02.05.1960
Neðri deild: 74. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2285 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Þegar framsögumenn hv. fjhn. höfðu lokið máli sínu í upphafi þessarar umr., svaraði ég því, sem ég taldi helzt hafa komið fram í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, sem voru frsm. hv. fjhn. Síðan ég tók til máls fyrr við þessa umr.; hafa þrír hv. stjórnarandstæðingar flutt ræður, hv. 4. þm. Austf. (ÁS), hv. 7. þm. Reykv. (ÞÞ) og nú siðast hv. 3. þm. Reykv. (EOI). Í ræðum þessara hv. þm. hafa enn komið fram nokkur atriði, sem mér þykir ástæða til þess að gera að umtalsefni í ég vona ekki allt of löngu máli.

Hv. 4. þm. Austf. ræddi í ræðu sinni aðallega um Efnahagssamvinnustofnun Evrópu og aðild Íslendinga að þeirri stofnun. Hann taldi Efnahagssamvinnustofnun Evrópu hafa verið og vera stórskaðlega stofnun, sem Ísland hefði haft illt eitt af að hafa nokkur afskipti af eða samskipti við. Ég vil í þessu sambandi, að gefnu þessu tilefni, aðeins benda á, að það er vissara fyrir þennan hv. þm. og raunar aðra þingmenn Alþb. hér í þessari hv. d. að tala með nokkurri varfærni um Efnahagssamvinnustofnun Evrópu. Það gæti vel verið, ef þeir eru of stórorðir í fordæmingu sinni á þessari stofnun, að þeir þyrftu að gera þar breytingu á og yfirbót innan skamms. Vil ég því vinsamlega beina því til þeirra, að þeir notuðu ekki jafnstór orð um þessa stofnun og hv. 4. þm. Austf. gerði í ræðu sinni hér í dag. Ástæðan er einfaldlega sú, að nú fyrir einni til tveimur vikum hafa fulltrúar Sovétríkjanna í efnahagsstofnun Sameinuðu þjóðanna í Genf lýst því yfir fyrir hönd stjórnar sinnar í tilefni af þeim umr., sem farið hafa fram í París undanfarið í framhaldi af ráðherrafundi þar í borg í janúarmánuði s.l., að Sovétríkin vildu taka það til fullrar og vinsamlegrar íhugunar að gerast aðilar að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu.

Þegar sendinefnd Sovétríkjanna í Genf lýsti þessu yfir nú fyrir nær tveimur vikum, vakti það að sjálfsögðu mikla athygli þar í borg og í heimsblöðunum yfirleitt. Þetta var tekið sem svar Sovétríkjanna við þeim hugmyndum, sem nú eru uppi um það að endurskipuleggja Efnahagssamvinnustofnun Evrópu með þátttöku Bandaríkjanna og Kanada. Stjórn Sovétríkjanna virðist hafa tekið þá afstöðu, að eigi á annað borð svo að fara, að Bandaríkin og Kanada verði fullgildir aðilar að Efnahagssamvinnustofnuninni, geti verið eins gott fyrir Sovétríkin að gerast það líka eða a.m.k. að hafa sagt það alveg skýrt, að þau vildu gjarnan gera það eða kæmi til mála, að þau gerðu það. En svo sem kunnugt er, var Sovétríkjunum í upphafi, þegar Efnahagssamvinnustofnunin var stofnuð 1958, boðið af Bandaríkjastjórn, sem hugmyndina átti, að gerast aðili að þessari nýju stofnun í Evrópu, en Sovétríkin höfnuðu því boði. Og þau gerðu meira en hafna því boði, þau beittu sér beinlínis fyrir því, að þau ríki í Austur-Evrópu, sem höfðu í hyggju að gerast aðilar að Efnahagssamvinnustofnuninni, — og á það fyrst og fremst við Tékkóslóvakíu, sem var búin að tilkynna aðild sína að stofnuninni, — Sovétríkin beittu sér fyrir því, að þau hættu við það og samtökin því miður, — ég segi og undirstrika: því miður — urðu samtök vestrænu lýðræðisríkjanna í Evrópu einvörðungu.

Með hliðsjón af þeirri þróun, sem þarna er e.t.v. fram undan, vil ég endurtaka og undirstrika, að varlegast er fyrir hv. þm. Alþb. hér að fordæma stofnunina ekki með mjög sterkum orðum. Ég veit, að þeir mundu ekki gera það, eftir að Sovétríkin væru orðin aðili að henni.

Þá var það annað atriði í ræðu hv. 4. þm. Austf., sem ég vil leiðrétta. Hann sagði, að René Sergent, forstjóri Efnahagssamvinnustofnunarinnar, sem kom hingað á s.l. sumri. ekki til þess að gefa íslenzku ríkisstj. leiðbeiningar eða verða lærifaðir hennar, heldur á leið sinni frá Bandaríkjunum til Parísar, þar sem hann býr, hefði harmað mjög viðskipti Íslendinga við Austur-Evrópuríkin, og hv. 3. þm. Reykv. endurtók þetta og herti enn á, sagði, að það hefði komið fram, að því er mér skildist, í ummælum René Sergents, að Efnahagssamvinnustofnunin beinlínis hataðist við þessi viðskipti. Þetta er á algerum misskilningi byggt, svo sem bezt verður séð, ef texti ræðu René Sergents, sem birzt hefur í Fjármálatíðindunum, er lesinn, og nægir að vitna þar í nokkrar setningar, til þess að þessi misskilningur verði alveg augljós. Ég vil leyfa mér að gera það, með leyfi hæstv. forseta. Sergent sagði m.a. þetta, og það er það, sem er tilefni ummæla hv. 4. þm. Austf.:

„Ég vil fyrst af öllu taka fram, að við hörmum það mjög, hversu utanríkisviðskipti Íslands hafa í síauknum mæli beinzt frá löndum Efnahagssamvinnustofnunarinnar.“

En með því að harma, að viðskipti Íslands hafi beinzt frá löndum Efnahagssamvinnustofnunarinnar, þarf að sjálfsögðu engan veginn að vera átt við það, að þeir harmi viðskiptin við Austur-Evrópulöndin, og það kemur greinilega fram nokkrum setningum síðar, þegar hann útlistar þessa hugsun sína nánar, að hann á ekki við það. Hann segir rétt á eftir:

„Ég skil mætavel þau vandamál, er þið hafið átt við að etja, og hversu girnilegir sumir markaðir á vöruskiptasvæðinu hafa verið. Auk þess hafa fiskmarkaðir Evrópu ekki verið ykkur sérlega aðgengilegir á síðustu árum, því valda stjórnmálalegir erfiðleikar, og í Vestur-Evrópu hefur ekki náðst sami árangur í afnámi innflutningshamla á landbúnaðar- og fiskafurðum eins og á sviði iðnaðarvara. Enn fremur veit ég, að ykkur er hagkvæmast að flytja út fryst fiskflök, en í mörgum löndum hefur orðið lítil þróun á dreifingarkerfi því, sem nauðsynlegt er fyrir slíka vöru, og þar að auki hefur fiskneyzla í VesturEvrópu lítið aukizt.“

Af þessum setningum er alveg augljóst, að það, sem René Sergent er að harma, er, að Íslendingum skuli ekki hafa tekizt að selja viðbótarframleiðslu sína á fiski á hinum gömlu mörkuðum Íslendinga í Vestur-Evrópu. Hann hefði gjarnan viljað, að Íslendingum hefði getað tekizt að selja viðbótarframleiðslu sína á fiski í löndum Efnahagssamvinnustofnunarinnar, og það er eðlilegt, að valdamikill maður frá þessum löndum hefði gjarnan viljað, að viðskiptin við þau lönd, sem hann er í ábyrgðarstöðu hjá, hefðu ekki aðeins getað haldizt, heldur einnig aukizt. Þetta er að sjálfsögðu allt annað en hv. 4. þm. Austf. gaf í skyn, að legið hefði í orðum hans, að hann harmaði hin nýju viðskipti við Austur-Evrópulöndin, að hann harmaði, að okkur hefði tekizt að finna nýja markaði fyrir útflutningsvörur okkar í Austur-Evrópu, hvað þá að hann hatist við þau viðskipti. Því fer víðs fjarri. Þetta vildi ég aðeins leiðrétta, því að slíkur misskilningur er ekki aðeins óþarfur, heldur getur hann einnig verið skaðlegur.

