er náttúrlega ekki lengi fyrir einn mann að verða milljónamæringur, sem á sér gamalt, gott hús, t.d. í miðbænum, og skuldar ekkert út á það. Hins vegar er rétt að geta þess, að 29 þeir ríkustu eiga 250 millj. í skuldlausum eignum, en 5 eiga um 50 millj. Ég held, að ég muni þessar tölur rétt.

Þá talaði hv. 6. landsk. þm. um, að einkaframtakið hefði þó getað eitthvað dálítið á Íslandi, fyrst það væru til svona margir milljónamæringar. Ég veit nú ekki, hvort það er ekki meira hitt, að verðbólgan hafi fyrir tilstilli þeirra flokka, sem ráðið hafa á Íslandi á undanförnum 30 árum, Sjálfstfl. og Framsfl., gengið það hratt, að í krafti verðbólgunnar hafi margir orðið ríkir og færri farið á hausinn. Hún hefur áreiðanlega hjálpað þarna til. — Svo vildi hann segja, að einkaframtakið hefði brotíð brautina. Ég skal ekki draga úr því, að það hefur gerzt á vissum stöðum á landinu, að framtakssamir einstaklingar hafi byrjað á hinum og þessum framkvæmdum, en venjulega hafa þeir ekki brotið hana langt, venjulega hafa þeir gefizt upp mjög fljótt. Ef við förum hringinn í kringum landið, blasa við okkur þau fyrirtæki þessara einkaframtaksmanna,

sem hafa hrunið saman einmitt undan þunga þeirrar frjálsu samkeppni, kreppunnar, sem af henni leiðir, og síðan hefur fólkið á þessum stöðum orðið að taka við og reyna að bjarga. Þannig var það á Ísafirði á árunum 1920–30. Einkaframtakið hafði byrjað þarna og gafst upp, þegar fór að kreppa að, og flutti burt með skipin. Alþýðan varð að mynda sér samvinnuútgerð til þess að hafa eitthvað að lifa af. Sama sagan var í Hafnarfirði. Brezka einkaframtakið hafði byrjað, en fór burtu og alþýðan í Hafnarfirði varð að skapa sér bæjarútgerðina. Og hvernig fór á landsmælikvarða um þetta? Jú, mestu framtaksmennirnir, sem mest hefur verið talað um, eins og þeir Jensensynir, eins og þá var kallað, hlutafélagið Kveldúlfur, það hafði rutt heilmikla braut með togaraútgerð, — og hvar endaði það? Það endaði með því, að þetta sama félag varð að koma til ríkisvaldsins 1932 og núv. hæstv. forsrh. varð að setja ríkiseinkasölu á útflutning á saltfiski til að bjarga þessu fyrirtæki frá gjaldþroti, og raunar ekki bara að bjarga þeim frá gjaldþroti, heldur að bjarga Landsbankanum frá gjaldþroti líka og þjóðfélaginu þar með.

Nei, einkaframtakið hefur að vísu reynt að brjóta brautina á Íslandi, en brotnað sjálft á því, og íslenzka ríkið og íslenzka alþýðan hefur víðast hvar orðið að taka við til þess að bjarga sér, bjarga atvinnunni og jafnvel bjarga þessum fyrirtækjum. Þess vegna hefur þetta einkennilega ástand skapazt á Íslandi í þessi 30 ár, að við höfum orðið að hafa hér sambland af bæjarfyrirtækjum, ríkisfyrirtækjum, samvinnufyrirtækjum og einkafyrirtækjum, öllu saman meira eða minna studdu af ríkinu, vegna þess að einkaframtakið hafði brotnað niður sjálft og gat ekki valdið þessu.

Svo sagði hv. 6. landsk., að eitthvað væri ég nú hræddur við kapítalismann og miklu hræddari en sá mikli lærifaðir Lenin hefði verið, hann hefði þó þorað að nota sér NEP-kapítalismann, eins og það er kallað, nýja ökonómíska pólitík, 1921. Það er alveg rétt, sem hv. 6. landsk. vitnaði í, að það var mjög skynsamlega gert af Lenin, af kommúnistaflokki Sovétríkjanna að taka upp þá aðferð þá, þegar allt var komið í auðn í Rússlandi. Iðnaðarframleiðsla Rússlands mun árið 1921 hafa eftir 4 ára stríð og 4 ára borgarastríð og innrásarstrið 14 kapítalistískra ríkja hafa verið orðin 1/6 hlutinn af því, sem var 1913 í því keisaralega Rússlandi, og var það þó ekki stórt, og Lenin sagði sem svo: Nú verður að nota öll ráð til þess eins að koma atvinnulífinu í gang aftur, meira að segja brask prívatkapítalismans, auk samvinnufyrirtækja, ríkisfyrirtækja, bæjarfyrirtækja, og allt annað slíkt er sjálfsagt að hagnýta sér, ef það getur bara orðið til þess að koma einhverju af stað, — vegna þess að hungrið blasti við eftir eyðileggingarnar, sem kapítalisminn hafði valdið í Sovétríkjunum. Þetta var rétt pólitík, sem hjálpaði til þess að reisa Sovétríkin þá við. Heldur nú hv. 6. landsk., að við hér heima séum voðalega hræddir við að gera einhverja slíka hluti?

