20.11.1959
Sameinað þing: 1. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í B-deild Alþingistíðinda. (8)

Rannsókn kjörbréfa

Frsm. 1. kjördeildar (Hermann Jónasson):

Herra forseti. Samkvæmt þingsköpum hafa þeir, sem kjörnir voru með hlutkesti í 1. kjördeild, rannsakað kjörbréf þeirra þingmanna, sem kjörnir voru í 3. kjördeild. Kjörbréf þeirra þingmanna, sem 1. kjördeild skyldi rannsaka, eru þau, sem nú skulu talin: Alfreð Gíslason, 9. þm. Reykv., Ágúst Þorvaldsson, 2. þm. Sunnl., Birgir Kjaran, 6. landsk. þm., Bjartmar Guðmundsson, 10. landsk. þm., Einar Ingimundarson, 4. þm. Norðurl. v., Einar Olgeirsson, 3. þm. Reykv., Emil Jónsson, 2. þm. Reykn., Friðjón Skarphéðinsson, 5. landsk. þm., Garðar Halldórsson, 4. þm. Norðurl. e., Gunnar Gíslason, 2. þm. Norðurl. v., Gunnar Thoroddsen, 6. þm. Reykv., Halldór Ásgrímsson, 2. þm. Austf., Halldór E. Sigurðsson, 3. þm. Vesturl., Hannibal Valdimarsson, 4. landsk. þm., Jón Þorsteinsson, 9. landsk. þm., Jónas G. Rafnar, 2. þm. Norðurl. e., Lúðvík Jósefsson, 4. þm. Austf., Matthías Á. Mathiesen, 3. þm. Reykn., Ragnhildur Helgadóttir, 8. þm. Reykv., og Sigurður Ó. Ólafsson, 5. þm. Sunnl.

Kjörbréf þessara þingmanna hafa legið fyrir og verið rannsökuð, öll nema tvö, þ.e.a.s. kjörbréf Gunnars Gíslasonar, 2. þm. Norðurl. v., og Jónasar G. Rafnars, 2. þm. Norðurl. e. Þeir eru ekki mættir á þingi, og kjörbréf þeirra verða að sjálfsögðu samkv. venju rannsökuð síðar.

Þess skal getið, að það lágu fyrir kjördeildunum skilríki um það, að ágreiningur er um nokkur atkvæði í ýmsum kjördæmum, en upplýstist, að það hefur ekki áhrif á kjör aðalmanna, og mun hafa verið samþykkt í öllum kjördeildum að vísa þeim málum til kjörbréfanefndar til athugunar. Með þessum formála um ágreiningsatkvæði, sem hafa ekki áhrif á kjör þeirra þingmanna, sem ég hef talið, hefur 1. kjördeild verið sammála um að taka öll kjörbréfin gild, og lýsi ég því hér með yfir fyrir hönd 1. kjördeildar.