05.05.1960
Neðri deild: 76. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég vil, áður en þetta mál fer frá hv. deild, láta falla um það nokkur orð og þó kannske öllu heldur um þá efnahagsmálastefnu, sem þetta frv. er einn liður í, eða raunar, eftir því sem hv. stjórnarflokkar túlka, þá sé þetta frv. eins konar afleiðing þeirra ráðstafana í efnahagsmálum, sem nú sé búið að leggja grundvöll að. Á hinn bóginn mun ég ekki fara mjög langt út í þessi efni, því að þetta hefur mjög verið rætt áður og gefst tóm til að ræða það enn, áður en hv. Alþ. lýkur.

Því er haldið fram, að þetta frv. sé í raun og veru um aukið frelsi til athafna og viðskipta. Ég sé, að það er að einu leyti hreinlega um afnám leyfisveitinga að ræða eða hafta, getum við sagt, í frv. og það er að því leyti, að fjárfesting á ekki að verða háð leyfum framvegis. Menn eiga ekki að þurfa að sækja um leyfi til þess að ráðast í fjárfestingarframkvæmdir. Ég býst við, að stjórnarliðið muni vilja túlka þetta sem mjög þýðingarmikið skref í áttina til aukins frelsis, eins og það er orðað, athafnafrelsis. Og satt er, að þetta sparar einhverjum einstaklingum og félögum einhverja fyrirhöfn við að leita leyfis yfirvaldanna um þær framkvæmdir, sem þeir hafa í huga. En hér er ekki nema lítið brot af sögunni sagt. Það þarf að skyggnast dýpra í þetta til þess að sjá, hvað hér er raunverulega að gerast.

Hvað hefur hæstv. ríkisstj. gert til þess að skapa það ástand í landinu, að hún leggur nú til að afnema með öllu fjárfestingareftirlitið? Hvað er það, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert til þess að skapa jarðveg fyrir þetta? Hvað er það, sem þjóðin á að gjalda, — það mætti orða það þannig, — hvað er það, sem þjóðin á að gjalda fyrir það, að fjárfestingareftirlitið er afnumið' Það, sem hæstv. ríkisstj. hefur gert, til þess að henni fyndist auðið að stíga þetta skref, er í stuttu máli það að gera ráðstafanir til þess að gera allar framkvæmdir í landinu sem allra dýrastar, gera skipulegar ráðstafanir til þess að hækka verðlag í landinu og gera allar framkvæmdir í landinu sem dýrastar.

Og það er meira, sem gert hefur verið. Það hafa einnig verið gerðar alveg sérstakar ráðstafanir til þess að torvelda mönnum að ná í fé til þess að ráðast í framkvæmdir. Það hefur verið gert með því að taka upp stórfelldan samdrátt í útlánum bankanna. Það hefur verið gert með því að innleiða okurvexti, bæði á föstum lánum og lausum lánum. Með þessu og með mörgu öðru móti hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að leggja stein í götu þess, að almenningur í landinu geti haldíð áfram þeirri framfarasókn, sem hann hefur haldið uppi síðustu áratugina. M.ö.o.: ríkisstj. hefur tekið öll þau stórbjörg, sem hún hefur getað fundið og bifað, og lagt þau í götu framkvæmdamannanna í landinu, til þess að reyna þannig að koma í veg fyrir, að framkvæmdastarfið geti haldið áfram eins og verið hefur, bæði, eins og ég hef sagt, með því að magna dýrtíðina á allar lundir og kostnaðinn við sjálfar framkvæmdirnar og enn fremur með því að draga stórkostlega úr allri lánastarfsemi í landinu og loks með því að svipta almenning ýmsum opinberum stuðningi, sem menn hafa haft, til þess að standa undir þessum framkvæmdum.

Þetta er það gjald, sem þjóðinni er ætlað að gjalda fyrir þessa lagabreytingu, sem hér er stungið upp á, og í staðinn á að koma, að menn þurfi ekki að sækja um fjárfestingarleyfi. M.ö.o.: stjórnin hefur unnið að því markvisst og skipulega að fjötra þá, sem vilja áfram og vilja byggja upp, á höndum og fótum, og þegar því er lokið, þegar búið er að ganga þannig frá þessum málum, að stjórnin þykist alveg viss um, að almannaframkvæmdirnar í landinu hljóti að dragast stórkostlega saman, þegar stjórnin þykist orðin alveg viss um, að mikill fjöldi manna verður að hætta við fyrirætlanir sínar um að byggja íbúðir t.d., áð meginþorri manna verður að hætta við fyrirætlanir sínar um að koma á stórfelldum endurbótum á jörðum sínum eða í atvinnurekstri yfir höfuð, þegar stjórnin er búin að ganga þannig frá þessum málum, að hún þykist nokkurn veginn viss um, að hún sé búin að fjötra menn svo og leggja þá steina í götu manna, að menn geti ekki komizt fram hjá þeim, þá kemur frelsið í framkvæmd, sem er fólgið í því að breyta þessum lagastaf, sem hér á nú að breyta, að nú eiga menn ekki lengur að þurfa að sækja um fjárfestingarleyfi.

