05.05.1960
Neðri deild: 76. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2347 í B-deild Alþingistíðinda. (783)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég sé, að hæstv. viðskmrh. er enn þá ekki mættur, og af því að ég mun nú koma að því, sem hann hefur sagt, þætti mér vænt um, ef það væri komið skilaboðum til hans, hvort hann gæti verið við. (Forseti: Það verður athugað.)

Það eru tveir höfuðþættir, sem segja má að komi fram í stefnu hæstv. ríkisstj. Önnur höfuðstefnan er greinilega sú að grafa undan efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og atvinnuöryggi almennings, og þetta frv, er höfuðþátturinn í þeirri stefnu, með því að grafa undan þeim samböndum, sem skapazt hafa við þann sósíalistíska heimsmarkað. Hinn þátturinn í stefnu hæstv. ríkisstj., sem hæst ber við hliðina á þessum, er að koma á alræði peningavaldsins í landinu á kostnað verkamanna og annarra launþega og bænda, m.ö.o.: það er að koma á efnahagslegu alræði auðmannastéttarinnar, svo að segja með lögskipaðri fátækt og skorti. Gengislækkunarfrv. og það, sem gert var í sambandi við það viðvíkjandi bankamálunum og öðru slíku, var höfuðatriðið í þeirri stefnu, og þetta frv. fer raunverulega aðeins að litlu leyti inn á það, þó að afleiðingarnar að vísu af því svokallaða frelsi, sem eigi að innleiða í viðskiptamálunum, séu líka nokkur þáttur í þeirri stefnu.

Viðvíkjandi því, sem ég taldi fyrr sem höfuðatriði, sem gerir okkur í Alþb, svo andstæða stefnu núv. ríkisstj., því að grafa undan efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar og sérstaklega því atvinnuöryggi almennings, sem skapazt hefur með samböndunum við sósíalistísku markaðina, þá hafa nú komið fram, bæði af hálfu hæstv. forsrh. og hæstv. viðskmrh., nokkrar yfirlýsingar í þeim málum, þar sem tekið er fram, að það sé ekki vilji þessara hæstv. ráðherra að stefna að því að draga úr þeim viðskiptum. Hæstv. forsrh., sem annars hefur tekið lítinn þátt í þessum umræðum, kom hér alveg sérstaklega til þess að gefa slíka yfirlýsingu, til þess að menn skyldu ekki halda, að hæstv, viðskmrh. væri einn um þá stefnu, og ég lét hæstv. forsrh. vita það í morgun, að ég mundi koma nokkuð aftur inn á hans ræðu, og óskaði eftir, að hann væri við, en hann gat því miður ekki orðið við því. En þessar yfirlýsingar, sem fram hafa komið, sýna, að ríkisstj. leggur nokkurt kapp á að láta líta svo út sem hún vilji viðhalda þessum viðskiptum, og þessar umræður hafa orðið svo miklar, sérstaklega við 2. umr. þessa máls, sökum þess að ég hef haldið því fram, að eðlileg, rökrétt afleiðing af þeirri stefnu, sem upp er tekin með þessu frv., sé að draga úr þessum viðskiptum, og ég hef enn þá ekki getað fengið þá hæstv. ráðherra, sem hér hafa talað, til þess annars vegar að hnekkja þeim rökum mínum eða þá að fallast á þau, þannig að ég verð enn að reyna að sýna þessum hæstv. ráðherrum fram á, að svo framarlega sem þeir meina það, sem þeir lýsa yfir, þá vita þeir ekki, hvað þeir eru að gera, og svo framarlega sem hugur hins vegar fylgir máli hjá þeim og þeir geta ekki hnekkt mínum rökum, þá eiga þeir að stöðva þetta frv.

Ég skal nú taka eitt atriði enn þá sem rök fyrir mínu máli.

Þegar fjárlögin voru rædd og innflutningsáætlun var lögð fyrir um innflutning þeirra vörutegunda, sem ríkið fengi sína tolla af, þá kom í ljós, að það var gengið út frá því að minnka innflutninginn í kringum 200 millj. eða í kringum 20%. Það er alveg eðlileg afleiðing af slíku, að svo og svo mikið af þessum minnkuðu viðskiptum eða minnkaða innflutningnum um 20% af því, sem var 1959, það hlýtur að koma niður á viðskiptunum við þau sósíalistísku lönd, þannig að beinlínis með sjálfri þeirri stefnu, sem ríkisstj. tekur upp, sem hún kallar að skapa hagstæðari viðskiptajöfnuð, safna gjaldeyrissjóði erlendis, minnka innflutninginn frá öðrum löndum, þá verður alveg eðlilega ein afleiðingin af því, að þessi viðskipti við sósíalistísku löndin hljóta að minnka. 20% minnkun innflutnings fer ekki fram hjá þeim, ekki sízt þegar þessi 20% minnkun er að miklu leyti knúin fram á þann hátt að draga úr kaupgetu almennings sem þessu svarar.

Ef við höfum ætlað að minnka um 20% innflutninginn til Íslands, en ætlað að bæta okkar aðstöðu hvað snertir frjálsan gjaldeyri og ætlað að tryggja hins vegar okkar austurviðskipti, þá er það alveg gefið mál, að eina ráðið, sem við gátum haft, var að halda ströngum innflutningshöftum eða hvað sem við viljum kalla það, hvað snertir allar þær vörutegundir, sem hugsanlegt var að við vildum hafa viðskipti með austur á bóginn, ekki sízt til innflutnings, og um leið, þar sem sá neikvæði viðskiptajöfnuður, sem við höfum síðasta ár upp á 500 millj. kr., sem sé verzlunarjöfnuðurinn, er fyrst og fremst við frjálsu gjaldeyrislöndin, þá hefði legið fyrir okkur að taka upp enn þá strangari viðskiptahömlur við þau en aðra, Vestur-Þýzkaland, England og Bandaríkin. Aðeins á viðskiptum við þau, með því að gera þau að jafnvirðisviðskiptum, gátum við bætt okkar viðskipti í frjálsum gjaldeyri um 200 millj. kr., því að það eru um 200 millj, kr. neikvæð viðskipti við þessi þrjú lönd. Ef við ætlum að ná þeim tilgangi hæstv. ríkisstj. að skapa gjaldeyrissjóð í frjálsum gjaldeyri, en halda austurviðskiptunum, verðum við að taka upp skarpari höft en áður, bæði austur á bóginn og vestur á bóginn, og draga úr innkaupunum frá Englandi, Vestur-Þýzkalandi og Bandaríkjunum, en auka og leggja enn meira kapp á söluna þangað, vinna betur að henni. Þannig er hugsanlegt að skapa jákvæðan viðskiptajöfnuð við þessi lönd.

Aftur á móti þær ráðstafanir, sem gerðar eru með þessu frv., ganga í þveröfuga átt.

Þær sleppa svo að segja alveg verzlunarhöftunum við frjálsu gjaldeyrislöndin og draga úr viðskiptunum við sósíalistísku löndin, beinlínis um 13%, sem þegar er viðurkennt, eða um 28% hvað snertir önnur lönd en Sovétríkin, og verða svo vegna þeirra óbeinu áhrifa, sem minnkandi fjárfesting og minnkandi neyzla hefur, til þess að draga enn þá meira úr því en það.

Þess vegna vil ég segja það, að þegar hæstv. forsrh. gefur hér yfirlýsingar, þar sem hann kemur með og hans stjórnarblöð síðan slá því allmikið upp, að vilji ríkisstj. sé svo mikill að viðhalda þessum viðskiptum, að svo framarlega sem þau minnki, þá séu það einhverjar annarlegar ástæður, sem þar séu að verki, þetta er ósæmileg aðdróttun af hálfu hæstv. forsrh. og hans blaða. Hann hefur sjálfur ekki tekið þátt í þessum umræðum hérna og ekki hlustað á þau rök og ekki reynt að svara þeim rökum, sem ég hef hér flutt fram viðvíkjandi þessum málum, og það hefur ekki heldur af hæstv. viðskmrh. verið hægt að hnekkja þeim.

Ég vil þess vegna enn einu sinni leggja áherzlu á það, að svo framarlega sem hugur fylgir máli hjá þessum tveimur ráðherrum, sem þarna hafa talað, og út frá þeirra sjónarmiði eru það góð áform, er þeir vilja viðhalda þessum viðskiptum, sem fyrir þeim vaka, þá vil ég minna þá á það gamla orðtak, að vegurinn til vítis er lagður góðum áformum, sem aldrei eru framkvæmd.

Það eru þess vegna síðustu forvöð fyrir þá úr hæstv. ríkisstj., sem hefðu vilja á því að viðhalda þessum viðskiptum, að stinga við fæti, áður en þetta, sem nú er verið að stefna að, að gefa þessi viðskipti frjáls, er gert.

