10.05.1960
Efri deild: 74. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að benda á eitt ákvæði í þessu frv. til athugunar fyrir þá n., sem fær það til meðferðar, en mér vannst ekki tími til að ræða um það í gær. Það er ákvæði 12. gr. frv., en í þessari 12. gr. segir, að hver sá, sem vanrækir að láta í té nauðsynlegar skýrslur í sambandi við framkvæmd þessara laga, skuli sæta 50–500 kr. dagsektum. Síðan segir svo í framhaldi af þessu, að sá, sem gefur aðilum, sem annast framkvæmd þessara laga, rangar skýrslur, skuli sæta refsingu samkvæmt ákvæðum 15. kafla almennra hegningarlaga, og síðan eru svo ákvæði um viðurlög fyrir brot á þessum lögum. Þetta ákvæði er að vísu tekið óbreytt upp úr lögunum, sem fjalla nú um innflutnings- og gjaldeyris- og verðlagsmál, nr. 88 1953, en þetta ákvæði mun á sínum tíma hafa komizt inn í lögin um gjaldeyris- og innflutningsmál úr verðlagslögunum og var sérstaklega ætlað að eiga við um þá, sem gæfu verðlagsyfirvöldum ekki þær skýrslur, sem krafizt var, og var meiningin með því, að verðlagsyfirvöldin gætu með beitingu dagsekta knúið þessar skýrslur fram. En ég veit í fyrsta lagi ekki, hvort þessi ákvæði eiga svo vel við eða þeirra er svo mikil þörf í þessu frv., eins og það er úr garði gert, en í annan stað vildi ég spyrjast fyrir um það eða a.m.k. mælast til þess, að nefndin athugaði, hver það er, sem eftir þessu frv. á að leggja á dagsektir, ef skýrslur eru ekki inntar af hendi svo sem boðið er. Það er að sjálfsögðu svo, að þegar um slíkt févíti sem þetta er að ræða, sem allmörg dæmi eru um í íslenzkum lögum, þá er gert ráð fyrir því, að það sé það stjórnvald, sá framkvæmdarvaldshafi, sem í hlut á, þ.e. sem á að fá þessar skýrslur, sem geti beitt þessum dagsektum, sem geti lagt dagsektirnar við, ef ekki er staðið við og skýrslum skilað eins og fyrir er lagt. Dæmi slíks eru t.d. í skattalögum og lögum um hagstofu og fleiri lögum. En ef það er svo, að það séu stjórnvöld, sem eigi að leggja á þessar dagsektir, þá rís sú spurning hér, hver þau stjórnvöld séu. Eru það viðskiptabankarnir, sem eiga að annast úthlutun leyfa? Er það ríkisstj. eða sérstakir trúnaðarmenn hennar, þegar þeir eiga að annast úthlutun leyfa? Er það sjútvmrn., þegar það annast úthlutun leyfa til útflutnings o.s.frv.? Þannig má spyrja. Hitt getur varla verið meiningin, að með þessu ákvæði sé verið að lögleiða það, að dómstólum sé heimilað að leggja við dagsektir, því að það er í fyrsta lagi auðsætt, að það mundi út af fyrir sig kannske ekki flýta svo mjög fyrir skýrslugjöf, þó að leitað væri til dómstóla og dómur fenginn fyrir því, að menn væru skyldir til að skila þessum skýrslum að viðlögðum dagsektum, og í annan stað er það, að ef það eitt lægi í þessu ákvæði, þá væri það með öllu óþarft, því að sú heimild er gefin í eitt skipti fyrir öll í 2. mgr. 193. gr. einkamálalaganna, að dómstóll getur dæmt menn til þess að fullnægja skýrslum, til þess að fullnægja skyldu sinni, annarri en greiðslu peninga, með því að leggja við dag- eða vikusektir. Á þetta vildi ég aðeins benda, þannig að n. gæti tekið þetta til athugunar.

