03.12.1959
Neðri deild: 9. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 122 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Það er sagt, að það eigi að taka hér fyrir á eftir frv. um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði. Ég er einn af nm. í fjhn., sem hefur skilað áliti um þetta mál, svo að það er mér þannig nokkuð viðkomandi, og ég vil andmæla því alveg ákveðið, að 2. umr. um þetta mál hefjist eða verði látin fram fara, án þess að hæstv. fjmrh. sé hér staddur.

Hæstv. dómsmrh. talaði hér nokkur orð áðan. Hann benti á það, að venjulega hefðu gengið umræðulítið í gegn á undanförnum þingum frumvörp slík sem þetta um bráðabirgðafjárgreiðslur, þegar ekki var hægt að afgreiða fjárlög fyrir áramót, og einnig ýmis tekjuöflunarfrumvörp, sem samþ. hafa verið til eins árs í senn. Þetta er rétt. En ég vil benda á það, að þessi mál ber að nú á þessu þingi með allt öðrum hætti en nokkru sinni fyrr. Það hefur ekki komið fyrir áður, svo að ég muni til, og ég held, að ég muni það rétt, að það hafi verið gerð tilraun til að þvinga slík mál fram á næturfundum með afbrigðum um það bil mánuði áður en þess var þörf, hér um bil mánuði fyrir lok ársins. En það er fyrst um áramót, sem þörf er á lögum um þetta efni, enda vitum við það, að þessi óvenjulegu vinnubrögð eru af annarlegum ástæðum hér viðhöfð.

Ég ætla ekki að endurtaka með mörgum orðum það, sem aðrir hafa sagt um það og öllum þm. er ljóst, að það vakir fyrir stjórninni að víkja þm. frá, fresta þinginu nú eftir örfárra daga setu. Það hefur komið fram, að fjmrh. ætlar sér ekki að hafa 1. umr. um fjárlagafrv., og hann ætlar sér ekki að gera þm. grein fyrir fjárhagsástæðum ríkissjóðs, eins og venja er að gera við það tækifæri. Hann ætlar ekki að gera þetta, áður en þingi verður frestað. Ég er að vísu ekki búinn að vera hér á þingi nema 22 ár, en ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það hafi aldrei komið fyrir á þeim tíma, að fjárlagaþingi hafi verið frestað, án þess að áður hafi farið fram 1. umr. um fjárlagafrv. og fjmrh. hafi gert þinginu grein fyrir fjárhagsástæðum ríkissjóðs og framtíðarhorfum í þeim efnum, áður en þinghlé varð. Þetta eru algerlega ný vinnubrögð. Stjórnin hefur ekki heldur lagt fyrir þingið enn brbl., sem gefin voru út af ríkisstj. í septembermánuði, en þannig er ástatt um þessi lög, að það er full ástæða til að ætla, að það sé ekki þingmeirihluti til fyrir þeim, meiri hl. þm. sé þeim andvígur. Það er full ástæða til að ætla það samkv. þeim yfirlýsingum, sem fram komu hjá þingflokkum nú fyrir síðustu kosningar. Og það er vitanlega tilraun til þess að koma í veg fyrir, að þingræðið fái notið sín, ef þessi brbl. eru ekki lögð fyrir þingið til meðferðar og afgreiðslu, áður en þingi verður frestað. Þessi lög falla úr gildi 15. þ. m. Hvað ætlar ríkisstj. að gera þá, ef hún hefur þá komið fram þeim vilja sinum, að þing verði þá ekki starfandi, ef hún kemur því fram að reka þingið heim fyrir þann tíma? Hvað ætlar hún að gera? Getur það komið til mála, að hún hugsi sér þá að gefa út ný brbl. um þetta efni? Getur það komið til mála? En ef slíkt væri fyrirhugað eða verður framkvæmt, þá er það stjórnarfarslegt afbrot. Nú vil ég spyrja stuðningsmenn stjórnarinnar, bæði þá þm., sem hér hafa setið áður á þingi misjafnlega lengi, og einnig nýliðana: Eruð þið komnir á þetta nýja þing, hv. þm., jafnt þeir eldri og nýliðarnir, til þess að fremja stjórnarfarsleg afbrot? Vitið þið, hvað stjórnin ætlar að gera í þessu efni? Vitið þið það nú þegar?

Ef það er svo, að þið hafið hugboð um það, að stjórnin e.t.v. ætli að gefa út ný brbl. í stað þeirra, sem falla úr gildi 15. des., ný brbl. um sama efni, — ef þið hafið hugboð um það, að stjórnin hafi í hyggju að gera þetta, og samþykkið þingfrestun þrátt fyrir það að beiðni stjórnarinnar, þá eruð þið að styðja hana til óhæfuverka. Var það erindi ykkar í þingsalinn, þið nýju þingmenn? Er ekki rétt fyrir ykkur að íhuga þessi mál gaumgæfilega, áður en þið látið ríkisstj. teyma ykkur lengra út á ógæfubraut? Ef þið ekki gerið það og stingið hér við fótum, þá held ég, að megi segja um ykkur um alla framtíð, hvern og einn: Ill var þín fyrsta ganga á Alþingi. Ég vona, að það takist ekki svo ógæfusamlega fyrir ykkur.

Það hefur oft undanfarið verið talað og skrifað mikið um vanda, sem steðjar að þjóðinni nú í efnahagsmálum og ýmsum öðrum. Og víst er, að það eru mörg erfið viðfangsefni fram undan. Margir segja, að vandamálin verði trauðla leyst nema með góðu samstarfi stétta og flokka, helzt sem flestra landsmanna. Mér sýnist því miður ljóst, að nýja ríkisstj. hugsi sér ekki að reyna að vinna þannig, ekki að laða sem flesta til samstarfs um vandamálin. Þó að hún sé aðeins hálfs mánaðar gömul, sýnist mér ástæða til að óttast þetta. Fyrstu skref hennar eru þannig.

Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að það hefði verið auðvelt að ná samkomulagi við stjórnarandstæðinga um þetta frv., sem hér á að taka fyrir á eftir að sögn, og önnur þau mál, sem stjórnin þarf að koma fram fyrir áramótin, ef að þessu hefði verið unnið á venjulegan hátt, svipað og gert hefur verið á undanförnum þingum, á heilbrigðum og venjulegum grundvelli. En í staðinn fyrir að gera það beitir stjórnin þjösnaskap. Hún beitir þjösnaskap í þinginu og hennar stuðningslið með henni. Ég nefni ekki mörg dæmi, t.d. atkvgr. í þinginu nýlega um að neita að taka mál á dagskrá, og svo nú með því að takmarka málfrelsi þm. Eruð þið nú allir, hv. þm. stjórnarflokkanna, vissir um, að þetta sé heppilegasta byrjunin á þessu nýja þingi? Eruð þið vissir um, að þetta séu heppilegustu vinnubrögðin til þess að ráða fram úr þeim mörgu vandasömu óg viðkvæmu málum, sem bíða úrlausnar? Eruð þið svo sannfærðir um, að stjórnin hafi faríð hér út á rétta braut, að þið ætlið allir að rétta upp hendurnar alveg hiklaust, þegar hún mælir svo fyrir, eins og þið gerðuð nú um miðnættið? Ég spyr. Það er byrjað að syngja hér nýjan söng með nýju lagi, sem hefur ekki heyrzt hér í þingsalnum á undanförnum árum. Forsöngvarinn gaf sig fram hér áðan, hæstv. dómsmrh. Þið hafið tekið, hv. stuðningsmenn stjórnarinnar, undir lagið í byrjun. Ætlið þið að halda áfram að syngja þetta nýja lag?