Hér hafa ekki verið flutt fram nein rök fyrir því, að við hefðum einhverja möguleika á auknum viðskiptum í þeim vestrænu löndum, ekkert nema almennar vonir, og ekkert, sem hefur gert líklegt, að við gætum aukið þau viðskipti árin 1960 eða 1961, að það væri að einhverju leyti betra en var á árunum 1958 eða 1959. En ég hef enga ástæðu til þess að ætla, að okkar útflytjendur hafi ekki alltaf unnið eins vel að því og þeir hafa getað að auka markað fyrir sínar útflutningsvörur í þeim frjálsu gjaldeyrislöndum, svo miklu meiri áhuga hafa þeir haft á viðskiptunum við þau lönd en við austursvæðið, þannig að það virðist síður en svo vera þar nokkur breyting á, ef það væri ekki bara þvert á móti öfugt, vegna þess að það eru þó að myndast nú tvö fríverzlunarbandalög í Vestur-Evrópu, sem voru ekki til áður og að öllum líkindum skapa nokkrar hömlur og auka erfiðleika á viðskiptum við þau lönd. Og ég hef heyrt það alveg greinilega á þeim umræðum, sem hér hafa farið fram, að vísu hjá ýmsum öðrum stjórnarsinnum en hæstv. ráðherra fyrst og fremst, að þetta frv. og það, sem stefnt er að með því, sé raunverulega aðeins fyrsta stóra skrefið í átt til beinnar innlimunar og beinnar þátttöku í fríverzlunarsvæði, kannske sexveldanna, kannske, ef það yrði sameinað í eitt, í fríverzlunarsvæði Vestur-Evrópu sem heildar.

Hæstv. viðskmrh. kom inn á það, að innflutningurinn frá sósíalistísku löndunum væri einmitt vandinn, sem ríkisstj. ætti við að stríða, og mér finnst hæstv. ríkisstj. og stjórnarliðið ekki gera sér ljóst, í hverju þessu vandi liggur. Hann liggur í fyrsta lagi í því, að þessi lönd gera um alla sína framleiðslu og þar með líka um sinn útflutning fyrirætlanir alllangt fram í tímann. Þetta þýðir það fyrir okkur, að ef við erum að hugsa um innflutning frá þessum löndum, þá þurfum við að gera líka okkar áætlanir langt fram í tímann.

Þegar hæstv, viðskmrh. bendir á eitt atriði núna, — mig minnir, að það hafi verið viðvíkjandi timbrinu, þá segir hann, að það hafi verið dálítið erfitt að fá þennan innflutning t.d. frá Sovétríkjunum á öllum þeim sviðum, sem við vildum. Eins og ég benti á áður í mínum ræðum, eru þetta lönd, sem gera mörg ár fram í tímann sínar ákvarðanir, vegna þess að þau eru ekki að framleiða fyrir markaði, heldur fyrir áætlunarbúskap. Við getum því aðeins tryggt okkur innflutninginn frá þessum löndum, sérstaklega á þeim vörum, sem mest eru eftirsóttar og við oft leggjum mest upp úr, að við gætum þess að laga okkar eigin innflutning að þessu, hugsum fram í tímann, komum ekki á síðasta augnabliki og segjum: Nú vantar okkur þetta og þetta og þetta byggingarefni í sumar. Nú þurfum við endilega að fá það. — Þá eru þau búin að gera ráðstafanir kannske fram í tímann, ekki bara um það ár, heldur jafnvel næsta. Eðli þeirra viðskiptahátta er þetta, og til þess að geta haft viðskipti við þau þurfum við hvað þetta snertir að semja okkur að þeirra háttum. Það getur að vísu gilt annað um ýmislegt smærra, sem þarna er um að ræða. Það getur gilt eitthvað annað kannske um eina eða tvær vélar af einhverri tegund eða eitthvað þess háttar. En þegar um er að ræða vörur, sem er eitthvert verulegt magn af, ég tala nú ekki um, sem eru sérstaklega samkeppnishæfar og eftirsóttar, þá verðum við að gæta þess að taka tillit til þeirra hátta, sem þeir hafa á sínum búskap.

Í öðru lagi, til þess að ná innflutningnum frá þessum löndum, sem við þurfum, þurfa innflytjendurnir á Íslandi að vinna að því að afla sér þessara vara. Þeir þurfa að kanna markaði í þeim löndum, hvað til sé, hvar þau muni vera samkeppnishæfust með sína framleiðslu, á hvaða sviðum viðskiptin við þessi lönd væru heppilegust fyrir okkur. Þetta hefur verið gert að hverfandi litlu leyti. Áhugi okkar, t.d. heildsala hér á Íslandi, sem hafa meginið af þessum innflutningi, hefur alltaf í ríkum mæli fyrst og fremst verið sá að afla viðskiptanna frá vesturlöndunum, m.a. vegna þeirra sérstöku sambanda, sem þeir hafa þar, í sambandi við frjálsa gjaldeyrinn, sem ég hef oft komið að áður.

Gerir nú ríkisstj., sem segist vilja viðhalda þessum viðskiptum, eitthvað til þess að ýta undir okkar eigin heildsala hér heima og aðra slíka innflytjendur um að auka viðskiptin við þessi lönd? Nei, þvert á móti. Ríkisstj. segir með þessu frv. við heildsalana og við innflytjendurna: Þið getið fengið allar þær vörur svo að segja, sem þið viljið, frá Vestur-Evrópulöndunum. 60% af innflutningnum til Íslands er frjáls, og ef þið getið fengið greiðslufrest, ef þíð getið útvegað ykkur lán erlendis til þriggja eða sex mánaða, þá megið þið jafnvel nota það líka. M.ö.o.: ríkisstj. gerir beinlínis ráðstafanir hvað snertir 60% af innflutningnum til þess, að okkar heildsalar fylli búðirnar hér af þessum vörum, jafnvel sem lánsvörum, í staðinn fyrir að reyna að skapa áhuga hjá þessum mönnum á að reyna að finna út vörur þar austur frá, sem heppilegt væri fyrir landið að flytja inn. Og ég mun síðar koma að því, hvað þetta hefur raunverulega þýtt fyrir okkur.

En ég vil aðeins taka þetta fram sérstaklega út af yfirlýsingu hæstv. forsrh. um annarlegar ástæður og annað slíkt: Í þeim miklu umr., sem nú hafa farið fram um þetta mál, stendur ríkisstj. uppi svo rökþrota, að þó að hún gefi fallegar yfirlýsingar um, að hún vilji vel þessum viðskiptum, þá er hennar stefna að brjóta þau niður, þá er afleiðing af hennar stefnu sú að brjóta þau niður. Það þýðir ekki að koma á eftir og segja við Sovétríkin eða slík ríki, að þau vildu ekki kaupa af okkur, eða segja: það var ekki hægt að kaupa þaðan, eða segja: þau vildu ekki keppa, eða eitthvað annað slíkt. Spurningin, sem þarna er, er sú, hvort íslenzk ríkisstj. vill skipuleggja viðskipti við þessi lönd eða ekki. Þessi lönd hafa skipulagðan þjóðarbúskap, og við getum ekki náð eins gífurlega miklu og við höfum aflað okkur þar af mörkuðum og af innflutningi þaðan nema með því að skipuleggja okkar eigin utanríkisverzlun þannig, að við getum hagnýtt okkur þetta. Ég veit, að hjá sumum í stjórnarliðinu, sem eru harðvítugastir í þessum efnum, er um vítaverðan ásetning að ræða, þann ásetning að brjóta niður þessi viðskipti, og að hjá voldugum aðilum á vesturlöndum er þessi ásetningur líka fyrir hendi. Hann kom kannske allra greinilegast fram upphaflega, þegar við gengum í Marshallstofnunina, í öllum þeim yfirlýsingum, sem þá komu fram um, hve hættuleg viðskiptin austur á bóginn væru. Hins vegar hjá þeim, sem standa með þessu frv., gefa yfirlýsingar um, að þeir vilji viðhalda þessum viðskiptum, er um vítavert gáleysi að ræða eða ótrúlega blindni, og það dugir ekki að skýla sér á bak við það, sem þeir kalla annarlegar ástæður, á eftír, ef þeir með þessari stefnu sinni verða til þess að brjóta þetta niður. Ég vil minna á það, að einmitt innflutningsskrifstofan hefur með sínu starfi á undanförnum árum alveg sérstaklega hjálpað til þess, með þeirri sérþekkingu, sem þeir menn hafa haft, sem þar hafa starfað, á viðskiptamöguleikum Íslands, að byggja upp og viðhalda þessum viðskiptum. Og þegar henni er sundrað núna og þegar þeir menn eiga að taka við, sem stjórna Seðlabankanum og jafnvel í viðskmrn., þegar þeir eiga að fara að taka við og þar á meðal þeir menn, sem mest hafa gengið fram fyrir skjöldu, ráðuneytisstjórinn í viðskmrn., aðalbankastjórinn í Seðlabankanum, í því að berjast fyrir því, sem þeir telja svo að segja einvörðungu frjáls- viðskipti svokölluð, þá er alveg greinilegt, hvert stefnt er með þessu.

