10.05.1960
Efri deild: 74. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Mér þykir miður, að ég skuli ekki hafa getað verið við framhald þessarar umr. í hv. Ed., en til þess liggja þær ástæður, að ég þurfti að mæla fyrir stjórnarfrv. í Nd. og um það urðu þar nokkrar umr.

Hv. 3. þm. Norðurl. v. (ÓlJ) beindi í ræðu sinni í gær til mín tveim fsp., sem mér er ánægja að reyna að svara. Hann spurði í fyrsta lagi, hvort samráð hafi verið haft við Seðlabankann við undirbúning þessa frv. Því er til að svara, að frv. þetta er samið af nefnd sérfróðra manna, 5 manna, sem tilnefndir voru einn af Seðlabankanum, annar af Landsbankanum, viðskiptabankanum, þriðji af Útvegsbankanum, hinn fjórði af innflutningsskrifstofunni og hinn fimmti úr viðskmrn. Allt voru þetta sérstakir trúnaðarmenn þessara stofnana á sviði gjaldeyris- og innflutningsmála, einmitt þeir menn, sem ætla mætti að kunnugastir væru framkvæmd á þeirri löggjöf, sem í gildi var, og hefðu bezta aðstöðu til þess að gera till. um breytingar á löggjöfinni í samræmi við fyrirhugaða og yfirlýsta stefnu ríkisstj. Ég hygg, að það sé því ekki ofmælt að segja, að Seðlabankinn hafi haft aðstöðu til þess að fylgjast með undirbúningi þessa máls frá upphafi og allan þann tíma, sem það var til umr. í ríkisstj. Með þessu vil ég þó að sjálfsögðu engan veginn gera þessar stofnanir né heldur þá einstaklinga, sem í þessu starfi tóku þátt af hálfu þessara stofnana, ábyrga fyrir efni eða innihaldi frv. Það er að sjálfsögðu ríkisstj. ein, sem ber ábyrgð á gerð þessa frv., eins og það liggur fyrir.

Við Seðlabankann hefur svo að sjálfsögðu verið rætt sérstaklega um þau atriði frv„ sem beinlínis gera ráð fyrir samstarfi ríkisstj, og Seðlabankans, en það er víða í frv., sem gert er ráð fyrir slíku samstarfi. Í 1. gr. er t.d. gert ráð fyrir því, að ríkisstj. hafi samráð við Seðlabankann, áður en hún gefur út reglugerð um málið og frílista í samræmi við þá reglugerð. Í 6. gr. er einnig gert ráð fyrir, að Seðlabankinn hafi gjaldeyriseftirlitið. Í 8. gr. er gert ráð fyrir, að samráð sé haft við Seðlabankann, þegar útflutningsleyfi eru veitt, sem greiðast eiga í jafnkeypisgjaldeyri, ef sá útflutningur er umfram þær upphæðir, sem gildandi viðskiptasamningur við hlutaðeigandi jafnkeypislönd gerir ráð fyrir. Er þetta allt saman í samræmi við gildandi lagaákvæði um þetta efni, þó að því frátöldu, sem segir í 1. gr., að samráð skuli hafa við Seðlabankann, áður en reglugerð er gefin út. Um þessi atriði hefur verið sérstaklega rætt við Seðlabankann, og hann er reiðubúinn til þess samstarfs við ríkisstj„ sem þessi lagaákvæði gera ráð fyrir.

Þá spurði hv. þm., hvað átt væri við, þegar talað væri um ríkisstj. í þessum lögum, og benti á, að í gildandi lögum um þessi efni er beinlínis talað um ríkisstj. í heild og gert ráð fyrir því, að ákvarðanir, sem teknar eru samkvæmt gildandi lögum, skuli teknar af ríkisstj. í heild. Það var ekki misgáningur, að þetta var fellt niður og ákvæðið haft eins og það er, að talað er um ríkisstj., og það er rétt hjá hv. þm., að þetta þýðir skv. venjulegri lögskýringu, að það vald, sem ríkisstj. er gefið í þessu efni, sé hjá hlutaðeigandi ráðherra, sem framkvæmd laganna heyrir undir skv. forsetaúrskurði um verkaskiptingu milli ráðherra, þannig að framkvæmd þessara laga mundi heyra undir viðskmrh., meðan þau eru í gildi, og ríkisstj. í þessum lögum merkir þar af leiðandi viðskmrh. Reglugerð, sem gefin er út skv. 1. gr., mundi vera gefin út af viðskmrh., svo og þær aðrar reglugerðir, sem gert er ráð fyrir að gefnar verði út, og þær aðrar ákvarðanir, sem lögin fjalla um. Hitt er svo annað mál, að hér er um svo mikilvægar ákvarðanir að ræða í ýmsum tilfellum, að a.m.k. ekki mér og ég geri ekki ráð fyrir neinum eftirmanni mínum í þessu starfi mundi detta í hug að taka mikilvægar ákvarðanir í þessum efnum án þess að hafa um það samráð við samstarfsflokk eða flokka í ríkisstj. Ef til þess kæmi, að ráðh. beitti því valdi, sem hann tvímælalaust hefur skv. frv., sem hér er um að ræða, ef hann beitti því valdi þannig, að það væri ekki með samþykki eða beinlínis gegn vilja samstarfsflokks eða samstarfsflokka, jafngilti það að sjálfsögðu því, að stjórnarsamstarfinu yrði lokið, og því skammvinnt gildi þeirra ákvarðana, sem þannig eru teknar. Þegar af þessari ástæðu liggur í hlutarins eðli, að enginn ráðherra eða a.m.k. ekki ég mundi beita valdi, sem frv. eins og þetta veitir, án þess að hafa um beitingu þess fullt samstarf við ríkisstj. í heild. Einhver þarf að sjálfsögðu að bera lögformlega ábyrgð á stjórnarathöfnunum, og samkvæmt eðli málsins getur það aðeins verið einn ráðherra og hlýtur þá að vera sá ráðherra, sem framkvæmd laganna heyrir undir samkvæmt verkaskiptingarúrskurði forseta.

Með þessu vona ég að mér hafi tekizt að svara kjarnanum í fsp. hv. þm.