Þá vil ég víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 7. þm. Reykv. Hann sagði, að það væri um að ræða tvær leiðir til þess að vinna gegn gjaldeyrishöftum. Hin fyrri væri sú að draga úr kaupgetunni og hin seinni væri sú að auka framleiðsluna. Það, sem núverandi ríkisstj. vildi gera til þess að gera kleift að afnema gjaldeyrishöft, væri að draga úr kaupgetunni. Það, sem Framsfl. vildi gera til þess að geta afnumið innflutningshöft, — hann játaði, að það væri stefna hans, eins og ég líka hafði sýnt honum og þdm. fram á með tilvitnun í sameiginlega stefnuskrá Alþfl. og Framsfl, árið 1956, — stefna Framsfl, væri sú að gera kleift að afnema gjaldeyrishöft með því að auka framleiðsluna. Hér leikur hv. þm. enn sama bragðið og hann leikur, þegar hann segir, að stefna stjórnarinnar sé ekki fólgin í því að afnema höft, heldur taki hún eina tegund hafta í stað annarra, að hann notar hér orð í annarri merkingu en tíðkast og eðlilegast er að nota orðin í og villir þannig um fyrir þeim mönnum, sem hlusta á mál hans, án þess að gera tilraun til þess að kryfja það til mergjar. Höfuðgallinn á röksemdafærslu hv. þm. eða höfuðvillan í röksemdafærslunni, hvort sem hún er viljandi eða óviljandi, er sú, hvernig hann notar orðið kaupgeta, þar sem hann kennir stefnu núverandi ríkisstj. við það, að hún vilji gera kleift að lina á eða afnema innflutningshöftin með því að draga úr kaupgetunni.

Hvað eiga menn við, þegar menn tala venjulega um „kaupgetu“? Algengasta merkingin í orðinu kaupgeta kemur fram í staðhæfingu eins og þeirri, þegar menn tala um, hvort kaupgeta Dagsbrúnarmanns hafi aukizt eða minnkað, hvort kaupmáttur launa Dagsbrúnarmanns, — sem er það sama, menn nota orðið kaupmáttur í sömu merkingu og orðið kaupgeta, — hvort kaupmáttur launa Dagsbrúnarmanns hafi aukizt eða minnkað. Kaupgeta eða kaupmáttur er það magn af vörum eða þjónustu, sem menn geta keypt fyrir ákveðna krónuupphæð. En með því að segja, að það sé stefna þessarar ríkisstj. að draga úr kaupgetunni, á þm. við, að það sé stefna ríkisstj. til að geta losað um innflutningshöft að draga úr kaupmætti launa launþega í landinu. Ef það væri rétt, að það væri stefna þessarar ríkisstj., eða yfirleitt hægt eða nauðsynleg skilyrði fyrir því að afnema innflutningshöft að draga úr kaupgetunni í þessari einu og réttu merkingu orðsins, ættu höft að geta aukið kaupgetuna. Það segir sig alveg sjálft, að ef það er leið til þess að losna við höft að draga úr kaupgetunni, ættu höft að geta aukið kaupgetuna. En það má öllum vera alveg augljóst, að engin höft geta aukið kaupgetu eða kaupmátt, kaupgetu almennings eða kaupmátt launa almennings. Það, sem hér er um að ræða, er, að hv. þm., viljandi eða óviljandi, ruglar saman kaupgetu almennings og peningamagninu í umferð, sem þarf ekki að vera hið sama, því að það er alveg augljóst mál, að þó að peningamagn í umferð aukist, þá leiðir auðvitað ekki af því aukningu á raunverulegri kaupgetu. En það, sem gerir gjaldeyrishöft nauðsynleg, er, að peningamagn í umferð hefur aukizt umfram gjaldeyristekjur, eins og þær koma fram í skráðu gengi á krónunni. Gjaldeyrishöft geta aldrei verið nauðsynleg af því, að kaupgeta í réttri merkingu orðsins sé of mikil. Kaupgeta getur yfirleitt aldrei orðið of mikil. Kaupmáttur launa getur aldrei orðið of mikill, en peningamagn í umferð getur orðið of mikið, miðað við gjaldeyristekjur, eins og þær koma fram í skráðu gengi. Það, sem hefur gerzt undanfarið hér á landi, er einmitt það, að peningamagn í umferð hefur verið of mikið og aðallega beinzt að óeðlilega mikilli fjárfestingu, en sumpart líka valdið of mikilli eftirspurn eftir neyzluvörum. Það, sem hefur þurft að gera, er að samræma peningamagnið í umferð gjaldeyristekjunum frá útlöndum, og það er það, sem verið er að gera. En það þyrfti engan veginn fræðilega séð að valda minnkandi eftirspurn eftir neyzluvörum, hvorki innlendum né erlendum. Það er fræðilega séð vel hugsanlegt, að öll minnkun peningamagns í umferð komi fram í minnkaðri fjárfestingu. M.a. af þeim sökum er augljóst, að engan veginn má blanda saman þessu tvennu: peningamagninu í umferð og kaupgetunni, sem — ég segi það aftur til þess að undirstrika þetta enn skýrar — kemur greinilegast fram í því, að engum dettur í hug, að hægt sé að auka raunverulega kaupgetu manna með því að auka peningamagnið í umferð. Nákvæmlega með sömu rökum má segja og hlýtur að vera hægt að segja, að raunveruleg kaupgeta manna, kaupmáttur þjóðarinnar minnkar ekki, þó að peningamagn í umferð sé dregið saman.

Það er ekki aukin kaupgeta, sem hlýzt af því, að peningamagn vex vegna óheilbrigðrar aukningar á útlánum. Ef útlán vaxa í sambandi við aukinn sparnað, er samfara hinni auknu útlánaaukningu aukin raunveruleg kaupgeta, en ef útlán vaxa umfram aukningu eðlilegs sparnaðar, er um að ræða aukningu á peningamagni í umferð, sem veldur verðbólgu, en ekki aukna kaupgetu í landinu. Þess vegna er alger misskilningur, að nokkrum detti í hug, að það sé grundvallarleið til þess að vinna gegn gjaldeyrishöftum að draga úr kaupgetu, því að of mikil kaupgeta veldur aldrei nauðsyn á gjaldeyrishöftum. Vaxandi kaupgeta gerir þvert á móti kleifara en ella að afnema gjaldeyrishöft. Ef einhver heil brú væri í þessari röksemdafærslu, hefði hin aukna kaupgeta t.d. í Vestur-Evrópulöndum á s.l. 10 árum átt að valda nauðsyn á auknum gjaldeyrishöftum þar. Allir vita, að samfara hinni stórauknu kaupgetu í Vestur-Evrópulöndum hafa einmitt farið skilyrði til þess að draga úr gjaldeyrishöftum þar, og styður þetta að sjálfsögðu það, sem ég hef verið að segja.

Hitt er líka misskilningur hjá hv. þm., að það sé svo einhver önnur leið til þess að vinna gegn gjaldeyrishöftum út af fyrir sig að auka framleiðsluna. Framleiðsluaukning ein saman getur aldrei verið nóg til þess að vinna gegn gjaldeyrishöftum, sem fyrir hafa verið. Ef samfara aukinni framleiðslu heldur áfram óeðlileg útþensla á bankaútlánum, eru gjaldeyrishöftin jafnnauðsynleg eftir sem áður, þrátt fyrir auknu framleiðsluna. Þetta sýndi greinilega reynslan í stjórnartíð Hermanns Jónassonar, sem hann síðar í ræðu sinni einmitt vitnaði til. Hann sagði, að það væri stefna Framsfl. að halda áfram stjórnarstefnunni frá stjórnartíð Hermanns Jónassonar, þeirri stefnu að auka framleiðsluna. En þá liggur beint við að spyrja: Það tókst að auka framleiðsluna, það er alveg rétt, en hvers vegna tókst þá ekki að afnema gjaldeyrishöftin, fyrst það tókst að auka framleiðsluna? Þetta sýnir einmitt það, sem ég er að segja, að framleiðsluaukning er ekki nóg til þess að gera kleift að afnema gjaldeyrishöft eða innflutningshöft, ef þeim ágöllum stjórnarstefnunnar eða fjármálastefnunnar almennt er haldið, sem upphaflega gerðu gjaldeyrishöftin nauðsynleg. En gjaldeyrishöft eru þá nauðsynleg, þegar meira peningamagn er í umferð innanlands en svarar til gjaldeyristeknanna út á við og reynt er til bráðabirgða að koma í veg fyrir, að þetta ástand leiti jafnvægis í hækkuðu verðlagi innanlands, sem aldrei tekst til lengdar, eins og ég raunar hef rætt áður fyrr, ræddi um í framsöguræðu minni fyrir þessu frv.