Annars hefði það auðvitað verið til hagræðis og flýtisauka, ef hæstv. viðskmrh. hefði verið hér viðstaddur og hefði getað gefið hér upplýsingar um það, hvað fyrir flytjendum frv. vakir í þessu efni. Og það verður að segjast eins og er, að það er heldur óviðkunnanlegt og lýsir heldur lítilli virðingu fyrir þessari hv. þd., að hæstv. viðskmrh. skuli ekki geta verið viðstaddur, meðan umræður fara fram um þetta efni, og m.a. af þeim ástæðum, að ég í ræðu minni hér í gær beindi til hans ákveðnum spurningum, sem ég ætlaðist til að hann gæti gefið svör við á þessu stigi málsins, sem væri æskilegt að lægju fyrir, áður en n. tæki þetta málefni til meðferðar. En þar beindi ég m.a. þeim spurningum til hans, hvort það hefði verið leitað álits t.d. Seðlabankans á því, hvort hann teldi, að það væri framkvæmanlegt, sem ríkisstj. boðaði í þessu efni. Það hefði vissulega verið æskilegt, að hæstv. ráðherra hefði gefið ákveðið svar um það. í annan stað beindi ég líka til hans þeirri spurningu, hvort það væri með vilja eða af vangá, að niður væri fellt það ákvæði í núgildandi lögum um þetta efni, þar sem svo er mælt fyrir, að þegar um ríkisstj. er talað í frv., þá sé átt við ríkisstj. í heild. Þetta ákvæði . hefur verið fellt niður og ekki tekið upp í frv., og eftir öllum lögskýringarreglum yrði það ekki skýrt á aðra lund en þá, að nú sé það ekki ríkisstj. í heild, sem eigi að fjalla um þessi mál, heldur sá einstaki ráðh. og það einstaka ráðuneyti, sem hvert málefni heyrir undir.

Þetta er atriði, sem vissulega hefði átt að liggja alveg hreint fyrir og hæstv. ráðh. hefði mjög auðveldlega getað upplýst hér, hvort það var af vangá eða með vilja gert að haga þessu á þessa lund. Það er vægast sagt alveg óviðunandi, að þegar til umr. er hér í þessari hv. d. jafnmikilvægt mál og þetta er og jafnviðkvæmt, mál, sem varðar jafnt alla, að hæstv. ráðh. skuli ekki geta lagt það á sig að vera hér viðstaddur, þegar svona umr. fara hér fram. En það er eins og annað hjá þessari hæstv. ríkisstj., að hún leyfir sér það hvað eftir annað og með margvíslegu móti að óvirða Alþingi og alþm. Það væri þó áreiðanlega hægt að fletta upp í þingtíðindunum á mörgum stöðum, þar sem þessi sami hæstv. viðskmrh. hefur oftar en einu sinni talið það sérstaklega sitt hlutverk, þegar hann sat á þingmannabekk, að koma með aðfinnslur í garð ríkisstj. og ráðherra einmitt út af þessu.

Í sambandi við þetta mál, sem hér er til umr., hafa stjórnarblöðin og sumir talsmenn stjórnarinnar þyrlað upp ákaflega miklu blekkingaryki. Blöðin hafa látið í veðri vaka, að hér væri á ferðinni eitt mesta frelsismál, og blöðin og jafnvel einstakir þingmenn, hv. alþm., hafa látið sér sæma að halda því fram, að með þessari fyrirhuguðu lagasetningu væru mörkuð tímamót í íslenzkri viðskiptasögu og íslenzkum viðskiptaháttum, verzlunin væri með þessu gefin alfrjáls.

