06.05.1960
Neðri deild: 77. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2367 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég hef ekki ástæðu til þess að bæta svo sem neinu við þær almennu athugasemdir, sem ég flutti fram við þessa 3. umr. í gær varðandi stefnu ríkisstj., sem þetta frv. byggist á. Á hinn bóginn verð ég að segja nokkur orð út af sumu af því, sem fram kom í ræðu hv. 5. þm. Reykv. (JóhH), þar sem hann rakti nokkuð frá sínu sjónarmiði sögulega viðskiptamálin. En ekki mun ég gera þetta ýtarlega, heldur drepa aðeins á örfá atriði, þar sem mér finnst, að það þurfi að koma fram skýringar og að sumu leyti leiðréttingar.

Hann sagði, að löggjöf sú um gjaldeyris- og innflutningsmál, sem sett var 1935, hafi verið mjög víðtæk og gert ráð fyrir miklum afskiptum af þeim málum af hendi stjórnarvaldanna. Þetta er alveg rétt hjá hv. þm. Hins vegar vil ég af þessu tilefni taka fram, að ég hygg, að enginn sá, sem setur sig inn í ástæður landsins, eins og þær voru þá, dragi í raun og veru í efa, að það var brýn nauðsyn að setja þessa löggjöf. Þá hafði þjóðin nýlega orðið fyrir því áfalli að missa að mestu leyti markaðinn fyrir beztu útflutningsvöru sína á Spáni, og skyndilega drógust gjaldeyristekjurnar þannig saman, að það var óhugsandi, að hinir ýmsu þættir efnahagslífsins gætu á stuttri stundu lagað sig eftir því. Hlaut því að koma fram mikið ósamræmi í viðskiptamálum út á við, og það var óhugsandi að mæta þessu viðhorfi með öðru en því að setja upp þessi afskipti. Um þetta hygg ég að þurfi nú í raun réttri alls ekki að deila.

Ég vil þá einnig, um leið og ég strika undir þetta, leiðrétta það, sem hv. þm. sagði, að höftin hefðu þá verið sett á haftanna vegna og til þess að beita þeim til óhagræðis fyrir suma, en til óeðlilegs framdráttar fyrir aðra eða misbeita þeim, eins og hann sagði í sinni ræðu, og vil ég mótmæla þessu alveg. Framkvæmd þessara hafta var alls ekki hagað þannig. Það var á hinn bóginn mikið um framkvæmdina deilt, það var alveg rétt hjá honum. En þær deilur stóðu um, hvort það ætti að miða alveg við viðhorfið í viðskiptamálum, eins og það var, þegar höftin voru fyrst sett, eða hvort það skyldi reynt að finna reglur til þess að taka tillit til þeirra breytinga, sem voru að verða á verzluninni. En sú breyting var á þá lund, að verzlunin hneig nokkuð yfir til samvinnufélaga. Sú þróun varð, og komu upp ný félög og efldust þau, sem fyrir voru, að fólkstölu, og þá kom upp deilan um, hvort það skyldi taka þetta að einhverju leyti til greina varðandi skiptingu innflutningsins eða ekki. Og um það voru, eins og hann réttilega tók fram, miklar deilur í mörg ár. En ég mótmæli alveg, að þessi höft, sem voru sett af illri nauðsyn, hafi verið á nokkurn hátt hugsuð til þess að hafa áhrif í þá átt að færa verzlun yfir til samvinnufélaganna, og mín skoðun er sú, að höftin hafi á þessu tímabili stórlega heft þróun samvinnufélaganna. Og sú hefur yfirleitt verið skoðunin innan samvinnuhreyfingarinnar, að viðskiptahöft væru ekki æskileg, eins og hv. 5. þm. Reykv. raunar benti á í sinni ræðu, og væri æskilegast, að þeim þyrfti að beita sem minnst, þó að þar hafi jafnhliða oft verið ríkur skilningur á því, að þannig hefur mörgum sinnum verið ástatt í þjóðarbúskap okkar, að það gat ekki orðið um annað að ræða en hafa nokkur opinber afskipti af viðskiptunum, og stundum verið þannig ástatt, að það hefur tvímælalaust verið miklu betra að taka þann kostinn að efna til slíkra afskipta en önnur úrræði, sem til greina gátu komið.

