05.05.1960
Neðri deild: 76. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2322 í B-deild Alþingistíðinda. (781)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Jóhann Hafstein:

Herra forseti. Það má segja, að það sé á vissan hátt að bera í bakkafullan lækinn að auka við þær umr., sem orðið hafa um þetta frv., sem hér er til umr., við 1. og 2. umr. Þó er það svo, að við stjórnarsinnar höfum ekki tekið nema lítinn tíma af öllum þessum langa umræðutíma, og enn fremur er það svo, að mikið af umr. hefur í raun og veru farið langt fyrir utan ramma þess frv., sem hér liggur fyrir, þess máls, sem það tekur til, eins og t.d. ræða hv. 1. þm. Austf. (EystJ), sem nú var að ljúka máli sínu, sem var eiginlega um miklu meira og næstum því að öllu leyti um ýmsa aðra löggjöf, sem samþ. hefur verið hér á þingi, og aðrar ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í peningamálunum að undanförnu. Engu að síður hefur málið verið mjög rækilega rætt og miklu meira en oft hefur átt sér stað um önnur mál, og það er sjálfsagt vegna þess, að hér er um veigamikið mál að ræða og mikils virði, að hv. þm, geri sér grein fyrir undirstöðuatriðunum og megininnihaldi þess máls, sem hér liggur fyrir.

Það hefur verið rakinn aftur í tímann gangur verzlunarmálanna, bæði af hæstv. viðskmrh. og hv. 6. landsk. þm. (BK), og má segja, að í báðum tilfellum hafi þar verið um mjög nákvæmar og greinargóðar lýsingar að ræða. Ég ætla samt sem áður að líta nokkuð um farinn veg í þessum málum að undanförnu í þeim höfuðtilgangi, að með því móti skiljist betur, hvað í raun og veru er verið að gera hér og hverju ýmsir og þá ekki sízt Sjálfstfl. og sjálfstæðismenn hafa stefnt að á mörgum undanförnum árum, án þess að þeir hafi þar fengið við ráðið.

Það hefur réttilega verið bent á, að höftin voru hér á sínum tíma tekin upp eftir 1930, fyrst smávægilega með reglugerðarákvæðum 1931, en siðar mjög stranglega og í vaxandi mæli, eftir því sem á leið. Og það er rétt að gera sér grein fyrir því, að þá voru höftin ill nauðsyn vegna lélegrar gjaldeyrisaðstöðu og efnahagsaðstöðu hér á landi, þar sem landið var þá ekki við því búið að taka þeim mörgu og þungu afleiðingum heimskreppunnar, sem þá skall yfir, og mörg önnur lönd en Ísland gripu þá einnig til innflutningshafta með margvíslegum hætti og þá sem bráðabirgðaráðstafana og neyðarúrræða.

Höftin fóru fyrst verulega að segja til sín hér á árinu 1934, með bráðabirgðalögum, lögum frá 8. marz 1934, um innflutnings- og gjaldeyrismál. En þó er ekki í þessum lögum, og það er eftirtektarvert, rætt um annað en að ríkisstj. sé heimilt að ákveða, að til þess að flytja vissar vörur eða vöruflokka til landsins, þurfi leyfi gjaldeyrisnefndar. En með þessum lögum voru úr gildi felld lögin frá 8. marz 1920, sem fólu í sér heimild fyrir ríkisstj. til þess að banna innflutning á óþarfavarningi. Engar aðrar hömlur höfðu verið í lögum fram til þessa tíma varðandi innflutning til landsins, annað en það, að ríkisstj. hafi verið heimilt að banna innflutning á óþarfavarningi. Þessi fyrsta innflutnings- og gjaldeyrisnefnd átti að vera skipuð 5 mönnum, og það voru þá bankarnir, sem tilnefndu 2 menn, og fjmrh. skipaði hina 3.

Það er skömmu seinna, eða í byrjun árs 1935, sem sett eru ný lög um þetta, frá 9. jan., um gjaldeyrisverzlun o.fl., eftir að hv. 1. þm. Austf. hafði tekið við fjármálastjórninni, og þá er enn verulega hert á, og stjórnarframkvæmdirnar upp úr því einkenndust af haftapólitík og framkvæmd slíkrar stjórnmálastefnu hér á landi. Þá er beinlínis ákveðið í 2. gr., að ríkisstj. sé heimilt að ákveða, að engar vörur megi flytja til landsins nema með leyfi gjaldeyris- og innflutningsnefndar. Þá er ekkert hálfkák í þessu lengur, þá má engar vörur flytja inn nema með leyfi þessarar nefndar, sem er skipuð áfram 5 mönnum, 2 mönnum frá bönkunum, en ráðh. skipar þá alla.

Þetta má svo segja að sé grundvöllurinn lengi vel í gjaldeyrislöggjöfinni hjá okkur. Og eitt annað veigamikið atriði kom hér til greina. Það var, að í þessum lögum, í 3.–6. gr., voru numdar úr lögum 3.–6. gr. l. nr. 48 frá 4. júní 1924, um gengisskráningu, en með þeim l. var mönnum gert skylt að afhenda bönkum erlendan gjaldeyri. Þá var mönnum fyrst með lögum gert skylt að afhenda bönkunum erlendan gjaldeyri, með þessum lögum frá 1924, en þó ekki, ef þeir þurftu á honum að halda til kaupa á nauðsynjum í sambandi við framleiðslustörfin. Hér var alveg skorið yfir í þessu sambandi eins og með innflutninginn, að skyldan er alveg ótvíræð, hverjum er gert skylt að skila að öllu leyti og takmarkalaust þeim gjaldeyri, sem til fellur. Þó að nokkrar breyt. yrðu síðar á þessum l., eins og 1937, þegar þau eru gefin út í nýrri heildarmynd, þá má segja, að sami grundvöllurinn sé og áður, aðeins er gengið enn lengra í þá átt að herða eftirlitið á ýmsum stöðum, ekki aðeins á hinum stærri sviðum, heldur einnig á ýmsum minni sviðum í sambandi við ferðagjaldeyri og skýrslur og grg., sem menn þurftu að gera og lýsa yfir fyrir opinberum aðilum, hvernig þeir ætluðu að lifa á gjaldeyrinum erlendis o.s.frv. o.s.frv.

Við þetta situr svo, og ég skal ekki rekja gang þessara mála núna, hvernig þessar framkvæmdir heppnuðust. Ég mun koma nokkuð að því síðar, hvert var einkenni þessarar haftastefnu og framkvæmdarinnar á henni.

Þegar stríðið skellur á, fer fljótt upp úr því að breytast verulega aðstaða hjá okkur, og það eru sett brbl. um viðauka við l. frá 1936 á árinu 1941, og þau lög voru með allt öðrum hætti en áður var, því að þá var aðstaðan í okkar þjóðfélagi orðin þannig, að framboðið á erlendum gjaldeyri var miklu meira en eftirspurnin, og það var þar með alveg brostinn grundvöllurinn undir þessari haftapólitík í gjaldeyrismálunum og innflutningsmálunum að öðru leyti en því, að þá var stríðsástand og því opinbera var nauðsynlegt af þeim sökum að hafa eftirlit og fylgjast með því og stuðla að því, að náð yrði nægilegum vörubirgðum til landsins. Í þessum l. frá 1941 var ríkisstj. heimilað að ákveða, að bankarnir skyldu leggja hluta af þeim erlenda gjaldeyri, sem skilað var til þeirra, inn á biðreikninga í erlendri mynt og geyma hann þannig fyrir eigendur gjaldeyrisins og á þeirra áhættu, og þessi viðaukalög voru rökstudd með því, eins og ég sagði áðan, hversu mjög framboðið á erlenda gjaldeyrinum var komið fram úr eftirspurninni.