Eins og ég sýndi greinilega fram á í ræðu minni hér í gær, þá er það hin mesta firra, að í því frv., sem hér er um að ræða, felist út af fyrir sig eitthvert nýtt og aukið verzlunarfrelsi. Það geymir ekkert frjálsræði eða möguleika stjórnarvöldum til handa til útgáfu frílista í ríkara mæli en gildandi löggjöf. Á hinn bóginn fær þetta frv. ríkisstj. sjálfri meira vald á innflutnings- og útflutningsmálum en hún nú hefur eftir gildandi lögum eða gefur henni a.m.k. meiri rétt og meiri möguleika til beinna afskipta af leyfisveitingum en áður, og það eru einmitt þau ákvæði eða sú stefna frv., sem birtist í þeim ákvæðum, sem í mínum augum er sérstaklega varhugaverð. En að því fráskildu er aðalbreyting frv. frá gildandi löggjöf í því fólgin, svo sem ég gerði grein fyrir í gær, að leggja niður þær stofnanir, sem nú fara með stjórn innflutnings- og útflutningsmála, stofnanir, sem í meginatriðum byggjast á lögum og er markað vald og verksvið í höfuðdráttum í lögum og eru því að meira eða minna leyti sjálfstæð stjórnvöld, og fá þetta vald í hendur aðilum: viðskiptabönkum, ríkisstjórn eða trúnaðarmönnum hennar, sem fá og lítilfjörleg ákvæði eru um í þessu frv., en eiga að fá sína mótun í hendi reglugerðargjafans og verða því hvað vald og verksvið snertir sem vax í hendi ríkisstj. Að því er stjórnarhætti þessara mála varðar eða fyrirkomulag þeirra virðist því spor stigið aftur á bak, og vil ég þó ekki, eins og ég áður hef sagt og tók fram í gær, fordæma það út af fyrir sig á nokkurn hátt, að stofnun skipuð af gjaldeyrisbönkunum hafi úthlutunina á hendi, ef hún væri stofnsett og henni markaður bás í lögum. Með tilliti til þess, hversu hér er um viðkvæm málefni að ræða, hygg ég, að sú skipan, sem nú er á innflutningsnefnd, að þar sitji menn sinn úr hverjum stjórnmálaflokki, enda þótt þeir séu ekki tilnefndir af flokkunum og ekki fulltrúar þeirra, sé að mörgu leyti skynsamleg og farsæl og til þess fallin að koma í veg fyrir tortryggni, en fyrir hana er ákaflega góður jarðvegur í sambandi við þessi mál.

En hvers vegna þá allt þetta frelsisskraf í sambandi við þetta mál og þennan frumvarpsflutning? Skýringin á því er einfaldlega sú, að með því á að reyna að stinga snuði upp í stjórnarstuðningsmenn, sem með hverjum degi sem líður láta til sín heyra æ háværari óánægjuraddir, og þær óánægjuraddir koma m.a. ekki hvað sízt frá verzlunarstéttinni, sem hefur tekið á móti ýmsum aðgerðum ríkisstj. með harla litlum fögnuði, svo sem kunnugt er, svo sem t.d. söluskattinum. Að því er einmitt stefnt með þessu frelsisskrafi og frílistatali að stilla þessar óánægjuraddir. En hinir auknu frílistar eru ekki ákveðnir í þessu frv., en allt frelsisskrafið gengur út á það, hvað ríkisstj. ætli síðar að gera í þessum efnum, hvað hún ætli að gera að frv. þessu samþykktu. Hin boðaða frelsissókn hæstv. ríkisstj, birtist ekki í þessu frv., nema síður sé, en hún á að birtast síðar í reglugerð og frílistum. Að þessu sé svo háttað, játaði í raun réttri hæstv. viðskmrh. réttilega í sinni frumræðu hér í gær, þar sem hann sagði beinlínis, að hinar boðuðu breytingar mundu koma í reglugerð og frílistum. Það hefði náttúrlega verið öruggara, a.m.k. fyrir þá, sem bera takmarkað traust til þessarar hæstv. ríkisstj., að það hefði verið eitthvað nánar ákvarðað um þetta efni í lögum og frelsið hefði verið eitthvað betur tryggt þar en raun ber vitni. En ríkisstj. hæstv. hefur nú kosið að fara þessa leið, og það er sem sagt eftir þeirri leið, sem ríkisstj. ætlar að fara, ekki nokkur trygging fyrir því, að stjórnin fylgi boðaðri stefnu um útgáfu frílista. Hún hefur í því efni alveg óbundnar hendur eftir þessu frv., eins og ég rækilega sýndi fram á í gær. En gerum nú ráð fyrir, að hún standi við boðaða stefnu og gefi út aukna frílista. Þá er það svo, að með þeirri aðgerð einni saman er ekki tryggt neitt aukið raunverulegt viðskipta- eða verzlunarfrelsi, eins og hæstv. viðskmrh. líka réttilega viðurkenndi í gær. Þar þarf meira til að koma. Nægur gjaldeyrir þarf að vera fyrir hendi, og bankarnir þurfa að láta hann viðstöðulaust af hendi.