Þess vegna er það alger misskilningur hjá hv. þm., þegar hann lýsir því, að valið sé á milli þessara tveggja leiða: að draga úr kaupgetu og að auka framleiðslu. Hvorugt þetta er ráð út af fyrir sig til þess að vinna gegn gjaldeyrishöftum. Það er aðeins ein leið til þess að vinna gegn gjaldeyrishöftum, og hún er sú að kippa burt þeim forsendum, sem kölluðu á gjaldeyrishöftin, sem er ójafnvægið í fjármálakerfinu innanlands miðað við gjaldeyristekjurnar frá útlöndum, eins og þær birtast í gengisskráningunni.

Hv. þm. sagði, að núverandi ríkisstj. lamaði uppbyggingu í landinu með því að gera allar framkvæmdir dýrari. Þar á hann við, að gengisbreytingin hefur gert fjárfestingarvörur allar dýrari en þær voru áður og hlutfallslega dýrari en t.d. neyzluvörur. Ég geri ráð fyrir, að hann hafi átt við þetta, og það er rétt. Það, sem núverandi ríkisstj. gerði með gengisbreytingunni, að því er snertir fjárfestingarvörurnar, var einfaldlega að hætta að greiða fjárfestingarvörur niður, að hætta að örva fjárfestingu í landinu með því að greiða bókstaflega allar fjárfestingarvörur í landinu niður. Frá því hefur oft áður verið skýrt í umr. um efnahagsmál hér í þessari hv. d., að þegar gengisbreytingin var gerð, var meðaltal allra innflutningsgjalda 68.5%, en nær allar fjárfestingarvörur voru fluttar til landsins með 55% innflutningsgjaldi. M.ö.o.: fjárfestingarvörur voru 13% undir því meðaltall, sem var á gjöldum á öllum innflutningi. Þetta er mjög veruleg niðurgreiðsla á allri fjárfestingu í landinu.

Er heppilegt að örva fjárfestingu með slíkum niðurgreiðslum? Svo mjög sem má um það deila, hversu heppilegt sé að örva. neyzlu á vissum vörutegundum með niðurgreiðslum, er hitt þó margfalt umdeilanlegra, hvort sé heppilegt að greiða bókstaflega alla fjárfestingu í einu landi niður jafnstórkostlega og hér á sér stað. Það er þetta, sem hefur verið hætt, og að þessu leyti hefur ríkisstj. haft áhrif á fjárfestingarfyrirætlanir manna. En ég mundi segja, að þau áhrif væru í heilbrigða átt, en ekki í óheilbrigða átt. Það er auðvitað sjálfsagt, að menn byggi sínar fjárfestingaráætlanir á raunhæfum grundvelli, að menn leggi ekki í framkvæmdir á öðrum grundvelli en þeim, sem er þjóðhagslega arðbær. En það segir sig sjálft, að meðan allar fjárfestingarvörur eru greiddar mjög verulega niður, eitthvað misjafnlega, en allar þó verulega niður, þá eru fjárfestingaráætlanir manna alls ekki þjóðhagslega séð á raunhæfum grundvelli. Ég hika því ekki við að staðhæfa, að sú breyting, sem hér varð einmitt á þessu sviði með gengisbreytingunni, er þjóðhagslega séð í mjög skynsamlega átt og mun stuðla mjög að því, að fjárfesting í landinu verði framvegis heilbrigðari og á miklu raunhæfari grundvelli frá almennu þjóðhagslegu sjónarmiði séð en var, meðan það skipulag hélzt, sem því miður var á þessum málum á stjórnarárum Hermanns Jónassonar og raunar allar götur síðan 1951.

Þá er að síðustu eitt atriði í ræðu hv. 7. þm. Reykv., sem ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um, þar sem ég tel — og þykir miður að þurfa að segja það, að hann hafi hallað mjög réttu máli. Hann sagði, að fyrir forgöngu Efnahagssamvinnustofnunarinnar hefðu tvö lönd önnur í Evrópu gripið til ráðstafana, sem væru svipaðar þeim ráðstöfunum, sem hér hefði verið gripið til, þ.e. Frakkland og Tyrkland. Þau eru raunar 3, Spáni hefði mátt bæta við. Það skiptir minnstu máli. Það, sem er aðalatriðið, er, að það, sem hann sagði um árangur þessara ráðstafana í Frakklandi og Tyrklandi, var mjög rangt, alrangt. Hann sagði eða það mátti skilja af orðum hans, að þessar ráðstafanir í Frakklandi hefðu misheppnazt að mjög verulegu leyti, ef ekki algerlega, og lífskjör í Frakklandi hefðu farið mjög versnandi undanfarið. Það er þvert á móti skoðun — ég vil segja flestra fjármálamanna í Frakklandi og Evrópu yfirleitt og Bandaríkjunum, að þær ráðstafanir, sem gripið var til í Frakklandi um áramótin 1958 og 1959, hafi í stórum dráttum heppnazt mjög vel. Sú gengisbreyting, sem þá var gerð á frankanum, varð til að auka útflutning alveg stórkostlega og bæta gjaldeyrisaðstöðu Frakklands skyndilega svo gífurlega, að Frakkland er nú að komast í hóp þeirra ríkja í Vestur-Evrópu, sem hafa hvað sterkasta fjárhagsaðstöðu. Það er misskilningur, ef menn halda, að þau auknu áhrif, sem Frakkar hafa nú í heimsmálum, séu eingöngu eða jafnvel fyrst og fremst því að þakka, að þar hefur komizt á sterkara stjórnarfar innanlands og þar er á oddinum maður, sem nýtur mikils trausts á alþjóðavettvangi, eins og hv. 7. þm. Reykv. gat um. Ég mundi segja, að hitt ætti ekki minni þátt í þeirri auknu virðingu, sem Frakkland nú nýtur á alþjóðavettvangi, að Frakkar hafa komið fjármálum sínum á traustan og að ýmsu leyti heilbrigðan grundvöll, eða a.m.k. á miklu heilbrigðari grundvöll en þau voru á áður, sem hefur komið mjög greinilega fram í framleiðsluaukningunni í landinu á síðasta ári, í stórauknum útflutningi þeirra og í stórbættri gjaldeyrisaðstöðu þeirra út á við. Frá því að að vera hálfgerður sjúklingur á efnahagssviðinu, eins og Íslendingar hafa verið síðasta áratuginn, hafa Frakkar gerbreytt hag sínum á einu til tveim árum, þannig að nú standa þeir mjög sterkt.

Hv. þm. sagði, að Frakklandsforseti, de Gaulle, hafi fórnað fjármálaráðherra sínum, Pinay, vegna óánægju, sem hafi verið með stefnuna í efnahagsmálum. Þetta er alger misskilningur hjá hv. þm., og satt að segja furðar mig á því, að hann, sem án efa er einn fróðasti maður um erlend stjórnmál, sem hér situr á Alþ., og einn fróðasti maður um þau efni í íslenzkri blaðamannastétt, skuli segja hér þannig frá málavöxtum, því að ég hélt, að það væri á vitorði allra, sem þarna hafa fylgzt nokkuð með málum, að ástæðan til þess, að de Gaulle lét fjmrh. sinn, Pinay, víkja úr sæti, var ágreiningur um utanríkismál, var það, að fjmrh. hafði gagnrýnt stefnu de Gaulle gagnvart Atlantshafsbandalaginu og Bandaríkjunum. Pinay er einn traustasti fylgismaður Atlantshafsbandalagsins í frönskum stjórnmálum og hafði látið óspart í ljós innan ríkisstj. og utan hennar óánægju með þá sérstöðu eða þá gagnrýni, sem de Gaulle hafði látið í ljós á Atlantshafsbandalaginu, og þær kröfur um sérstöðu, sem stjórn hans hafði krafizt innan Atlantshafsbandalagsins. Það var af þessum ástæðum, sem Pinay kaus að hverfa úr stjórninni eða var látinn víkja úr henni, og einmitt til þess að undirstrika, að stefnan í efnahagsmálunum skyldi vera óbreytt, tilnefndi. de Gaulle sem eftirmann Pinays aðalbankastjóra Frakklandsbanka, sem hvert mannsbarn í Frakklandi veit að er embættismaður og hefur sömu grundvallarskoðanir í þessum efnum og de Gaulle og Pinay höfðu sameiginlega.