1944 stóðum við frammi fyrir því, að það var búið í 17 ár að láta undir höfuð leggjast að fjölga togurum á Íslandi, og þeim hafði stöðugt farið fækkandi frá því 1927, og það virtist sem okkar íslenzku kapítalistar væru uppgefnir á því yfirleitt að leggja í nýjan togararekstur. Ég man eftir því, að allt árabilið 1930–40 voru það kröfur, t.d. af hálfu Alþýðusambandsins, að það væru keyptir, þó að það væru ekki nema kannske örfáir nýir togarar, en var aldrei gert, var aldrei aukið neitt við togaraflotann. Hvað gerðum við, hvað gerði verkalýðshreyfingin hér 1944? Hún ákvað að beita sér fyrir því að byggja upp íslenzkt atvinnulíf, sem var komið í þetta ófremdarástand eftir kreppuna og alla óstjórn kapítalismans. Var íslenzka verkalýðshreyfingin nokkuð hrædd við að beita öllum aðferðum í þessu sambandi? Nei, hún var alveg ósmeyk. Hún sagði: Það er sjálfsagt að reisa við atvinnulífið á Íslandi með öllum þeim hætti, sem menn eru til í að beita, með ríkisrekstri, með bæjarrekstri, með samvinnurekstri, með einstaklingsrekstri. — Og við buðum þeim jafnvel sérstaklega, kapítalistunum okkar, upp á það að kaupa togara. Þeir vildu það að vísu ekki, þegar við buðum þeim það, en við keyptum þá samt, þó að það væri enginn kapítalisti á Íslandi, sem óskaði eftir neinum þeirra þá til að byrja með. Við keyptum þá — 30 létum við ríkið kaupa. — Við vorum alveg ósmeykir við að hafa sömu aðferðirnar og Lenin, þó að við værum ekki í annarri eins neyð og sovétþjóðfélagið var þá. Og okkur tókst þetta tiltölulega vel. Sá var munurinn, að verkalýðurinn hafði ekki völdin á Íslandi. Hann gat ekki haldið áfram að framkvæma þá áætlun, sem hann gerði sér þá um að koma alls upp 50 togurum a.m.k., jafnvel setti markið við 75. Því gat hann ekki ráðið. Tiltölulega fljótt tóku amerísku kapítalistarnir að segja okkur fyrir um það hér á Íslandi í krafti Marshall-aðstoðarinnar, hvort við mættum kaupa togara og meira að segja hvort við mættum byggja hús. Og þeir voru svo miklir harðstjórar, að meira að segja þegar sú stjórn, sem Alþfl. myndaði 1948 og fannst, að hún yrði að halda áfram að kaupa togara og keypti 10 togara, náttúrlega í trausti þess að fá Marshall-lán, en þegar hún ætlaði að fá Marshall-lánið fyrir þeim 10 togurum hjá Ameríkönunum sínum, þá sögðu Ameríkanarnir: Nei, við lánum ykkur ekki okkar góðu amerísku dollara til þess að fara að kaupa togara til Íslands. — Og hvað varð þessi Alþfl.- stjórn að gera? Hún varð smátt og smátt að borga alla togarana út í Bretlandi, af því að hún fékk ekkert Marshall-lán til að kaupa togara, vegna þess að Bandaríkjamenn vildu ekki, að það yrðu keyptir togarar til Íslands, og neituðu að lána Marshall-lán til slíks.

Þess vegna höfum við verið — verkalýðshreyfingin á Íslandi — alveg óhræddir við að hagnýta okkur líka kapítalistana íslenzku, ef svo bæri við að horfa, og gefa þeim slík tækifæri. En svona voru þeir nú aumir og trúlitlir á íslenzkt atvinnulíf og framtíð íslenzks togaraútvegs, að þegar meiri hl. Sjálfstfl. í bæjarstjórn Reykjavíkur bauð að selja einstökum atvinnurekendum alla togarana, sem við í nýbyggingarráði úthlutuðum Reykjavík, þá neituðu einkaatvinnurekendurnir í Reykjavík að kaupa þá, nema bara nokkra þeirra. Sjálfur Sjálfstfl. sem meirihlutaflokkur í bæjarstjórn Reykjavíkur neyddist til að setja upp bæjarútgerð, af því að okkar góðu prívatkapítalistar höfðu enga trú á togaraútgerð. Og samt höfðum við, sósíalistarnir, orðið að knýja það fram hér á Alþ., að þeim væru veitt lánskjör; þannig að þeir fengju 75% af andvirði togaranna lánað til 20 ára með 21/2 % vöxtum, og þetta urðum við að keyra í gegn.

Svona er nú sú barátta, sem við höfum orðið að heyja, sumpart til þess að reyna að koma vitinu fyrir prívatkapítalistana hér heima, svo að þeir keyptu togara, helzt ekki kolatogara, og til þess að pína þá inn á að taka á móti lánum upp á 75% af andvirði togaranna, og samt var ekki hægt að fá þá til að kaupa þá togara, sem Reykjavík voru ætlaðir, og samt var svo að segja allt fjármagnið, sem til var í einkaeign á Íslandi, einmitt hér í Reykjavík.

Svo talaði hv. 6. landsk. þm. um, að ég hefði verið að ræða um yfirburði hins sósíalistíska kerfis yfir kapítalismann. Það yrði nú líklega of langt mál, ef við færum út í að ræða það hér, ég væri reiðubúinn til þess. Það eru mjög ýtarlegar skýrslur, sem ég gæti lesið yfir honum í því sambandi um alla þróunina, annars vegar í Sovétríkjunum og hins vegar í Bandaríkjunum, voldugasta iðnaðarlandi kapítalismans. En fyrst ég á nú eina ræðu til, þá held ég, að ég fari ekki út í það nú, en það er sem sé velkomið.

En eitt atriði vil ég minnast á við hann, og það er þar sem hann ræddi framfarirnar hér á Íslandi. Það er alveg rétt hjá honum, að framfarirnar hér á Íslandi hafa orðið miklar, mjög miklar, og ég hef einmitt í þessum umr. orðið að undirstrika þær framfarir, því að jafnvel honum sjálfum hefur hætt við að vera stundum að tala um einhvern gervibúskap hér hjá okkur á Íslandi, og því vil ég alveg mótmæla.