Svo er næsti áfanginn í þessum málum í sambandi við löggjöfina 1943. Þá eru sett lögin um innflutnings- og gjaldeyrismeðferð, og þá er stofnað viðskiptaráðið svokallaða, 5 manna viðskiptaráð. Það má segja, að þetta viðskiptaráð hafi í meginatriðum haft sömu verkefni og gjaldeyris- og innflutningsnefndin hafði. Það átti skv. 1. tölulið 2. gr. að ákveða, hvaða vörur skuli flytja til landsins. En það er þó eitt eftirtektarvert ákvæði í þessum lögum, sem kemur fram í 2. mgr. 8. gr., sem hljóðar þannig, að lög þessi falli úr gildi í síðasta lagi 6 mánuðum eftir að núverandi Evrópustyrjöld er lokið. Og þetta ákvæði var síðan endurtekið tvisvar, þrisvar sinnum í löggjöfinni, eftir að Evrópustyrjöldinni var lokið, og frestað til síðari tímamarka, eins árs eða svo, að þá skyldu þessi lög ganga úr gildi, lögin um þessa ströngu haftapólitík, bæði innflutningshöft og gjaldeyrismeðferð. Ég bendi á þetta vegna þess, að þeir, sem stóðu að þessari löggjöf og siðari löggjöf á þessum grundvelli, — Björn Ólafsson var viðskmrh., þegar þessi lög voru sett 1943, síðan Pétur Magnússon, — að þeir menn gerðu ráð fyrir því, og það var í samræmi við þeirra grundvallarstefnu í þessum málum, að það væri lagt á það kapp og að því stefnt að afnema þetta, þegar þær kringumstæður væru ekki lengur fyrir hendi eða aðstæður, sem upphaflega höfðu knúið Íslendinga til þess að fara inn á þessar brautir. En þá kemur í ljós, að það eru miklu fleiri öfl í þessu þjóðfélagi, sem virðast vilja höftin haftanna vegna, en ekki sem neyðarráðstöfun af öðrum ástæðum, erfiðleikum í okkar efnahags- og gjaldeyrismálum. Og þess er svo skemmst að minnast, að þegar aðrar þjóðir vestan járntjalds eru að losa sig úr hinum þröngu viðjum, — margar þessar þjóðir voru búnar að afnema löngu fyrir stríð öll innflutningshöft, sem sumar þeirra höfðu lögfest hjá sér í byrjun heimskreppunnar, og svo truflaðist auðvitað efnahagslíf þessara þjóða gersamlega í heimsstyrjöldinni, — en þegar þessar þjóðir fara hver á fætur annarri að losa sig úr viðjunum, sem heimsstyrjöldin hafði á þær lagt, þá virðumst við Íslendingar festast í raun og veru fyrst í stað æ meira og meira í þessu haftakerfi og þá aðallega vegna þess, sem kemur ljósast fram, þegar lögin um fjárhagsráð eru sett, vegna þess að menn halda þá, að það sé með áætlunarbúskap, nógu gagngerðum áætlunarbúskap, hægt að komast út úr örðugleikunum.

Lögin um fjárhagsráð eru sett árið 1947 undir stjórnarforustu Stefáns Jóh. Stefánssonar, og í þeirri stjórn tóku þátt bæði Sjálfstfl. og Alþfl. Það er alveg óhætt að slá því föstu, að þessi lög voru að mörgu leyti enn harðsvíraðri haftalög en við höfðum áður þekkt, og spurningin er þá sú: Hvernig stóð á því, að Sjálfstfl. gat verið þátttakandi í því að setja þessa löggjöf? Og það er í raun og veru ekki nema sú eina skýring á því, að Sjálfstfl. hafði ekki aðstöðu til að koma sínum málum á þessum tíma betur fyrir borð en svo, en af honum þá talið nauðsynlegt, hvort sem það hefur verið með réttu eða röngu, að freista þess að vera þátttakandi í þessari tilraun til að framkvæma þennan áætlunarbúskap, vafalaust í þeirri trú, að ekki mundi hann verða verri, þó að Sjálfstfl. hefði einhverja hönd í bagga með framkvæmdunum. En þá er sett á laggirnar fjárhagsráð, 5 manna, skipað af ríkisstj., og undir því er svo innflutnings- og gjaldeyrisdeild og undir því verðlagseftirlit, og í kjölfarið á öllu þessu sigldi svo sá argasti svarti markaður og vöruskömmtun, sem við Íslendingar höfum nokkurn tíma þekkt. Í 5. gr. fjárhagsráðslaganna var mælt svo fyrir, að til hvers konar fjárfestingar, einstaklinga, félaga og opinberra aðila, hvort sem er til stofnunar nýs atvinnurekstrar, til aukningar á því, sem fyrir er, húsbygginga eða annarra mannvirka, þarf leyfi fjárhagsráðs. Og það er loksins nú, um 13 árum síðar, sem allar leifarnar af þessari lagasetningu eru felldar niður, eins og hv. síðasti ræðumaður vék réttilega að, þar sem fjárfestingarhömlurnar eru með þessu frv., sem hér liggur fyrir, algerlega úr gildi numdar.

En það er eftirtektarvert, að það stendur mjög skamma hríð sú tilhneiging, sem vissulega verður að játa að fram kemur í fjárhagsráðslögunum, til áætlunarbúskapar á Íslandi, sem sumir menn eru að tala um nú og einmitt í sambandi við þetta frv., að hér sé ekki rétt stefnt, eina leiðin sé að taka upp áætlunarbúskap að nýju. En það er eftirtektarvert, að það stendur mjög skamma hríð tilhneigingin og möguleikinn til þess að framkvæma þennan áætlunarbúskap hjá okkur. Og strax að tveimur árum liðnum er þetta stjórnarsamstarf farið út um þúfur. Og ég vil leggja áherzlu á, að þegar það stjórnarsamstarf rofnar, tekur Sjálfstfl. alveg ákveðna og nýja stefnu í þessum málum, fyrir kosningarnar um haustið 1949, og gerir þjóðinni grein fyrir því: Það er búið að gera þessa tilraun með áætlunarbúskapinn, og það mega þeir muna, sem vilja taka hann upp á ný, að það gengur ekki, og hér verður að skipta um stefnu.

Aðdragandinn að þeim átökum, sem urðu hér, og þeim kosningum að ófyrirsynju 1949, áður en kjörtímabilinu var lokið, var sá, að Framsfl. sýndi þá eins og oft áður leikni sína í því að rjúfa stjórnarsamstarf, sem hann hafði tekið þátt í, rauf þetta stjórnarsamstarf um sumarið 1949 og út af ágreiningi um verzlunarmálin, eins og oft endranær, og þá var það höfuðmarkmið Framsfl. að herða nú til stórra muna á verzlunar- og viðskiptahöftunum í landinu, sem sérstaklega kom fram í því, að skömmtunarseðlarnir í landinu áttu að vera ávísun á innflutningsleyfi fyrir vörum til landsins. Var í sjálfu sér þar með lagt til, að lagt væri inn á þær brautir, að við hefðum aldrei kynnzt neinu slíku í sambandi við innflutningshöft og annað slíkt, ef á þetta hefði verið fallizt. En Sjálfstfl. einn gerði þá grein fyrir í kosningunum alveg nýrri stefnu, sem hann vildi fylgja og taldi grundvöllinn og undirstöðuna undir því, að okkur mætti lánast að komast út úr þeim erfiðleikum, sem þjóðin þá var í eins og oft endranær, bæði í efnahags- og viðskiptamálum. Það var eiginlega enginn ágreiningur um það þá, að Alþfl. vildi halda áfram áætlunarbúskapnum, sem lagður var grundvöllurinn að í stjórnartið Stefáns Jóhanns, og það kom greinilega í ljós í tilraunum til stjórnarmyndunar eftir kosningarnar 1949, að Framsfl. spurðist fyrir um það hjá Sjálfstfl., hvort hann væri reiðubúinn til þess að styðja eða veita hlutleysi, eins og þá var beðið um, stjórn, sem Alþfl. og Framsfl. mynduðu á grundvelli þess haftakerfis, þeirrar verzlunarstefnu, sem Framsfl. hafði stofnað til stjórnarrofsins vegna á sumrinu 1949.

Það er mjög veigamikið atriði í sambandi við það, sem nú er að gerast, að rifja dálítið upp þau meginsjónarmið, sem fram komu í stjórnmálunum einmitt á árinu 1949 og svo í framhaldi af því þeirri gengisfellingu, sem átti sér stað upp úr því, á árinu 1950.

