06.05.1960
Neðri deild: 77. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2399 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í þær umræður, sem hafa farið hér fram um efnahagsmálin almennt eða frv., heldur aðeins minnast nokkrum orðum á það, sem hæstv. viðskmrh. sagði í sambandi við tillögu mína um að fella niður 10. greinina.

Sú starfsemi, sem innflutningsskrifstofan hefur haft með höndum og ráðgert er nú að bankarnir taki að sér, mun hafa kostað röskar 2 millj. kr. En það kemur þarna á móti, að það þóknunargjald, sem bankarnir hafa tekið fyrir yfirfærslu á gjaldeyri, hækkar um 130% vegna gengisbreytingarinnar, og þar fá bankarnir þess vegna stórauknar tekjur, sem vel eiga að geta nægt á móti þeim kostnaði, sem þeir verða fyrir, vegna þess að þeir taka umrædda starfrækslu að sér. Þess vegna tel ég enga ástæðu til þess, að hæstv. ríkisstj. fái í þessum lögum heimild til þess að mega leggja á gjald, sem getur numið a.m.k. 16 millj. kr., til þess að vega á móti þessum 2 millj. kr. kostnaði, sem bankarnir taka að sér og innflutningsskrifstofan hefur áður haft með höndum, þar sem þeir fá það raunverulega líka strax bætt með auknum tekjum af þóknunargjaldinu. Þó að hæstv. viðskmrh, lýsi því nú yfir, að hæstv. ríkisstj. ætli ekki að nota þessa heimild nema að takmörkuðu leyti, þá er ég ekki farinn að sjá, að það verði gert, því að reyndin hefur verið sú, að ríkisstjórnir hafa jafnan notað sér til hins ýtrasta þær heimildir, sem þær hafa haft til tekjuöflunar, og ég býst við, að þessi ríkisstj. verði ekki öðrum skárri í þeim efnum, nema síður sé.

Þess vegna finnst mér, að það liggi alveg fullgild rök til þess, að 10. greinin verði felld niður, þar sem, eins og ég áður sagði, bankarnir fá tekjur af þóknunargjaldinu, sem vel á að geta vegið gegn kostnaði af þeirri starfrækslu, sem þeir eiga að taka að sér samkvæmt þessu frv. og innflutningsskrifstofan hefur áður haft með höndum.

Ég held, að hæstv. ríkisstj. sé búin að fá alveg nægar heimildir til þess að leggja á skatta og tolla, þó að henni sé ekki gefin heimild til þess hér að bæta við 16 millj. kr., sem hún hefur ekki minnstu þörf fyrir.