En hvernig stendur á þessum miklu framförum á Íslandi, þessum miklu framförum á þessum síðustu 20 árum? Þær framfarir eru sérstaklega tvennu að þakka: Í fyrsta lagi þeirri sósíalistísku verkalýðshreyfingu Íslands, hvað verkalýðshreyfingin á Íslandi hefur verið sterk, hvað hún hefur verið sósíalistísk, hvað hún hefur verið vígreif í baráttunni við auðvaldið hér, hvað hún hefur verið djörf í því að hafa áhrif á íslenzkan þjóðarbúskap, hvort heldur væri með samvinnu við Framsóknarfl. eða Sjálfstæðisfl., og hvað hún hefur megnað að hafa mikil áhrif á íslenzkan þjóðarbúskap. Annars vegar hefur einmitt sósíalistíska verkalýðshreyfingin á Íslandi með sinni stéttabaráttu bætt hér kjörin og hins vegar hefur hún með því að leiðbeina þjóðinni á úrslitastundum stórbætt okkar þjóðarbúskap, annars vegar á nýsköpunarárunum með samvinnunni við Sjálfstfl. og þeirri stóraukningu, sem þá var gerð á þjóðarbúskapnum, og hins vegar með samvinnunni við Framsfl. á tímabili vinstri stj. og þeirri stóru aukningu, sem þá var gerð á íslenzkum þjóðarbúskap og við enn búum að, þegar hver báturinn á fætur öðrum nú siglir hér í höfn frá útlöndum. Það eru þessi miklu áhrif hinnar sósíalistísku verkalýðshreyfingar Íslands, sem hafa valdið því, að framfarirnar hér á Íslandi hafa orðið svona miklar, og svo hitt, að Ísland hefur meira en nokkurt annað ríki í allri Vestur-Evrópu notið þess sósíalistíska heimskerfis, sem myndazt hefur.

Ísland hefur, eins og talað hefur verið um og eins og er alltaf fleinn í holdi vorra vestrænu vina í París, — Ísland hefur meiri viðskipti við þann sósíalistíska heim en nokkurt annað kapítalistískt ríki, og þar hafa komið til greina alveg sérstaklega einmitt áhrif sósíalistísku verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, þó að borgaraflokkarnir hafi líka tekið sér það stundum til fyrirmyndar. Í krafti þessara miklu viðskipta, sem hafa tryggt okkur með fyrirframsamningum, jafnvel til nokkurra ára, svona og svona mikil viðskipti og þar með möguleika á að auka okkar framleiðslu svona og svona mikið, — með þessu höfum við aukið okkar framleiðslu, þegar aðrir hafa staðið í stað. Þegar Norðmenn hafa hjakkað t.d. í því farinu að framleiða bara 20 þús. tonn af freðfiski, höfum við getað farið úr 25 þús. tonnum 1952 upp í 75 þús. tonn á síðustu tveimur árum og selt þar af 50 þús. tonn til sósíalistískra landa. Einmitt í krafti þeirra áhrifa, sem sósíalisminn hefur hér á Íslandi, og þeirrar hagnýtingar, sem íslenzkir stjórnmálaflokkar svo að segja allir hafa verið sammála um að hafa í frammi hvað snertir viðskipti við hin sósíalistísku lönd, í krafti þessa höfum við getað skapað þessar miklu framfarir á Íslandi. Hitt er svo aftur annað, að vegna þeirrar óstjórnar, sem verið hefur á þjóðarbúskapnum, af því að þar hafa Sjálfstfl. og Framsfl. ráðið, hefur fjárfestingin verið ósköp vitlaus þennan tíma, og það hefur hins vegar þýtt, að verkalýðurinn á Íslandi hefur orðið að vinna miklu meira og lengur en verkalýður allra annarra landa til þess að hafa hins vegar þau lífskjör, sem miðað við vinnutíma eru sambærileg við löndin hér í kring.

Við hér á Íslandi höfum einmitt í þeim framförum, sem orðið hafa, notið yfirburða sósíalismans yfir kapítalismann. Og það er einmitt ein hættan í sambandi við pólitík núverandi hæstv. ríkisstj., þegar hún sviptir okkur þessu, að við getum hagnýtt okkur yfirburði þess sósíalistíska kerfis, sem sérstaklega kemur fram í því, að við það getum við gert stóra fyrirframsamninga, sem geta um leið verið grundvöllur að stórum fyrirætlunum hér hjá okkur. T.d. með stórum viðskiptasamningum við Sovétríkin um freðfisk hefur verið lagður grundvöllur að því að geta aukið hér framleiðsluna úr 25 þús. tonnum upp í 75 þús. tonn.

Þá minntist hv. 6. landsk á, að við höfum þó hér búið við erfiðari skilyrði en Sovétríkin. Þar held ég að hann hafi ekki aðgætt, hvað hann var að segja. Í þau 43 ár, sem verkalýðurinn í Sovétríkjunum hefur haft valdið í sínum höndum, hefur hann í 20 af þessum 43 árum orðið að standa í stríði og það ægilegum stríðum, eða þá verið að byggja upp það, sem eyðilagt var í þeim stríðum. Við Íslendingar höfum að vísu upplifað stríð, en við höfum beinlínis grætt á þeim stríðum, þannig að við skulum ekki láta okkur það um munn fara, að við höfum orðið að byggja upp okkar land við erfiðari skilyrði en Sovétríkin, þar er himinhrópandi munur á, og það veit ég líka að hv. 6. landsk. þm. hefði ekki sagt, ef hann hefði athugað það. Það er vafalaust annað, sem hann hefur haft í huga, hversu auðveldara væri á ýmsan hátt fyrir stórt ríki að byggja upp móts við hins vegar lítið og fátækt land eins og okkar. Við Íslendingar megum vera stoltir af okkar uppbyggingu. Það, sem hins vegar hefur vantað í þá uppbyggingu, er, að hún hafi verið sósíalistísk. Ef við hefðum byggt hér upp á þessum 20 árum með sósíalistískum búskaparháttum, byrjað, eins og við vorum ofur lítið byrjaðir 1944, gert þetta skipulega, haldið áfram með þær áætlanir, sem þá voru, þá liti öðruvísi út á Íslandi. Þá værum við búnir að virkja svo og svo mikið af okkar stærstu fossum, búnir að koma hér upp stóriðju, sem þjóðin ætti, og þá væri hér 7 eða 8 tíma vinnudagur, sem gæfi okkur betri lífsskilyrði en við höfum í dag með þeim 10–11 stunda vinnudegi, sem nú er orðinn hér algengur.