Þá rakti hv. 5. þm. Reykv. söguna þannig, að Sjálfstfl. hefði ætíð verið skeleggur baráttuflokkur fyrir því að hafa frelsið sem mest í atvinnu- og sérstaklega viðskiptamálum, en aðrir flokkar hafi verið dragbítar á þeirri stefnu, og Sjálfstfl. hefði oft orðið að taka þátt í haftabúskapnum vegna afstöðu hinna flokkanna. Þetta var a.m.k. blærinn á því, sem hv. þm. flutti. En ekki vil ég viðurkenna, að sagan sé rétt sögð á þessa lund, og vísa í því sambandi til laganna um fjárhagsráð, sem sett voru 1947, eftir tímabilið 1944–46, þegar Sjálfstfl. réð ákaflega miklu og réð raunar líka miklu 1947, þegar lögin um fjárhagsráð voru sett. Þá hafði Sjálfstfl. haft þau afskipti af efnahags- og gjaldeyrismálum, að ástæður landsins voru þannig, að það var alls ekki um neitt annað að ræða en setja á veruleg höft 1947. Ég skal ekki fara að efna hér til neinna deilna um það tímabil núna. Það má margt um það segja, jákvætt og neikvætt. En staðreynd er, að þá var gjaldeyrisástandið svona og Sjálfstfl. mjög miklu ráðandi. Að dómi þess flokks, eins og annarra flokka, var ekki um annað að ræða en að setja mjög stranga löggjöf um íhlutun, bæði um viðskipti og fjárfestingarmál, og það var gert með lögunum um fjárhagsráð. En þau lög gengu, eins og hv. þm. réttilega tók fram, lengra en áður hafði tíðkazt, því að þá kom til líka fjárfestingareftirlitið. Mér virðist þess vegna, að það sé alls ekki mögulegt fyrir Sjálfstfl. að halda því fram, að það hafi verið fyrir annarra verk og tilstuðlan og að honum þvernauðugum, að ætíð af og til hefur verið gripið til opinberra afskipta af viðskiptamálum, heldur eigi þeir þar fullkomlega óskilið mál við aðra flokka.

Þá kom hv. 5. þm. Reykv. nokkuð inn á samstarfsslit 1949 og þær kosningar, sem þá urðu um ágreining í efnahagsmálum. Og til þess að fá það til að passa inn í þá mynd, sem hann vildi sýna af Sjálfstfl. sem baráttuflokki fyrir frelsi í viðskiptum, lét hv. þm. þannig um mælt, að Framsóknarflokksmenn hefðu klofið það stjórnarsamstarf af því, að þeir hafi viljað herða á höftunum. En þetta er alveg rangt, því að ágreiningurinn þá í ríkisstj., höfuðágreiningurinn 1949 var um það, að Framsfl. lagði þá fram till. um, að annaðhvort yrði gengisbreyting framkvæmd eða almenn niðurfærsla til þess að koma á meira jafnvægi í efnahagsmálum en þá ríkti. Flokkurinn sá fram á, að það var óhjákvæmilegt að gera slíkar ráðstafanir, og vildi setja það á oddinn, að þær ráðstafanir yrðu gerðar þá strax um haustíð. En slíkar ráðstafanir hefðu, ef á þær hefði verið fallizt, alls ekki orðið til þess, að þurft hefði að herða höft eða þvílíkt, heldur orðið miklu fremur undirstaða að meira frelsi í viðskiptum en áður átti sér stað. Hitt er svo alveg rétt hjá hv. þm., að inn í þessi málefni komu nokkrar deilur um, hvernig skyldi úthluta innflutningsleyfum, á meðan höftin væru á annað borð, en það var algert aukaatriði þá við samstarfsslitin. Höfuðágreiningurinn var um, hvort flokkarnir gætu þá strax haft samstöðu um að gera ráðstafanir til aukins jafnvægis í þjóðarbúskapnum. En það fékkst ekki samstaða um það, og þá rofnaði stjórnin og fóru fram kosningar haustið 1950. Síðan varð eftir þær kosningar talsvert þóf fram og aftur, og varð úr samstjórn, sem stóð að gengisbreytingunni 1950. Var sú löggjöf sumpart í framhaldi af því, sem Sjálfstfl.-stjórnin, sem hafði verið sett upp eftir kosningarnar, hafði gert uppástungur um, og sumpart í framhaldi af þeim till., sem Framsfl.-menn höfðu gert fyrir kosningarnar um sumarið 1949, en þá hafði ekki verið fallizt á. Um þetta mættust svo flokkarnir.