Það er ekki dómur um þessar grundvallarráðstafanir í gjaldeyrismálum, bankamálum og innflutningsmálum Frakka, að mikil óánægja hefur verið hjá frönsku bændastéttinni. Franska bændastéttin hefur notið meiri verndar og meiri sérréttinda en líklega nokkur önnur bændastétt í Evrópu. Henni höfðu verið tryggð margs konar markaðssérréttindi í landinu og hún notið gífurlegra uppbóta og gífurlega víðtæks styrkjakerfis. Það var einn liður í stefnu hinnar nýju stjórnar í Frakklandi að draga mjög verulega úr þessum styrkjum til fransks landbúnaðar og draga mjög verulega úr þeim niðurgreiðslum, sem franskar landbúnaðarafurðir eru seldar með á frönskum markaði, og það er þetta, sem hefur valdið hinni miklu andstöðu frönsku bændastéttarinnar gegn þessari stjórn í Frakklandi. En það er að sjálfsögðu enginn mælikvarði á það, hvort stefnan í gjaldeyrismálum Frakka eða í gengismálum Frakka hefur verið rétt eða ekki rétt. Ég vil segja, að ein sönnunin fyrir því, að þessar gengismálaráðstafanir Frakka heppnuðust, en misheppnuðust ekki, er svo einmitt fólgin í því, að þrátt fyrir þessar róttæku breytingar hafa engin verkföll orðið í Frakklandi síðan, og er þó verkalýðshreyfingin í Frakklandi ekki aðeins mjög sterk, heldur að meiri hluta undir mjög róttækri forustu, sem sagt undir forustu hins stóra og sterka kommúnistaflokks í Frakklandi. Það hafa engin verkföll, ekki einu sinni á einstökum sviðum, hvað þá allsherjarverkföll, verið sett á í Frakklandi til þess að hnekkja þessari stefnu í gengismálunum. Væri óskandi, að íslenzk alþýðuhreyfing bæri gæfu til þess að taka jafnábyrga afstöðu gagnvart ráðstöfunum ríkisstj. í gengismálum og franska verkalýðshreyfingin hefur á því meira en ári, sem liðið er síðan, tekið gagnvart þessum ráðstöfunum þar í landi. En þar virðast forustumenn verkalýðshreyfingarinnar, hvort sem þeir eru í hópi kommúnista, sósíaldemókrata eða hinna kaþólsku, það eru 3 stærstu verkalýðssamböndin þar, — þar virðast þeir hafa verið á einu máli um, að það væri ekki leið fyrir franskan verkalýð að svara gengisbreytingu frönsku stjórnarinnar og stefnu hennar í gjaldeyris- og innflutningsmálum með því að efna til verkfalla og knýja fram kauphækkanir.

Þó að ég hafi sagt þetta, sem ég nú segi, um stefnu frönsku stjórnarinnar í gengismálum og gjaldeyris- og innflutningsmálum, þýðir það að sjálfsögðu ekki, að ég, án þess að vera þó nokkur sérfræðingur í frönskum stjórnmálum, sé reiðubúinn til þess að styðja stefnu hennar í öllum málum eða mundi kjósa þá flokka, sem þá stjórn styðja, ef ég væri franskur kjósandi. Því fer auðvitað víðs fjarri. Það eru mörg önnur atriði í stefnu hennar, sem að mínu viti hafa verið mjög ámælisverð, stefna hennar t.d. gagnvart opinberum starfsmönnum, stefna hennar í Alsírmálinu og þar fram eftir götum, sem mundi gera það að verkum. Þó að ég telji fjármálaráðstafanir hennar, ráðstafanir í gengismálum og innflutningsmálum, hafa verið réttmætar og borið mjög góðan árangur, geta önnur atriði valdið því, að maður, sem væri þar í sveit, mundi ekki treysta sér til þess að styðja þá stjórn, heldur mundi kjósa að skipa sér annars staðar í flokk.

Þá var það hitt atriðið, sem hv. þm. vék að, þar sem einnig var, því miður, hallað réttu máli, þar sem hann vék að Tyrklandi. Hann sagði, að þær efnahagsráðstafanir, sem þar hefðu verið gerðar, hefðu einnig misheppnazt fullkomlega, eins og sæist, sagði hann, á þeim fregnum um uppreisn í landinu, sem nú gyllu í eyrum manna daglega í útvarpi og blöstu við augum manna í blöðum. Það er sem sagt alger misskilningur, að uppreisnin í Tyrklandi núna sé mótmælaalda gegn þessum næstum — ég held tveggja ára gömlu efnahagsráðstöfunum. Uppreisnin í Tyrklandi núna er krafa um frelsi á hendur stjórn, sem er hálfgerð einræðisstjórn. Stjórnarfarið í Tyrklandi er ekki lýðræðislegt, og það er það, sem þeir tyrknesku uppreisnarmenn eða mótmælendur eru að krefjast, að tyrkneska stjórnin fylgi meiri lýðræðisreglum en hún gerir, að hún t.d. létti af þeirri ströngu ritskoðun, sem hún hefur komið á, að hún afnemi þær takmarkanir á starfsfrelsi andstöðuflokkanna, sem hún hefur komið á, enda hafi menn hlustað á útvarpsfréttirnar í kvöld, þá fólst eiginlega í þeim svar við því, sem hv. þm. var að segja hér síðdegis í dag, því að þar var greint frá nokkrum vígorðum, sem voru á kröfuspjöldum í þeirri 2000 manna fylkingu, sem stefndi að höllinni, þar sem utanríkisráðherrafundur Atlantshafsbandalagsins var einmitt settur í dag, og vígorðin voru öllsömun um aukið frelsi, um afnám frelsisskerðingar, um afnám ritskoðunar og þar fram eftir götunum. Það, sem þarna er um að ræða, er frelsishreyfing, er krafa um aukið lýðræði, andmæli gegn nýlegum ráðstöfunum um frelsisskerðingu, en ekki andmæli gegn um það bil tveggja ára gömlum ráðstöfunum í efnahagsmálum, sem ég þá skal ekki fjölyrða mikið um, því að það verður að segjast eins og er, að þær hafa ekki tekizt eins vel og Frökkum tókst, og þó enginn vafi á því, að þær hafa í Tyrklandi verið spor í rétta átt.

Að því er snertir ráðstafanirnar á Spáni, sem hv. þm. vék ekki að, en eru nýlegastar, er það að segja, að það sem ég get um þær séð í útlendum blöðum og tímaritum, þá hafa þær einnig orðið til þess að stórauka utanríkisverzlun Spánar og bæta gjaldeyrisaðstöðu landsins.

Þá vildi ég víkja nokkuð að ræðu hv. 3. þm. Reykv. Hann sagði í upphafi ræðu sinnar, að hann óttaðist, að hin stranga bankapólitík, sem ég hefði boðað í fyrri ræðum mínum um þetta frv., mundi verða til þess að valda gjaldþroti ýmissa smáatvinnurekenda hér á Íslandi. Slík bankapólitík gæti verið eðlileg í Þýzkalandi, Frakklandi og Englandi og öðrum háþróuðum iðnaðarlöndum, en hún ætti ekki við hér á Íslandi sem tæki til þess að ná þeim markmiðum, sem ég vildi ná með henni. Ég vildi aðeins segja, að þau efnahagslögmál, sem gilda í Þýzkalandi, Frakklandi og Englandi, hljóta líka að gilda hér á Íslandi. Það er enginn sá eðlismunur á efnahagslífinu eða atvinnustarfseminni hér á landi og í þessum löndum, sem geri að verkum, að einhver allt önnur lögmál gildi hér en þar. Ef það er rétt, sem hv. þm. játaði, að ströng bankapólitík sé hagkvæmt og árangursríkt tæki til þess að hjálpa til að ná jafnvægi gagnvart útlöndum, ef það er rétt í Þýzkalandi, Frakklandi og Englandi, þá hlýtur það líka að vera rétt hér á Íslandi og er það líka.

Ég óttast ekki, að sú stefna í bankamálum, sem þessi ríkisstj. fylgir, muni verða til þess að setja nokkurn mann á höfuðið, hvorki smáan atvinnurekanda né heldur stóran. Eðli þeirrar stefnu í bankamálum, sem þessi ríkisstj. fylgir og ætlar að fylgja undir öllum kringumstæðum og undir engum kringumstæðum að víkja frá, — eðli hennar er svo einfalt í raun og veru, grundvallarsetningin er svo einföld, að það hlýtur hverjum manni að verða ljóst, að hún getur ekki orðið til þess að setja neinn mann, hvorki smáan né stóran, á höfuðið. Grundvallaratriði þessarar stefnu í bankamálum er einfaldlega og blátt áfram þetta: að lána út sparifé bankanna, lána út allt sparifé bankanna, en ekkert meira en spariféð, að auka útlán bankanna ekki um meira en spariféð vex, þetta og ekkert annað. Þetta er kjarninn í þeirri bankapólitík, sem hv. 8: þm. Reykv. kallar stranga og segir að muni verða til þess að setja einhvern á höfuðið. Ég segi: ef það er skilyrði fyrir því, að menn hér fari ekki á höfuðið, að bankarnir láni út meira en þeir fá til sín, er eitthvað meira en lítið bogið við þann atvinnurekstur, og þá er spurningin, hvort hann á nokkuð annað skilið en að fara á höfuðið.