Þá talaði hv. 6. landsk, um öryggi hinna sósíalistísku markaða og vildi gera frekar lítið úr því. Hann viðurkenndi, að það hefði ekki verið lögð alúð við þá, og það er rétt, það hefur ekki verið lögð alúð við þá. Ég skal alveg viðurkenna hans gagnrýni hvað snertir einstakar misfellur í viðskiptum við þessi lönd. Það er ýmislegt, sem gengur á tréfótum hjá þeim, og það eru þeirra eigin stjórnir sjálfar vafalaust fyrstar með að viðurkenna, og slíkt kemur oft fyrir í þeim viðskiptum, og með því þurfum við að reikna í þessum viðskiptum. Þetta eru þjóðir, eins og sérstaklega t.d. Pólverjar, sem eru að byggja upp gamalt bændaland á skömmum tíma og reyna að gera það að stóriðjulandi, og þá gengur náttúrlega ýmislegt misjafnlega. En höfuðatriðið í sambandi við þetta er, að sem heild eru þessir sósíalistísku markaðir öruggir fyrir okkur. Við getum gert við þá fyrirframsamninga til margra ára. Við þurfum að reyna að sjá til þess, að úr því, sem kann að ganga eitthvað erfiðlega á einu árinu, sé bætt á því næsta, og það, sem nú er hins vegar að gerast í þessu efni, það er, að sjálf okkar sala til þessara landa, sem er það dýrmætasta, er að grotna niður, vegna þess að við kaupum ekki nóg frá þessum löndum, og við kaupum ekki nóg frá þessum löndum vegna þess, að við höfum verið að ræða um það á undanförnum tíma að fara að gera okkar viðskipti frjáls, eins og kallað er, og okkar kaupmenn og okkar innflytjendur hafa haldið að sér höndum og minnkað þess vegna að sínu leyti þessi viðskipti, og í því felst hættan.

Þá talaði hv. 6. landsk. þm. um vantraust mitt á íslenzkum atvinnurekendum, að ég treysti þeim ekki til að keppa á erlendum mörkuðum. — Það er ekki vegna vantrausts á íslenzkum atvinnurekendum sem slíkum. Þeir geta hver um sig verið jafnslyngir og atvinnurekendur af sömu stærð og þeir eru úti í heimi. Það er hitt: Þeir geta ekki barizt upp á að sigra við þá stóru hringa, sem einoka yfirleitt markaðina úti í heimi, og þess vegna er það ekki vantraust á þeim, heldur bara raunsæi. Alveg eins og enskir og þýzkir atvinnurekendur af sömu stærð og okkar atvinnurekendur hér heima hafa verið trampaðir niður af þeim voldugu hringum þar í löndum á undanförnum 50–60 árum, eins mundu okkar íslenzku atvinnurekendur verða trampaðir niður. Hann talaði um, að þeir yrðu bara að keppa á mörkuðum þar úti. Jú, það kostar líka fé. Hvað er verið að gera núna í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna? Ríkið er að ábyrgjast 15 millj. kr. fyrir Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna bara til að koma upp sölumiðstöð í Hollandi. M.ö.o.: það er verið að leggja stórfé í að reyna að berjast þarna. Er verið að veita þessar ábyrgðir og takast þær á hendur af vantrausti á íslenzkum atvinnurekendum? Nei, er það ekki hitt, að íslenzka ríkið gerir sér ljóst, hvað þeir eru veikir, hvað þeir eru lítils megnugir, þannig að það verði raunverulega að halda í höndina á þeim, hvar sem þeir ganga? Og hættan er, þegar þeir fara að reyna að keppa svona, að þeir komi kannske eftir nokkur ár og segi: Nú er bara með samkeppni frá þessum og þessum fiskhring alveg verið að setja okkur á hausinn, nú verður ríkið að hlaupa undir bagga. — Mér er sem ég sjái í 6 ríkja samsteypunni, þegar þeir voldugu hringar, sem eiga þýzka togaraflotann, fara að slást á öllum þessum sviðum, hvernig afstaðan muni verða. Ég er hræddur um, að það, sem vofir yfir á þessum sviðum, sé, að þessir litlu karlar okkar hér heima, og jafnvel þó að þeir séu eins stórir og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, verði bara gleyptir. Það vildi a.m.k. stundum verða reynslan af baráttunni um saltfiskinn.

Þá kom hv. 6. landsk. þm. inn á það, að efnahagslegt lýðræði væri tryggt með prívatkapítalisma. Ég býst nú við, að við sannfærum ekki hvor annan um þetta. Ég hélt því fram, að efnahagslegt lýðræði væri aðeins hugsanlegt með sósíalisma. Og hvað þýðir kapítalismi? Kapítalismi þýðir það, að einn einstakur aðili, hlutafélag eða einstaklingur, eigi t.d. verksmiðju eða verksmiðjur eða námur eða togara eða önnur framleiðslutæki og hann hafi í sinni þjónustu svo og ,svo marga verkamenn, — við skulum taka bara dæmi í landi eins og Svíþjóð, demókratísku landi, stærsta kapítalistíska fyrirtækið þar hefur jafnmarga menn í sinni þjónustu og allir verkamenn á Íslandi eru, um 30 þús. Hvert er nú það efnahagslega lýðræði þessara verkamanna í þessum verksmiðjum? Þeir hafa í þjóðfélaginu það pólitíska lýðræði að mega kjósa, hvaða flokka þeir vilji hafa á þingi, en þeir hafa í efnahagsmálunum ekki það lýðræði að mega ráða því sjálfir og sameiginlega, hvernig verksmiðjan er rekin, sem þeir hafa alla sína lífsframfærslu af og þeir eiga alla sína atvinnu undir, heldur eiga þeir það undir einum einasta aðila eða einu hlutafélagi, hvernig þessu er stjórnað, hvort þeim er sagt upp einn góðan veðurdag, hvort verksmiðjunni er lokað, hvort minnkuð er framleiðslan frá henni, hvort forstjórarnir fyrir henni láta undir höfuð leggjast að selja það, sem hægt væri máske að selja af afurðum verksmiðjunnar, og sitja þess vegna uppi með afurðirnar og verða að loka verksmiðjunni. M.ö.o.: þeir eru háðir einræði atvinnurekandans. yfir verksmiðjunni.