Till. sjálfstæðismanna, sem höfðu verið lagðar fram í þinginu, var breytt í verulegum atriðum og í einu mjög veigamiklu atriði, sem sýnir stefnumuninn, sem ætíð hefur verið á milli þessara flokka, Sjálfstfl. og Framsfl. Það var sett inn í stjórnarsamning, sem þá var gerður, ákvæði um að tryggja fjárfestingarlánasjóðum atvinnuveganna verulegt fjármagn. M.ö.o.: Framsfl. vildi ekki fallast á gengisbreytinguna þá, nema jafnframt væru gerðar viðeigandi ráðstafanir til þess að koma í veg fyrir, að almennur samdráttur í landinu fylgdi í kjölfarið, koma sem sagt í veg fyrir, að gengisbreytingin yrði til þess að valda stöðvun á þeirri framfarasókn, sem þjóðin hafði þá haldið uppi. Þess vegna voru gerð skilyrði um, að nýtt fjármagn yrði fengið þessum sjóðum, um leið og gengisskráningunni var breytt. Þetta sýnir stefnumuninn mjög glögglega, vegna þess að nú, þegar Framsfl. hefur ekki aðstöðu til þess að ráða stjórnarstefnunni, er allt gert í senn, stórfelld gengislækkun framkvæmd, gífurlegar nýjar álögur lagðar á þjóðina og ráðstafanir gerðar til þess að minnka með öllu hugsanlegu móti það fjármagn, sem getur gengið til uppbyggingarinnar í landinu. Það er m.ö.o. samdráttarstefnan, sem nú hefur verið tekin upp, en þeirri stefnu hafnaði Framsfl. 1950 og ætíð áður og síðar, þegar efnahagsmálin hafa komið til úrlausnar.

Það er mjög athyglisvert, að það hefur einmitt komið fram hér í vetur oftar en einu sinni, bæði af hendi hv. talsmanna Alþfl. og Sjálfstfl., að ástæðan til þess, að Framsfl. hafði aldrei verið talinn vel liðtækur í efnahagsmálum eða í þjóðmálastarfinu, hafi verið sú, að flokkurinn hafði aldrei skilið, að það hefði þurft að efna til samdráttar í efnahagslífinu og framkvæmdalífinu, um leið og ráðstafanir væru gerðar til þess að jafna hlut sjálfra atvinnuveganna. Og þarna kemur stefnumunurinn mjög greinilega fram.

Hv. 5. þm. Reykv. komst svo að þeirri niðurstöðu í sinni ræðu, að það, sem nú væri verið að gera með þessu frv. og öðrum ráðstöfunum, sem ættu sér stað nú í vetur, væri að framkvæma þessa stefnu eða hugsjón Sjálfstfl., sem hann hefði á undanförnum áratugum alltaf viljað koma í framkvæmd, þ.e.a.s. það, sem þeir kalla meira frelsi og jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Þetta væri æskilegur og glæsilegur áfangi, sem nú væri lokið í framhaldi af áratugabaráttu Sjálfstfl. fyrir stefnu sinni.