Ég veit, að sumir stuðningsmenn stjórnarinnar ætlast ekki til, að lengra sé gengið í þessu efni en að út séu gefnir frílistar, en eftir sem áður verði svo að sækja undir bankana með gjaldeyrisyfirfærslur. Þeir segja, og maður hefur heyrt þá segja það ýmsa, — að með þessu eigi hér að vera teoretískt verzlunarfrelsi, sem þeir kalla, hvað svo sem því líður í reyndinni, og þeir vitna til þess, að svona sé þetta í sumum öðrum löndum, sem afnumið hafi hjá sér innflutningshöft og óspart er stundum flaggað með hér sem fyrirmynd í þessum efnum. Ef svona ætti að framkvæma þetta, væri hér aðeins um ímyndað verzlunarfrelsi að ræða. Þá væri hér um fullkomnustu loddarabrögð að ræða og allt þetta umstang væri til eintómra málamynda. En ég þykist vita, að hæstv. viðskmrh. hugsar sér þetta ekki svona. Honum er það auðvitað fullvel ljóst, í hverju raunverulegt verzlunarfrelsi varðandi innflutninginn er fólgið, og hann tók það líka skýrt fram í gær, að frílistarnir ættu að vera raunverulegir frílistar, og ég efast ekki um, að fyrir honum sé þetta alvara. Á þeim grundvelli vil ég aðeins segja fáein orð til viðbótar um þessa boðuðu verzlunarfrelsisstefnu, og á þó vissulega að hafa það heiti innan gæsalappa, og ég vil tala um það á þeim grundvelli, hvort sem nú hæstv. viðskmrh. fær ráðið þessari stefnu í ríkisstj. eða ekki. En sé boðskapurinn tekinn í alvöru, vaknar sú spurning, hvort hér séu fyrir hendi þær aðstæður, sem eru óhjákvæmilegar forsendur raunverulegs verzlunarfrelsis á sviði innflutningsverzlunarinnar, og það vaknar meira að segja sú spurning, hvort það sé forsvaranlegt, eins og allt er í pottinn búið í gjaldeyrismálum hér hjá okkur, að stofna til óheftrar sölu á erlendum gjaldeyri. Ég fyrir mitt leyti held, að það sé engin trygging fyrir því, að þær óhjákvæmilegu forsendur, sem þurfa að vera fyrir hendi, til þess að hægt sé að taka upp svona stefnu, séu hér til staðar, og það er mín skoðun, að það sé, eins og málum nú er komið, á engan hátt forsvaranlegt.