Mótsetningin í kapítalismanum, í því borgaralega lýðræði, er, að í efnahagslífinu er verkamaðurinn háður einræði atvinnurekendanna, en hefur, á meðan borgaralegt lýðræði á annað borð ríkir í kapítalismanum, pólitískt lýðræði, almennan kosningarrétt. Hinu höfum við svo reynsluna fyrir, að svo framarlega sem þeim auðmönnum, sem eiga þessar verksmiðjur, finnst hætta á, að verkalýðurinn ætli að nota slíkan kosningarrétt til að gefa þeim flokkum meiri hl. á þingum þjóðanna, sem mundu t.d. þjóðnýta þessar verksmiðjur, þá eiga þeir til með að þurrka það borgaralega lýðræði út og koma á einræði, líka pólitísku einræði, eins og t.d. með fasismanum. Fasisminn var að framkvæma það sama á því pólitíska sviði og kapítalisminn gerir sjálfur á efnahagssviðinu. Einræði kapítalismans á efnahagssviðinu samsvarar í fasistíska skipulaginu einræði á því pólitíska sviði. Þess vegna verður í sífellu mótsetning, meðan borgaralegt lýðræði helzt, á milli lýðræðisins í því þjóðfélagi, því borgaralega þjóðfélagi, og einræðisins í atvinnufyrirtækjunum. Og m.a. þess vegna hefur hjá þjóð eins og Íslendingum, sem er eins lýðræðissinnuð og eins frjálshuga og hún er, verið svo erfitt fyrir prívatkapítalistana að komast upp og verða voldugir, að þjóðinni hefur frá upphafi þótt það óeðlilegt, að einn einstakur maður, einn einstakur auðhringur eða slíkt gæti raunverulega ráðið yfir lífsafkomu t.d. þúsunda verkamanna. Þess vegna á sósfalisminn svona sterk ítök á Íslandi.

Þessi mótsetning á milli einræðis atvinnurekendanna í efnahagslífinu og borgaralega lýðræðisins á stjórnmálasviðinu leysist að okkar áliti, sósíalista, með því, að samsvarandi því lýðræði, sem er á því pólitíska sviði, verði líka skapað það efnahagslega lýðræði á því efnahagslega sviði með þjóðnýtingu eða samvinnurekstri á fyrirtækjunum, sem nú eru í einstaklingseign.

Hv. 6. landsk. þm. talaði í þessu sambandi um athafnafrelsið. Spurningin er: athafnafrelsi fyrir hverja, og hvað er athafnafrelsið fyrir sjómennina og verkakonurnar í hraðfrystihúsunum? Þær fá ekki, verkakonurnar, eða sjómennirnir, þeir fá ekki að ráða því, hvert fiskurinn þeirra er seldur. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna stjórnar því. Ef Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna á morgun tæki þá ákvörðun að hætta viðskiptum austur á bóginn og skeila nú öllu saman í umboðssölu til Bandaríkjanna, til Frakklands og sitt hvað annað, þá ákveður hún þetta með sínu einræðisvaldi yfir þeim atvinnutækjum, sem hún hefur þarna tök á. Það mundu máske ýmsir rísa upp, það mundu máske ýmsir, t.d. þar sem bæjarfélögin réðu hraðfrystihúsunum, rísa upp og segja: Við viljum ekki missa þessa markaði þarna austur frá. — Það mundi verða barátta um þetta, það mundi verða uppreisn á móti þessu einræði þessara einstöku atvinnurekenda. En þetta athafnafrelsi, sem þarna væri verið að framkvæma, er aðeins frelsi þeirra örfáu, sem þarna ráða. Það, sem við erum að berjast fyrir í þessu efni, er, að fjöldinn sjálfur fái að ráða þessu, verkamennirnir, sem eiga sína lífsafkomu undir þessu, sjómennirnir, sem eiga sína lífsafkomu undir þessu, og þetta viljum við gera með því m.a., að ríkið stjórni þessu, og til ríkisins eða til Alþingis kjósum við með þeim almenna kosningarrétti. Þess vegna er það lýðræði, sem við framkvæmum með því, og þar með um leið athafnafrelsi fyrir alla sjómennina og verkamennina og verkakonurnar, sem kjósa með sínum kosningarrétti til þingsins, sem það lætur stjórna þessum hlutum. Hitt athafnafrelsið, sem hv. 6. landsk. þm. talar um, er aðeins athafnafrelsi fyrir peningavald.

Svo talaði hv. 6. landsk. um, að ég hefði sagt, að þetta frv. væri hættulegt, og fór að ræða um það: hættulegt hverjum, hvort þetta mundi nú ekki vera hættulegt, eins og hann sagði, fyrir Sósfl. Jæja, það var nýlega einn kaupmaður að tala hér við einn af okkar þingmönnum, og hann var að bölsótast út í ríkisstj. Okkar þm. svaraði því, að allt þetta væri nú verið að gera fyrir þá, kaupmennina. Ja, það væri nú helzt, svaraði kaupmaðurinn. Hann sagði, að það væri alveg greinilegt, að ríkisstj. væri bara að gera þetta fyrir kommana. Út af hverju heldur nú hv. 6. landsk., að þessi kaupmaður, og það er mjög stór kaupmaður, sá stærsti í sinu byggðarlagi, hafi sagt þetta? Hann sagði það vegna þess, að honum hefur fundizt stemmingin hjá almenningi út í aðgerðir ríkisstj. vera slík, að það væru engir aðrir en stjórnarandstaðan og alveg sérstaklega Alþb., sem mundi græða á þessu. Hvað hefur hv. 6. landsk. sýnzt um þær kosningar; sem fram hafa farið í verkalýðsfélögunum, síðan þessar aðgerðir hófust? Og eru þær samt ekki nema rétt að byrja. Hvað hefur honum sýnzt með 1. maí hér í Reykjavík og annars staðar á landinu núna? Ætli við séum ekki að reka okkur á það, að það er að rísa upp alda einmitt fylgjandi Alþb., fylgjandi þeirri róttæku verkalýðshreyfingu, á móti þessum aðgerðum? Það er enginn efi á því, að ef við ættum að meta þetta svona pólitískt, hvað fylgi snerti og slíkt, þá væru þessar aðferðir mjög hagstæðar okkur. En okkur hefur aldrei langað til þess, að það væri leidd yfir Ísland kreppa og efnahagsleg vandræði og atvinnuleysi, þó að það geti orðið okkur til pólitísks framdráttar. Við höfum beitt öllum þeim áhrifum, sem við höfum getað, hvort sem við höfum verið í ríkisstj. eða utan ríkisstj., til þess að reyna að afstýra slíku frá okkar landi.