Og það var mjög eftirtektarvert, að hann komst að þeirri niðurstöðu, að það hefði kannske verið að sumu leyti veikara fyrir Sjálfstfl. að hafa meiri hluta á Alþingi til að framkvæma þessa stefnu. Það væri kannske enn þá æskilegra að hafa þetta eins og það er núna, að hafa annan flokk með sér til þess að framkvæma þessa stefnu. En stefnan væri ljós, hún væri stefnan, sem Sjálfstfl. hefði ætíð barizt fyrir. Í þessu er fólginn mikill sannleiki hjá hv. þm. Það, sem nú er verið að gera, er í raun og veru að innleiða aftur þá stefnu, sem Sjálfstfl. hélt uppi, á meðan hann gat ráðið fram að 1927 og hann síðan ekki nema að litlu leyti hefur getað fengið tekna til greina, vegna þess að hann hefur skort meiri hlutann til, og að fram að þessu hefur enginn flokkur viljað framkvæma hreina stefnu Sjálfstfl. með honum, fyrr en nú, að Alþfl. hefur orðið til þess.

Það má kannske taka undir það líka með þessum hv. þm., að það sé ekki óæskilegra fyrir Sjálfstfl. að gera þetta á þennan hátt, með Alþfl., heldur en gera það einn, vegna þess að það villi sennilega einhverjum sýn um það, hvað raunverulega er að gerast, að Sjálfstfl. stendur ekki einn að þessari stefnubreytingu. En samt sem áður held ég, að það verði nú ekki þannig í reyndinni. Ég held, að þjóðinni sé alveg ljóst, hvað það er, sem raunverulega er að gerast, og að það verði nú sem fyrr þannig, að hvað sem um Alþfl. er að segja að öðru leyti, muni hann enn sem fyrr reynast of lítill til þess, að Sjálfstfl. geti skýlt sér á bak við hann, og þess vegna muni menn glöggt sjá, hvað nú er að gerast.

Hv. þm. tók það mjög greinilega fram, að þessir tveir flokkar væru algerlega sammála um þessa meginstefnu í þjóðarbúskapnum, sem nú væri verið að innleiða, og var það raunar ekki annað en það, sem menn vissu áður af því, sem fram hafði komið hér á hv. Alþingi, því að menn hafa ekki getað orðið varir við neinn mun á viðhorfi flokkanna til þess, sem verið er að gera.

Hv. þm. ræddi nokkuð um sumt af því, sem ég hafði tekið fram, en í raun og veru ekki þannig, að það gefi ástæðu til þess að vera að fara út í kappræður um það fram og aftur. Hann minntist á það, sem ég sagði um pólitíska fjárfestingu og um að almannaframkvæmdir skuli sitja fyrir, og talaði einmitt um pólitíska spillingu í því sambandi, hv. þm. Við höfum nú heyrt þetta áður, að talað hafi verið um pólitíska spillingu í sambandi við það, sem þeir hafa kallað pólitíska fjárfestingu. En ég er ekki þeirrar skoðunar, að það sé pólitísk spilling að beita sér fyrir því, að Alþingi og ríkisstj. styðji almenning í landinu með ýmiss konar löggjöf og afskiptum ríkisvaldsins til þess að koma á ýmsum framkvæmdum, sem mönnum ríður mest á. Ég tel það t.d. ekki pólitíska spillingu að vinna að því, að ríkið stuðli að því, að vextir séu sem lægstir og lánskjör séu sem bezt, til þess að sem allra flestir geti komið sér upp byggingum í þarfir framleiðslunnar og eignazt báta og framleiðslutæki. Ég tel það ekki heldur pólitíska spillingu að vinna að því, að menn geti átt kost á hlunnindalánum til þess að koma sér upp íbúðum. Og ég tel það ekki heldur pólitíska spillingu að veita atvinnuaukningarfé. En hv. þm. talaði í þá átt, að það var varla hægt að misskilja það, að það væri ekki mikil eftirsjón að atvinnuaukningarfénu, vegna þess að því hefðu stundum verið hlutdrægt úthlutað. Ég skal ekki fara að ræða hér um úthlutun atvinnuaukningarfjárins, en ég vil halda því fram, að aldrei hafi neinir tveir ráðherrar haft ráð á því að úthluta atvinnuaukningarfénu, eins og hv. þm. tók fram. Í annan stað vil ég halda því fram, að þegar á heildina er litið, hafi atvinnuaukningarféð komið að stórkostlegu gagni til margvíslegrar uppbyggingar í flestum sjávarplássum landsins og menn muni eiga eftir að finna stórkostlega fyrir þeim samdrætti sem hæstv. ríkisstj. beitir sér fyrir nú, að því leyti. Og ég mótmæli því alveg, að það sé pólitísk spilling að taka nokkurn hluta af sameiginlegu fjármagni þjóðarinnar til þess að greiða fyrir uppbyggingu og öflun framleiðslutækja t.d. í þeim sjávarplássum, þar sem lítið fjármagn er fyrir.