Allir muna, að það var eitt af aðaládeiluefnum á vinstri stjórnina á sínum tíma, að hún hefði stofnað til of mikilla erlendra lántaka, hún hefði stofnað til of mikilla erlendra skulda, skuldasöfnunin erlendis væri orðin viðsjárverð, gjaldeyrisástandið væri varhugavert og það væri hætta á því, að íslenzka þjóðin fengi ekki staðið undir öllum þeim skuldbindingum, sem stofnað hefði verið til í erlendri mynt. Það er vissulega alveg rétt, að á dögum vinstri stjórnarinnar var stofnað til mikilla skuldbindinga í erlendri mynt, enda þótt þau lán, sem þá voru tekin, væru til nytsamlegra framkvæmda, og það er alveg rétt, að það hljóta að vera takmörk fyrir því, hversu langt má ganga í því efni að stofna til erlendra lána. Það var sagt, að gjaldeyrisástandið væri ákaflega slæmt, þegar vinstri stjórnin fór frá, svo slæmt, að það var talin hætta á því, að íslenzka ríkið fengi þar ekki rönd við reist, og það þyrfti að gera skjótar og öruggar ráðstafanir til þess að bæta úr í því efni. Hvernig eru svo viðbrögðin til þess að bæta úr því? Maður gæti nú í einfeldni sinni haldið, að einfaldasta ráðið til að bæta úr hefði verið það að reyna að efla gjaldeyrisöflunina, en í öðru lagi og að hinu leytinu að draga eitthvað úr gjaldeyriseyðslunni. En þessar einföldu leiðir hafa ekki verið farnar af þessari hæstv. ríkisstj., heldur hefur hún fyrst neytt þess ráðs að taka stærra lán erlendis en dæmi eru til um áður og auka þannig skuldbindingar ríkisins í erlendri mynt meira en nokkru sinni hefur áður verið, gert. Og svo er hitt læknisráðið þetta, sem nú er boðað, að gefa innflutningsverzlunina að verulegu leyti, að sagt er, frjálsa, sem þýðir það, að sala á erlendum gjaldeyri á að vera nokkurn veginn óheft, þegar um vöruinnflutning er að ræða.

Þetta er vægast sagt einkennileg pólitík, og ég efast um, að það séu margir menn, sem skilja svona pólitík, a.m.k. af brjóstviti einu saman, því að hún virðist stangast svo á við heilbrigða skynsemi, að það er erfitt að hugsa sér, að það sé hægt að gera það öllu rækilegar. En það virðist nú liggja nokkurn veginn í augum uppi, að aðalforsendurnar fyrir því, að hægt sé að auka frelsi í innflutningi, séu, eins og viðskiptaháttum Íslendinga er háttað, að auka gjaldeyrisöflunina, að auka þjóðartekjurnar og þar með erlendan gjaldeyri. Auðvitað er hitt ráðið hugsanlegt, a.m.k. í bili, að stofna til erlendra lána, að stofna til erlendra skulda, og sú leið, þó að hún hafi hér reyndar verið farin nú, er í litlu samræmi við þær ádeilur, sem haldið var uppi á sínum tíma á vinstri stjórnina. En hvernig er þetta þá hægt? Jú, hæstv. viðskmrh. segir, að það byggist á tvenns konar ástæðum, að hægt sé að taka nú upp óhindraða gjaldeyrissölu til vörukaupa, að undanskildum skiptum við jafnkeypislöndin. Hann segir: Í fyrsta lagi er það hægt vegna aðgerða ríkisstj. hér innanlands í efnahagsmálum, þ.e.a.s. vegna gengisbreytingarinnar og þar af leiðandi vöruverðshækkunar og vegna vaxtahækkunarinnar og takmörkunar á útlánum. Með þessu á að kippa það mikið úr vörueftirspurninni, að það er talið óhætt að gefa innflutninginn frjálsan að verulegu leyti, sem kallað er, eða það sem réttara er, að selja óhindrað þann erlenda gjaldeyri, sem þarf á að halda til þess að flytja vörurnar inn. Og í öðru lagi, segir hæstv. viðskmrh., er þetta hægt vegna þeirrar stórkostlegu lántöku, sem átti sér stað nú s.l. vetur hjá gjaldeyrisvarasjóðnum og Evrópusjóðnum. En eins og ég áðan sagði, voru þau lán, sem þá voru tekin, stórkostlegri en nokkrar erlendar lántökur, sem áður hafa verið teknar, þar sem tekin voru lán upp á nær 800 millj. kr. Ég held, að það hafi út af fyrir sig verið rétt að notfæra sér þá lánsmöguleika, sem þar opnuðust, því að þessi lán eru með hagstæðum vaxtakjörum. En ég álít það jafnrétt, að þessum lánum sé varið til þess að reyna að greiða upp nokkur óhagstæðustu lánin, sem nú hvíla þyngst á. Hins vegar er það að mínum dómi alveg fullkomin ráðleysa að fara að stofna til neyzluvöruinnflutnings út á þessi lán. Reyndar má segja, að nokkrum hluta hefur þegar verið varið til þess að greiða þau yfirdráttarlán, sem nauðsynlegt var að fá fyrir síðustu áramót og um síðustu áramót til þess að halda öllu hér á floti.