Það er auðvitað hægt að halda öllum heilbrigðum atvinnurekstri í landinu gangandi með því, að bankarnir láni út það fé, sem lagt er inn í þá, og að þeir auki útlán sín um það peningamagn, sem innlánin vaxa um. Atvinnulífið í heild þarf ekki á meira lánsfé að halda en þessu. Ef útlánin eru aukin umfram þetta, leita þau eftir einhverjum krókaleiðum í fjárfestingu, sem ber ekki að halda uppi með slíkum lánveitingum, og eru þar af leiðandi óheilbrigð og eru ein hliðin, ein spegilmyndin af verðbólgu í landinu. Þetta er einfalt lögmál, og það er ekki hart. Að því leyti er algerlega óþarfi að kalla bankapólitík, sem fylgir þessum grundvallarlögmálum, harða. Hún kann að virðast hörð, meðan verið er að breyta óheilbrigðri bankapólitík í það horf, að hún verði heilbrigð. Meðan þeir atvinnurekendur, sem hafa notið þess fjár, sem bankaútlán hafa vaxið um umfram sparifjármyndun og veitt í einhvers konar fjárfestingu, eru að laga sig að þessari heilbrigðu stefnu í bankamálum, kann hún að virðast hörð fyrir þá, en til lengdar getur hún ekki verið það og er það ekki, því að einmitt á þessum grundvallarlögmálum byggja allir bankar í öllum heilbrigðum þjóðfélögum stefnu sína, hvort sem skipulag þeirra er kapítalistískt eða sósíalitískt, hvort sem það byggir á frjálsri samkeppni eða á áætlunarbúskap.

Hv. 3. þm. Reykv. beindi til mín spurningu, sem hann óskaði mjög eftir að ég svaraði skýrt og ljóst, um það, hver stefna ríkisstj. væri í kaupgjaldsmálum, hvað ríkisstj. hygðist fyrir, ef kaupgjaldið hækkaði, hvort ríkisstj. ætlaði þá að láta það afskiptalaust. Ég skal með ánægju verða við ósk hv. þm. um að svara þessu með einföldum og ég vona skýrum og ljósum orðum.

Það er stefna ríkisstj. að hafa engin afskipti af kaupdeilum, sem verða kunna. Ef atvinnurekendur telja sig geta borgað meðlimum í stéttarfélögum hærra kaup, gera þeir það af sínum tekjum. Af því mun ríkisstj. engin afskipti hafa. En hún segir við atvinnurekendurna alveg skýrt og vill ekki, að á því sé nokkur minnsti vafi, ekki skuggi af vafa, að ríkisstj. mun engar verðhækkanir leyfa vegna kauphækkana, sem atvinnurekendur fallast á að greiða. Og ríkisstj. mun undir engum kringumstæðum taka upp aftur nokkrar tegundir af uppbótum til þess að bæta atvinnurekendum upp þær kauphækkanir, sem þeir kunna að semja um, — undir engum kringumstæðum.

Ég vil líka í viðbót við þetta svar eða í beinu framhaldi af því og í samræmi við það svara því, sem hv. þm. spurði um: Er það kannske ætlun ríkisstj., ef kaup þrátt fyrir allt hækkar, að bera fram till. við Alþingi um nýja gengisbreytingu? Ég ætla að svara þessu alveg skýrt líka: Nei, það er ekki ætlun ríkisstj. að bera fram við Alþingi till. um nýja gengisbreytingu. Þetta er jafnframt vitneskja fyrir atvinnurekendur um, að ef þeir semja við verkalýðsfélög um hækkað kaup, geta þeir ekki heldur átt von á því, að genginu verði breytt til þess að bæta þeim þá kauphækkun, sem þeir kunna að semja um. Ríkisstj. telur, eftir að hafa gert mjög ýtarlegar rannsóknir á málinu, að það gengi, sem hún lagði til við Alþingi að samþykkt yrði, sé nægilegt til að tryggja arðbæri íslenzkra útflutningsatvinnuvega, miðað við núverandi kaupgjald. Það er bjargföst sannfæring ríkisstj., að þetta gengi sé nægilegt til þess að tryggja arðbæri íslenzkra útflutningsatvinnuvega sem heildar, miðað við núverandi kaupgjald. Þess vegna verður þessu gengi haldið. Ef hins vegar íslenzkir atvinnurekendur telja sig geta borgað meira en þetta, er það þeirra mál, án afskipta af hálfu ríkisstj.

Hv. þm. spurði líka, hvort það væri stefna ríkisstj. að afnema eftirvinnu og koma á því, sem hann kallaði „hæfilegt atvinnuleysi“. Það er ekki stefna ríkisstj., að vinnutími í landinu minnki frá því, sem nú er. Það er ekki stefna stjórnarinnar, að neinar þær breytingar verði í framleiðslumálum eða á vinnumarkaðnum, sem líklegar séu til þess að draga úr heildarframleiðslu þjóðarinnar. Hins vegar er það að sjálfsögðu, eins og kaupgjaldsmálið sjálft, samningsatriði á milli vinnuveitanda og verkamanna, hversu lengi er unnið.

Í framhaldi af þessum bollaleggingum eða þessum fyrirspurnum hv. 3. þm. Reykv. held ég, að gagnlegt geti verið að fara um það nokkrum orðum, hvernig kjarabætur gerast og hvernig íslenzkir launþegar geti búizt við því á næstunni, að sú kjaraskerðing, — sú kjaraskerðing, segi ég hiklaust, — sem nú á sér stað til bráðabirgða í framhaldi af þeim ráðstöfunum, sem nú er verið að gera, geti aftur snúizt upp í kjarabót, sem ég vona að muni verða og treysti að geti orðið innan ekki langs tíma. Sannleikurinn er sá, að menn gera sér ekki nálægt því alltaf nógu ljósa grein fyrir því, hvernig kjarabætur verða í nútímaþjóðfélagi eins og hinu íslenzka. Menn þvert á móti hafa margir mjög rangar hugmyndir um það í grundvallaratriðum. En skilningur á því hjálpar einmitt til þess að gera sér ljóst, hvernig búast megi við því, að sú kjaraskerðing, sem nú í bráð á sér stað, geti aftur breytzt í kjarabót. Kjarabætur í þjóðfélagi eins og því íslenzka verða einkum af þremur orsökum, verða einkum af einni orsök af þessum þremur: viðskiptakjörin geta breytzt út á við, verðlag á útflutningi hækkað eða verðlag á innflutningi lækkað, framleiðsla þjóðarinnar getur aukizt, og í þriðja lagi getur framleiðni eða pródúktívitet þjóðarinnar aukizt. En það er ekki víst, að kjarabótin, sem hlýtur að leiða af þessu fyrir þjóðfélagið í heild, komi fram á einn og sama hátt, og það er að mjög verulegu leyti komið undir stefnu ríkisvaldsins í efnahagsmálum, á hvern hátt kjarabótin kemur fram, þegar eitthvað af þessu þrennu gerist, að viðskiptakjörin breytast landinu í hag, að framleiðslan vex eða framleiðni eða pródúktívitet vex.

Ef viðskiptakjörin breytast t.d. á þann hátt, að verð á innflutningi lækkar, þá lækkar verðlag í landinu og þá kemur kjarabótin fram á þann hátt, ef kaupgjald helzt óbreytt, að verðlag lækkar í landinu.

Ef viðskiptakjörin breytast á þann hátt, að verð á útflutningi hækkar, gerist það ekki sjálfkrafa, að bót verður á kjörum manna, þá þarf annað tveggja að koma til, að gengi sé hækkað, sem því miður er of sjaldan látið verða undir slíkum kringumstæðum, eða skilyrði skapast til kauphækkunar. Það er t.d. undir slíkum kringumstæðum, sem kauphækkun er eðlileg og sjálfsögð, þ.e. ef almenn verðhækkun verður á útflutningsvörum landsmanna, viðskiptakjörin breytast landinu í hag á þann veg. Undir þeim kringumstæðum er kauphækkun eðlileg og sjálfsögð, nema því aðeins að gengið sé hækkað, sem mundi leiða til lækkaðs verðlags í landinu.