En á hinn bóginn skil ég, að stefna núv. stjórnarflokka, — og þetta staðfestir það, að kjarni hennar er fólginn í því, að öll svona afskipti eigi að hætta og það sem fyrst og eins hratt og þeir treysta sér að draga í land. Við það eru allar þeirra ráðstafanir á hv. Alþingi miðaðar. Í staðinn á svo það eitt að koma til greina, sem þeir vilja gera og telja sér hag í að gera, sem hafa peningana undir höndum eða lánstraust hjá bönkunum til þess að fá þaðan lán. Það er sú eina fjárfesting og þær einu framkvæmdir, sem eru ekki taldar óalandi og óferjandi af þeim flokkum, sem nú standa að ríkisstj. Og þetta er meginkjarni þessarar nýju efnahagsmálastefnu.

En sannleikurinn er sá, að þessar ráðstafanir allar, sem núv. ríkisstj. beitir sér fyrir og stjórnarflokkar, eru ekki fyrst og fremst miðaðar við það eitt að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Það hefði ekki þurft nema lítið brot af því, sem gert hefur verið, til þess að jafna þann skakka, sem var í þjóðarbúskapnum út á við eða inn á við, — ekki nema lítið brot af þessum ráðstöfunum. Það er verið að nota tækifærið, að það þurfti að gera eitthvað, til þess að gera stórfelldar ráðstafanir, sem eru ekki fyrst og fremst miðaðar við jafnvægi, heldur miðaðar við það að breyta algerlega þróun íslenzkra þjóðmála, breyta algerlega til um uppbyggingu þjóðfélagsins frá því, sem áður hefur verið. Og það þarf ekki að ræða þetta nema örstutta stund í hvert sinn við hv. stuðningsmenn stjórnarinnar eða ríkisstj., til þess að þeir staðfesti þetta í öllum greinum, eins og glöggt kemur fram, þegar farið er að ræða um hin opinberu afskipti, í hvaða formi sem þau hafa verið. Þá er ætíð talið fram, að þau hafi verið óheppileg, þeim hafi fylgt spilling og annað þvílíkt og þess vegna þurfi að hætta þeim og þetta verði allt að vega sig sjálft, eins og kallað er.

Hér er um grundvallarmun að ræða á lífsskoðun og grundvallarstefnu. Framsfl. hefur ætíð verið þeirrar skoðunar, að það væri ekki heppilegt að byggja íslenzkt þjóðfélag algerlega upp eftir gróðasjónarmiðinu, og það hefur ekki heldur verið gert. Og það er að verulegu leyti fyrir áhrif frá Framsfl., að svo hefur ekki verið gert.