Í kosningastefnuskrá Sjálfstfl. frá 23. okt. 1949 er m.a. vikið að því, að það hafi verið og sé komið allt of langt um afskipti ríkisins af verzlun og viðskiptum, of langt inn á þessa braut, og viðurkennt, að flokkurinn hafi sjálfur verið þátttakandi í þessu, en hins vegar sé honum ljóst, að það verði ekki við svo búið áfram haldið, og segir m.a. í framhaldi af þessu, með leyfi hæstv. forseta:

„Telur flokkurinn, að nú hafi svo langt verið gengið í þessum efnum, að í óefni sé komið. Reynslan og rás viðburðanna hefur sýnt á ótvíræðan hátt, að núverandi efnahagsörðugleikar þjóðarinnar eru í meginatriðum sprottnir af því, að grundvallarstefna Sjálfstfl. hefur ekki fengið að ráða. Þess vegna telur flokkurinn þjóðarnauðsyn, að héðan af gæti stefnu hans í ríkari mæli en verið hefur hin síðari ár og að breyting verði gerð á mörgum höfuðþáttum þjóðmálanna, og vill hann í því sambandi taka þetta sérstaklega fram.“ Og þar koma einmitt mörg þau meginsjónarmið, sem nú eru almennt miklu viðurkenndari og grundvöllur undir þeim mörgu ráðstöfunum, sem nú er verið að gera og gerð var tilraun til þess að gera þá með samvinnu við Framsfl., eins og ég mun víkja að siðar, á árinu 1950. En svo segir í framhaldi af því, sem ég las áðan, með leyfi hæstv. forseta:

„Sjálfstfl. lítur svo á, að frumskilyrði þess, að Íslendingum geti farnazt vel í landi sínu, sé að athafnaþrá manna fái sem víðtækast verksvið, en sé ekki reyrð í viðjar, svo sem gert hefur verið langt úr hófi fram og í vaxandi mæli á undanförnum árum. Flokkurinn telur, að skerðing á athafnafrelsi landsmanna með víðtækri lögskipaðri ríkisíhlutun á öllum sviðum atvinnurekstrar og tilheyrandi nefndum og ráðum sé orðin óþolandi og valdi stórkostlegri rýrnun á afköstum þjóðarinnar. Fyrir því telur flokkurinn óumflýjanlega nauðsyn, að tafarlaust verði snúið af braut ríkjandi ofstjórnar, losað um höft á verzlun og athafnalífi og fækkað opinberum nefndum og ráðum, út frá því meginsjónarmiði, að landsmönnum verði sem fyrst fengið aftur það athafnafrelsi, sem þeir þrá og þjóðarhagsmunir krefjast. Sjálfstfl. er ljóst, að í einni svipan verður þetta ekki gert, enda er forsenda þess, að það takist, að ráðið verði fram úr vandamálum verðbólgunnar. Ástæðan til þess, að Sjálfstfl. hefur þolað höft þau og hömlur og hinar auknu skattabyrðar, sem nú þjaka landslýðinn, er, að ekki hefur fram að þessu verið á annan veg hægt að ná samkomulagi um ráðstafanir til hindrunar því, að meinsemdir dýrtíðarinnar stöðvuðu atvinnuvegína. Hallann á rekstri þeirra hefur orðið að bæta upp með ríkisstyrkjum, sem ekki hefur verið hægt að greiða nema með nýjum sköttum, og hefur þessi háttur einnig leitt til síaukinna ríkisafskipta. Með þessu hafa þjóðartekjurnar í heild sízt aukizt, heldur aðeins verið látið í annan vasann það, sem tekið hefur verið úr hinum, og starfræksla útflutningsatvinnuveganna verið torvelduð frá því, sem verið hefði, ef þeim hefði verið gert fært að starfa styrkjalaust. Ef þessa aðferð á að hafa áfram, hlýtur hún á næsta ári að leiða til þess, að enn verður að stórhækka skatta og álögur á almenning og leggja á ný höft og hömlur. Sjálfstfl. telur, að snúa verði af þessari braut. Hann telur, að ekki megi dragast, að ráðstafanir séu gerðar til þess, að atvinnuvegirnir geti starfað styrkjalaust í sæmilegu árferði og með skaplegum aflabrögðum og þannig verði greitt fyrir því, að hin mikla nýsköpunartækni verði starfrækt, svo að allir landsmenn geti haft fulla vinnu við eðlilega starfrækslu atvinnuveganna. Hallalaus búskapur ríkissjóðs og honum samræmd starfsemi lánastofnana landsmanna er grundvallaratriði þeirra aðgerða, sem framkvæma verður. Verðlag og framleiðslukostnaður í landinu verður að samræmast markaðsverði útflutningsafurðanna í viðskiptalöndunum. Sjálfstfl. telur gengisbreytingu í því skyni algert neyðarúrræði, en vekur athygli á, að skráning á gengi gjaldeyrisins hlýtur að miðast við, að hún greiði fyrir starfrækslu atvinnuveganna, fullri atvinnu og lífvænlegum kjörum almennings. Þetta er markmiðið, sem allar ráðstafanirnar ber að miða við.“

Og um verzlunina er þetta sagt: „Mikilvægur þáttur í því að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum er að gefa verzlunina frjálsa, og verður að gera það sem fyrst, þó að það geti ekki. orðið til fulls, fyrr en fullkomið jafnvægi er fengið, enda mun svartur markaður og margs konar óheilbrigði í verzlunarháttum ekki hverfa, fyrr en þessu marki er náð. Meðan svo er ekki, leggur flokkurinn áherzlu á, að meira réttlæti og jöfnuður ríki við innflutning og dreifingu vara til landsins og einstakra landshluta en nú er. Auka verður hið bráðasta innflutning nauðsynlegustu neyzluvara, sem í senn mundi bæta hag almennings og draga úr verðbólgunni, enda er þá hægt að afnema með öllu skömmtun á slíkum neyzluvörum.“

Ég hef hér vitnað nokkuð í kosningastefnuskrá flokksins frá 1949 og gert það, eins og ég sagði, m.a. vegna þess, að þar eru reifuð mörg þau undirstöðuatriði, sem liggja til grundvallar því, sem nú er verið að gera í efnahags- og peningamálum, og lágu svo til grundvallar því, er gerð var tilraun til að gera verzlunina frjálsa 1950, eftir gengisbreytinguna, en þá í samvinnu við Framsfl.

Ekkert stjórnarsamstarf tókst á milli flokka, eins og kunnugt er, eftir kosningarnar 1949, og þá var það, að Sjálfstfl. tók að sér að mynda minnihlutastjórn á þingi, og hann lagði síðan fyrir, eftir að hann hafði haft nokkurt tóm til þess, frv. sitt um gengisbreytingu og aðrar ráðstafanir, sem þá voru lagðar til í sambandi við gengisbreytinguna. Sá háttur hafði þá verið á hafður, að Sjálfstfl. sendi lýðræðisflokkunum, Alþfl. og Framsfl., tillögur sínar til þess að þreifa fyrir sér um möguleika til samstarfs um þessar till., en þær fengu ekki stuðning þessara flokka, og sérstaklega vildi Framsfl. ekki svara því, hvort hann vildi styðja þessar till., fyrr en minnihlutastjórn Sjálfstfl. væri búin að segja af sér.

Það þótti ekki ástæða til þess, og ég skal fara fljótt yfir þessa sögu, en niðurstaðan varð sú, að frv. um gengisbreytinguna var lagt fyrir í þinginu, held ég í byrjun marzmánaðar, og eftir að það kom fram, flutti Framsfl. vantraust á Sjálfstfl.-stjórnina, sem var svo samþ., en siðan var mynduð stjórn Sjálfstfl. og Framsfl. undir forustu þess síðartalda um framkvæmd þess frv. í meginatriðum, sem Sjálfstfl. hafði lagt fram og hlotið vantraust Framsfl. fyrir, og er það saga út af fyrir sig. En það kom þó hér fram, að Framsfl. vildi, þegar á reyndi og a.m.k. þegar hann var með í stjórninni og hafði forsæti hennar, vera með í því að gera tilraun til þess að framkvæma í meginatriðum þá stefnu, sem Sjálfstfl. hafði markað, að koma á frjálsri verzlun í landinu m.a. og jafnvægi í þjóðarbúskapnum.