En svo að vikið sé ofur lítið nánar að þessum ástæðum, sem hæstv. viðskmrh. færir fram sem rök og færir fram sem einu rökin fyrir því, að þetta sé hægt og fært að gera nú, þá er það að vísu vafalaust rétt, að aðgerðir ríkisstj. valda samdrætti í framkvæmdum og minnkandi kaupgetu. Það er sennilegt, að af þeim sökum dragi eitthvað úr eftirspurn eftir erlendum gjaldeyri, og sennilega verður þörf á innflutningi eitthvað minni vegna samdráttar í framkvæmdum. En samdráttarráðstafanir ríkisstj. hafa ekki aðeins þessar verkanir. Þær valda einnig vafalítið samdrætti í útflutningsframleiðslunni og hafa af þeim sökum í för með sér minnkandi gjaldeyrisöflun. En eins og ég hef margtekið fram, þá er það einmitt fyrsta skilyrðið fyrir óhindruðum innflutningi, að það sé aukinn útflutningur framleiðsluvara og þar með meiri gjaldeyrisöflun. En það er einmitt forsenda og hlýtur að vera forsenda fyrir auknu frelsi í innflutningi, að það sé örvað framtak í útflutningsframleiðslunni. En þessari staðreynd virðist hæstv. ríkisstj. algerlega gleyma, þegar hún kunngerir ráðagerðir sínar um stækkun frílistanna og um raunverulega frílista, þ.e.a.s. ráðagerðir um óhindraða sölu erlends gjaldeyris. Hún lítur aðeins á aðra hliðina eða aðra af tvenns konar verkunum, sem samdráttarstefna hennar óhjákvæmilega hlýtur að hafa í för með sér. Ég held, að það væri skynsamlegra fyrir hæstv. ríkisstj. að bíða átekta um sinn og sjá, hverju fram vindur í þessum efnum, og sjá til, hverjar verkanir aðgerðir hennar hafa, áður en hún stofnar til óhindraðrar sölu á erlendum gjaldeyri til vörukaupa.

Og að því er hitt atriðið snertir, notkun hins mikla láns, þá er það svo, að því er að vísu haldið fram af hagfróðum mönnum, að þróunin muni verða sú, að það sé sem sagt óhætt að leggja þetta lán í þennan neyzluvöruinnflutning, vegna þess að þróunin muni verða sú, að markaðurinn muni verða mettaður innan skamms og þá muni draga úr eftirspurn á innflutningsvörum og því ekki verða nein hætta á ferðum í þessu sambandi. En þessi skoðun hinna hagfróðu manna er byggð á þeirri forsendu, að það haldist hér óbreytt kaupgjald og það verði engin verðbólgumyndun hér innanlands.