Þetta er um þann kafla frv., sem fjallar um hið nýja frelsi í framkvæmdamálum. En sannleikurinn er sá, að það, sem hér er að gerast, er einfaldlega þetta: að ríkisstj, hefur með margvíslegum ráðstöfunum lagt stein í götu þess, að menn geti ráðizt í framkvæmdir, en síðan er afnumið lagaákvæði um, að það skuli þurfa að leita leyfis til framkvæmda. Þetta þýðir, að þeir, sem eiga nægilegt fjármagn, þeir, sem hafa auðinn í landinu í sínum höndum, og þeir, sem eiga að verða í sérstakri náð hjá lánastofnunum landsins, bönkunum, á næstunni, þeir geta verið frjálsir að því að gera það, sem þeim sýnist.

Þetta er framkvæmd þeirrar stefnu, sem á s.l. sumri var í sambandi við kjördæmamálið túlkuð þannig, að það þyrfti að draga úr hinni pólitísku fjárfestingu í landinu, en stórauka hina efnahagslegu fjárfestingu. En pólitísk fjárfesting í landinu er sú fjárfesting, sem alþýða manna hefur haft með höndum og hefur verið studd á einhvern hátt af ríkisvaldinu, annaðhvort með beinum stuðningi með lágum vöxtum eða þá með því að greiða rösklega fyrir lánsútvegunum til þessara framkvæmda eða þá opinberar framkvæmdir yfir höfuð. Þetta eru þær pólitísku framkvæmdir, sem núverandi ríkisstj, hefur lagt allt kapp á að hefta, en hinar efnahagslegu framkvæmdir í landinu eru þær framkvæmdir, sem hinir ríku geta ráðizt í óstuddir og þeir telja að muni borga sig frá þeirra eiginhagsmuna sjónarmiði eða þá langar til að koma upp og hafa fjármagn til að standa undir sjálfir. Það er sú fjárfesting, sem nú á að sitja í fyrirrúmi í þjóðfélaginu og koma í staðinn fyrir hina pólitísku fjárfestingu, sem talað var svo mikið um í sambandi við kjördæmamálið. Og framkvæmdin á þessum þætti er nokkuð komin áleiðis með þessum mörgu ráðstöfunum, sem ég hef verið að lýsa, til þess að leggja stein í götu almennings og síðan með því að gefa þeim, sem fjármagnið hafa með höndum, lausan tauminn, og það er sá liður, sem verið er að framkvæma nú með þessu frv.

En ætli almenningur í landinu, sem nú verður að leggja til hliðar yfir höfuð áætlanir sínar um framfarir, sé ekki ákaflega lítið hrifinn af þessu frelsi núverandi stjórnarflokka og þessari frelsiskenningu Sjálfstfl., t.d. eins og hún verður í framkvæmdinni að þessu leyti? Sannleikurinn er sá, að með öllum þessum ráðstöfunum hefur Sjálfstfl. t.d. algerlega kastað grímunni. Hann hefur á undanförnum árum og áratugum raunar haldið því fram, að hann hafi sérstakan áhuga fyrir því að styðja einstaklingsframtakið í landinu, jafnvel einstaklingsframtak fjöldans, einstaklingsframtak hvers einasta manns, jafnvel þó að hann væri ekki sérstaklega fjáður, og hafi haft mikinn áhuga á því, að sem flestir gætu orðið sjálfstæðir atvinnurekendur og jafnvel eignazt sjálfstæð heimili. — En núna, þegar flokkurinn fær aðstöðu til þess að hafa áhrif á þjóðmálin og hefur fengið með sér flokk eins og Alþfl., sem lætur Sjálfstfl. algerlega ráða, í fyrsta skipti síðan 1927, þá sést, hvað það er, sem raunverulega vakir fyrir Sjálfstfl. Það er ekki það að styðja einstaklingsframtak hinna mörgu. Það er ekki það að stuðla að því, að sem flestir landsmenn geti í raun og veru orðið sjálfstæðir atvinnurekendur eða eignazt sjálfstæð heimili. Það er ekki þetta. Í götu þessara manna eru lögð, eins og ég hef sagt, þau þyngstu björg, sem hægt er að finna og hægt er að hnika. En að sama skapi er ætlunin, að þeir, sem hafa fjármagnið aðallega með höndum, og þeir, sem eiga að verða í náðinni hjá bönkunum, geti tekið að sér framkvæmdirnar. Það á að vera sú efnahagslega fjárfesting, sem á að eiga sér stað, þ.e.a.s. sú fjárfesting, sem hinir auðugu eða hinir ríku telja að borgi sig fyrir þá.

Gegn þessari stefnu mun Framsfl. berjast, eins og hann hefur gert, síðan hann fékk aðstöðu til þess að hafa nokkur áhrif á þjóðmál Íslendinga. Hér er farið alveg í öfuga átt við það, sem flokkurinn vill. Flokkurinn telur, að nú hefði þurft að halda fjárfestingareftirlitinu og draga úr þeirri fjárfestingu, sem helzt gat beðið, þegar litið var á almannahag í landinu, en greiða fyrir því, að fjárfestingarframkvæmdir almennings gætu haldið áfram á svipaða lund og áður, uppbygging almennings í landinu gæti haldið áfram á svipaða lund og verið hefur.