Það er svo rétt og mætti segja nú í dag: Af hverju er þm. að rifja þetta upp allt saman? Mislukkaðist þetta ekki allt saman? Og eru það eiginlega ekki rök á móti því að vera nú á ný að reyna að gera svipaðar ráðstafanir? Við þessu vil ég segja það, að það komu mörg óvænt viðhorf inn í gang þessara mála, sem torvelduðu framkvæmd þeirra. Þá urðu miklar verðhækkanir á erlendum vörum og viðskiptakjörin í útflutningum einnig óhagstæðari en gert hafði verið ráð fyrir. Vegna Kóreustríðsins urðu stórkostlegar verðhækkanir á veigamiklum innflutningi, eins og veiðarfærum, olíu, kolum, kaffi, timbri, pappír, ullarvörum og skófatnaði, sem á þeim tíma var talið að orsakaði a.m.k. þriðja partinn af hækkun framfærslukostnaðarins, sem þá varð hér á landi. Þetta var náttúrlega þáverandi stjórnarflokkum erfitt og m.a. átti sinn þátt í því, að framkvæmdirnar fóru ekki eins og ráðgert hafði verið. Það má segja, að ýmislegt annað hafi verið látið undir höfuð leggjast að gera þá, sem nú er gert, ýmsar aðrar ráðstafanir í peningamálum og fjármálum, og menn séu nú reynslunni ríkari og þess vegna líklegt, að þær fyrirætlanir, sem nú eru uppi, eigi betur að geta lánazt. En þó er á það að líta, að upp úr þessu skapaðist hér verulega aukið frelsi frá því, sem áður hafði verið í innflutnings- og viðskiptamálunum. Viðskiptanefndin, sem var deild úr fjárhagsráði, var lögð niður í janúarmánuði 1950. Þetta var, eins og ég sagði áðan, ein deild úr fjárhagsráði, og tveir menn úr fjárhagsráði áttu þá að vinna það verk, sem þessari deild hafði verið falið. Það var byrjað að afnema skömmtunina í júnímánuði 1950, og skömmtunarskrifstofan var lögð niður í september 1950. Síðan var dregið úr þeirri skömmtun, sem eftir stóð og að sumu leyti var þá í sambandi við annað en vöruskortinn, eins og upphaflega var, í sambandi við niðurgreiðslu á vörum eins og smjörlíki og annað því um líkt. Það var gefinn út fyrsti frílistinn af þessari stjórn í ágústmánuði 1950, og það var talið, að sá frílisti tæki til um 17% af innflutningnum, sem þá skyldi vera frjáls, og annar frílisti var svo gefinn út 7. apríl 1951, og þá var talið, að innflutningurinn væri með þeim frílista a.m.k. 50–60% orðinn frjáls.

Þetta kom auðvitað fram í því, að það var hægt að draga úr þessum nefndum og starfsliði þeirra og var þannig fækkað starfsliði fjárhagsráðs á árinu 1951 um 40 manns, og ég man nú ekki, hvað voru margir eftir, en fækkunin var um 40 manns, og starfsliði verðgæzlustjóra var þá fækkað um helming, hafði verið 14 manns, niður í 7 manns. Hér er sem sagt ótvirætt gerð tilraun til þess og haft frumkvæði um það af mönnum, sem vilja ekki höftin haftanna vegna og töldu þess vegna, að það yrði að reyna að losa um höftin sem allra fyrst, — tilraun til þess að koma á sjálfstæði í viðskiptum hjá okkur.

Næsti áfanginn í þessu er sá, að það er mynduð stjórn eftir kosningarnar 1953 og þá undir forsæti Sjálfstfl., stjórn þessara tveggja áðurgreindu flokka, og þá voru sett lögin, sem nú er verið að afnema, lögin frá 24. des. 1953, þar sem 1. gr. hljóðar á þá leið, að „stefna skal að því að gera allan innflutning til landsins frjálsan“. Og með þeim l. var fjárhagsráð lagt niður og innflutningsskrifstofunni falið að taka við þeim verkefnum fjárhagsráðs, sem eftir stæðu. En samhliða þessu voru gerðar ráðstafanir til þess að rýmka mjög fjárfestingarhömlurnar og í 8. gr. l. ákveðið, að frjálst skyldi vera að byggja íbúðarhús 520 rúmmetra, og ýmsar minni framkvæmdir, eins og peningshús og heyhlöður, verbúðir og veiðarfærageymslur og annað slíkt, voru algerlega gefnar frjálsar. Þessi lög hafa svo staðið óbreytt þar til nú, nema hvað það voru tveir menn, sem fjölluðu um verkefni innflutningskrifstofunnar, en var breytt 1957 í, að það skyldu vera fjórir menn.

Hitt er svo rétt, þegar á þetta er litið, að þegar komið er fram á s.l. ár, þá er meira og minna orðið óvirkt af þeirri tilraun, sem gerð hafði verið til frjálsrar verzlunar, og þó að menn vildu kaupa frílistavörur frá útlöndum, urðu fyrirtæki og innflutningsverzlanir að bíða mjög lengi oft og tíðum eftir því, að bankarnir gætu látið þeim í té gjaldeyri fyrir þessum frílistavörum, vegna þess að þá var ekki nægilegur gjaldeyrir fyrir hendi.

Ég hef m.a. rifjað allt þetta upp, til þess að menn gætu nokkuð af því lært, sem mér finnst veigamikið, og það er rétt, að það komi fram gagnvart öllum almenningi, að það er eins og rauður þráður í pólitík Sjálfstfl. á þeim tíma, sem höftin hafa verið hér á landi í gildi, að reyna að komast út úr haftafarganinu. Það má segja, að það hafi verið breyttar baráttuaðferðir í þessu sambandi. Ég man t.d. eftir því, þegar ég fór fyrst að skipta mér af stjórnmálum og gerðist erindreki Sjálfstfl. 1939, að það, sem þá var langmest deilt um, bæði hér á þingi, í blöðum og á opinberum vettvangi í sambandi við innflutningshöftin, var ekki, hvort það væri þá hægt að afnema höftin, en þá var mest deilt um misbeitingu haftanna, og það er misbeiting á höftunum, frá því að þau virkilega taka að sauma að landsmönnum frá 1935 og til 1939, sem er aðaldeiluefnið í verzlunarpólitík okkar Íslendinga frá þessum tíma. Þetta sjá menn alls staðar eins og rauðan þráð í gegnum allar deilur um þessi mál, þegar litið er yfir þetta tímabil. Og það er vegna þess, að þá eru höftin af ásettu ráði af Framsfl. notuð — ekki sem neyðarráðstöfun vegna afleiðinga kreppunnar, heldur, þegar búið er að koma þeim á af þessum sökum, sem tæki til þess að mismuna verzluninni í landinu, lyfta undir samvinnuverzlunina og leggja stein í götu frjálsrar verzlunar og einkaframtaks í landinu. Og það kvað svo rammt að þessu á árunum 1937 og 1938, þessari misbeitingu haftanna, að ég býst við, að margir þm., sem hér eru, muni eftir því. Það var ekki mikil gróska í atvinnulífinu, en ef stofnað var fyrirtæki, þá var spurt: Hver er framsóknarmaðurinn í fyrirtækinu? Menn voru hættir að gera ráð fyrir því, að hægt væri með þessari beitingu haftanna, eins og hún var, að koma á fyrirtæki nema ná sér í einn framsóknarmann og hafa hann með í stjórn fyrirtækisins eða innanbúðar þar, svo að þá væru líkur til, að hægt væri að koma þessu í framkvæmd.

Þetta má segja að hafi verið það, sem á þessum tíma var mest deilt um, og fyrst eftir að Sjálfstfl. og Framsfl. fóru að vinna saman í stjórn, þegar gamla þjóðstjórnin var mynduð 1939 og Alþfl. var með í spilinu líka, þá voru deilurnar mest á milli þessara flokka um það, hvernig hægt væri að jafna þessar deilur og draga úr þessari misbeitingu, sem þá var haldið fram af sjálfstæðismönnum að væri langt úr hófi fram og óviðeigandi.