Þá kom hann inn á það, að í sósíalistísku ríkjunum tíðkaðist það að koma fram kjarabótum með verðlækkunum. Það er alveg rétt. Og mér heyrðist jafnvel á honum, að hann vonaðist eftir einhverju slíku hérna. Má ég bara spyrja: Hvar er hann eiginlega með hugann? Hæstv. ríkisstj. hefur verið að gera eina einustu höfuðráðstöfun allan þennan tíma, síðan hún komst til valda, og það eru verðhækkanir. Hver verðhækkunin dynur yfir á fætur annarri.

Svo spyr hann að lokum, — og ég held nú næstum því, að hann hafi þá verið farinn að sannfærast um, að líklega mundi þetta allt saman hrynja rétt strax, — hvaða aðgerðir við mundum þá gera, og beindi nokkrum einstökum spurningum til mín í því sambandi. Ég gat því miður ekki skrifað þær orðrétt, en ég skal reyna að svara þeim, eftir því sem ég gat hripað þær upp.

Hann spurði mig í fyrsta lagi, hvort við mundum endurreisa innflutningshöftin. Í kosningastefnuskrá Alþb. nú við kosningarnar í október er tekið fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Ríkið taki í sínar hendur ýmist beina yfirstjórn á eða eftirlit með allri innflutningsverzluninni, í því skyni að koma á hallalausum gjaldeyrisviðskiptum og tryggja landsmönnum jafnframt sem hagkvæmast verð. Ríkið annist sjálft verzlun með olíur, benzín, kol, salt og byggingarefni. Einnig getur verið réttmætt, að ríkið taki sjálft einkasölu á ýmsum lúxusvörum til ágóða fyrir ríkissjóð.“

Þetta er mjög skýrt svar viðvíkjandi því efni.

Þá spurði hann, hvort við mundum koma á vöruskömmtun, og ég held, að hann hafi spurt út frá því hvaða afstöðu ég hefði tekið persónulega 1945. Viðvíkjandi vöruskömmtun var þáð alveg rétt hjá honum, að þáð er yfirleitt óvinsæl ráðstöfun. T.d. í þeim sósíalistísku ríkjum var eftir stríðið mjög víða vöruskömmtun út af þeirri neyð, sem ríkti eftir stríð. Hún mun nú í þeim öllum hafa verið afnumin. Ég áleit satt að segja, að þegar við vorum að byggja okkur upp eftir stríðið, þá hefðum við vel getað haldið skömmtuninni lengur en við gerðum þá. Ég mundi alveg óhikað þora, hvenær sem væri, ef ég áliti það nauðsynlegt, að segja við okkar þjóð, ef við værum að leggja hér í virkilega stóra hluti, ef við værum t.d. að virkja okkar fossa og þyrftum að leggja að okkur um tíma: Við skulum skammta okkur sjálfir fyrst og fremst. Sá stjórnmálamaður á Íslandi, sem ætlar að stjórna þessari þjóð, verður að geta talað við hana á sama hátt og góður heimilisfaðir talar við sína fjölskyldu. Við erum ekki stærri en það, Íslendingar. Við verðum að gera slík sameiginleg átök, að það ér nauðsynlegt fyrir okkur, ef við ætlum að haldast sem ein þjóðarheild, að geta verið þannig hverjir við aðra. Þetta eru nú almennar hugleiðingar viðvíkjandi vöruskömmtun. Það var ein einasta skömmtun, sem var raunverulega við haldið, en nú verður afnumin, það var smjörskömmtunin. Ég skal segja fyrir mitt leyti, — það er engin afstaða tekin t.d. í Alþb. viðvíkjandi því, — ég álít, að það væri ekkert óhugsandi út af fyrir sig að hafa smjörskömmtun á einhverju ákveðnu magni, ef það væri nauðsynlegt. En hins vegar er langt frá því, að vöruskömmtun sé nokkur sérstök þörf þannig, og ég gæti bezt trúað almennt, að þá mundi t.d. Alþb. ekki vera með því að taka hana upp, nema þá einhverjar alveg sérstakar ástæður væru fyrir hendi.

Þá spurði hv. 6. landsk. í þriðja lagi um okkar afstöðu til fjárfestingar, hvort við vildum taka upp fjárfestingareftirlit. Þar tókum við líka, Alþb., fyrir kosningar, alveg ákveðna afstöðu, og í kosningastefnuskrá okkar var sagt svo hljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþb. álítur nauðsynlegt, að tekin sé upp heildarstjórn á þjóðarbúskapnum, fjárfestingin sé skipulögð með hag alþjóðar fyrir augum samkvæmt fyrirframgerðum áætlunum til lengri og skemmri tíma, starfsemi bankanna samræmd þessum þörfum þjóðarinnar, útflutningsverzlunin tekin undir stjórn og eftirlit ríkisins og að verulegu leyti í þess hendur, innflutningsverzlunin sé undir yfirstjórn og eftirliti ríkisins, og ríkið annist sjálft verzlun með olíur, benzín, kol, salt og byggingarefni. Með þessu móti sé tryggð alhliða hagnýting erlendra markaða og full atvinna handa öllum landsmönnum.“

Ég býst við, að þetta sé alveg greinilegt svar líka við þessu.

Þá spurði hv. 6. landsk., hvaða afstöðu við vildum taka viðvíkjandi húsnæði og umráðarétti manna í þeim efnum. Þar var líka í stefnuskrá Alþb. fyrir kosningarnar tekin alveg ákveðin stefna. Hún var sú, sem hér greinir, með leyfi hæstv. forseta:

„Breytt verði um stefnu í húsnæðis- og húsbyggingamálum, þannig að íbúðarhúsabyggingar og leiga íbúðarhúsnæðis lendi ekki í braski, eins og nú á sér allt of oft stað, heldur sé bygging íbúða miðuð við þarfir almennings og gróðasjónarmið milliliða útilokuð: a) Stefnt verði að því að gera mönnum kleift að fá sómasamlegar íbúðir til umráða fyrir 10% af mánaðarlaunum sínum, og sé vaxtaafsláttur veittur barnmörgum fjölskyldum. b) Stefnt sé að því að útrýma óhæfu íbúðarhúsnæði við sjó og í sveltum með samstilltu átaki þjóðarinnar á næstu 4 árum. c) Aukin séu lán til verkamannabústaðanna, svo að fljótar gangi um byggingar. Verkalýðssamtökin fái meiri hluta í stjórn byggingarsjóðs verkamanna. d) Efldir séu húsbyggingarsjóðir hins opinbera, m.a. með erlendri lántöku, til þess að gera þjóðfélaginu kleift að beina byggingarstarfseminni inn á heilbrigðari brautir. e) Lækkaðir séu vextir til íbúðarhúsabygginga. f) Yfirráð bæjar- og sveitarfélaga yfir lóðum séu tryggð og mönnum gert kleift að fá lóðir til þess að byggja á.“

Ég vona, að hv. 6. landsk. taki eftir því, að við vorum ekki á því að hækka vexti til íbúðarhúsabygginga, ekki á því að gera mönnum ókleift að byggja yfir sjálfa sig, eins og Sjálfstfl. og Alþfl. nú eru að gera, þannig að t.d. í einu þorpi hér nærri okkur, þar sem menn um þetta leyti í fyrra voru að byrja að byggja 40 íbúðir, þar eru menn ekki að byrja að byggja neina núna. Stefna okkar er sú að reyna að hjálpa mönnum, aðstoða menn við að byggja, en ekki okra á þeim eða gera þeim það ómögulegt.

Ég held, að hv. 6. landsk. hafi spurt sérstaklega um yfirráð manna yfir sínu húsnæði. Ég álít fyrir mitt leyti eðlilegt, að menn hafi yfirráð yfir sínum eigin íbúðum, sem þeir búa í. Og meira að segja Sjálfstfl. hefur, ef ég man rétt, einhvern tíma sett það á stefnuskrá sína, að hver einasti maður ætti sjálfur að eiga sína íbúð. Það þýðir, að enginn maður ætti að eiga íbúð, sem annar býr í, þannig að ég geng út frá, að Sjálfstfl. sé inn á því, að eigi einhver maður íbúð, sem annar býr í, þá megi gjarnan setja hinar og þessar kvaðir á þann karl, því að hann er alveg á móti stefnu Sjálfstfl. Hitt skal ég taka fram sem mína persónulegu skoðun, að ég álít ákaflega mikla vitleysu hafa verið gerða með því, þegar Framsfl. og Sjálfstfl. gáfu lausa alla sölu á íbúðum raunverulega 1950, sem þýddi, að það hljóp gífurlegt brask í sölu íbúðarhúsa, að gömul hús þutu upp í gífurlega hátt verð, og þetta varð einn af helztu þáttunum til verðbólgumyndunar, sem gerzt hefur í íslenzku efnahagslífi. Og ég skal bara minna á í því sambandi, að t.d. Danir viðhalda enn þá verðlagi á húsaleigu miðað við byggingu húsa, þannig að t.d. hús, sem byggð eru til 1914, það má ekki vera hærri leigan í þeim en alveg ákveðin hækkun frá því, sem húsaleigan var 1914. Eitt af því, sem hefur hleypt dýrtíðinni hér gífurlega upp, er, að öllum höftum var sleppt í þessum efnum. En það er mín einkaskoðun.

Þá spurði hv. 6. landsk. um afstöðu mína til, hve mikið mætti fara til hinna sósíalistísku landa. Ég náði ekki orðrétt upp því, sem hann spurði þar að, en ég held, að hann hafi meint t.d., hvort ég áliti það varasamt, þótt t.d. 50% af okkar útflutningi færu til sósíalistísku landanna. Ég álít, að við eigum að afla markaða alls staðar, þar sem við getum, og ég hef einmitt oft orðað það hér þannig, að ég áliti, að við ættum að vinna alveg jöfnum höndum að því að afla okkur markaða í þeim kapítalistísku löndum og þeim sósíalístísku. Og ég get sagt það sem mína persónulegu skoðun, að ég álít, að það væri mjög heppilegt fyrir Ísland upp á þess efnahagslega sjálfstæði, að okkar viðskipti við þessa tvo heimshluta stæðust þannig nokkuð á. Ég álít það jafnvægi t.d., sem nú er, mjög heppilegt. Ég álít, að það væri engin hætta hins vegar, þó að viðskipti við sósíalístísku löndin ykjust, það væri áreiðanlega gott fyrir okkur. Hins vegar vitum við það, að við þurfum mjög mikið á frjálsum gjaldeyri að halda, og við ættum ekki að gera það þannig, að við drægjum beinlínis úr hinu, heldur nota eflinguna á mörkuðunum í sósíalistísku löndunum til þess að undirbyggja eflinguna á okkar eigin framleiðslu hér heima. Hins vegar vil ég engan veginn takmarka þetta eingöngu við fisk, heldur, eins og ég hef lýst hér áður, álít ég í sambandi við okkar stóriðju, að þá ættum við líka að hafa þetta jafnvægi á milli heimskerfanna fyrir augum.