Þetta er um þann kafla frv., sem fjallar um afnám fjárfestingareftirlitsins.

Þá er að öðru leyti efni þessa frv. í raun og veru að breyta um fyrirkomulag á þeim afskiptum, sem verið hafa af verzluninni, stokka upp nefndirnar og ráðin og losna við áhrif stjórnarandstæðinga úr þeim málum. Það er í raun og veru aðalefni frv., að því er lýtur að verzluninni. Það á að leggja niður innflutningsnefndina, en í staðinn kemur nefnd eða ráð á vegum Útvegsbankans og Landsbankans. Ríkisstj. er heimilað að tilnefna trúnaðarmenn sína til þess að annast einstaka þætti þessara mála, ótiltekið, bæði tala og hversu margir hóparnir skuli vera, og vafalaust líður ekki á löngu, þangað til fullt verður orðið af nýjum nefndum og trúnaðarmannahópum á vegum ríkisstj. til þess að framkvæma hin margvíslegu og flóknu afskipti, sem ríkisstj. er ætlað að hafa af viðskiptum landsmanna eftir sem áður, þótt þetta frv. verði samþ.

Þetta atriði hefur verið rætt það ýtarlega við þessar umr., að ég sé ekki ástæðu til þess að fara mjög út í það. Ég vil aðeins slá því föstu, af því að það er svo víðs fjarri, að með þessu frv. sé stefnt að því að afnema ríkisafskipti af verzluninni, að ríkisstj. er þvert á móti í þessu frv. ætlað alræðisvald um allar greinar verzlunarinnar, alveg eftir því sem henni býður við að horfa að beita því valdi, og til þess að skipa menn og nefndir eftir þörfum og geðþótta til að starfa að þessum efnum.

Því hefur verið haldið fram, að með þeirri stefnu, sem ríkisstj. hefur tekið upp í efnahagsmálum, væri stefnt að meira frjálsræði um atvinnu og minni höftum en áður og minni afskiptum ríkisvaldsins en áður hefur verið, og þetta hefur verið fært fram sem ein aðalástæðan fyrir því, að menn yrðu að taka á sig þær gífurlegu búsifjar, sem fylgja efnahagsmálaráðstöfunum ríkisstj. Það væri stefnt að stórauknu frelsi, minni höftum og minni afskiptum ríkisvaldsins en áður hefur verið. Ég hygg, að segja megi, að varla hafi nokkru sinni meira öfugmæli verið mælt en þessar fullyrðingar, sem hv. stjórnarliðsmenn hafa flutt í þessa átt. Sannleikurinn er sá, að með því, sem hæstv. ríkisstj. hefur nú gert og ætlar sér að gera og fengið sér lagaheimildir til að gera, er stefnt að meiri ríkisafskiptum af efnahags-, atvinnu- og viðskiptalífi Íslendinga en nokkru sinni áður hefur þekkzt eða átt sér stað, og fruntalegri aðgerðir ýmist verið framkvæmdar eða fyrirhugaðar gagnvart einstaklingum og félögum en nokkru sinni hafa áður komið til mála. Það er fróðlegt í þessu sambandi að rifja upp aðeins örfá atriði til að sýna, hvaða fjarstæður það eru, sem haldið er fram að þessu leyti.

Hvernig er það með vaxtahækkunina stórkostlegu, sem sett hefur verið á, bæði á fjárfestingarlánum, til uppbyggingar í sjávarútvegi, landbúnaði og til íbúðabygginga, stórkostlega vaxtahækkun og styttingu lána, er þessi vaxtahækkun komin á eftir einhvers konar náttúrulögmáli, alveg af sjálfu sér, eða hvaðan er hún komin? Hér er um hrein ríkisafskipti að ræða. Þessi vaxtahækkun, sem er hugsuð til þess að torvelda mönnum framkvæmdir og svipta þá stuðningi, sem þeir hafa haft, er framkvæmd samkvæmt vilja og frá ríkisstj. komin. Hér er um hrein ríkisafskipti að ræða. Hvernig er um hækkunina á almennu útlánavöxtunum í bönkunum upp í 11%? Ætli sú hækkun hafi orðið samkvæmt einhverju óviðráðanlegu náttúrulögmáli? Það er alveg sama um þessa vaxtahækkun að segja, að hún er einnig fram komin vegna fyrirskipunar ríkisstj. Hér er um hrein ríkisafskipti að ræða í þá átt að draga saman atvinnu- og viðskiptalíf í landinu með því að gera lánsfé miklu dýrara en áður hefur verið. Og hvernig er það með nýja söluskattinn, sem innleiddur hefur verið, bæði nýr söluskattur innanlands og tvöfaldaður söluskattur á aðfluttum vörum? Ætli þar sé ekki um aukin ríkisafskipti að ræða? En þetta fé er dregið inn í ríkisbúskapinn, sumpart til þess að standa undir stórauknu styrkjakerfi, þar sem eru hinar nýju fjölskyldubætur og stórauknar niðurgreiðslur, þannig að þetta fjármagn er dregið inn í fjárhirslu ríkisins með auknum ríkisafskiptum, þ.e.a.s. stórauknum álögum og til þess að stórauka styrkjakerfið, sem ríkisstj. þóttist upphaflega vera að draga saman eða jafnvel að afnema. En sumpart eru þessar nýju álögur lagðar á beinlínis til þess að hækka verðlagið og til þess að koma á þeim samdrætti, sem ríkisstj. stefnir að, til þess að innheimta, ef svo vill verða, stórum meiri ríkistekjur en notaðar verða til þess að standa undir útgjöldum ríkisins, og þannig eru þessi afskipti beinlínis hugsuð í samdráttarskyni. Þessar álögur eru hugsaðar að verulegu leyti og hreinlega á lagðar í samdráttarskyni, til þess að gera mönnum erfiðara fyrir, bæði um framkvæmdir og einnig til þess að draga úr því, sem menn geta veitt sér til þess að uppfylla heimilisþarfir.