Þeir menn í ríkisstj., sem vilja viðhalda þessum viðskiptum, ættu, áður en það er orðið um seinan, að sjá sig um hönd með, hvað þeir eru nú að gera.

Hæstv. viðskmrh. kom í sinni svarræðu við 2. umr. þessa máls inn á það, að við mættum ekki tala allt of ljótt, Alþýðubandalagsmenn; um OEEC, það væri hugsanlegt, að Sovétríkin gengju í það bráðlega. Ég skal minna hann á, að Sovétríkin voru líka fyrir ári eða tveim að bjóðast til þess að ganga í Atlantshafsbandalagið. Ég er ákaflega hræddur um, að við höldum áfram að vera miður góðir í garð Atlantshafsbandalagsins. Hitt er annað mál, að ég býst við, að bæði OEEC og Atlantshafsbandalagið mundu breytast allmikið hvað innihald snertir, ekki bara frá sjónarmiði okkar, þessara voðalegu komma, heldur alveg sérstaklega frá sjónarmiði Ameríkana og þeirra, sem nú hafa mótað OEEC og Atlantshafsbandalagið, svo framarlega sem þau færu í það. Og hvort OEEC yrði eftir það aðalfrumkvöðull frjálsra viðskipta í veröldinni, eftir að Sovétríkin væru komin þar inn í, það vildi ég ofur lítið efast um a.m.k. um það OEEC, þá Efnahagsstofnun Evrópu, sem verið hefur til fram að þessu, held ég, að við getum haft alveg sömu skoðanir sem við höfum haft fram að þessu, hvaða myndbreytingum, sem hún ætti eftir að taka í framtíðinni.

Þá lýsti hæstv. viðskmrh. því yfir, að það væri ákveðin bankapólitík ríkisstj., að það yrðu aðeins veitt lán sem samsvaraði aukningu sparifjár. Ég hef oft komið inn á það, og ég skal koma inn á það einu sinni enn þá, að ég álit þetta alveg óhugsandi stefnu fyrir Ísland, og ég vil einungis beina einni spurningu til hæstv. viðskmrh, í þessu sambandi: Ef á að takmarka veitingu lánsfjár við sparifjáraukningu og við skulum segja, að það kæmi Hvalfjarðarsíld, eins og hér um árið, 1948, Hvalfjörðurinn yrði fullur af síld og við gætum haldið áfram að moka þar upp, og við skulum segja, að okkur tækist að útvega markaði fyrir allt saman, sem ég býst nú ekki við að hæstv. ríkisstj. mundi gera, hún léti náttúrlega síldina synda þar í Hvalfirði og eiga sig, — en við skulum nú segja, að það væri ekki hægt fyrir hana að komast hjá því að játa, að það væri hægt að fá markaði fyrir hana, þá er náttúrlega alveg gefið, að sparifjáraukning á Íslandi stendur ekki í neinu sambandi við það, hvort við getum haft Hvalfjörðinn fullan af síld í nokkra mánuði og mokað þar upp svo að skiptir kannske hundraða milljóna króna verðmæti. Þessu yrði ekki mokað upp, svo framarlega sem bankarnir ykju ekki útlán sín til þeirra, sem eru að framkvæma söltunina eða bræðsluna eða hvað sem gert er við síldina, frystinguna og annað slíkt. Og ætti þá að fara að takmarka þessa lánafúlgu við það, að þegar sparifjáraukningin væri uppurin, þá væri hætt að lána, jafnvel þótt hægt væri að útvega gjaldeyri fyrir síldina, en kæmi náttúrlega ekki strax, af því að þetta mundi liggja nokkuð lengi áður? Það er alveg óhugsandi fyrir þjóð, sem byggir á fiskveiðum, eins og okkur, að ætla að framkvæma pólitík, sem stóriðjuþjóðir geta lagt til grundvallar hjá sér, alveg óhugsandi, og það væri glæpur gagnvart þeim möguleikum, sem við hefðum, að gera slíkt. Og ég býst við, að hæstv. viðskmrh. geti ekki lýst yfir öðru en því, að ef eitthvað svona kæmi fyrir, að eitthvað slíkt bærist upp í hendurnar á okkur, þá hlyti að verða að gefa undanþágu frá slíku, m.ö.o.: sú bankapólitík, sem talað er um að móta nú í þessum stranga engilsaxneska skilningi, eigi ekki við á Íslandi.

Þá gaf hæstv. viðskmrh. það svar við fsp. minni viðvíkjandi afskiptum af kaupdeilum og hvort gengið yrði lækkað, svo framarlega sem kaup væri hækkað, ég held orðrétt, að ríkisstj. mundi engin afskipti hafa af kaupdeilum, er verða kynnu, m.ö.o.: ef kapítalistarnir vildu hækka kaupið, yrðu þeir að borga það, það yrðu engar verðhækkanir vegna kauphækkana. Gengið yrði ekki fellt, þótt kaupið hækkaði.

Nú skulum við segja, að það verði vinnudeilur milli verkamanna og atvinnurekenda og hvorki gangi né reki í slíku. Heldur þá virkilega hæstv. ríkisstj.; að henni eða nokkurri annarri ríkisstj. á Íslandi héldist það uppi að láta atvinnulíf á Íslandi stöðvast án þess að skipta sér nokkurn skapaðan hlut af slíku? Heldur hæstv. viðskmrh., að ríkisbankarnir, sem hafa lánað atvinnurekendunum hér á Íslandi, birgt þá áð fé, — ég held, að 90% af öllum þeim, sem gera út hér á Íslandi, verði að fá lán hjá ríkisbönkunum, áður en þeir fara að byrja útgerð, — heldur hæstv. viðskmrh., að það sé mögulegt fyrir ríkisstj. og bankana að horfa á það, að atvinnulífið stöðvist, án þess að skipta sér af því, og að þjóðin mundi yfirleitt þola mánuðinum lengur nokkra ríkisstj., sem sæti þannig og gerði ekki neitt? Það hefur verið skoðun manna nú í meira en 20 ár og raunar lengur á Íslandi, að ríkisstj. væri fyrst og fremst kosin til þess að stjórna þjóðarbúskapnum. Og sá hugsunarháttur er ekki horfinn, og hann hverfur ekki fyrst um sinn, m.a. vegna þess, að það er óhugsandi að ætla að stjórna, ætla að reka þjóðarbúskapinn á Íslandi nema með svo margfalt meiri afskiptum ríkis og ríkisbanka en nokkur önnur þjóð í þeim kapítalistíska heimi hefur, að fólk sættir sig ekki við það, að ein ríkisstj. allt í einu leggi hendur í skaut og komi hvergi nærri slíku. Ég held þess vegna, að slíkar yfirlýsingar, þótt þær séu út af fyrir sig merkilegar, mundu ekki standast raunveruleikann, þegar farið yrði að reyna á þær.

Þá talaði hæstv. viðskmrh. um, að það væri þrenns konar aðstaða, sem hann áliti að gæti leyft út frá hans sjónarmiði eðlilegar kauphækkanir. Í fyrsta lagi nefndi hann, ef viðskiptakjör breyttust þjóðinni í hag. Nú hefur það gerzt t.d., ef ég veit rétt, að t.d. olíuverðið til Íslands frá Sovétríkjunum hefur lækkað. Ég held, að það hafi líka gerzt, að jafnvel eitthvað af fisktegundunum hafi hækkað, þannig að viðskiptakjör á vissum sviðum hafi batnað. Í hvert skipti, sem slíkt gerðist, ætti sem sé að skapast möguleiki fyrir því, að kaup mætti hækka á Íslandi. Svo hefur það hins vegar gerzt, að fiskimjöl hefur fallið í verði eða verið fellt í verði. Fiskimjölsbirgðir, sem voru seljanlegar í fyrra á sæmilegu verði, t.d. til Tékkóslóvakíu fyrir tæpu ári eða í fyrrasumar, voru ekki seldar, en eru nú seldar á miklu lægra verði á þeim svokallaða frjálsa markaði. Þessi atriði hafa oft komið fyrir okkur áður, í gamla daga líka, meðan hér var frjálst fyrir 1927 um öll viðskipti. Ætlast hæstv. ríkisstj. til þess, að verkalýður á Íslandi, að launþegar á Íslandi eigi að taka tillit til þessara sveiflna, þegar þeir fá engu að ráða um það sjálfir, hvert hlutirnir eru seldir, og þeirra fulltrúar geta máske sýnt fram á, að það hafi verið hægt að selja fyrir svona og svona gott verð, en þeir fésýslumenn, sem þarna hafi ráðið, hafi hindrað það og hafi þannig valdið stórkostlegri verðlækkun? Nei, það er ekki hægt að ætlast til þess, að verkamenn og launþegar á Íslandi sætti sig við að eiga að borga svo að segja út í hönd í launalækkunum það, sem braskararnir á Íslandi valda með skorti á forsjálni í sinni verzlunarpólitík. Svo framarlega sem þetta ætti að gilda og verkalýðssamtökin ættu að taka eitthvert tillit til slíks, þá yrðu verkalýðssamtökin að sínu leyti að ráða um samningana, um viðskiptakjörin, um sölurnar, um innkaupin, jafnmiklu og kapítalistarnir á Íslandi. Öðruvísi er ekki hægt að ætlast til þess, að verkalýðurinn taki tillit til þessa.