Þá spurði hv. 6. landsk. þm. í sjötta lagi, hvort við þyrftum að sníða að einhverju leyti okkar viðskipti hér heima eftir þörfum sósíalistísku landanna. Ég náði því ekki almennilega upp, sem hann spurði að, en það, sem ég held að hann hafi meint, var þetta, hvort við þyrftum að hafa sérstakt skipulag á okkar útflutningsverzlun hér heima vegna þess kerfis, sem sósíalistísku löndin hafa, því að þau hafa einokun á allri utanríkisverzluninni. Ég álít, að við verðum að sniða okkar utanríkisverzlun og þann hátt, sem við höfum á henni, eftir þörfum Íslands. Þarfir Íslands eru hins vegar þær að geta barizt fyrir því að koma sinum vörum inn- jafnt á mörkuðum sósíalismans sem kapítalismans. Ísland stendur því aðeins sterkt að vígi í slíkri baráttu, ef þess kaupgeta annars vegar og sölumöguleikar hins vegar er sameinað á örfáar eða eina hönd. Við erum því aðeins sterkir í þeim kapítalistíska heimi, að okkar máttur sé sameinaður svo að segja á einn stað, eða kannske einn eða tvo staði, sem hefðu samstarf, vegna þess að við verðum að berjast þar við svo volduga aðila, að við stöndum okkur ekki í slagnum annars. Þetta viðurkennir ríkisstj. óbeint með því að viðhalda einokun á útflutningnum. Þess vegna álít ég, að þegar ég legg til og við í Alþb., að við höfum helzt utanríkisverzlunina alveg í höndum ríkisins, þá sé það ekki vegna þess, að við séum að gera það út frá sósíalistísku sjónarmiði, að sósíalistísku löndin geri slíkt, heldur vegna þess að Ísland er svo smár aðili í þessu stríði fyrir sínum viðskiptum, að það verður að vera eins sterkt og nokkur möguleiki er á með því að sameina allt á eina hönd. Þetta getur það aðeins með tvennu móti: Annaðhvort með því, að það sé einn hringur hér á Íslandi, einn auðhringur, sem hefur allan útflutning og innflutning, að Kveldúlfur og Alliance, eins og þeir höfðu verið 1929, tækju að sér innflutninginn á allri olíunni og öllu slíku. Slíkt skipulag mundum við á Íslandi ekki sætta okkur við út frá okkar lýðræðiskennd. Þá er ekki um annað að ræða en ríkið sem fulltrúi almennings sé slíkur sterkur aðill. M.ö.o.: til þess að geta samið við þau sósíalistísku ríki og til þess að geta barizt á þeim kapítalistíska markaði þurfum við að hafa utanríkisverzlun Íslands á einni hendi, í höndum ríkisins. Það eru þarfir Íslands, sem heimta það. Við getum ekki hugsað okkur að gera þetta á kapítalistískra hringa vísu, þá færi lítið fyrir okkar frelsi gagnvart okkar eigin auðjöfrum. Þess vegna verðum við að gera það á þá vísu að sameina þetta í höndum ríkisins.

Svo spurði hv. 6. landsk. í sjöunda lagi: Af hverju verðum við Íslendingar að gera þetta, fyrst þær þjóðir, sem hafa hvað snertir magn miklu meiri viðskipti við Sovétríkin en við, eins og Vestur-Þýzkaland, Frakkland, Bretland eða slík, þurfa ekki að gera það? Í þessum löndum eru svo voldugir hringar, að þeir framkvæma þetta sjálfir. Hringar og bankar, sem þarna ráða og drottna í þessum viðskiptaheimum, sameina annars vegar kaupmátt, hins vegar söluaðstöðu þessara landa það vel í sínum höndum, að þeir beita þannig því sama valdi, sem við Íslendingar, svo smáir sem við erum, verðum að reyna að beita með því að sameina þetta í höndum ríkisins. Þess vegna þurfa þau ekki endilega að taka upp slíka utanríkisverzlunareinokun eins og okkar. Þau hafa í höndum sinna hringa upp undir 90% af stjórninni á þeirra eigin atvinnu- og framleiðslulífi og alveg sérstaklega á útflutningnum.

Þá spurði hv. 6. landsk. í síðasta lagi, hvort við værum fylgjandi því að taka lán í Sovétríkjunum, ef þau stæðu til boða. Ég er ein. dregið fylgjandi því og Alþb. var fylgjandi því í síðustu ríkisstj. Okkur í ríkisstj. stóð til boða að taka 400 millj. kr. eftir því gamla gengi í Sovétríkjunum með 21/2% vöxtum og möguleikum á að borga það í fiski. Ég álít, að það hafi verið mikil vitleysa að taka ekki slíkt lán, þó með þeirri forsendu, að við verðum slíku láni á skynsamlegan hátt. T.d. vorum við þá að tala um að verja því til togarakaupa. Það hefði verið skynsamlegt. En það hefði líka verið hægt að verja því t.d. til framkvæmda eins og Sogsvirkjunarinnar, eða til einhvers, sem eykur okkar framleiðslu. Það hefði verið skynsamlegra fyrir okkur en að taka þau lán, sem við tökum í Bandaríkjunum, í fyrsta lagi vegna þess, að þau lán eru dýrari, sem við tökum þar, í öðru lagi vegna þess, að við erum ekki öruggir um að geta borgað þau lán í okkar afurðum og getum þess vegna orðið háðari þessum ríkjum eða orðið að selja okkar vörur lágu verði, og enn fremur vegna þess, að okkur hefur undanfarin skort hinn svokallaða frjálsa gjaldeyri, þannig að það var ópraktískt að taka lánin þar og verða að borga vexti og afborganir í þeirri mynt. Ég álít, að það væri alveg óhætt fyrir Ísland, og hef sagt áður í þessum umr., að taka slík lán, ef þau væru fáanleg. En það gildir það sama um þau lán, — það vil ég leggja áherzlu á, — eins og öll þau lán, sem til mála kæmi fyrir okkur að taka: við eigum ekki að taka svona lán, nema við verjum þeim til þess, sem eykur okkar gjaldeyrisframleiðslu eða sparar okkar gjaldeyrisframleiðslu, og við eigum að hnitmiða hagnýtingu slíkra lána, við eigum að auka með þeim okkar íslenzka þjóðarbúskap, auka með þeim okkar útflutning, auka með þeim okkar þjóðarauð. Þess vegna álít ég þá pólitík, sem núverandi hæstv. ríkisstj. hefur farið inn á, að taka 20 millj. dollara lán, 800 millj. kr. lán, í útlandinu og taka þetta lán raunverulega þannig, að þetta verður eyðslulán, — ég álít, að með slíku móti sé ríkisstj. að fara inn á alveg rangar brautir, slíkt sé fjárglæfrapólitík, eins og öll sú pólitík, sem stefnt er inn á með þessu frv., og þess vegna sé það lífsspursmál, ef við eigum að geta þróað okkar þjóðarbúskap áfram og eflt hann og bætt kjör manna hér í landinu, að það sé staðar numið. Það er nóg að gert með gengislækkuninni og öðrum slíkum víxlsporum, sem ríkisstj. hefur stigið, þó að því sé ekki bætt ofan á að fara nú að eyðileggja viðskiptin austur á bóginn, steypa okkur í 800 millj. kr. skuldir erlendis og ætla svo okkur að fara að taka við á eftir og verða svo að borga allar þessar óreiðuskuldir ykkar.