Hvernig er það með hinar nýju ráðstafanir, sem nú hafa verið fyrirskipaðar til þess að draga sparifé landsmanna inn í seðlabanka landsins? Ætli þar sé um eitthvert náttúrulögmál að ræða, eða ætli þar sé um aukin ríkisafskipti að ræða? Ég held, að það sé enginn vafi á því, að þar er um stórkostlega aukin ríkisafskipti að ræða, alveg ný hér hjá okkur, og þar er gengið svo langt, að það er hugsunin að draga t.d. helminginn af því fé, sem félagsmenn í kaupfélögunum leggja inn í félögin sem rekstrarfé handa félögunum, það er gengið svo langt að lögbjóða það, að helmingurinn af þessu fé skuli tekinn út úr þessum félögum og lagður inn í Seðlabankann. Hér er þó ekki um fé að ræða, sem lagt er inn í þessi félög til þess að það verði þar að útlánafé, heldur eingöngu um fé að ræða, sem félagsmenn þessara félagssamtaka leggja félögum sinum sem starfsfé eða sem rekstrarfé, og það mætti nákvæmlega með sama rétti — eða öllu heldur órétti — setja næst lagaákvæði um, að ef einhver maður leggur fé inn í fyrirtæki sitt eða í félagsrekstur í hlutafélagsformi, í atvinnurekstur sinn, þá skuli hann skila jafnmiklu inn í Seðlabankann og því, sem hann leggur í atvinnureksturinn eða inn í hlutafélag það, sem hann myndar með öðrum mönnum. Það væri nákvæmlega hliðstæð ráðstöfun þeirri, sem nú hefur verið gerð gagnvart kaupfélögunum.

Á þessu sjáum við, hvað hér er um ósvífna árás á frelsi manna til félagsstarfsemi og efnahagsstarfsemi að ræða, ósvífnari árás en nokkru sinni áður hefur komið til greina, svo að mér sé kunnugt um, og þetta gæti sem sagt hreinlega verið, eins og ég segi, upphaf að því, og væri alveg nákvæmlega hliðstætt, að einstaklingum, sem legðu fé sitt sem rekstrarfé inn í önnur félög eða í atvinnurekstur yfirleitt, yrði gert skylt að skila jafnháum fúlgum inn í Seðlabankann.

Það dylst náttúrlega engum, að þetta eru hreinlega aukin ríkisafskipti frá því, sem áður hefur verið, og þetta fjármagn á svo ýmist, að því er manni skilst, að leggjast fyrir í Seðlabankanum til þess að stuðla þar að þeim samdrætti á framkvæmdum og atvinnu, sem hæstv. ríkisstj. hugsar sér að koma í framkvæmd, á að liggja þar til þess að stuðla að þeim samdrætti. Það á með því að koma í veg fyrir, að þetta fé geti orðið til þess að standa undir framkvæmdum úti um byggðir landsins eða hjá almenningi í landinu. Það á að leggja það inn í Seðlabankann, til þess að það geti orðið þar liður í samdráttaráætlun ríkisstj., eða þá að þetta fé á að lána í gegnum aðra banka gæðingum ríkisstj., þeim sem eiga að erfa landið, þeim sem eiga að sjá um uppbygginguna, þegar búið er að stöðva uppbyggingu almennings í landinu.

Og þar komum við að því, sem ég hef áður minnzt á hér í vetur, og það mun vera hugsjón þeirra, sem standa að þessari efnahagsmálastefnu, að með þessu fjármagni, að svo miklu leyti sem það verður lánað út, en ekki notað í þágu samdráttarins, verði studd hin nýja uppbygging, sem á að verða, hin efnahagslega uppbygging, þ.e.a.s. sú uppbygging, sem þeir vilja helzt koma í framkvæmd, sem hafa ráð yfir mestu fjármagni, og þeir telja borga sig bezt fyrir sig. Það verða þessir gæðingar stjórnarliðsins, sem munu fá í sínar hendur þetta fjármagn, sem dregið verður frá sparisjóðunum og innlánsdeildum kaupfélaganna, ef það verður lánað út á annað borð.