Aftur á móti upp úr stríðinu breytast viðhorfin. Þá kemur meira í ljós í þeim umr., sem fara fram manna á milli eða milli stjórnmálaflokkanna, skoðanamismunur um nauðsyn og gildi haftanna, — ekki svo mikið um misbeitingu haftanna, eins og áður var, heldur það, hvort höftin nái þeim tilgangi, sem að var stefnt, hvort þau þjóni nokkurri nauðsyn í okkar verzlunar- og efnahagsmálum, og þar komu auðvitað fram mjög skiptar skoðanir um þetta. Og eins og ég sagði áðan, á árunum upp úr stríðinu og fram undir 1950 má segja kannske, að hafi verið um þetta atriði meiri ágreiningur á milli Alþfl. og Sjálfstfl. og Alþfl. og Sósfl. eða kommúnista heldur en þá virtist vera á milli Framsfl. og Sjálfstfl.

Þegar á það er litið, sem ég hef nú rakið, er það ekki neitt einkennilegt, að Sjálfstfl. sem annar stjórnarflokkurinn og í þessu tilfelli stærri stjórnarflokkurinn, sem nú er, hafi átt veigamikinn þátt í því að móta það, sem nú er orðið. Er að vísu ekki eftirsóknarvert að móta það, ef allt væri rétt, sem fram kom í ræðu hv. 1. þm. Austf., sem hér talaði áðan, og verður ekki heldur eftirsóknarvert, ef rætast spár hv. 3. þm. Reykv. (EOI), en ég skal víkja að því síðar.

Þegar vinstri stj. hrökk upp af klakknum í árslok 1958 og í sambandi við tilraunir til stjórnarmyndunar þá markar flokksráð Sjálfstfl. í desembermánuði mjög ákveðna meginstefnu í sambandi við verzlunarmálin og efnahagsmálin, og ég skal aðeins taka nokkra punkta úr því, með leyfi hæstv. forseta, til þess að mönnum sé ljóst, að hverju Sjálfstfl. stefndi þá, þó að honum tækist ekki að mynda stjórn á þessu augnabliki, en þar segir, í þessari flokksráðssamþykkt, m.a.:

„Stefnt verði að því að afnema uppbótakerfið, svo fljótt sem unnt er, með því að skrá eitt gengi á erlendum gjaldeyri og gera útflutningsatvinnuvegunum kleift að standa á eigin fótum án styrkja. Jafnframt verði lagður grundvöllur að frelsi í atvinnurekstri og viðskiptum, svo að hægt sé að afnema þau höft, sem nú eru á viðskiptum og framkvæmdum.“ Fjölskyldubætur átti að auka og lækka beina skatta. „Taka þarf fjármál ríkisins til gagngerðrar endurskoðunar með það fyrir augum, að ýtrasta sparnaðar sé gætt og útgjöldum ríkissjóðs haldið innan hæfilegra marka. Framkvæma þarf heildarendurskoðun á tolla- og skattakerfinu í því skyni að koma í veg fyrir, að skattaálögur hindri eðlilega uppbyggingu atvinnuveganna, tryggja jafnrétti skattgreiðenda, örva menn til starfa við útflutningsframleiðsluna og gera kerfið einfaldara og ódýrara í framkvæmd. Sett verði ný og heilsteypt löggjöf um Seðlabanka Íslands, er tryggi örugga yfirstjórn peningamála. Bankalöggjöfin sé að öðru leyti endurskoðuð og samræmd.“

Þegar dró til kosninga á sumrinu 1959 og landsfundur Sjálfstfl. kom saman, markaði hann einnig afstöðu flokksins um það, sem verða vildi, einmitt í þeim málum, sem við nú erum að ræða, og vildi ég mega minna á örfá atriði þar, með leyfi hæstv. forseta. Um verzlunarmálin var ályktun landsfundarins í marzmánuði 1959 á þessa leið:

„Landsfundurinn telur frjálsa verzlun vera eitt af frumskilyrðunum fyrir góðri afkomu þjóðarinnar í heild. Þess vegna hefur flokkurinn ávallt unnið að því að gera verzlunina sem frjálsasta. Í samræmi við þessa stefnu Sjálfstfl. telur fundurinn höfuðnauðsyn, að þess sé ávallt gætt, að jafnvægi haldist í efnahagsmálum þjóðarinnar, því að án þess verði eigi til lengdar haldið uppi frjálsum og heilbrigðurri viðskiptum. Ber því að vinna markvisst að stöðvun verðbólgunnar, sem undanfarin missiri hefur fært verzlun og annan atvinnurekstur úr skorðum.

Fundurinn telur sjálfsagt, að einkaverzlun og samvinnuverzlun starfi hlið við hlið í frjálsri samkeppni og á jafnréttisgrundvelli, ekki sízt að því er snertir skatta, útsvarsmál og aðgang að lánsfé í lánastofnunum.

Fundurinn leggur áherzlu á það, að frjálst verðlag verði ráðandi í landinu, þar sem hann telur, að frjáls samkeppni og eðlilegt vöruframboð tryggi almenningi hagstæðasta vöruverðið.

Fundurinn telur, að eðlilegt sé, að gjaldeyrisbankarnir annist þau störf, sem innflutningsskrifstofan hefur nú með höndum viðkomandi innflutningsverzluninni, enda verði að því stefnt að leggja innflutningsskrifstofuna niður.

Fundurinn vekur athygli á því, að til þess að verzlunin geti þjónað hagsmunum almennings á sem beztan hátt, þá verður hún að ráða yfir nægilegu fjármagni og fá aðstöðu til að byggja upp eigið fjármagn, eins og nauðsyn ber til um allar atvinnugreinar þjóðarinnar.

Fundurinn telur eðlilegt, að Verzlunarsparisjóðnum verði breytt í Verzlunarbanka Íslands, sem væri efldur til að verða fær um að gegna því hlutverki, sem honum er ætlað.“

Þannig hefur í raun og veru fyrr og síðar vakað þetta eitt og sama fyrir Sjálfstfl., sem hann nú er að reyna að framkvæma í samstarfi við Alþfl., og mig langar alveg sérstaklega til að víkja að þeim breyttu viðhorfum, sem felast í því samstarfi, sem nú er milli Alþfl. og Sjálfstfl.

Ég tel, að enda þótt Sjálfstfl. hefði fengið t.d. hreinan meiri hl. í kosningunum 1953, skulum við segja, eða við skulum segja í kosningunum 1956, þá hefði verið miklu veikari aðstaða fyrir Sjálfstfl. til þess að geta framkvæmt þessa stefnu, sem ég hef verið að lýsa, heldur en eins og nú er komið, að hann vinnur að þessari framkvæmd í fullu samkomulagi við annan flokk. Og það, sem ég tel að hafi gerzt á þessu tímabili, er, að aðstaða og viðhorf manna hafa breytzt, vafalaust fyrir áhrif úr hinum vestræna stjórnmálaheimi og af ýmsu öðru, sem við höfum séð í kringum okkar á undanförnum árum. Og það er alveg rétt, að þær skoðanir, sem uppi voru hjá stjórnmálaflokki einhvern tíma, fyrir 20–30 árum, þurfa ekki og eiga auðvitað ekki að binda stjórnmálaflokk á síðari stigum og í framtíðinni. Eins má líka gera ráð fyrir því og gera því skóna, að vissar skoðanir, sem annar stjórnmálaflokkur hefur haft á öðrum tímum, hefðu kannske ekki náð þeim tilgangi, sem þær síðar geta náð, þegar öðruvísi horfir við.