Í öðru lagi minntist þá hæstv. viðskmrh, á kjarabætur, ef framleiðsla eykst. Nú hefur framleiðslan aukizt stórkostlega á Íslandi á síðustu 12 árum. Verkalýðurinn hefur ekki fengið hækkað kaup. Það þýðir m.ö.o., að verkalýðurinn ætti kröfu á því í dag, að kaup væri hækkað og það allríflega nú þegar. En hvað er það, sem hefur gert það að verkum, að þótt framleiðslan hafi aukizt, þá hefur verkalýðurinn ekki fengið hækkun? Það hefur verið tvennt: Annars vegar hefur verið sett af stað af hálfu yfirstéttarinnar í þjóðfélaginu svikamylla verðbólgunnar til þess að snuða verkamenn jafnóðum um þær kauphækkanir, sem þeir hafa knúið fram. Og svo hitt, að þótt framleiðslan hafi aukizt, þá hefur fjárfestingin hjá þjóðfélaginu verið meira eða minna röng, vegna þess að fjárfestingin, eins hlutfallslega miklu af þjóðartekjunum og hefur verið varið til hennar, þá hefur allt of mikið farið í neyzlufjárfestingu og allt of lítið í framleiðslufjárfestingu. Og reynslan er sú, að sérstaklega þegar fjárfestingin hefur verið gefin meira eða minna frjáls, eins og eftir 1950, þá hefur þetta hlutfall orðið hvað verst. Þegar ríkið hefur hætt að skipta sér af því, hvernig fjárfestingin yrði, hafa auðmennirnir á Íslandi ráðstafað hvað vitlausast því fé, sem þeir hafa ráðið yfir. Á árunum 1950–56 kaupa þeir ekki einn einasta nýjan togara, lítið af bátum. Ríkið verður hins vegar að ráðast bæði í sementsverksmiðjuna og áburðarverksmiðjuna. Það er ríkið, sem verður að hafa framtak um aðalfjárfestinguna til framleiðslu, en auðmennirnir aftur á móti nota því meira af sínu fé í lúxusvillur og lúxusbíla. Og það er verið að gefa undir fótinn því sama með því að sleppa fjárfestingareftirlitinu nú. M.ö.o.: ef verkalýðurinn ætti að taka tillit til þess viðvíkjandi sínu kaupgjaldi, hvort framleiðsla eykst, þá yrði hann að fá að stjórna því að meira eða minna leyti, hve miklu af þjóðartekjunum væri varið til fjárfestingar, sem yki framleiðsluna. 1600 millj. kr. á ári er varið til fjárfestingar á Íslandi, og auðmannastéttinni, sem ræður, þóknast að hafa meiri hluta þess í neyzlufjárfestingu og segja svo á eftir við verkalýðinn: Þið getið ekki fengið neina kauphækkun, og það er ósvinna að fara fram á hana, því að framleiðslan eykst ekki nóg. — Það getur enginn ætlazt til þess, að verkalýðurinn sætti sig við það. Hann segir við þessa auðmannastétt: Þið gátuð stjórnað þessu af viti, sett miklu meira af fjárfestingarfénu í skynsamlegar framkvæmdir, sem juku framleiðsluna, og fyrst þið ekki gerið það, þá verður ykkur að gera svo vel og blæða fyrir það. — Þess vegna er engin sanngirni í því að ætlast til þess, að verkalýðnum og launþegunum eigi að blæða fyrir vitlausa fjárfestingarpólitík auðmannastéttarinnar í landinu.

Það er rétt hjá hæstv. viðskmrh., að þegar þjóðartekjurnar vaxa og framleiðslan eykst, þá er mjög eðlilegt, að verkalýðurinn geri kröfur til stærri hlutdeildar. En þótt auðmannastétt stjórni svo vitlaust, að hvorugt vaxi, vegna þess að hún kýs að eyða í vitleysu svo og svo miklu af sínum gróða, þá á alþýðu manna ekki að blæða fyrir það. Þá er bezt að taka eitthvað dálítið af þeim gróða frá auðvaldinu m.a. með því að hækka kaup verkalýðsins. En sem sagt, hvað þetta snertir hefur framleiðslan aukizt og verkalýðurinn getur þess vegna frá því sjónarmiði gert kröfu til kauphækkunar.

Þá talaði hæstv. viðskmrh. um, að í þriðja lagi væri grundvöllur fyrir kauphækkun, ef það væri aukin framleiðslugeta. Framleiðslugetan hefur aukizt á Íslandi og það mikið. Gamla skýrslan frá Marshallárunum um afköst okkar sjómanna var, ef ég man rétt, að hver íslenzkur sjómaður framleiddi að meðaltali 70 tonn af fiski á ári, og vorum við þá sjöfalt hærri en sá sjómaður, sem næst kom, norski sjómaðurinn, með 10 tonn á sjómann. Ég býst við, að framleiðslugeta síðasta ár hjá okkar sjómönnum hafi verið um 100 tonn á mann á ári. Hún hefur stóraukizt, þannig að líka hvað það snertir hefur orðið breyting, sem ætti að vera grundvöllur fyrir kauphækkun.

M.ö.o.: allt það, sem hæstv. viðskmrh. talar um, gefur raunverulega verkalýðnum ástæðu til nú þegar að segja: Ég krefst kauphækkunar. — Og hæstv. ríkisstj. lýsir því samt yfir, að hún sé á móti öllum kauphækkunum.

Hins vegar gleymir hæstv. viðskmrh. að taka fram það, sem er jafnvel aðalatriðið í því, sem skapar grundvöll að kauphækkunarmöguleikum, gróði hjá atvinnurekendastétt landsins, hjá yfirstétt landsins. Getur hún borgað eitthvað af sínum gróða? Er svo mikil eyðsla hjá henni, að það megi gjarnan draga úr þeirri eyðslu hennar og láta það koma fram sem neyzlu verkalýðsins í dag?

Mér næstum heyrðist á hæstv. viðskmrh., að hann gengi út frá því, að á þessu herrans ári 1960 hefði hæstv. ríkisstj. eiginlega verið búin að reikna það út og lagt það til grundvallar fyrir sínum frumvörpum, að það hafi í fyrsta lagi verið komið á fullt réttlæti um skiptingu arðs á Íslandi, m.ö.o., það hefði enginn gróði verið hjá atvinnurekendastétt Íslands, hún gæti ekki fórnað neinu af sínu og ekki skipulagt neitt betur hjá sér. Ég held, að það sé mjög fjarri því, að svo sé. Í öðru lagi finnst mér hann ganga út frá því í þessum hugleiðingum sínum, að á því herrans ári 1960 hafi verið komið á hápunkt skynsamlegrar skipulagningar á bæði ríkisbúskapnum og þjóðarbúskapnum á Íslandi, þannig að þar væri ekki hægt að skipuleggja betur, spara svo og svo mikið á öllum sviðum, þannig að launþegar landsins gætu fengið betri kjör. Ég held, að hvorugt hafi verið fyrir hendi, hvorki fullt réttlæti í skiptingu arðsins né skynsamleg skipulagning á ríkisbúskapnum og þjóðarbúskapnum, þannig að þegar launþegar landsins krefjast hærra kaups, þá geti það gengið út yfir bæði gróða atvinnurekendanna og gengið út yfir skipulagsleysið, stjórnleysið og eyðsluna í ríkisbúskapnum og þjóðarbúskapnum. Og það vítum við báðir, að einmitt kaupkröfur verkalýðs og annarra launþega eru um leið sá framfaramáttur í þjóðfélaginu, sem knýr atvinnurekendurna til þess að skipuleggja sinn eigin búskap betur og knýr ríkisbáknið sömuleiðis til þess að spara meira. Þess vegna er grundvöllurinn fyrir kauphækkanir í ríkum mæli fyrir hendi.