Ég hef nefnt hér aðeins örfá dæmi af mýmörgum, sem mætti nefna um aukin afskipti ríkisvaldsins samkvæmt þeirri efnahagsmálastefnu, sem nú hefur verið tekin upp. Það er því fullkomið öfugmæli, að hér sé stefnt að minni afskiptum ríkisvaldsins en áður hefur verið, heldur eru þau aukin í fjölmörgum greinum, og allt er þetta miðað við það eitt, allt hnígur að sama brunni, að gerbreyta þeirri þjóðfélagsstefnu, sem fylgt hefur verið hér, síðan íhaldið tapaði meiri hl. 1927. Það er allt miðað við að gerbreyta þeirri stefnu, stöðva uppbygginguna á vegum þeirra, sem hafa minna fjármagn undir höndum, hinna mörgu, torvelda hana með öllu hugsanlegu móti, sumpart til þess að koma á samdrætti og sumpart til þess að ná saman fjármagni til þess að styðja hina efnahagslegu fjárfestingu, sem kölluð hefur verið, þ.e.a.s. þá fjárfestingu, sem eingöngu á að miða við gróðasjónarmiðið og fyrst og fremst á að fara fram á vegum þeirra, sem hafa fjármagnið nú undir höndum eða eiga að verða sérstakir gæðingar lánastofnananna.

Þá kemur spurning upp í sambandi við þetta mál. Er þessi stefna, sem hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp, líkleg til þess að styðja verzlunarfrelsið í landinu? Er hún líkleg til að verða til þess, að hér verði á næstu árum nægilegur gjaldeyrir handa þjóðarbúinu, til þess að hægt sé að halda uppi verzlunarfrelsi? Er þessi efnahagsmálastefna, þessi samdráttarstefna ríkisstj., líkleg til þess að skapa grundvöll að frjálsum viðskiptum? Ég segi nei. Ég svara þeirri spurningu alveg hiklaust neitandi.

Ef erfiðleikar eru á því að halda uppi frjálsum viðskiptum, þá er hægt að fara tvær leiðir til að reyna að ráða bót á því. Önnur leiðin er leið samdráttarins og fátæktarinnar, sem núv. ríkisstj. er að reyna að fara. Það er leið samdráttarins og fátæktarinnar. En hin leiðin, sem kemur til greina, er leið uppbyggingarinnar. Það er sú leið að reyna að gera skynsamlegar ráðstafanir til þess að auka framleiðsluna og bæta lífskjörin. Og ég segi: Ég hef enga trú á því, að leið samdráttarins og fátæktarinnar verði til þess, að hér geti á næstu árum þróazt verzlunarfrelsi eða yfirleitt nokkurt frelsi. Og ég vil færa fyrir þessu örfáar ástæður umfram það, sem leiðir af því, sem ég nú þegar hef sagt, bæði nú og áður í vetur.

Með þeirri samdráttarstefnu, sem nú er tekin upp, hlýtur framleiðslan á næstu missirum og næstu árum að fara minnkandi. Hún hlýtur að fara minnkandi. Hún getur staðið í stað, framleiðslan í vetur, vegna þess að í vetur og við skulum segja á þessu ári njóta menn góðs af þeirri stórfelldu uppbyggingu, þeim stórkostlegu tækjakaupum og uppbyggingu, sem búið var að koma í framkvæmd, áður en samdráttarstefnan kom til greina, áður en núv. ríkisstj. náði völdum og sneri við blaðinu.

Í sjávarplássunum t.d. víðs vegar um landið njóta menn þess nú, hvað gerðar voru djarflegar ráðstafanir á undanförnum áratugum til þess að byggja upp í öllum greinum fiskiðnað og fiskiskipaflota með stuðningi hins opinbera, með stórfelldum fjárútvegunum af hendi hins opinbera, sem hafa verið fordæmdar af núv. stjórnarherrum, með ríkisábyrgðarpólitík, sem líka hefur verið fordæmd af núv. stjórnarherrum. En það er þessi uppbyggingarstefna, sem er grundvöllurinn að þeirri stórkostlegu framleiðslu, sem nú á sér stað og stendur undir gjaldeyrisöfluninni í landinu. Það er þessi stórfellda uppbygging, sem hefur orðið ávöxtur þeirrar meginstefnu í atvinnumálum og efnahagsmálum, sem Framsfl. hefur stutt að á undanförnum áratug og hefur miðað að því fyrst og fremst, með tilstuðlan ríkisvaldsins á allan hugsanlegan hátt, að gera sem allra flestum mönnum í landinu kleift að koma undir sig fótunum sjálfstætt efnalega, bæði í sveit og við sjó, koma sér upp framleiðslutækjum og eignast sjálfstæð heimili. Og það er þessi stórkostlega uppbygging, sem átt hefur sér stað á undanförnum árum, sem er undirrót þeirrar miklu framleiðslu, sem nú er.