Það þarf ekki lengi að kynna sér, hvernig ástatt er í þessum efnum hér hjá okkur og svo á hinn bóginn annars staðar, í ýmsum löndum í kringum okkur, til þess að sjá það, að hér byggist atvinnurekstur t.d. og önnur þvílík starfsemi miklu minna á tiltölulega fáum stórauðugum einstaklingum og stórauðugum auðfélögum en í öðrum löndum. Það er miklu meira um það hér en nokkurs staðar annars staðar, að almenningur hafi með höndum sjálfstæðan atvinnurekstur og sé óháður að því leyti. Og það er sennilega leitun að landi, þar sem jafnmargir t.d. eiga sínar eigin íbúðir eins og á sér stað hér. Annars staðar er það mjög tíðkað, að þessi stóru auðfélög, sem þurfa að ávaxta fjármagn sitt, og forríkir einstaklingar, sem þurfa að ávaxta fjármagn sitt, eigi meginþorrann af þeim íbúðum, sem fólkið býr í, og leigi þær út til þess að renta fé sitt. En hér er það langalgengast, að menn eigi sínar eigin íbúðir.

Hvers vegna hefur þessi þróun orðið svona hér, allt öðruvísi en annars staðar? Að verulegu leyti af því, að löggjöfin hefur verið höfð hér með allt öðru sniði.

Okkar þjóðfélag er byggt allt öðruvísi upp en þessi hákapítalistísku þjóðfélög, sem víða eru hér umhverfis okkur. Og Framsfl. er stoltur af því að hafa átt meginþátt í því, að þessi háttur hefur verið á hafður. Auk þess er okkar búskapur að ýmsu leyti miklu meira byggður upp á frjálsum félagsskap almennings en á sér stað víðs vegar annars staðar, t.d. í samvinnufélögum, og mætti nefna um það ýmis dæmi. Og það er þá heldur engin tilviljun, að á sama tíma sem núverandi stjórnarsamsteypa ræðst með þessari líka litlu heift og brigzlum gegn fjölmörgum af þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið til þess að styðja að þeirri þróun í atvinnulífinu, sem ég var að lýsa áðan, þá er einnig ráðizt af sams konar heift gegn þessum félögum almennings, sem hafa mjög þýðingarmikla þætti með höndum, bæði í atvinnurekstri og viðskiptum. Þetta eru árásirnar, sem fylgja á samvinnufélögin, sem eru þau öflugustu félög almennings, sem hafa þessi störf með höndum.

Hv. 5. þm. Reykv. vildi gera talsvert úr því, að með þessum ráðstöfunum væri verið að vinna að jafnvægi í þjóðarbúskapnum og að við yrðum að sýna, að við værum liðtækir, Íslendingar yrðu að sýna, að þeir væru liðtækir til samvinnu í efnahagsmálum í hinum vestræna heimi. Mér dettur ekki í hug eitt einasta andartak, — og ég þekki þessi mál það vel, að ég get alveg sagt það af minni reynslu — að það sé nokkurt skilyrði til að reynast liðtækur í efnahagsmálasamvinnu í hinum vestræna heimi að taka upp þá íhaldsstefnu, sem núv. ríkisstj. hefur gert með efnahagsmálalöggjöfinni og öðrum ráðstöfunum, sem þessu fylgja. Þetta er alger fjarstæða. Það er hægt að vera alveg fullgildur meðlimur í þessari samvinnu, þó að ekki sé breytt þjóðarbúskapnum í þá stefnu, sem nú er verið að gera, því að eins og ég hef margsinnis tekið fram, er hér ekki aðeins um ráðstafanir að ræða til þess að jafna þann skakka, sem var í okkar þjóðarbúskap út og inn á við, heldur eru hér einnig gerðar margvíslegar ráðstafanir til þess að gerbreyta um grundvallarstefnu og uppbyggingu þjóðfélagsins. Og ef einhverjar ráðleggingar hafa komið um slíkt einhvers staðar frá, þá var það náttúrlega skylda stjórnarvaldanna að hafa slíkar ráðleggingar að engu, vegna þess að það varðar engan um það, hvernig við búum í okkar húsi að þessu leyti.