Hæstv. viðskmrh. kom inn á það, að vel gæti farið svo, að launþegarnir flyttust úr einni launþegastéttinnni í aðra. Er það t.d. meiningin viðvíkjandi við skulum segja innflutningsskrifstofunni, að þeir eigi að fara í hraðfrystihúsin, sem þar voru? Ég sá Alþýðublaðið nýlega vera að tala mikið um, að stúlkurnar, sem ynnu á skrifstofunum, hefðu gott af að fara í hraðfrystihúsin og mennirnir á togarana. Kannske ríkisstj. hafi eitthvað verið að bollaleggja um það undanfarna daga.

Þá talaði hæstv. viðskmrh. um, að það yrði sú breyt. á launþegastéttinni, að það ykist sá hluti launþegastéttarinnar, sem væri hærra launaður, en fækkaði þeim, sem væru lægra launaðir. Það er ekki að öllu leyti rétt, því miður. Hvaða félög heldur hæstv. viðskmrh. að það séu, sem aukast hvað mest núna, t.d. hér í Reykjavík? Það var rétt hjá honum, að t.d. félag eins og Dagsbrún stendur mjög mikið í stað, þar sem einmitt eru þeir verkamenn, sem vinna við höfnina og við byggingarvinnu og slíkt. Aftur á móti það, sem hefur aukizt sérstaklega, er t.d. Iðja, félag verksmiðjufólks, sem er með lélegast launaða verkafólkinu, sem til er í Reykjavík, og Verzlunarmannafélagið, þar sem er líka mjög lélega launað, þannig að það er því miður langt frá því, að tilhneigingin sé í þá átt.

Svo kom hæstv. viðskmrh. í sinni svarræðu til mín við 2. umr. þessa máls með nokkrar yfirlýsingar viðvíkjandi viðskiptunum austur á bóginn. Hann sagði: Við reyndum að selja meira af fiski og síld til Sovétríkjanna heldur en við fengum að selja. — Nú verð ég að segja hæstv. viðskmrh., að ég er nokkuð tortrygginn í sambandi við þessi mál. Ég hef fylgzt vel með þessum samningum á undanförnum árum. Ég hef tekið eftir því og hef undirstrikað það hér, að þeir, sem sérstaklega eiga að annast þessa sölu, það eru náttúrlega sjálfir útflytjendurnir, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og aðrir slíkir, þeir hafa verið gersamlega sinnulausir og áhugalausir um að vinna að sölunni á þessum stað. Það er eins og þeir hafi alltaf kastað öllum sínum áhyggjum upp á ríkisstj., ríkisstj. eigi að útvega þeim stóra samninga, ef þeir þurfi á þeim að halda, en sjálfir gera þeir bókstaflega ekki neitt og hafa aldrei reynt, og þetta hef ég bæði í tíð vinstri stjórnarinnar og endranær hvað eftir annað bent á. Það er ekkert gert til að reyna að sjá um í sambandi við meðhöndlun vörunnar að koma henni út og vinna að því að gera hana vinsæla hjá viðskiptavinunum, hjá þeim, sem endanlega borða hana. Það er eins og það sé alltaf treyst á það, að stjórnarvöldin rússnesku eða sovétstjórnarvöldin segi við sína neytendur: Hérna er íslenzkur freðfiskur, hann eigið þið að borða. — En að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna hugsi um það, að á borðum í búðunum í Moskvu og annars staðar liggi fallegir bæklingar á rússnesku með myndum af því, hvernig menn eigi að fara með þetta og annað slíkt, að það séu gefnar út leiðbeiningar um, hvernig menn eigi í kælistöðvunum að geyma þessar vörur og fara með þær, og annað slíkt, það er ekki til. Það eru mörg ár síðan farið hefur verið fram á þetta við þá. Það hefur ekki einu sinni verið svo mikill áhugi, að neinn sérfræðingur hafi verið hafður við sendisveitina í Moskvu, og ég held, að hafi þó ekki skort áhuga frá hálfu sendiherrans þar fyrir því að fá slíkt, og hafa þó verið hafðir alls konar legátar um allan heim frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og ekki svo lítið kostað til þess. Og það er líklega ekki svo lítið af þeim kostnaði, sem Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna leggur í út um allan heim, sem einmitt er lagt á fiskinn, sem seldur er í Sovétríkjunum. Mér er kunnugt um, að það hefur verið svikizt um að vinna að því að selja þennan fisk í Sovétríkjunum. Það hefur verið algert áhugaleysi um að koma honum út til fólksins þar af hálfu íslenzku ráðamannanna, þeirra, sem eiga Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna. Þeir hafa kastað öllu sínu upp á stjórnarvöldin í þessu efni.

Í öðru lagi hefur verið sú slæma tilhneiging að gá ekki nógu vel að vörunni, og það skal ég ekki ræða meira um.

En svo í þriðja lagi, það er mér alveg sérstaklega vel kunnugt um, kom hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna strax á árinu 1958, — held ég, að það hafi verið, þó skal ég ekki fullyrða það, það getur verið, að það hafi verið 1957, — fram sú tilhneiging að minnka þessi viðskipti, stórdraga úr þeim. Við höfðum í vinstri stjórninni getað selt 32 þús. tonn til Sovétríkjanna með þeim samningum, sem gerðir voru 1956. Næst þegar átti að gera samninga, vissi ég, að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna vildi setja viðskiptamagnið niður í 20 þús. tonn. Þá hafði litið út eitthvað ofur lítið blómlegar í augnablikinu viðvíkjandi markaðnum í Ameríku, og þá átti undireins að nota tækifærið til þess að brjóta þessi viðskipti niður. Skilyrði til þess að gera svona viðskipti hins vegar raunverulega örugg eru þau, að þetta sé ár frá ári. Þá geta neytendurnir treyst því að fá þennan fisk, og ekki sízt ef við hefðum áhuga á því að stuðla frekar að því en hitt, að Sovétríkin væru ekki mjög mikið að auka sinn flota til þess að verða að byggja á sínum eigin fiskveiðum. Þáv. sjútvmrh., Lúðvík Jósefsson, átti í miklu stríði við Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna um að fá hana til þess að hækka þennan kvóta, hækka þetta magn. Hann vildi fá hana til þess að reyna að halda því föstu í 32 þús. smálestum. Það tókst að lokum að fá hana til að hafa í samningnum 26 þús. smál. En svona komu sem sé strax fram tilhneigingarnar að draga úr þessu, og þetta eru erfiðleikarnir. Þessi afstaða, sem kemur fram, þessi braskhneigð hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna veldur því, að þeir aðilar, sem við semjum við í Sovétríkjunum og. þar eystra, eru miklu erfiðari viðfangs fyrir okkur. Það er miklu erfiðara að koma á eftir og ætla að koma þessu aftur upp í 32 þús. tonn, þó að það kunni öðru hvoru að takast, þegar búið er, ef þeir hafa lagt áherzlu á að fá þetta, að draga svona úr því.