En hver halda menn að verði afleiðingin af þeirri stefnu, sem nú hefur verið tekin upp og öll miðar að því að leggja stein í götu þess, að þessi uppbygging geti átt sér stað áfram? Og hvað verður það lengi að segja til sín? Hvað verður þessi stefna ríkisstj. lengi að segja til sín? Halda menn, að það varði spaug á næstu missirum og næstu árum t.d. að eignast myndarleg fiskiskip, þegar verð á 75 tonna mótorbát erlendis frá er komið upp í 41/2 millj. og útborgun sú, sem útgerðarmenn eiga að standa skil á, er komin upp í 11/2 millj. og þegar þar að auki er búið að hækka vextina í fiskveiðasjóðnum, stytta lánin og koma vöxtunum af því, sem menn kynnu að þurfa að fá hjá bönkunum þar til viðbótar, upp í 11%, og ofan á allt þetta að lækka atvinnuaukningarféð og draga úr útlánum yfir höfuð? Halda menn, að þessar ráðstafanir verði lengi að segja til sín í sjávarútvegi landsmanna, þannig að uppbyggingin dragist stórkostlega saman? Eða ef tekinn er landbúnaðurinn, — hvernig verður það í landbúnaðinum, þegar búið er t.d. að koma verðinu á dráttarvélunum og öðrum tækjum, sem menn þurfa að hafa til landbúnaðarins, upp í það, sem það er orðið nú, og á sama tíma er búið að hækka vextina, stytta lánin og draga úr því lánsfé, sem hægt er að fá til þess að byggja upp búin og stækka þau á ýmsar lundir? Halda menn, að þessar ráðstafanir verði lengi að segja til sín, þessi kyrrstaða verði lengi að segja til sín? Það er kannske hægt fyrir núv. ríkisstj. að lifa hátt á þeim framleiðslutækjum, sem búið var að afla, og jafnvel gorta af einhverjum gjaldeyrisafgangi eftir tvo mánuði, eins og kom fram hjá hæstv. viðskmrh. hér í umr. En ég hugsa, að það verði dálítið annað upplitið á þeim eftir nokkur ár, ef haldið verður áfram þeirri stefnu, sem þeir nú hafa tekið upp. Ég býst við því.

Og þannig mætti lengi telja. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi litla grein gert sér fyrir því, hvað þeir voru að fara með þeirri kollsteypu, sem þeir lögðu út í með öllum þessum ráðstöfunum, sem þeir hafa staðið að til þess að koma á stórkostlegum samdrætti í landinu og koma fyrir kattarnef þeirri tiltölulega hraðstigu uppbyggingarstefnu, sem fylgt hefur verið hér á síðustu áratugum, eða nánar tiltekið síðan íhaldið missti meiri hlutann 1927. Síðan íhaldið missti meiri hlutann 1927, hefur verið látlaus framfarasókn má heita í landinu, stundum gerð nokkuð erfið vegna ýmissa utanaðkomandi erfiðleika, en ævinlega þó verið sótt fram.

Eins er það, sem lýtur að því að minnka kaupgetuna hjá fólki og gera mönnum ókleift að kaupa jafnmikið af lífsnauðsynjum og áður hefur verið. Hvað halda hæstv. ráðh., í alvöru að tala, að þetta geti staðið lengi, eins og það er nú að þessu leyti, og er þó ekki allt komið fram? Gera þeir ráð fyrir því, að það geti orðið til frambúðar? Því hefur ekki verið mótmælt, enda er ekki hægt að mótmæla því, að með öllum þessum ráðstöfunum er gert ráð fyrir að færa til í landinu a.m.k. 1100 millj. kr. á einu ári, sumt kemur það fram í minnkaðri fjárfestingu og samdrætti og minnkaðri atvinnu, en að verulegu leyti á þetta að koma fram hreinlega sem kjaraskerðing fyrir heimilin, þ.e.a.s. í minnkaðri neyzlu, eins og kemur glöggt fram á innflutningsáætlun þeirri, sem ríkisstj. hefur gert fyrir árið 1960. Og ég held, að það þurfi mikla bjartsýni, ef maður á að vera að skemma það orð með því að nota það í þessu sambandi, — mér sýnist, að það þurfi einkennilegan hugsunarhátt til þess að geta gert sér vonir um, að þetta geti staðizt, eins og ríkisstj. hefur gengið frá því og virðist enn þá reikna með eða ætlast til að verði.

Það er því alveg sama, hvar litið er á þetta. Það ætti að vera augljóst hverjum manni, sem hefur nokkurn verulegan kunnugleika á atvinnu- og efnahagsmálum landsins, að þessi stefna, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp og ég hef leyft mér að kalla stefnu samdráttar og fátæktar, getur ekki leitt til aukins frelsis í viðskiptum á næstu árum. Slíkt er að mínu viti hrein fjarstæða. Þessi stefna hlýtur, ef ekki verður algerlega breytt um og það fyrr en síðar, að leiða til þess, að framleiðslan í landinu minnkar stórkostlega tiltölulega miðað við fólksfjölda og aðrar ástæður, í stað þess að hún þarf sífellt að vaxa. Uppbyggingin hlýtur að minnka, framleiðslan hlýtur að minnka, og af því hlýtur að leiða, þegar frá liður, stórkostleg gjaldeyrisvandræði og meiri þvinganir og höft í viðskiptum en menn hafa máske nokkurn tíma áður reynt, auk þess sem það er nokkurn veginn augljóst mál, að af ráðstöfunum ríkisstj. til dýrtíðaraukningar í landinu hlýtur að leiða nýja dýrtíðarholskeflu, áður en langt um líður, sem kemur til með að hafa mjög alvarlegar afleiðingar fyrir gjaldeyrisástandið og möguleikana til þess að halda uppi frjálsum viðskiptum.

