06.05.1960
Neðri deild: 77. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (791)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Svo sem hv. þm. gat um í ræðu sinni, er það á valdi stjórnar Seðlabankans, en ekki ríkisstj., að ákveða, hvaða bankar skuli hafa heimild til þess að verzla með erlendan gjaldeyri. Af þessum sökum er orðalag frv. eðlilegra en orðalag gildandi laga, þar sem þeir tveir viðskiptabankar eru nefndir, sem hafa skulu rétt til þess að verzla með erlendan gjaldeyri. Það er eðlilegra að tala í þessu frv. einungis um gjaldeyrisbanka, vegna þess að stjórn Seðlabankans getur tekið ákvörðun um það hvenær sem er, að fleiri bankar, t.d. Búnaðarbankinn eða Iðnaðarbankinn, fái rétt til að verzla með erlendan gjaldeyri, og þá verða þeir eftir þá ákvörðun gjaldeyrisbankar í skilningi þessa frv., ef að lögum verður. Þess vegna þótti þessi breyt. á formshlið laganna, eins og þau eru nú, vera eðlileg. — En fyrirspurn hans um, hvort fyrir dyrum stæði að veita fleiri bönkum en þessum tveim viðskiptabönkum, Landsbankanum og Útvegsbankanum, heimild til að verzla með erlendan gjaldeyri, vil ég svara þannig, að um það eru ekki neinar ráðagerðir, og a.m.k. í sambandi við breyt„ sem sigla mun í kjölfar þessa frv., ef að lögum verður, verður engin slík breyt.

Hv. þm. er efalaust kunnugt um, að uppi hafa verið málaleitanir bæði frá Búnaðarbankanum og Iðnaðarbankanum um, að þessir bankar fengju sams konar rétt til að verzla með erlendan gjaldeyri og Landsbankinn og Útvegsbankinn hafa. Stjórn Seðlabankans og ríkisstj. eru á einu máli um að gera þá breyt. ekki, a.m.k. ekki eins og nú standa sakir. Af því mundi hljótast kostnaðarauki, sem er óþarfur, a.m.k. eins og á stendur.