Svo segir hæstv. viðskmrh.: Vandinn er hins

vegar að finna vörur til þess að kaupa. — Það er rétt. Hvað þýðir það? Það þýðir, að íslenzk stjórnarvöld þurfa að hafa aðgát til þess að nota þarna öll tækifæri, og þau eru gífurleg. Það er nokkurn veginn skiljanlegt, að þeir í þessum löndum vilji ekki kaupa meira af okkur en þeir sjá nokkurn veginn, að við höfum tilhneigingu eða vilja til þess að kaupa frá þeim, og það sýnist mér hæstv. viðskmrh. einmitt viðurkenna. Hann hefur að vísu kvartað yfir, að þeir hafi reynt að selja meira og hafi gengið illa, en hann segir þó: Vandinn er hins vegar á innflutningshliðina. Vandinn er að skipuleggja innflutninginn frá þessum löndum til Íslands. Og þar er höfuðvandinn í þessu. Það er þar, sem kemur til með að keyra um þverbak núna, einmitt vegna þessarar stefnu, sem ríkisstj. nú er að taka upp. Og það vil ég upplýsa, hvernig þetta stendur nú þegar, hvaða afleiðingar þessi stefna ríkisstj. þýðir, áður en farið er að framkvæma hana, bara þegar umtalið um hana er komið í gang. Við skulum bera saman gjaldeyrisafstöðu okkar til þessara Austur-Evrópulanda, eins og hún var í marzlok 1959 og eins og hún er í marzlok núna. Þá sjáum við nokkurn veginn, hvernig okkar aðstaða er með innkaup frá þessum löndum. Í marzlok 1959 var gjaldeyrisafstaða bankanna sú, að í Tékkóslóvakíu skulduðum við 71/2 millj., í Sovétríkjunum skulduðum við 49 millj„ í Póllandi áttum við inni 181/2 millj„ í Austur-Þýzkalandi áttum við inni 34 millj. Það þýddi, að við skulduðum í tveimur af þessum löndum rúmlega 56 millj. og við áttum inni í tveimur af þessum löndum 52 millj. M.ö.o.: heildargjaldeyrisafstaðan gagnvart þessum löndum þá var, að við skulduðum þar um 4 millj. Við höfðum keypt heilmikið frá þessum löndum. innflutningshliðin var sem sé ekki aðalvandinn fyrir okkur. Við höfðum séð um að kaupa allmikið í þessum löndum. Hvernig stöndum við núna, í marzlok 1960, eftir að hæstv. ríkisstj. er búin að sitja að völdum nokkra mánuði, eftir að umtalið um hennar fríverzlunarstefnu er farið að hafa sin áhrif á heildsalana hér á Íslandi? Hvernig stöndum við þá? Það sýnir tilhneiginguna, sem kemur fram í þessum viðskiptum öllum. Þá stöndum við þannig, að í Tékkóslóvakíu eigum við inni 371/2 millj. í marzlok, í Sovétríkjunum eigum við inni 11/2 millj., í Póllandi eigum við inni 321/2 millj., í Austur-Þýzkalandi eigum við inni 491/2 millj., m.ö.o.: við eigum inni í þessum löndum 121 millj. kr. Við höfum minnkað innkaupin. Við höfum getað selt til þessara landa, það er ekki það, sem hefur staðið á, en við höfum dregið úr innkaupunum frá þessum löndum með þeim afleiðingum, að við eigum inni í þessum löndum núna 121 millj. í marzlok, í staðinn fyrir að í fyrra skulduðum við í þessum löndum 4 millj. kr. Einmitt það, sem við höfum verið að deila um, hvort stefnan hjá hæstv. ríkisstj. væri sú að draga úr viðskiptunum austur á bóginn, er farið að sýna sig, áður en þetta frv. er komið til framkvæmda, bara í því, hvernig heildsalarnir hér í Reykjavík búast við. Þeir hafa farið að framkvæma það, sem býr á bak við í stefnu hæstv. ríkisstj., áður en búið er að samþykkja frv. Þeir eru búnir að koma okkur í þá afstöðu, við eigum þarna gjaldeyrisvarasjóð, en við erum að brjóta niður viðskiptin við þessi lönd, vegna þess að þau verða ekki lengi með því móti, að við höldum ekki nokkurn veginn jafnvirðisviðskiptum, því að á þeim byggjast þau öll. Tilhneigingarnar, sem þetta frv. skapar í viðskiptum Íslendinga austur á bóginn, eru nú þegar farnar að koma í ljós. Hæstv. ríkisstj. ætti að geta lært af því, að viðbrögð heildsalanna í Reykjavík sanna það algerlega, hver verður afleiðingin, ef þessi stefna er látin sigra með þessu frv., ef þetta verður sem sé framkvæmt.

Ég er alveg viss í því, að það er hægt að gera á bæði vélum, vefnaðarvörum og öðru slíku stórsamninga við þessi lönd. En það þýðir, að við verðum að hafa meira eða minna eftirlit eða yfirstjórn á innkaupum þeirra vara hér heima. Það þýðir ekki að setja það á einhverja frílista, þá er búið að eyðileggja það.

Svo kom hæstv. viðskmrh. sérstaklega að því að svara mér viðvíkjandi bílunum og beindi þar fsp. til mín. Hann talaði um annars vegar Volkswagen-bílana og hins vegar Moskvits-bíla, og hann segir, að nú gangi þeim illa að selja Moskvitsbílana, þeir kosti svo og svo mikið hérna, þeir séu ekki seljanlegir. Árið 1959 voru viðskiptin við Vestur-Þýzkaland þannig, að við fluttum þaðan inn fyrir 155 millj. og við seldum þangað fyrir 53 millj., m.ö.o.: það var um 100 millj. neikvæður verzlunarjöfnuður við Vestur-Þýzkaland. Hvað þýðir það, ef við erum að hugsa um sjálfstæði Íslands til þjóðarbúskapar? Það þýðir það, að við höfum ekki efni á að kaupa inn eins mikið og við gerum. Það þýðir, að við verðum að skera niður viðskipti við þetta land, á meðan það kaupir ekki meira af okkur, ef við ætlum að sjá okkar fótum forráð, ef við ætlum að halda efnahagslegu sjálfstæði landsins. Það þýðir, að ef Moskvitsbílar eru eitt af því, sem við álítum heppilegt að kaupa frá Sovétríkjunum til þess að viðhalda markaði þar, þá verðum við að kaupa Moskvits-bíla þaðan og stöðva algerlega innflutning á öllu, sem heitir Volkswagen eða einhverjir bílar frá Vestur-Þýzkalandi, þá höfum við ekki efni á að kaupa þá bila. Við verðum að taka þessi mál alveg raunhæft. Við eigum ekki að taka stórlán í París eða Washington til þess að kaupa inn svo og svo mikið af bilum frá löndum, svo að viðskiptajöfnuðurinn við þau, eins og Vestur-Þýzkaland, fari kannske frá því að vera neikvæður um 100 millj. í það að vera neikvæður um 150 millj., óg brjótum svo niður á sama tíma jafnvirðiskaupin við Sovétríkin. Slíka viðskiptapólitík nær ekki nokkurri átt að reka fyrir þá, sem hugsa um efnahagslegt sjálfstæði Íslands. Fyrir þá, sem ætla að innlima Ísland í eitthvert fríverzlunarsvæði, kemur náttúrlega allt annað til greina. Hann spurði mig, hvað ég mundi gera í þessum sporum. Ég mundi skipuleggja innkaupin þannig, að ég kaupi á þeim stöðum handa Íslandi, þar sem við eigum peninga til að kaupa fyrir, og ég kaupi ekki þar, sem við eigum enga peninga til þess að kaupa fyrir. Það mundi hver einasti heimilisfaðir gera, sem væri . að hugsa um sitt heimili og hvernig það kæmist af, ef hann ætlar að halda sínu sjálfstæði.

Hvað hitt snertir, viðvíkjandi verðlaginu á þessum hlutum, . þá er náttúrlega sjálfsagt fyrir okkur að prútta niður verðinu eins og við mögulega getum. Við verðum að reyna að gera sem hagstæðust innkaup á hverjum tíma. En innkaupin takmarkast náttúrlega alltaf af því, að við höfum peninga til þess að kaupa fyrir. Og peninganna verðum við að afla okkur með því að selja okkar eigin vörur. Ef það eru einhverjir menn, sem vilja að vísu selja okkur gjarnan, en vilja ekki af okkur kaupa, þá verðum við að segja við þá: Ég get ekki verzlað við þig meira, mér þykir það mjög leitt, nema þannig, að þú kaupir af mér jafnmikið í staðinn.

Hæstv. viðskmrh. sagði einmitt í sambandi við þetta: Það er ekki ríkisstj., sem spillir markaðinum fyrir bílana. — Það er einmitt ríkisstj., sem spillir markaðinum fyrir bílana. Svo framarlega sem hún er að hleypa þarna einhverjum öðrum bílum inn, þá er hún að spilla markaðinum. Við Íslendingar höfum horfzt í augu við svo alvarlega hluti í sambandi við okkar viðskiptamál, að við skulum ekki láta eins og við höfum himin höndum tekið, ef við höfum getað slegið okkur lán, jafnvel þó að það lán sé 800 millj. Það kemur að skuldadögum á því láni eins og öllu öðru. Og ef við ætlum að lifa eins og greifar og kaupa okkur Volkswagen og annað slíkt, allt upp á lán, og getum ekkert selt í þessum löndum, þá verða skuldadagarnir því verri fyrir okkur. Og ég er farinn að taka eftir því, að fésýslumennirnir hér í Reykjavík eru nú farnir að reikna með því, að hún standi líklega ekki lengi, þessi dýrð. Maður er þegar farinn að heyra það hérna, að þeir segja: Það. er víst bezt, þó að það sé ekki gott útlit, að byrja á sem flestum stórbyggingum í sumar, því að það verður víst sett fjárfestingareftirlit aftur með haustinu, svo að það er bezt að hafa byrjað, þá fer maður að halda áfram, bezt að nota tækifærið. Það er nú ekki meiri trúin á þessari pólitík hjá þeim, sem hún þó fyrst og fremst er gerð fyrir.

Við höfum ekki efni á að flytja inn bíla, nema að svo miklu leyti sem við getum borgað þá. Og þegar við hugsum um bílainnflutning, eigum við að vísu að setja hann sem nr. 2, við eigum að byrja á að hugsa um þá hluti, sem við gætum fengið, sem ykju okkar framleiðslu. Það má vel vera, að ríkisstj. fyndist praktískt að kaupa bíla frá Sovétríkjunum.