Ef hagur landsins batnar, kjarabæturnar eru í heild á þann hátt, að framleiðsla landsins vex, afli vex, iðnaðarframleiðsla vex eða landbúnaðarframleiðsla vex, þá sigla í kjölfar þess beinlínis auknar tekjur hjá framleiðslustéttunum vegna þess kerfis í launamálum, sem við búum við hér á Íslandi. Tekjur sjómanna vaxa, tekjur bænda vaxa og þeirra ýmissa annarra sem fá auknar tekjur vegna hinnar auknu framleiðslu. Hitt er svo annað mál, hvort hin sjálfkrafa tekjuaukning, sem verður af framleiðsluaukningunni, dreifi heildartekjuaukningunni réttlátlega. Það má mjög draga í efa. T.d. verða opinberir starfsmenn útundan, ef ekki er sérstaklega að gætt, ef ekki eru gerðar sérstakar ráðstafanir. Ef heildarkjarabótin verður vegna aukinnar framleiðslu, þarf að gera sérstakar ráðstafanir t.d. til að bæta kjör þeirra og þeirra launamanna, sem vinna við innflutning og innlendu framleiðsluna. Kjör opinberra starfsmanna eru bætt þannig, að útflutningurinn, sem hefur hagnað, er skattlagður sérstaklega til að geta borgað opinberum starfsmönnum aukið kaup: Hliðstæðar ráðstafanir er hægt að gera gagnvart þeim launþegum, sem vinna við innflutning og innlenda framleiðslu. M.ö.o.: ef þjóðartekjurnar vaxa vegna aukinnar framleiðslu, þarf líka að gera sérstakar ráðstafanir af hálfu launþegasamtaka og þá með hjálp ríkisvaldsins til þess að dreifa tekjunum af þessari auknu framleiðslu öðruvísi og jafnar en verður sjálfkrafa, en að mjög verulegu leyti verður tekjuaukningin sjálfkrafa, beinlínis í kjölfar sjálfrar framleiðsluaukningarinnar.

Mestur vandinn er hins vegar á höndum; þegar heildarkjarabótin gerist vegna aukinnar framleiðni, vegna aukins pródúktívitets. Það er þá, sem eiginlegt hlutverk launþegasamtakanna er mest að fylgjast með því, hversu pródúktívitetsaukningin er mikil, og tryggja, að hæfilegur hluti hennar, að réttlátur hluti hennar lendi í höndum launþega. Þar er mestur vandinn hjá launþegasamtökunum og ríkisvaldinu, sem að mínu viti á að styðja slíka þróun. Það, sem þó hjálpar hér til meira en menn hafa áttað sig á, er með hvaða hætti kauphækkun gerist nú á tímum í nútímaþjóðfélagi, með hvaða hætti sú kauphækkun gerist, sem einkum og sér í lagi er afleiðing af aukinni framleiðni, en getur líka siglt í kjölfar aukinnar framleiðslu og jafnvel bættra viðskiptakjara. Kjarabótin, sem launþegar hljóta, á sér nefnilega alls ekki að meiri hluta stað, — ég segi þetta aftur: á sér í nútímaþjóðfélagi alls ekki að meiri hluta stað í hækkuðum töxtum launþeganna, heldur í því, að launþegarnir flytjast úr einu starfi, sem er lægra launað, í annað starf, sem er hærra launað. Þeir flytjast á milli taxta, ef svo mætti segja. Þeir flytjast úr einni stéttinni í aðra. Það er í þessu formi, sem kjarabótin í nútímaþjóðfélagi gerist að langmestu leyti. Þannig gerist kjarabótin að langmestu leyti, ekki aðeins í vestrænum ríkjum, heldur einnig í hinum austrænu ríkjum, og þannig hefur kjarabótin gerzt hér á Íslandi að langmestu leyti s.l. 25 ár, s.l. aldarfjórðung. Það er þess vegna, sem tölur um breytingu á taxtakaupi eru svo villandi um þá kjarabót, sem launþegastéttin sem heild hefur hlotið, því að þá er gleymt að taka tillit til þess, hversu mikill hluti af launþegastéttinni hefur flutzt frá lægra launuðu starfi í betur launað starf, flutzt frá lægri taxta í hærri taxta. Það er t.d. alveg augljóst mál, að mælikvarði á kjör Dagsbrúnarmanna er alls ekki hækkun hins almenna, lága Dagsbrúnartaxta sjálfs. Það er algerlega villandi mælikvarði á tekjur Dagsbrúnarmannsins að bera saman taxtann eins og hann var fyrir 20 árum og taxtann eins og hann er nú. Til þess að reikna dæmið rétt verðum við líka að taka tillit til þess, hversu mikill hluti Dagsbrúnarmanna er nú á þessum taxta og hversu mikill hluti þeirra er nú á hærri taxta. Og enn þarf að taka tillit til hins, ef við viljum taka þetta sem einhvern mælikvarða á tekjur launþegastéttarinnar yfirleitt, hversu mikill hluti launþeganna er nú Dagsbrúnarmenn og hversu mikill hluti var áður Dagsbrúnarmenn. Það hlutfall hefur stórkostlega lækkað. Dagsbrúnarmenn eru nú miklu minni hluti af heildarlaunþegunum í landinu en þeir voru fyrir 25 árum, sem betur fer. Það er í þessu, sem kjarabót launþeganna hefur komið ekki hvað sízt greinilega fram, að þeim mönnum, sem vinna fyrir hinn almenna Dagsbrúnartaxta, fer sífellt fækkandi. Í þessu eru fólgnar kannske mestu framfarirnar hér á landi. Sú kjarabót, sem hlýzt í nútímaþjóðfélagi af aukinni framleiðni, af auknu pródúktíviteti, kemur einmitt fyrst og fremst fram í þessu, að hlutfalistala þeirra manna, sem eru á lægstu laununum, fer alltaf lækkandi. Án þess að skilja þessar staðreyndir, sem eru allt of lítið kunnar, geta menn ekki dæmt kaupgjaldsmálin eða launamálin af þeirri skynsemi og þeirri sanngirni. sem nauðsynlegt er: .

