06.05.1960
Neðri deild: 77. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2398 í B-deild Alþingistíðinda. (796)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Ég hafði ekki ætlað mér að taka frekari þátt í þessum umr., en það voru aðeins örfá orð út af þeirri að mörgu leyti furðulegu ræðu, sem hv. 3. landsk. (US) flutti hér áðan, ekki nú síðast, heldur þar áður.

Því hefur verið fleygt, að það væru í raun og veru ekki nema þrír menn í stjórnarliðinu, sem hefðu trú á því, að þessar efnahagsmálaráðstafanir ríkisstj. gætu í raun og veru staðizt. En ég sé, að þetta muni vera misskilningur, þeir munu vera fjórir, og hefur það nú komið greinilega fram. (Gripið fram í.) Ég vil taka það fram, að hæstv. forsrh. var ekki talinn einn af þessum þremur. Ég heyri þetta m.a. á því, að hv. 3. landsk. þm. talar þannig um þessar ráðstafanir, að það jafngildi nær því landráðum að gagnrýna þær. Það varð ekki annað ráðið af þeim hörðu orðum, sem hann hafði um þá gagnrýni, sem fram hafði komið á þessari stefnu. En það, sem gerði það að verkum, að ég kvaddi mér hljóðs, voru þau orð, sem hann lét falla í garð Framsfl. í þessu sambandi, og þau voru eitthvað á þá lund, að framsóknarmenn vildu etja bændum til andstöðu við bæjarbúa. Þessu vil ég alls ekki láta ómótmælt.

Þessi hv. þm. hafði alls ekki fyrir því að rökstyðja þetta á einn eða neinn hátt. Hann bara sló þessu fram, að framsóknarmenn vildu etja bændum til andstöðu við bæjarbúa. Mér er alveg ráðgáta, hvað hv. þm. á við með svona fullyrðingu eða sleggjudómi eins og þessum. E.t.v. á hv. þm. við, að framsóknarmenn hafa bent bændum á, að það væri algerlega ástæðulaust fyrir þá að sætta sig við þau rangindi, sem viðhöfð voru í þeirra garð, t.d. s.l. haust, af flokki þessa hv. þm. og Sjálfstfl., þegar sett var löggjöf um, að þeir mættu ekki fá þær kjarabætur, sem þeim bar samkv. áður gildandi lögum.

E.t.v. á þessi hv. þm. við þetta, þegar hann talar um að etja bændum til andstöðu við bæjarbúa. En mikill er misskilningur hv. þm., ef hann heldur, að það sé í þágu bæjarbúa að sýna bændum rangsleitni eða rangindi og að það sé í óhag bæjarbúum að halda uppi réttmætum málstað landbúnaðarins. En þessi virðist vera sá hugsunarháttur, sem hv. þm. byggir þessar slettur á. Eða hvað er það, sem hv. 3. landsk. þm. á við með þessu? Hvar hefur það komið fram, að framsóknarmenn vilji etja bændum til andstöðu við bæjarbúa? Hvar hefur það komið fram í málflutningi framsóknarmanna í sambandi við þessar efnahagsmálaráðstafanir eða í því, sem þeir hafa aðhafzt í því sambandi? Bændur hafa sjálfir mótmælt ýmsum þáttum í þessari löggjöf, sem þeir hafa verið á móti, og þeir hafa tekið það upp hjá sjálfum sér, og þeir hafa áreiðanlega enn þá fullt frelsi til þess að láta skoðanir sínar í ljós, svo að þeir ættu ekki að þurfa að eiga það á hættu, að neinir óviðeigandi sleggjudómar væru felldir í því sambandi. En hvað er það, sem þessi hv. þm. á við, þegar hann kastar þessu fram? Ég vildi mótmæla þessu alveg.

Þá ræddi hv. þm. nokkuð um þrjú mikilsverð mál, og ég skal ekki fara langt út í það. Hann virtist vera ákaflega ánægður með þá breytingu, sem orðið hefur á kjördæmaskipuninni. Ég skal ekki fara út í það hér. Þá virðist hann vera sá fjórði, sem hefur trú á því, að þessar efnahagsmálaráðstafanir geti orðið að gagni. Hann talaði um, að efnahagsmálin hefðu verið í algerum ólestri áður, en væru nú komin í gott lag. Það væri fróðlegt fyrir þennan hv. þm. að beita sér fyrir því t.d., að það færi fram skoðanakönnun í landinu á því, hversu margir það væru, sem teldu, að efnahagsmálum þjóðarinnar hefði verið komið í lag með þeim ráðstöfunum, sem hæstv. ríkisstj. hefur verið að beita sér fyrir í vetur, eins og þær ráðstafanir koma nú fram daglega. Það væri fróðlegt fyrir þennan hv. þm. að efna til slíkrar skoðanakönnunar eða beita sér fyrir því t.d., að það færi fram þjóðaratkvæðagreiðsla um þessi efni, og vita, hvað það væru margir, sem vildu taka undir þau ummæli hans, að með þessu öllu saman væri búið að koma þessum málum í æskilegt lag.