En ég vil benda henni á, að það er líka hægt að fá í Sovétríkjunum bæði skip og togara og annað slíkt. Það yrði mögulegt fyrir ríkisstj. að láta byggja þess háttar hluti. Það þarf ekki endilega að halda sér bara við bíla og annað slíkt. Það er hægt að framkvæma þar allmargt af framleiðslu slíkra tækja, stórra verksmiðjuvéla og annað slíkt, sem við viljum leggja í, rafstöðva í okkar rafvirkjanir og annað þess háttar, — alla þessa hluti er líka hægt að kaupa þar, ef það er bara hugsað um að reyna að vinna eitthvað að þessu.

Um það, sem ég spurði viðvíkjandi Matborg og viðvíkjandi vorsíldinni, þá sagði hæstv. viðskmrh. bara, að hann vonaði, að úr þessu rættist. Og ég er hræddur um, að þau verði svörin um ákaflega mikið af þessum hlutum, sem sé það verður von og von, en engin vissa. Og það er það, sem Ísland kemur til með að vanta, eftir að farið verður inn á þessa leið, sem ætlunin er með þessu frv., það er vissan, það er öryggið um sína afkomu. Það er glæfrapólitík, sem farið er inn á, það er óforsjál skuldasöfnun, sem farið er inn á.

Hv. 5. þm. Reykv. minntist á í sinni ræðu áðan, að áætlunarbúskapur hefði verið reyndur hér og ekki gengið vel, talaði um fjárhagsráð í því sambandi. Það er ekki rétt hjá honum. Áætlunarbúskapur hefur aldrei verið reyndur hér. Það hefur verið sett í lög, að það ætti að gera það. Það hefur verið reynt smáræði af því í sambandi við nýsköpunarstjórnina. Það voru sett að vísu strangari lög en sett voru um nýbyggingarráð í sambandi við fjárhagsráð, en aldrei reynt að framkvæma neitt af því, þannig að af honum er engin reynsla. Það eina, sem við höfum reynslu af, eru höft, mismunandi skynsamlega eða óviturlega framkvæmd. Meira að segja þau atriði, sem voru bæði í lögum um fjárhagsráð og nýbyggingarráð á sínum tíma, að það ætti að leggja til hliðar allt frá 15 upp í 25% af gjaldeyri landsins til innkaupa á framleiðslutækjum, — meira að segja þau voru aldrei framkvæmd. .

Þá minntist hv. 5. þm. Reykv. á það, að kommúnistar segðu, að kommúnistar þyrftu að vera í ríkisstj., til þess að það væri keypt þarna austur frá. Það er að vísu ekki rétt, þeir segja það ekki, enda væri það mjög rangt hjá þeim. Eins og vitað er, var það einmitt ein afturhaldssamasta stjórnin, sem hér hefur setið að völdum á síðasta áratug, helmingaskiptastjórn Sjálfstfl. og Framsóknar 1952, sem tók upp að nýju viðskipti við Sóvétríkin og virtist ganga það allvel, og eins var það eftir að Alþb. fór út úr ríkisstj. og Alþfl.-stjórnin hóf allmikla samninga við Sovétríkin, þá held ég, að þeir samningar hafi gengið yfirleitt mjög sæmilega, og ég held, að það sé óhætt að segja, að við, sem tilheyrum Alþb., höfum að okkar leyti, að svo miklu leyti sem til okkar hefur verið kallað, reynt að vinná áð því, hvort heldur við höfum verið utan ríkisstj. eða í ríkisstj., að koma á þeim samböndum. Ég hef, eins og ég hef rakið hér áður í þessum umr. og skal ekki rekja aftur, átt þátt í því að vinna að þessum viðskiptum eiginlega allt frá því á árinu 1927, bæði í samráði við ráðh. gamla Íhaldsflokksins, Magnús Guðmundsson, síðar í samráði við Harald Guðmundsson, þegar hann var í stjórn, og á hverjum tíma hefur aldrei staðið á því, að við vildum, að svo miklu leyti sem til okkar væri kallað, gera allt, sem við gætum, til þess að koma þessum viðskiptum á, af því að það hefur vakað fyrir okkur allan þennan tíma að reyna að auka sem mest atvinnuna í landinu og tryggja atvinnuöryggi Íslendinga, einmitt með því að koma á viðskiptasamningum við hinn sósíalistíska heim, þar sem við værum ekki háðir markaðssveiflum kapítalismans. Það, sem við hins vegar segjum við ríkisstj., er þetta í sambandi við slíkt: Þið eruð að glopra þessum dýrmætu mörkuðum út úr höndunum á þjóðinni, í fyrsta lagi með ykkar stefnu, þeirri stefnu, sem þið eruð að taka upp núna, hvort sem þið gerið ykkur það ljóst eða ekki, — þið eruð að glopra þessum mörkuðum út úr höndunum á þjóðinni með þessari stefnu, vegna þess að með því stjórnleysi á útflutningnum og innflutningnum, sem þið eruð að taka upp, er ekki hægt að skipuleggja þessi viðskipti. Það er ekki hægt að skipuleggja þessi viðskipti eins og nauðsynlegt er, það eru afleiðingar af ykkar stefnu að brjóta þetta niður. Við munum vafalaust gera allt, sem í okkar valdi stendur, til þess, þrátt fyrir þessa röngu og skaðlegu stefnu ykkar, að reyna að viðhalda þessum viðskiptum, alveg eins og ég reyni nú og við aðrir að koma vitinu fyrir ykkur um að taka ekki upp þessa stefnu. Og svo í öðru lagi, þið eruð að glopra þessum viðskiptum út úr höndunum á ykkur með þeirri óvild, sem viss hluti af stjórnarliðinu hefur á þessum viðskiptum. Við þurfum ekkert að fara í neinar felur með, að það er fjandskapur gegn viðskiptunum austur á bóginn hjá stórum hluta í stjórnarliðinu og hefur lengi verið. Það er þar beinlínis andstaða gegn því. Menn álíta, að þeir verði eitthvað sérstaklega háðir með þessum viðskiptum, og berjast gegn, hatast við það. Hæstv. viðskmrh. fékk sjálfur að heyra það hjá núverandi samstarfsmönnum hans í Sjálfstfl., einmitt þegar verið var að reyna að bjarga síldarvertíðinni í fyrra, hvers konar gífurleg andúð kom fram á samningunum, sem þá fóru fram við Sovétríkin, frá hálfu þeirra manna, sem lengst standa til hægri í Sjálfstfl. Þess vegna er það, að því sterkari sem slíkir afturhaldsmenn verða innan Sjálfstfl. og jafnvel innan Alþfl., menn, sem vilja brjóta þessi viðskipti niður, því meiri hætta er á, að þeim takist það. Þess vegna höfum við alltaf sagt: Það er hætta á því, þegar okkar áhrif, Alþb., verkalýðshreyfingarinnar, Sósíalistaflokksins, — hann átti hér sína fulltrúa sem Sósíalistaflokksmenn á þingi, — það er hætta á því, þegar okkar áhrif eru ekki nægilega rík, að þeir menn, sem með stjórnina fara, glopri þessu út úr höndunum á sér, sumpart af andúð á þessum viðskiptum, sumpart, jafnvel þótt menn vilji viðhalda þeim, af því, að stefnan, sem þeir taka upp, eins og sú stefna, sem hér er rætt um, leiðir það af sér, ber það í sjálfri sér, að þetta stjórnleysi á viðskiptum, þetta frelsi, sem kallað er, það brýtur niður það skipulag, sem er nauðsynlegt til þess að viðhalda þessum viðskiptum austur eftir og auka þau. Það er t.d. alveg greinilegt núna, ef innflutningsskrifstofan verður lögð niður, þar sem þorrinn af mönnunum, sem þar hafa verið, hvaða flokki sem þeir svo hafa tilheyrt, hefur haft mikla ábyrgðartilfinningu í þessum efnum, hefur haft mikla þekkingu í þessum efnum og unnið að því að viðhalda þessum viðskiptum, — þegar svo á að fara að sjá um þetta ýmist í ráðuneytinu sjálfu eða sérstaklega í Seðlabankanum, þá eru þar einmitt áhrifamestu mennirnir, máske að hæstv. ráðh, sjálfum undanskildum, sem beinlínis vilja brjóta þessi viðskipti niður, vilja koma á frjálsum viðskiptum, vilja setja þessi lönd frammi fyrir því að eiga að borga í frjálsum gjaldeyri, strax og einhver inneign er orðin þar, draga úr þeim skuldaviðskiptum og lánsviðskiptum, sem verið hafa fram að þessu. Og yfirleitt stefna þeir að því að reyna að koma viðskiptunum við sósíalistísku löndin í frjálsan gjaldeyri, sem er eins og hver önnur vitleysa að tala um.