Hæstv. viðskmrh. var að tala um það í gær, að það færi vel af stað í þessum málum, og nefndi í því sambandi, að gjaldeyrisástandið hefði stórbatnað síðustu tvo mánuðina eða svo. Ég vil í þessu sambandi minna menn á það í öllu bróðerni, að það mun hafa verið s.l. haust, sem því var haldið að mönnum með mjög miklu kappi af þeim, sem þá réðu málefnum landsins, að það hefði alls ekki orðið neinn verulegur halli í viðskiptunum við útlönd í fyrra og gjaldeyrisástandið hefði ekki versnað neitt að ráði. Nú er enn byrjað, –hæstv. viðskmrh. byrjaði í gær, og það er sjálfsagt upphaf að nýju tímabili í þessum málum, — að lýsa því, hvað gjaldeyrisástandið hefði nú skyndilega batnað, og manni skildist, að það væri alls ekki geigvænlegt. Þetta kemur manni til að minnast þess, að gjaldeyrisástandið var sem sé aldrei vont, nema á meðan verið var að koma efnahagslöggjöfinni í gegnum þingið! Áður en kosið var í haust, virtist ekki vera neitt athugavert við gjaldeyrisástandið að dómi þeirra, sem þá fóru með þessi mál, og þegar bent var á, að það hallaði undan, voru látin koma fram vottorð frá þjóðbankanum, sem sýndu, að svo væri alls ekki. En þegar búið var að kjósa og núverandi samsteypa hafði hugsað sér að koma á alveg nýrri efnahagsmálastefnu, þeirri, sem ég nú hef farið um nokkrum orðum, samdráttarstefnunni, þá var boðið út stórkostlegu liði til þess að lýsa því, að Ísland væri í raun og veru alveg orðið gjaldþrota, væri gersamlega komið í þrot og gjaldeyrisástæður landsins og búskapur allur út á við væri þannig, að það þyrfti að gera gífurlegt átak og menn yrðu að leggja á sig stórkostlegar fórnir til þess að koma þeim í betra horf. Nú er efnahagslöggjöfin ekki fyrr komin á en farið er að lýsa því, hvað þetta sé allt saman miklu betra en menn hafi álitið að það mundi vera og stórbatnandi, eins og hæstv. viðskmrh. gerði í gær.

Sannleikurinn er sá, að það hefur aldrei verið að marka neitt af því, sem þessir menn hafa sagt um gjaldeyrisaðstöðu Íslands. Ekki vil ég þar með segja, að þeir hafi farið skakkt með tölur, heldur hefur þetta verið túlkað eftir því, sem þeim sjálfum hefur boðið við að horfa. Á meðan verið var að koma þessari efnahagslöggjöf í framkvæmd, voru framkvæmdalánin til Sogsvirkjunarinnar og önnur slík talin greiðsluhalli við útlönd og reynt að nota þau til þess að hræða þjóðina til að taka á sig þær búsifjar, sem ríkisstj. vildi koma fram til að koma á þessari nýju stefnu í efnahagsmálum. Þetta var gert, á meðan verið var að koma þessu á. En fyrir þessu var aldrei neinn fótur, að það væri nein hætta á ferðum að þessu leyti, eins og grandgæfilega var upplýst af hálfu okkar stjórnarandstæðinga, á meðan það mál var hér til meðferðar. Þá var allt úr lagi fært og teygt og togað til þess að reyna að skjóta stoðum undir þessa fullyrðingu. T.d. var þá ekkert tillit tekið til þess, þó að það lægi fyrir, að stórkostlegar birgðir útflutningsvara hefðu safnazt fyrir og að raunverulegur greiðsluhalli á árinu 1959, sem hafði orðið, var að mestu leyti vegna þess, að birgðir höfðu aukizt. Nú er á hinn bóginn ætlunin að túlka þetta á hinn veginn og sýna fram á, hvað þetta sé allt að verða betra en það áður var.

Í þessu sambandi er ástæða til að skoða það a.m.k., þó að mér hafi ekki gefizt tóm til þess enn þá, hvort eitthvað af þessari breytingu, sem orðið hefur og hæstv. viðskmrh. talaði um, stafar ekki einmitt af því, að það hafi verið fluttar út hinar miklu birgðir frá fyrra ári, útflutningsvörubirgðir frá fyrra ári.