En nú er sú aðstaða, að Sjálfstfl. og Alþfl., tveir flokkar, eru algerlega sammála um þá stefnu, sem verið er að reyna að framkvæma með þessu frv., sem hér liggur fyrir, og öðrum till. stjórnarflokkanna í peningamálum og fjármálum. Og það hefur líka gerzt, að næstum því allir hagfræðingar og sérfræðingar úr hinum vestræna heimi — annars þekkjum við lítið til hér — hafa á síðari árum eða skoðanir þeirra hneigzt í þessa sömu átt, að það beri að stefna í meginatriðum að því frjálsræði, sem nú er verið að reyna að koma hér á, og þeim öðrum ráðstöfunum í peninga- og fjármálum. Þetta er mjög mikil breyt. frá því, sem áður var, þegar fáir hagfræðingar voru annað en sósíalistar og áætlunarbúskaparmenn. En það eru fáir nú, sem finnast í hópi þeirra, sem eru lengur áætlunarbúskaparmenn.

M.ö.o.: tilhneiging á síðari árum virðist hafa færzt mjög í þá átt, að hún yrði sterkari og efldist, sú stefna frjálsræðis og einkaframtaks með jafnvægi í þjóðarbúskapnum sem grundvöll, sem sjálfstæðismenn fyrr og síðar hafa barizt fyrir. Og það er í sjálfu sér mjög ánægjulegt, að Sjálfstfl. og Alþfl. skuli hafa verið alveg sammála um þann eftirmála um höftin, sem fram kemur í grg. ríkisstj. fyrir efnahagsmálafrv., sem mig langar til að taka örfáar setningar upp úr, með leyfi hæstv. forseta, en þar segir, í þessu stjfrv, og grg. fyrir því:

„Höftin gera það að verkum, að framleiðslan beinist í aðrar áttir en þær, sem hagkvæmastar eru. Tilraunir til að takmarka eða stöðva innflutning sumra vörutegunda leiða til þess, að hafin er framleiðsla, sem annars gæti ekki þrifizt. Þessi framleiðsla dregur síðan vinnuafl og fjármagn frá annarri framleiðslu, sem byggð er á heilbrigðari grundvelli. Þar við bætist, að höftin torvelda eðlilegan gang framleiðslunnar, þar sem þau geta orðið til þess, að efnivörur og aðrar rekstrarvörur berist ekki að jafnt og eðlilega. Fyrirtækjum er gert erfiðara að afla sér framleiðslutækja, og tilviljanir og annarleg sjónarmið geta ráðið því, hvaða atvinnurekendum eða framleiðslugreinum er leyft að þróast. Einkum og sér í lagi á þetta við, þegar beinlínis verður að nota höftin til að ýta undir innflutning þeirra vörutegunda, sem greiða há gjöld, og takmarka innflutning þeirra vörutegunda, sem lág gjöld greiða, eins og orðið hefur að gera hér á landi. Undanfarin ár hefur orðið að setja miklar takmarkanir á innflutning vörubifreiða, á sama tíma sem reynt hefur verið að flytja inn sem mest af fólksbílum. Strangar hömlur hafa verið á innflutningi hvers konar véla, á sama tíma sem innflutningur þeirrar neyzluvöru, sem menn helzt teljast geta verið án, hefur verið að mestu leyti frjáls. Það þarf ekki miklum getum að því að leiða, hvaða afleiðingar slíkt fyrirkomulag hlýtur að hafa á atvinnulíf þjóðarinnar, þegar fram í sækir. Þá er hitt ekki síður þýðingarmikið, að höftin takmarka eðlilega samkeppni í innflutningsverzluninni og stuðla þannig beinlínis að hærra vöruverði og minni þjónustu við neytendur en ella mundi. Það er ekki á færi neins verðlagseftirlits að hamla á móti þessu, hversu gagnlegt sem verðlagseftirlitið annars kann að vera. Á s.l. 10 árum hafa orðið geysimiklar framfarir í vesturlöndum í vörudreifingu. Rutt hafa sér til rúms nýir verzlunarhættir, sem hafa í för með sér minni verzlunarkostnað og stóraukin þægindi fyrir neytendur. Það á sér sjálfsagt margar orsakir, hversu lítið þessara framfara hefur enn gætt á Íslandi, en ein þýðingarmesta orsökin er einmitt innflutningshöftin.“

Ég held einnig, að þessi skilningur á höftunum og gagnsemi þeirra sé útbreiddur langt út fyrir raðir Sjálfstfl. og Alþfl. Ég veit, að hans gætir mjög ríkulega innan raða framsóknarmannanna, þó að þeir hafi gerzt andmælendur þessa frv. nú og finnist þá vegna ýmissa annarra ráðstafana, að eigi sé sem réttast að farið. En hitt er svo annað mál, að ég geri ekki ráð fyrir, að þessi skilningur eigi marga formælendur innan Alþb. og hjá kommúnistum.

Það hafa greinilega komið í ljós, sem er eftirtektarvert í sambandi við þetta mál hér, sem nú er til meðferðar, hin mjög svo mismunandi viðbrögð andstöðuflokkanna tveggja. Mér er ekki alveg ljóst, hvað vakir fyrir Framsfl. Ég held mér sé alveg ljóst, hvað fyrir Alþb. eða kommúnistunum vakir í þessu sambandi. Mér er þetta síður ljóst með Framsfl., vegna þess að Framsfl, lagði hönd á plóginn með okkur sjálfstæðismönnum, eins og ég gerði grein fyrir, árið 1950 í sambandi við gengisbreytinguna þá, og Framsfl. lagði á það mjög mikla áherzlu fyrir þingkosningarnar 1953, sem menn kannske muna eftir, að nú væri orðið svo og svo mikið frjálsræði í verzluninni fyrir tilstuðlan Framsfl., og hældist mjög um að eiga annaðhvort þátt í eða frumkvæði að þessu verzlunarfrelsi. Frá samtökum samvinnumanna, þar sem eru miklir ráðamenn Framsóknar, eins og við vitum, og nær einvörðungu frá Sambandinu, hafa á undanförnum árum æ ofan í æ verið gerðar ályktanir á aðalfundum um það, hversu nauðsynlegt væri að losna við innflutningshöftin og koma á frjálsri verzlun. Og hv. frsm. 1. minni hl. fjhn., 1. þm. Norðurl. v. (SkG), hefur oft skrifað um það og skrifaði um það á þessum tíma, hversu ánægjulegt það væri, að tekizt hefði að létta höftunum af verzluninni og stefna til fríverzlunar.

En það er eins og endranær, því miður, að það er ekki alveg sama um afstöðu framsóknarmanna, hvort þeir eru með í framkvæmdinni, þ.e.a.s. í stjórn eða ekki í stjórn. Það getur vel verið, að fleiri flokkar séu háðir þessum breyskleika, en hann gerist nú mjög áberandi í sambandi við afstöðu framsóknarmanna til þessa máls. Þeir gera lítið úr því og segja, að hér sé í raun og veru engu verið að breyta frá því, sem verið hefur. Að vísu viðurkenndi hv. 1. þm. Austf. áðan, að það væri nú verið að breyta um fjárfestinguna, það ætti að afnema allar fjárfestingarhömlur, annars væri þetta eiginlega ekkert nema nýjar hömlur og nýjar nefndir o.s.frv. En ef þetta er svona, þá hefði ég skilið betur afstöðu Framsóknarfl., ef hann hefði komið og gagnrýnt þetta á þeim grundvelli, að hér væru of miklar hömlur á öðrum sviðum í sambandi við þetta, og bent þá á, hvernig ætti að gefa þetta frjálst, hvað það væri, sem honum fyndist of bundið og mætti frjálsara gera í þessu sambandi. En það hefur flokkurinn ekki gert eða talsmenn hans hér. Og þegar þeir segja sem svo: Hér er í raun og veru engu verið að breyta í sambandi við það að gefa frjálsan innflutning og afnema höft o.s.frv., þá hafa þeir ekki fyrr sleppt orðinu en hv. 3. þm. Reykv. tekur við og vill leiða þeim fyrir sjónir, að þetta sé mikill misskilningur hjá þeim, ef þeir átti sig ekki á því, þó að kannske munurinn sé ekki mikill á orðalagi á eldri lögum og þeim, sem nú er verið að leggja til að samþykkt verði, að þá sé auðvitað hér um veigamikla stefnubreytingu að ræða og eitt af undirstöðumálum núv. ríkisstj., sem felist í því, að framkvæmd verði ákvæði þessa frv.