Þessu vildi ég aðeins skjóta inn í viðvíkjandi því, sem hv. 5. þm. Reykv. talaði um í þessu efni. Hitt er vafalaust rétt, sem hann sagði síðast í sinni ræðu og minntist á tilganginn með þessu frv., að við Íslendingar yrðum liðtækir til samvinnu í hinum vestræna heimi. Það er það, sem vakir fyrir þeim, sem ráða, í sambandi við þetta frv. Íslendingar eiga að verða liðtækir til samvinnu í hinum vestræna heiml. M.ö.o.: þetta er pólitískt mál til þess að koma Íslandi almennilega inn á þá kapítalistísku markaði, með öllum þeim sveiflum, sem það þýðir fyrir lítið og fátækt land, gera okkur undirorpna aftur kreppunum og verðsveiflunum, atvinnuleysinu og öllu, sem slíku fylgir. Það er þetta, sem er einmitt hættan, í staðinn fyrir að reyna að gera Ísland þannig, að það sé sem óháðast, það sé sem sjálfstæðast, geti jafnt skipt við löndin austur frá, sósíalistísku löndin, eins og löndin hér vestur frá, kapítalistísku löndin.

Ég var að rekast á það nú nýlega, — ég held, að það hafi verið í Morgunblaðinu, eða í einhverju blaðinu var það í dag eða í gær, — að það var verið að ræða um viðskipti Norðmanna. Það var verið að kvarta yfir því, að portúgalski markaðurinn væri að stórminnka fyrir þá, og hvað eftir annað hefur það komið greinilega fram, að þeir eru dauðhræddir um þennan freðfiskkvóta, sem þeir hafa í Bretlandi. Manni virðist ekkert sérstaklega girnilegt hvað fiskmarkaðinn snertir að eiga allt of mikið undir þessum aðilum. Og ég er hræddur um, að það dugi ekki að ætla að stjórna efnahagsmálum Íslands bara með það mark fyrir augum, að við eigum að vera liðtækir til samvinnu í hinum vestræna heimi. Við verðum að stjórna viðskiptamálum Íslands með það fyrir augum, að þjóðin komist sem bezt af, að hún nýti alla þá möguleika, sem henni bjóðast, hvar sem er, jafnt í þeim kapítalistíska sem þeim sósíalistíska heimi.

Ég hef nú talað mikið um þessi viðskipti við hinn sósíalistíska heim í ræðum, sem hér hafa verið fluttar, vegna þess að þetta er frv., sem fyrst og fremst snertir verzlunina og viðskiptin, og vegna þess að það hafa komið hér strengilegar yfirlýsingar frá hæstv. ráðherrum um, að þeir hafi svo og svo góðan vilja í þessum efnum. Ég hef þess vegna flutt og jafnvel endurtekið hér þau rök, sem ég álít vera fyrir því, að afleiðingin af þessu frv. verði að brjóta þessi viðskipti smátt og smátt niður. Og reynist það rétt hjá mér, þá er það vegna þess, að bak við þetta frv, búa annarlegar ástæður. Þar búa þær ástæður, að Vestur-Evrópuríkin, kapítalið í Vestur-Evrópu og Ameríku, það vill draga úr viðskiptum Íslands við þann sósíalistíska heim, af því að það álítur þau pólitískt hættuleg sér, — að Ísland sé eins óháð og það hefur verið, það álítur það pólitískt hættulegt sér, að Ísland geti staðið uppi í hárinu á stórveldi eins og Bretum, eins og það gerði 1952, þegar þeir settu bann á okkur. Það vita allir í dag, að það þýðir ekkert fyrir Breta að setja bann á Ísland í dag. Þeir eru núna hræddir við það sjálfir, vegna þess að þeir vita, að það þýðir bara, að við mundum fara kannske til Sovétríkjanna og auka enn meira viðskiptin þangað, og vesturveldunum er ekkert vel við það. Hitt er svo annað mál, að það er líka annar þáttur í sambandi við þessi viðskipti, í sambandi við þetta frv, og það viðskiptafrelsi, sem á að gefa með því. Það er þáttur, sem er í samræmi við höfuðstefnuna, sem kom fram í gengislækkunarfrv., sá þáttur að koma á alræði peningavaldsins, sem líka hefur komið fram í sambandi við allar ráðstafanirnar viðvíkjandi bönkunum. Það er talað um að afnema skrifstofuvaldið. Ég er að vísu hræddur um, að það skrifstofuvald, sem hingað til hefur verið undir eftirliti þingflokkanna eða Alþingis á einhvern máta, verði nú flutt inn í bankana, þar sem það er fjær Alþ. að geta fylgzt með því. En í stuttu máli sýnist mér höfuðþróunin hvað slíkt snertir vera sú, að það er dregið úr þessu vissa skriffinnskuvaldi, sem hefur sína galla og sína kosti, en um leið hefur viss tengsl við almannavaldið í landinu, og peningavaldið gert að aðalatriðinu á Íslandi. M.ö.o.: það er verið að skapa einokun handa voldugustu auðmönnunum og á sama tíma skipulagður skortur hjá fólkinu. Þetta einræði og einokun hjá voldugustu auðmönnunum verður ekki aðeins fyrir þá íslenzku auðmenn, heldur líka fyrir þá útlendu og fyrir þá íslenzku auðmenn, sem hafa bezt samband við þá útlendu, eins og á að koma fram í því, að stærstu heildsalarnir hér eiga að geta haft svo og svo mikil lánsviðskipti við þá útlendu viðskiptavini sína. Jafnframt er greinilegt, að ríkisbankarnir eru einokaðir undir þetta peningavald. Það er vitanlegt, að ríkisbankarnir hafa fram að þessu veitt stórlán alveg sérstökum stofnunum, sérstökum gæðingum ríkisstjórnarflokkanna, og þeir halda þessari sérstöku aðstöðu áfram, á sama tíma sem öllum öðrum er neitað. Það er þess vegna engin tilviljun, að ein af fyrstu afleiðingunum, sem kemur fram í sambandi við stefnu ríkisstj., er, að það dregur stórkostlega úr íbúðabyggingum almennings, þannig að jafnvel til atvinnuleysis horfir, en fésýslumenn hyggjast byggja allmikil bákn, og jafnvel sjálfur Seðlabankinn, sem vissulega skortir ekki fé, mun ætla sér hið sama. Ég sagði nýlega frá því hérna, að á stað eins og Selfossi, þar sem 40 íbúðir hafa verið byggðar í fyrra, sem sótt var um um þetta leyti, þar hefði nú nýlega, þegar ég spurðist fyrir um þetta, tveir menn verið að hugsa um að byggja og var ekki búið að sækja þá um neitt. Og þannig hefur það verið víða í bæjunum hér í kring, og jafnvel er farið að bera á því sama í Reykjavík, þótt að vísu sé ákaflega mikið af hálfbyggðum íbúðum, sem eftir er að fullgera. En ég sé það meira að segja af samþykkt Múrarafélagsins, sem nýlega hefur verið gerð, að þeir eru farnir að óttast atvinnuleysi, múrararnir.

M.ö.o.: inntak þeirrar stefnu, sem í þessu frv. felst og fólst líka í gengislækkunarfrv., var raunverulega frelsi fyrir auðinn og þá, sem auðinn hafa, og fátækt fyrir fjöldann. Og hæstv. viðskmrh. virtist líta svo á, að það væri eitt það ægilegasta, sem skeð gæti, ef sá fjöldi, sem nú á að fá skortinn sem skömmtunarstjóra, risi upp og segði: hingað og ekki lengra, og bylti þessu kerfi um. Það er samt það, sem að lokum mun verða. Þetta kerfi er ekki aðeins hættulegt fyrir almenning, þetta kerfi er um leið herferð auðvaldsins í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum á hendur efnahagslegu sjálfstæði Íslands, til þess að brjóta niður það atvinnulega öryggi og það efnahagslega sjálfstæði, sem Ísland hefur skapað sér á undanförnum áratugum. Þess vegna verður það í senn nauðsyn, bæði fyrir okkar þjóð vegna hennar efnahagslega sjálfstæðis og fyrir okkar alþýðu vegna hennar afkomu, að brjóta þetta kerfi á bak aftur. Það er ekki nóg að hækka kaupið, þegar þar að kemur, þó að það sé nauðsynlegt, sjálfsagt og réttlátt. Það þarf að brjóta þetta kerfi á bak aftur, vegna þess að þetta kerfi er Íslandi stórskaðlegt. Það sviptir Ísland að geta notað sér möguleika til viðskipta, sem við gætum notað okkur, ef við kæmum á hjá okkur áætlunarbúskap, ef við tryggðum góða yfirstjórn ríkisins á utanríkisverzluninni og stjórnuðum okkar fjárfestingu þannig, að nægilega mikið væri lagt í þá framleiðslufjárfestingu, sem gefur okkur auknar afurðir og þar af leiðandi batnandi lífskjör í aðra hönd.