En hvað sem því líður, þá vil ég einnig skjóta því hér fram, svona til íhugunar, að ef ráðstafanir ríkisstj. væru nú búnar að draga svo saman vöruinnkaup þjóðarinnar og framkvæmdir, bara á þessum tveimur mánuðum, að farinn væri að myndast verulegur gjaldeyrisafgangur strax, mundi það þá ekki gefa hæstv, ríkisstj. ástæðu til að hugsa um, hvort þessar ráðstafanir hafi ekki verið umfangsmeiri en þær þurftu að vera, — þessar „panik“ráðstafanir og samdráttarráðstafanir, sem núv. ríkisstj. hefur gert? Vitanlega skyldi enginn undrast, þó að það kæmi fyrir, að einhverja mánuði skapaðist gjaldeyrisafgangur, ef neyzla landsmanna er minnkuð svo stórkostlega eins og gert er ráð fyrir með ráðstöfun ríkisstj. og framkvæmdir dregnar saman á öllum sviðum, eins og ríkisstj. hefur efnt til. Það getur auðvitað orðið einhver gjaldeyrisafgangur í bili af slíkum ráðstöfunum. En það er engin sönnun fyrir því, að slíkar ráðstafanir hafi verið réttmætar, heldur alveg þvert á móti. Slík útkoma getur einmitt sýnt það skýrar en nokkuð annað, að hér hafi verið gerðar „panik“ráðstafanir, sem hafa gengið allt of langt og munu verka öfugt við tilgang sinn, þegar lítils háttar líður frá, eins og ég hef aðeins vikið að í þeim fáu orðum, sem ég hef um þetta sagt nú. Ef þessar ráðstafanir verka þannig, eins og hæstv. ríkisstj. hefur ætlazt til, að meginþorri manna verður að hætta við framkvæmdir sínar og innkaup manna á nauðsynjum til heimilanna verða að dragast stórkostlega saman frá því, sem verið hefur, þá kemur það vitanlega fram, meðan framleiðslan getur gengið í skjóli þeirra ráðstafana, sem búið var að gera til þess að auka framleiðslutækin, áður en stöðvunarstefna ríkisstj. kom til greina, — þá kemur það fram fyrst í bættri gjaldeyrisaðstöðu. En slíkt verður bara allt á kostnað framtíðarinnar, vegna þess að þessi samdráttar- og fátæktarstefna ber ósigurinn í sjálfri sér. Hún getur aldrei staðizt til lengdar, því að með þessum ráðstöfunum er verið að grafa undan því, sem mestu máli skiptir, og það er, að stöðug framfarasókn þjóðarinnar haldi áfram, að stöðug uppbygging og öflun nýrra framleiðslutækja haldi áfram og aldrei verði hlé á, til þess að tryggja þau beztu lífskjör, sem unnt er að ná. Ef það kemur í ljós, að framkvæmdastöðvunin verður svo stórkostleg og minnkun á innkaupum á neyzluvörum vegna aukinnar fátæktar og minnkunar tekna hjá almenningi verður svo stórkostleg, að það myndast verulegur gjaldeyrisafgangur á næstu mánuðum, þá er það bezta sönnunin, sem fram getur komið fyrir því, hversu ríkisstj. hefur farið heimskulega að ráði sínu, því að einmitt það, hversu þessar ráðstafanir eru fruntalegar og stórkostlegar, mun valda því, að þær munu fara úr böndunum, hversu miklir gjaldeyrissjóðir sem kunna að safnast á fyrstu mánuðunum.

Það hefði verið miklu heppilegra, og það hefði verið hið eina rétta í þessum málum að halda áfram þeirri öflugu uppbyggingarstefnu, sem framkvæmd hefur verið hér á síðari árum, og efla almenning með ráðum og dáð, eins og gert hefur verið, til þess að efna til aukinnar framleiðslu á öllum sviðum. Og það hefði verið hægt að ráða fram úr þeim vandkvæðum, sem voru á viðskiptunum við útlönd, með miklu minni háttar ráðstöfunum en þeim, sem hæstv. ríkisstj. hefur efnt til, enda hafa ráðstafanir hæstv. ríkisstj. alls ekki fyrst og fremst verið miðaðar við það að jafna viðskiptahalla við útlönd eða verið hugsaðar sem nein sérstök bjargráð í því efni. Þessar ráðstafanir hafa verið miðaðar við að breyta grundvellinum að öllum okkar þjóðarbúskap, draga úr þeim stuðningi, sem almannavaldið hefur veitt' fólkinu í landinu til þess að byggja upp á sínum vegum, draga úr honum á öllum sviðum, draga þannig saman, en búa sig undir að veita fjármagninu yfir í allt aðra farvegi og efla það, sem stjórnarliðið hefur kallað hina efnahagslegu fjárfestingu í landinu, m.ö.o., að koma á eitthvað svipuðum atvinnuháttum og þjóðlífsháttum og Íslendingar bjuggu við, á meðan íhaldið réð fyrir 1927, eins og hér voru áður en aðrir flokkar gátu haft nokkur veruleg áhrif á meginstefnuna í þjóðmálunum. Það er þetta, sem raunverulega vakir fyrir með þeim ráðstöfunum, sem nú er verið að gera.

Ég sé ekki ástæðu til þess að láta falla um þessi efni fleiri orð. En ég vildi láta þessi orð falla í sambandi við þetta mál, vegna þess að það má segja með fullum rétti, að þetta frv. er einn liðurinn í þessum framkvæmdum öllum saman, sem hæstv, ríkisstj. beitir sér fyrir. Ég tel, að efnahagsmálastefna ríkisstj. sé mjög ólíkleg til þess að stuðla hér á næstu árum að frjálsum viðskiptum, hún muni þvert á móti verða undirrót nýrrar verðbólguþróunar í landinu og gjaldeyrisskorts, og það engu síður þótt svo kunni að verða nú á næstu mánuðum, að það komi fram einhver gjaldeyrisafgangur í viðskiptum þjóðarinnar við útlönd, sem fenginn er á kostnað framtíðarinnar með því að draga saman framkvæmdir í landinu og með því að slá niður kaupgetuna langt umfram það, sem nokkur rök standa til.