Meginuppistaðan í viðbrögðum hv. 3. þm. Reykv. við þessu hefur verið sú, að við stefndum okkar utanríkisverzlun og viðskiptum í voða, mundum draga úr viðskiptunum við austurblokkina, ef svo má kalla. Hæstv. viðskmrh. og forsrh. einnig og aðrir talsmenn stjórnarinnar hafa mótmælt þessu og ekki getað fallizt á þá skoðun, að við værum að hverfa frá meira öryggi, sem við hefðum með viðskiptunum við austurblokkina, og til öryggisleysis með þeim tili., sem hér eru gerðar. Í fyrsta lagi er á þetta að líta: Hvert er nú öryggið? Hversu mikið er öryggi okkar Íslendinga í viðskiptum við jafnkeypislöndin, ef aðstaða okkar er sú, að við erum í æ ríkari mæli að færast með viðskiptin yfir til þeirra, á sama tíma sem efnahagskerfi okkar er þannig, að okkur er ómögulegt að drífa upp markaði fyrir vöruna fyrir vestan járntjald, ef svo skyldi fara, að einhverjum góðum herrum fyrir austan þóknaðist að segja sem svo: Nei, nú skulum við láta þessum viðskiptum lokið í bili? Þetta hafa kommúnistar séð, og á þessa hörpu hafa þeir slegið. Þeir hafa sagt við fólkið á þessu landi: Kommúnistar verða að vera með í ríkisstj., vegna þess að annars verður lokað þessum mörkuðum fyrir austan og við erum á flæðiskeri staddir. Þetta er ekki öryggi í viðskiptamálum, ef nokkuð er að marka það, sem kommúnistar sjálfir hafa sagt og boðað landslýðnum í þessu sambandi. Þetta er það hættulegasta öryggisleysi, sem þjóðin getur lent í. Þjóðin verður efnahagslega og viðskiptalega að vera þannig stæð, að hún sé samkeppnisfær í hinum frjálsa viðskiptaheimi, en geti hins vegar engu að síður haldið uppi viðskiptum við austurblokkina og hafi vilja til þess að halda uppi þessum viðskiptum, þ.e.a.s. vilja til þess að selja útflutningsvöru okkar hverjum sem vill kaupa hana með hagstæðustum kjörum og beztu verði. En það er algert öryggisleysi að vera háður viðskiptum austur á bóginn, ef það er undir þeim kringumstæðum, að okkar efnahagskerfi að öðru leyti er þannig, að það er kippt undan okkur fótunum, að svo miklu leyti sem drægi snögglega úr þessum mörkuðum, sem eru þess eðlis, að þeir geta allir horfið á einum degi, af því að þetta eru pólitískir markaðir í miklu ríkari mæli en í hinum frjálsa heimi, þar sem þeir byggjast á framboði og eftirspurn og vilja og smekk almennings í viðkomandi löndum.

Það er þess vegna mín skoðun, að við höfum stefnt inn í mikið öryggisleysi á undanförnum árum, þegar við hugsum um verzlunarviðskipti okkar við önnur lönd og höfum til hliðsjónar efnahagsuppbygginguna, eins og hún hefur verið innanlands. En það er mikil trygging fyrir okkur, ef við getum haldið áfram, — og við viljum halda áfram, og það eru líkur til, að við getum haldið áfram viðskiptum við austurblokkina og aukið þau jafnvel, ef því er að skipta, en á sama tíma haldið uppi blómlegu viðskiptalífi og vérið samkeppnisfærir á hinum frjálsu mörkuðum í hinum vestræna heimi.

Varðandi afstöðu framsóknarmanna, sem fram kom í síðustu ræðu, er það eiginlega þetta, sem þeir allir hafa sagt: Það er ekki verið að koma á frelsi, heldur öðrum höftum, og þessi önnur höft, sem þeir kalla, er það, að verið er að draga úr kaupgetunni og þess vegna getur ekki eftirspurnin eftir innflutningnum orðið meiri en svo og svo. Ef maður reynir að kryfja til mergjar þá hugsun, sem í þessu felst, þá finnst mér, að nánast leiði hún að því, — það er kannske nokkuð gróf skýring, en í raun og veru segir hún þetta: Við eigum að haga okkar þjóðarbúskap þannig, að það sé nógu mikið peningamagn í umferð, kaupgetan sé þess vegna í ríkum mæli fyrir hendi. Hins vegar hlyti það að vera fölsk kaupgeta, sem er ekki í samræmi við framleiðslugetu þjóðarinnar. — Þegar búið er að ná þessu marki og hin falska kaupgeta spyr eftir erlendum gjaldeyri, alveg botnlaust, og erlendum vörum, þá setjum við á nefndir, til þess að úthluta, og þá segja þeir: þá úthlutum við auðvitað þeim, sem hafa mestar þarfirnar, látum þær framkvæmdir, sem mest liggur á, ganga fyrir o.s.frv. Svona á þetta að vera, þetta virðist í dag vera það „ideala“ þjóðskipulag, sem framsóknarmenn eru að tala fyrir: fölsk kaupgeta; nógu mikil eftirspurn, svo ríkisskipaðar nefndir til þess að úthluta fólkinu, og þá gæti ég ímyndað mér, að Framsfl. vildi gjarnan vera með í stjórn og ráða einhverju í þeim nefndum, sem þessa úthlutun eiga að taka að sér. Og þá kemur það, sem núverandi stjórnarsinnar segja, hin pólitíska fjárfesting. En hvað er hin pólitíska fjárfesting? segja þeir. Það eru framkvæmdir almennings, það eru framkvæmdir fólksins. Framkvæmdirnar eiga ekki og fjárfestingin á ekki að byggjast á efnahagskerfinu, ekki á efnahag einstaklinganna, ekki á efnahag fyrirtækjanna, ekki á efnahag þjóðarinnar í heild og aðstöðunni út á við. Nei, hún á að byggjast á þessari pólitísku fjárfestingu, að það sé látið ganga fyrir, sem þarfast er, — þannig er það orðað, — á hverjum tíma, og þá séu framkvæmdir almennings látnar sitja í fyrirrúmi fyrir framkvæmdum auðkýfinga og peningamanna. Þarna skin í þá mestu pólitísku spillingu, sem við höfum orðið varir við, þann pólitískt spillta hugsunarhátt, sem við höfum rekið okkur oft á á undanförnum árum hér á landi.

Það er kannske engin tilviljun, að þegar atvinnuaukningarfé er úthlutað í milljónatali, 10 og 15 millj. kr., — það er ekki svo lítil upphæð hjá okkur Íslendingum, í ekki stærra þjóðfélagi, — þá hafa það alltaf verið ráðherrar, pólitískir ráðh., einn eða tveir, sem hafa átt að mylgra þessu út um landið. Við sjálfstæðismenn höfum lagt til fyrir lifandi löngu, að um þetta væri sett löggjöf og stofnaður atvinnuaukningarsjóður og yfirstjórn hans skipuð á eðlilegan hátt, þannig að þetta væri ekki allt saman mergsogið af misrétti og pólitík. Hvernig stendur á því, að þegar hv. 1, þm. Austf. og samþingismaður hans (LJós) eru í ráðherrastóli, þá koma Austfirðirnir út með langsamlega mest atvinnuaukningarfé af öllum fjórðungum? Á sama tíma er þó gífurlega miklu og kannske hlutfallslega meira en annars staðar af öðru fé, af fé bankanna og annarra peningastofnana, varið til annarrar atvinnuaukningar og uppbyggingar á síldarverksmiðjum og síldariðnaði á Austfjörðunum. Kannske geta hv. aðilar skýrt þetta. En ég tel, að þarna sé spegilmynd af þessari pólitísku fjárfestingu, þegar pólitískir ráðherrar eiga að úthluta fé til manna til þess að kaupa báta og önnur verðmæti. Fyrst var slagurinn um leyfin. Menn sækja í tuga- og hundraðatali um leyfi til innflutnings á bátum. Svo byrjar úthlutunin á leyfunum. Svo þegar búið er að úthluta þeim þannig, að þeir fá helzt leyfi, sem enga getu hafa til þess að kaupa bát, eins og mörg dæmi eru fyrir hendi, þá hefur samt sem áður þessum viðkomandi aðila verið gerður töluverður greiði, því að annars staðar er maður, sem kaupir þetta leyfi fyrir kannske hundruð þúsunda króna og verður í framkvæmdinni eigandi bátsins. Það lætur vel í munni að segja: Þær framkvæmdir, sem þarfastar eru og mestar fyrir almenning, eiga að sitja fyrir, og við ætlum að sjá um það með haftakerfinu. En við höfum allt of mörg dæmi til þess úr okkar þjóðlífi, að það hefur ekki gengið, og hv. 3. þm. Reykv. sagði m.a., að á 30 árum haftanna hér á landi hefðu menn verið að úthluta spillingunni í þjóðfélaginu. En samt vill hann ekki losna við höftin, því að hann segir: Þetta voru bara spillt höft, þetta var bara spilling, af því að Framsfl., Sjálfstfl. og Alþfl. framkvæmdu þetta svo illa. En ef við hefðum verið þarna að verki, þá skylduð þið nú hafa séð, eins og mátti sjá á nýsköpunartímunum, þegar við lögðum hönd á plóginn. Það er þetta, að vilja fá höft og geta notað þau sjálfur til valdbeitingar í þjóðfélaginu.