Hv. 3. þm. Reykv. ræddi svo enn allmikið í ræðu sinni um viðskipti okkar við Austur-Evrópu. Hann sagði, að við í ríkisstj. yrðum að gera okkur ljóst, að hér væri alls ekki spurning um að vernda innflutninginn frá þeim, heldur útflutninginn þangað. Og hann sagði, að jafnvirðiskaupalöndin mundu kaupa jafnmikið og við af þeim. Þetta er því miður rangt. Við höfum því miður ekki tryggingu fyrir því, að þau kaupi jafnmikið af okkur og við af þeim. Honum er áreiðanlega jafnkunnugt og mér, að við höfum t.d. á síðasta ári gert tilraun til þess að selja meira, jafnvel til þess viðskiptalandsins, sem er stærst og bezt af jafnvirðiskaupalöndunum öllum, til Sovétríkjanna, af bæði freðfiski og síld sérstaklega heldur en við áttum kost á að selja þangað, og ég treysti því, að ef við hefðum getað fengið að selja þangað meira en við fengum samninga um, þá hefði okkur tekizt að kaupa þaðan á móti. En það tókst því miður ekki að fá markað í Sovétríkjunum fyrir jafnmikið af freðfiski og síld, sérstaklega ekki af síld, eins og við hefðum kosið að selja þangað. Þegar af þessu sést, að það er því miður ekki rétt, að við höfum vissu fyrir því, að þessi lönd kaupi jafnmikið af okkur og við af þeim. Við höfum notað markaðinn í Austur-Evrópu fyrir okkar útflutningsvörur í eins ríkum mæli og við höfum átt kost á að nota hann: Við höfum yfirleitt samið um allt, sem hægt hefur verið að selja til þessara landa. Það hefur yfirleitt ekki staðið á Íslendingum að selja, með minni háttar undantekningum um sérstakar vörur, en yfirleitt hefur ekki staðið á Íslendingum að selja til þessara landa, heldur hefur það verið takmarkað, sem okkur hefur tekizt að finna markað þar fyrir, þó að aukningin á undanförnum 8 árum hafi verið gleðilega mikil, sérstaklega að því er snertir freðfiskinn. Þetta vildi ég segja alveg skýrt til þess að undirstrika, að það er ekki rétt mynd, sem menn fá af ræðum hv. þm. um þetta, a.m.k. ekki þegar þetta er bakgrunnurinn, sem hann byggir ummæli sín að öðru leyti á. Ég vil þó ekki segja, að höfuðvandi austurviðskiptanna væri sá, að það hafi skort mikið á, að við höfum getað fengið að selja þangað það, sem við höfum viljað selja þangað. Vandi þessara viðskipta hefur ekki verið fólginn í því. Vandinn hefur hins vegar verið fólginn í því að finna vörur til þess að kaupa frá þessum löndum í staðinn fyrir það mikla magn, sem við höfum getað selt þangað, sem henti okkur og séu sambærilegar í verði við þær vörur sams konar, sem við höfum getað fengið fyrir frjálsan gjaldeyri frá vestrænum löndum: Það hefur verið meginvandi viðskiptanna. En það verður sannarlega ekki sagt um íslenzk stjórnarvöld, hvorki þau, sem setið hafa hér, áður en núv. ríkisstj. tók við, né heldur um þessa ríkisstj., að þau hafi ekki gert svo að segja allt, — ég segi aftur: svo að segja allt, sem í þeirra valdi hefur staðið, til þess að finna vörur í þessum löndum, hagkvæmustu vörurnar, sem völ hefur verið á í þessum lönd. um, til þess að kaupa í staðinn fyrir það magn, sem við höfum átt kost á að selja þangað. Mér er ekki kunnugt um neina ríkisstj. síðan 1952, að þessi miklu viðskipti hófust, sem hefur ekki verið öll af vilja gerð til þess og hefur sýnt það í verki í ráðstöfunum sínum, að hún hefur beinlínis lagt sig fram um að finna vörur í þessum löndum, sem hentuðu Íslendingum einna bezt, til þess að gera sérhverja þá sölu til þessara landa mögulega, sem unnt hefur verið að gera sölusamning um. Vandinn hefur verið mikill, og hann hefur verið á innflutningshliðina. Hann hefur verið sá, að þær vörur, sem við höfum orðið að kaupa í staðinn, eftir að hafa farið yfir allan þann langa lista yfir vörur, sem þaðan er völ á, hafa sumar hverjar, neðstu vörurnar á listanum, síðustu vörurnar á listanum, því miður oft verið þannig, að þær annaðhvort henta okkur ekki eða þá eru ekki sambærilegar í verði eða þá eru þannig, að við eigum ekki kost á þeim í sams konar fjölbreytni og við getum fengið þær annars staðar frá. Samt sem áður höfum við keypt þær. Eina breytingin, sem nú er að gerast, er sú, að um það bil 13% af innflutningnum 1958 á nú að mæta samkeppni frá frjálsum gjaldeyrislöndum, og þær vörur, sem valdar hafa verið til þess að mæta samkeppninni, eru allt saman vörur, sem mjög litlar líkur eru til að unnt sé að gera þá st6ru fyrirframsamninga um, sem hv. 3. þm. Reykv. hefur fjölyrt svo mikið um. Hinir stóru fyrirframsamningar eru gerðir um stóru vörukaupin, um kol, olíu, járn. og stál og timbur og því um líkt. En stórir fyrirframsamningar eru ekki gerðir um fullunnar vefnaðarvörur, þeir eru ekki gerðir um búsáhöld og aðrar slíkar neyzluvörur, sem þurfa að — vera fyrir hendi í mjög miklu vöruúrvali og með mikilli fjölbreytni og þar sem framleiðslan er miklum breytingum undirorpin frá ári til árs, jafnvel frá mánuði til mánaðar. En það eru fyrst og fremst slíkar vörur, sem við höfum talið að þessi lönd væru þegar búin að byggja upp svo traustan markað fyrir hér á landi, að þau væru ekki í neinni óeðlilegri hættu, — ég segi viljandi og að yfirlögðu ráði: væru ekki í neinni óeðlilegri hættu, þó að þau þyrftu að mæta samkeppni frá öðrum löndum. Ef næstum áratugs viðskipti, þar sem íslenzki markaðurinn héfur verið verndaður mjög rækilega fyrir útflytjendur í þessum löndum, sérstaklega í Tékkóslóvakíu og Austur-Þýzkalandi, hafa ekki dugað til þess að koma hér á viðskiptasamböndum og byggja hér upp markað fyrir slíkar vörur sem þessar, þannig að þær þoli samkeppni annars staðar frá, þá eru viðskiptin ekki heilbrigð. En þau verða kannske heilbrigð, ef slík samkeppni kemst á á þessum sviðum.

Hitt er alveg rétt hjá hv. þm., að í aðalatriðum verða þessi viðskipti vegna efnahagskerfisins, sem í þessum löndum ríkir, að grundvallast á stórum sölusamningum. Alveg eins og sala okkar til þeirra á freðfiski og síld grundvallast á stórum samningum, verða nokkrir stórir samningar að koma á móti, og það hefur ekki staðið á Íslendingum að gera slíka samninga, og til þess eru þeir að sjálfsögðu reiðubúnir áfram. En það er ekki heppilegt og ekki æskilegt, að bókstaflega öll viðskiptin séu á þessum grundvelli, enda heldur alls ekki framkvæmanlegt að öllu leyti. Og þegar slíkir stórfyrirframsamningar eru ekki framkvæmanlegir, eins og með ýmsar af þessum neyzluvörum, er eðlilegast, að viðskiptin við þessi lönd komist á þann heilbrigða grundvöll, sem ég vona að þau komist, þegar um nokkurt aðhald af samkeppni verður að ræða.

Af því að hv. þm. nefndi enn í þessari ræðu sinni nokkuð bilana og vandamálið með þá, eru þeir í raun og veru gott dæmi um þann vanda í innflutningshliðinni, sem við er að etja í þessum viðskiptum. Hann vitnaði í þær upplýsingar, sem ég gaf, að í rammasamningnum við Sovétríkin hefði verið gert ráð fyrir kaupum hingað á 500 bifreiðum, en það væri ekki búið að gera fasta kaupsamninga um nema 250 bíla, og hafi ég sagt, að við það yrði að sjálfsögðu staðið, og það endurtek ég hér. En hann spurði: Hvað verður um hina 250 bílana? Verða þeir teknir? Og ef þeir verða ekki teknir, minnkar það þá ekki möguleika okkar til sölu á flökum og síld í Sovétríkjunum? Nú held ég, að hv. þm. viti áreiðanlega, hver vandi er hér á ferðum, og sá vandi er einmitt alveg greinilegur, hann er týpískur um þann vanda, sem við stöndum oft frammi fyrir í þessum viðskiptum. Hv. þm. veit eflaust, að aðalbílategundin, sem hér er um að ræða, Moskvits-bílarnir, kosta nú eftir gengislækkunina um 130 þús. kr., og þeir virðast ekki vera seljanlegir á því verði. Ríkisstj. er reiðubúin til þess að gera þær ráðstafanir til þess að gera þá seljanlega að halda innflutningi á bílum frá Vestur-Evrópu og Ameríku niðri í algeru lágmarki, hafa á þeim nær innflutningsbann, t.d. á þeirri bílategund, sem keppir einna harðast á þessum markaði, sem er þýzki fólksbíllinn. Hann kostar um 100 þús. kr. eftir gengisbreytinguna. Eftir honum er gífurleg eftirspurn á 100 þús. kr., að því er innflytjendurnir segja. Innflytjendurnir á Moskvitsbílunum segja, að það sé engin eftirspurn eftir þeim á 130 þús. kr. Nú spyr ég hv. þm. í fullri vinsemd, — þetta er sameiginlegt vandamál, sem við eigum við að etja, og er mikið vandamál: Hvað mundi hann gera í þessum sporum? Það er auðvitað ekki nóg að segja, að ef við kaupum ekki þessa 250 bíla, sem þarna er um að ræða, þá sé ríkisstj. að stefna ísfisksmarkaði okkar eða saltfisksmarkaði okkar í Sovétríkjunum í hættu. Það þarf að vera hægt að selja þessa 250 bíla, sem munu kosta 130 þús. kr. Ef þeir eru óseljanlegir, er það ekki ríkisstj., sem hefur spillt ísfisksmarkaði eða saltfisksmarkaðinum eða saltsíldarmarkaðinum í Sovétríkjunum, heldur er það sú staðreynd, að þessi vara, sem við viljum gjarnan kaupa, er ekki seljanleg á íslenzkum markaði, í fyrsta lagi ekki í samkeppni við aðra, og þó að við útilokum samkeppnina algerlega, eins og við erum reiðubúnir til að gera, þá er varan samt sem áður ekki seljanleg, að því er innflytjendur telja. Hér er mikið vandamál á ferðinni. Hvað á að gera til að gera bílana seljanlega? Á að lækka gjöldin á þeim? Á að lækka verðlagið á þeim til að gera þá seljanlega? Nú er ekki hægt að lækka verðið á einni bílategund, það yrði þá að lækka verð á öllum bilum eða t.d. litlum bílum, Moskvits-bílarnir eru lítil bílategund. Þá mundi verðið á Volkswagen-bílunum lækka í sama hlutfalli. Eftirspurnin eftir þeim mundi þá náttúrlega vaxa enn meira. En kannske er það leiðin. Ekki veit ég, hvort hv. þm. mundi vilja mæla með því, að dregið yrði úr lúxusgjöldunum á bifreiðainnflutningnum. Þó er það leið, sem verður að athuga í fullri alvöru.