En það er nú svo, að frá mínum bæjardyrum séð er ekkert vit í því að nota einmitt þetta mikla lánsfé, sem fengið var nú í vetur, til þess að gera slíka tilraun eins og hér er um að tefla. Þar er allt of mikið í húfi. Hvar stæðum við, ef tilraunin mistækist, eins og hún raunar hlýtur að gera? Það er öllum, sem vilja lita með raunsæjum augum á málið, algerlega augljóst, að það er gersamlega vonlaust, að það verði hægt nema um mjög takmarkaðan tíma að halda hér á landi óbreyttu kaupgjaldi eftir þær stórkostlegu og gífurlegu verðhækkanir, sem átt hafa sér stað og eiga sér stað nær daglega. Þess vegna má það vera ljóst hverjum hugsandi manni, að aðgerðir ríkisstj. munu fyrr en varir leiða til þess, að hér brýzt út óðari verðbólga en áður hafa sögur farið af. Þess vegna er það alveg víst, að sú forsenda, sem hinir hagfróðu menn reikna með að sé til staðar, þegar þeir telja óhætt að verja hinu mikla lánsfé í þessu skyni, hún er og verður alls ekki fyrir hendi hér. Þess vegna er teflt hér á óhæfilega tæpt vað með þessu. Og þegar slík verðbólga verður komin hér, þá eru engar líkur til þess, að markaðurinn verði mettaður, og það eru allar líkur til þess, að við stöndum þá andspænis þeirri staðreynd, áður en varir, að skuldir okkar erlendis séu orðnar miklu meiri en áður var og miklu meiri en við fáum undir risið, að það sé þá, áður en menn hafa eiginlega áttað sig á því, hvað hefur verið að gerast, búið að binda þjóðinni þá skuldabagga, sem hún fær ekki undir risið. Og þeir skuldabaggar verða bæði vegna þessa láns og svo sjálfsagt vegna hins, að þegar slakað er svona á og innflutningur gefinn að mestu frjáls, þá er það vitað mál, að það verða einkaaðilar, sem stofna til skulda erlendis, alveg án tillits til þess ákvæðis í frv., sem þar er sett til þess að hindra þetta, og það kemur að því, að þær skuldir festast og við stöndum andspænis því, að föst lán og lausaskuldir hafa stórkostlega safnazt fyrir erlendis. Þetta eru hinar ískyggilegu afleiðingar, sem mér sýnast blasa við, ef horfið verður í raun og veru að þeirri stefnu, sem hæstv. viðskmrh. virðist í góðri trú boða, að hér eigi upp að taka.

Það er mikill barnaskapur að halda, að þó að gjaldeyrisástandið sé í dag eitthvað örlítið betra en það var fyrir nokkru, þá sé það vottur um nokkra varanlega úrbót í þessu efni. Það liggja til þess alveg sérstakar ástæður, sem hæstv. viðskmrh. veit um manna bezt, en það er alls ekki svo, að þar sé um nokkra varanlega úrbót að ræða, og það er alls ekki heldur svo, að sú breyting, sem þar hefur átt sér stað, eigi rætur að rekja til aðgerða ríkisstj. eða laganna um efnahagsmál. Það er að vísu oft vinsælt að tala um frelsi og það er hægt að tala hátt um frelsi og hins vegar óvinsælt að tala um höft. Og ég er vissulega því meðmæltur, að það sé reynt að afnema höft, eftir því sem hægt er, og menn fái að búa við það frjálsræði, sem unnt er, án þess að það skaði þó aðra. En ég verð að segja það, að hvað sem öllu frelsistali líður, þá álít ég það fullkomið ábyrgðarleysi að stofna til slíks háskaspils sem hér er gert. Og ég álít, að af mörgum óheillasporum, sem þessi hæstv. ríkisstj. hefur stigið og er að stiga, þá geti þetta óheillaspor orðið einna óheillavænlegast fyrir framtíðina, vegna þess að það getur haft í för með sér þær afleiðingar, sem verður ákaflega erfitt að bæta úr og verður ekki á valdi okkar nema að litlu leyti að bæta úr. En hitt má segja, að þegar um hreinar innanlandsaðgerðir er að ræða, þá sé það alltaf fremur á okkar valdi að breyta til og bæta úr, ef reynslan sýnir okkur, að skakkt var að farið.

Ég vil þess vegna leyfa mér að vara enn á ný eindregið við því að fara inn á þá braut, sem hæstv. viðskmrh. hefur boðað að halda ætti inn á, þegar þetta frv. hefði verið samþ. Ég held, að eina úrræðið, sem að gagni getur komið í þá átt að gera innflutninginn frjálsari en verið hefur, sé að auka þjóðartekjurnar, að efla og auka útflutningsatvinnuvegi þjóðarinnar, auka útflutningsframleiðsluna, en að því stefnir hæstv. ríkisstj. vissulega ekki með aðgerðum sínum.