Það er svo eitt atriðið, að það er talað um, að þeir fái frelsið, sem eigi peningana eða verði aðnjótandi lánanna hjá bönkunum. Þetta sagði hv. 1. þm. Austf., þegar hann talaði hér áðan. Ég vil í þessu sambandi segja, að það er mikill munur á lánveitingum, eins og bankakerfi okkar er hér eða þegar tveir pólitískir ráðh. eru að úthluta milljónum í lánum til manna, sem verða kannske aldrei endurgreidd og bera lága vexti. Og flestir okkar bankar, eða þeir, sem nokkuð kveður að, þetta eru allt saman ríkisbankar, og er yfirstjórn þeirra þannig fyrir komið, að í aðalbönkunum eru þrír bankastjórar, a.m.k. í Landsbankanum og Útvegsbankanum, og þannig, að þetta eru menn og hafa jafnan verið meira og minna frá mismunandi stjórnmálaflokkum, og auk þess eru yfir þeim bankaráð. Og eitt er þó víst, að þegar menn eru að tala um lánin frá bönkunum, sem gæðingar stjórnarinnar, eins og hér er nú talað um, verði aðnjótandi, þá er það staðreynd, að í framkvæmdinni, hvorki fyrr né nú, hefur verið nein pólitísk togstreita um lánveitingar bankanna. Ég gerði grein fyrir þessu mjög ýtarlega, þegar bankalöggjöfin var hér á dagskrá í þinginu árið 1957. Það var aldrei hægt að benda á þá pólitísku misbeitingu sjálfstæðismanna á bönkunum, sem þá var mest talað um. Það var glamrað um þetta, en hvergi voru nein atriði til að benda á. Það voru settir þá bankastjórar frá þáverandi stjórnarflokkum inn í bankana og meiri hluti í öll bankaráðin. Síðan hafa heldur aldrei verið nein pólitísk átök í bönkunum, svo sem ætla mætti af þessu tali manna hér fyrr og síðar um þá, sem af einhverri náð verða aðnjótandi þess fjármagns, sem bankarnir geta úthlutað. Hitt er svo annað mál, að það er einn stór banki hér í landinu, Búnaðarbankinn, sem mjög hefur eflzt á undanförnum árum og ekki sízt vegna þess, að alþingismenn úr öllum flokkum hafa verið ósínkir á að efla sjóði þessarar stofnunar, og það er eini bankinn, þar sem er einn bankastjóri, af þessum stóru bönkum, og þar sem alger pólitísk yfirráð Framsfl. hafa verið í bankaráðinu, alltaf haft 2 menn af 3 og formaður flokksins verið formaður bankaráðsins. Og það þótti engin ástæða til þess að breyta þessu árið 1957, þegar verið var að breyta bankalöggjöfinni. Mér er alveg ljóst af þeirri reynslu, sem ég hef í þessum efnum, að það má segja sem svo: Duglegur maður gæti kannske komizt af einn að stjórna þessum banka, og þá þyrfti ekki marga bankastjóra. Hann hefði þá auðvitað fleiri ábyrga starfsmenn undir sér til þess að vinna verkin. — En þar sem er um ríkisbanka að ræða, horfir þetta öðruvísi við en þar sem er um að ræða einkabanka, og er gagnólíkt, og hefur þess vegna færzt í þetta horf, að við höfum komið á því bankakerfi hjá okkur, að það sé nokkurn veginn öruggt, að stjórn á hverjum tíma og þing geti haft veruleg áhrif um það, hvernig bönkunum er stjórnað, með kosningu bankaráðanna og bankastjóranna, eins og þær reglur liggja fyrir.

Ég skal nú fara að ljúka máli mínu. Ég hef kannske þreytt hv. þm., vegna þess að menn eru búnir að hlusta áður á margar og langar ræður. En þó vildi ég, áður en málið færi út úr d., að þetta kæmi greinilega fram. Ef þessi mál mistakast, bera náttúrlega þeir flokkar, sem að þeim standa, höfuðábyrgð á þeim. Þeir gera enga tilraun til þess að firra sig neinni ábyrgð af framkvæmd þessara mála nú. Þeir hafa mikla trú á því, að það takist að framkvæma bæði þetta mál og aðrar ráðstafanir í peningamálum, sem gerðar hafa verið, með þeim hætti, að þjóðin komist úr því öngþveiti og sjálfheldu, sem hún var komin í. Og þá megum við að lokum ekki gleyma því, að þegar vinstri stjórnin hafði setið hér að völdum frá 1956, á miðju sumri, og hafði lofað varanlegum úrræðum og gagngerðum breytingum í efnahagsmálum þjóðarinnar, þá lýsti forsrh. því yfir hér á þessum stað, þegar hann baðst lausnar, í árslok 1958, að innan þeirrar ríkisstj. væri ekki samstaða um nein úrræði til lausnar vandamálunum í efnahagsmálum þjóðarinnar, verðbólgualdan væri yfir skollin, en innan stjórnarinnar ekki samstaða um nein úrræði til lausnar og við blasti því alger uppgjöf vinstri stjórnarinnar og vandræði, ef ekki væri gripið sterklega í taumana.

Það er enginn vafi á því, að það er mikils virði fyrir almenning í þessu landi, að sú tilraun til nýrrar stjórnarstefnu í efnahags- og peningamálum, sem nú er verið að reyna að framkvæma, mistakist ekki vegna bráðabirgðaskammsýni í byrjun, þannig að hún fái ekki tækifæri til þess að láta reynsluna kveða upp nokkurn dóm um það, hvernig hún gefist. Ég tel ekki á þessu stigi neina verulega hættu á því, eins og viðhorf almennings virðist vera í þessu landi, að menn átti sig ekki á því, að það er veigamikið, að þessar ráðstafanir fái að reyna sig. Hitt er svo annað mál, að ef þær að fengnum eðlilegum tíma hafa ekki gefið þá raun, sem ætlazt er til, þá verður auðvitað þessi stjórn, eins og allar aðrar stjórnir, að hlíta dómi kjósendanna í þessu landi, þegar þar að kemur. En við stöndum andspænis mikilvægum tímamótum í íslenzku þjóðlífi, og það er einlæg skoðun og trú þeirra manna, sem að þessum málum standa, að við séum í staðinn fyrir að horfast í augu við algert öngþveiti í efnahagsmálunum, eins og í árslok 1958, að koma okkur út úr vandanum, að leggja grundvöllinn að því, að við getum verið liðtækir til samvinnu í fjárhags-, efnahags- og viðskiptamálum í hinum vestræna heimi, á sama tíma sem við sköpum okkur aðstöðu til þess og eigum að geta haft sterkari aðstöðu til þess að halda uppi viðskiptum engu að síður en í hinum austræna heimi, eða m.ö.o. við hverjar aðrar þjóðir, sem við okkur vilja skipta.