Nokkuð svipað er að segja um annan stóran vöruflokk, sem komið hefur til greina að kaupa frá Sovétríkjunum, sem eru vélar. Þar stendur engan veginn á íslenzkum yfirvöldum að greiða fyrir innflutningi á vélum frá Sovétríkjunum hingað til landsins. Það stendur á því að finna kaupendur hér á landi fyrir vélarnar við því verði, sem þær eru boðnar fram á í Sovétríkjunum. En þess má kannske geta í sambandi við bilana, að það er vitað mál, að bílar frá Sovétríkjunum eru seldir hingað við hærra verði en t.d. á frjálsum markaði í Bandaríkjunum. Þeir eru seldir hingað á svipuðu verði og þeir hafa verið seldir, að því er ég bezt veit, í öðrum skandinavískum löndum. En verðið er mun hærra hingað og t.d. til Noregs en þeir eru seldir á til Bandaríkjanna. Ég er í engum vafa um, að ef bílarnir eru seldir hingað á sama útflutningsverði og þeir eru seldir til Bandaríkjanna, mundi skapast stór markaður fyrir þessa bíla hér og þá um leið tilsvarandi markaður fyrir okkar útflutningsvörur í Sovétríkjunum.

Ég segi þetta aðeins til þess að sýna, að það er hvorki rétt né heldur sanngjarnt að lýsa vandamálinu þannig, að erfiðleikarnir, sem geta komið upp og koma upp í slíkum viðskiptum, séu allir saman heimatilbúnir af íslenzkum stjórnarvöldum. Því fer víðs fjarri. Slík vandamál eru venjulega þannig, að það geta báðir aðilar gert sitt til að leysa þann vanda, sem að steðjar, og ég vona, að sá vandi, sem að vísu er smávægilegur, sem er nú á ferðinni í sambandi við viðskiptin við Sóvétríkin að þessu leyti og hv. þm. var að gera að umtalsefni, leysist. En ég vil segja, að það er eindregin von mín, að hann leysist þannig, að ekki þurfi að verða um að ræða einhliða tilslakanir af íslenzkra stjórnarvalda hálfu, heldur komi þar einnig á móti nokkrar tilslakanir af rússneskra stjórnarvalda hálfu, sem sýni, að þeim sé annt um að hafa markað á Íslandi, alveg eins og okkur er annt um að hafa markaði í Sovétríkjunum. Ég vil segja aftur, að ég vona, að við þær viðræður, sem sumpart fara fram og sumpart munu fara fram um þessi atriði og ýmis önnur hliðstæð, sem upp kunna að koma og ástæðulaust er að gera að umtalsefni hér, þau leysist öllsömun, og þau munu leysast, ef af beggja hálfu er góður vilji fyrir hendi.

Hv. þm. saknaði þess, að ég hefði ekki í fyrri ræðu minni svarað þeirri fsp. frá honum, hvort ekki væri líklegt, að innflutningur frá Sovétríkjunum minnkaði vegna minnkandi fjárfestingar hér og vegna minnkandi neyzlu hér. Um þetta er það að segja, að við getum að sjálfsögðu ekki haldið uppi fjárfestingu hér á landi út frá því sjónarmiði fyrst og fremst, hvað þá því sjónarmiði einu, að við þurfum að flytja inn fjárfestingarvörur frá Sovétríkjunum eða einhvers staðar annars staðar frá. Það eru önnur sjónarmið, sem hljóta að ráða því, í hversu mikla fjárfestingu við leggjum hér. Ef fjárfesting hér minnkar svo mikið, að það komi fram í minnkuðum innflutningi frá Sovétríkjunum, efast ég ekki um, að okkur muni kleift að kaupa frá því landi aðrar vörur í staðinn, sem okkur sé jafnhagkvæmt að kaupa og fjárfestingarvörurnar, sem við kaupum þaðan núna. Svipað er um það að segja, þótt ég að vísu geri ekki ráð fyrir því í neitt svipuðum mæli og hv. 3. þm. Reykv., að innflutningur til landsins frá Sovétríkjunum muni minnka verulega vegna minnkaðrar neyzlu hér. Þá er og um það að segja, að ef svo yrði að einhverju leyti, þá er ég í engum vafa um, að frá því landi er unnt að kaupa vörur okkur hagkvæmar, sem til þess mundi svara. Ég mundi segja, að höfuðvandinn í viðskiptum við Sovétríkin, fyrir utan þetta minni háttar mál, sem ég var að tala um áðan, sé sá, að við eigum þar ekki kost á öllum þeim markaði, sem við vildum gjarnan eiga kost á þar. Að vísu urðu þau gleðilegu tíðindi nú fyrir skömmu, að það eru líkindi til þess, að Sovétríkin muni kaupa 2000 tonn af frystum fiskflökum til viðbótar, þannig að heildarsalan þangað gæti farið upp í allan kvótann, 32 þús. tonn, og engum hefur dottið annað í hug en hægt sé að kaupa vörur þaðan á móti því útflutningsmagni.

Ég mundi segja, að höfuðvandamálið í viðskiptunum við Sovétríkin væri þveröfugt við það, sem hv. þm. vill telja höfuðvanda austurviðskiptanna yfirleitt. Höfuðvandinn í viðskiptunum við Sovétríkin og þá um leið við alla austurblokkina er sá, að þar er minnkandi markaður fyrir saltaða síld, og Sovétríkin eru ekki reiðubúin, því miður, til þess að kaupa af okkur alla þá söltuðu síld, sem við erum reiðubúnir og viljum fegnir geta fengið að selja þangað. Þetta mundi ég segja að væri kjarninn í vandanum í viðskiptunum við austurblokkina, og hann er þveröfugur við það, sem hv. þm. lýsir honum hér.

Hv. þm. nefndi einnig aftur í ræðu sinni vandamálið um sölu á sjólaxi til Tékkóslóvakíu og taldi útflutningsfyrirtækið hér liggja með allmiklar óseldar birgðir af sjólaxi, en hafa áður haft örugga markaði í Tékkóslóvakíu. Ég vona eindregið, að innan skamms muni innkaup frá Tékkóslóvakíu aukast aftur svo verulega, að þessi markaður haldist a.m.k. að mestu leyti. Sá samdráttur, sem varð á innkaupum frá því landi á fyrstu mánuðum ársins, á sér áreiðanlega alveg sérstakar orsakir vegna þeirrar óvissu, sem innflytjendur telja að hafi skapazt í innflutningsmálunum. En eftir að frílistinn varð í raun og veru kunnur, eins og hann varð. við 1. umr. málsins hér í þessari hv. d., hefur þess þegar orðið vart, að menn hafa farið að gera ráðstafanir til innkaupa, sérstaklega í Tékkóslóvakíu og raunar í fleiri af Austur-Evrópulöndunum, þannig að ég á von á því, að mjög fljótlega komist þau viðskipti í aðalatriðum í eðlilegt horf, þannig að þessi markaður muni ekki vera í hættu.

Að síðustu, að því er snertir þá fsp. hv. þm., hvað ríkisstj. hygðist fyrir að því er snertir vorsíldina, þá er rétt að skýra frá því hér, að það hefur þegar verið ákveðið. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hefur þegar ákveðið að frysta 2000 tonn af þessari síld, þó að ekkert hafi veiðzt upp í það enn þá, og vonir standa því til þess, ég vona rökstuddar vonir, að hægt muni vera að selja þá vöru einmitt í Tékkóslóvakíu. 2000 þús. tonn eru að vísu ekki mikið magn, en samt sem áður má segja, með hliðsjón af því, að það er ekki rétt hjá hv. þm., að fyrir vorsíldarmarkaðnum sé ekki hugsað af hálfu þeirra, sem ábyrgðin á því hvílir fyrst og fremst á.