13.05.1960
Efri deild: 76. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2454 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Sú lagasetning, sem varðar atvinnulíf þjóðarinnar og utanríkisviðskipti, hlýtur að verða metin út frá því sjónarmiði, hvort hún stuðli að eflingu framleiðslunnar, hvort hún tryggi atvinnu landsmanna og nýtingu framleiðslutækjanna, hvort hún beinist að því, að atvinnuleg uppbygging eflist, og jafnframt þá, hvort hún er líkleg til að skapa þjóðfélaginu í heild hagstæð og traust viðskipti með þá framleiðslu, sem það óhjákvæmilega þarf að láta í skiptum fyrir erlendar nauðsynjar. Hér er á ferðinni lagafrv., sem varðar í mikilsverðustu greinum meðferð þessara grundvallaratriða í þjóðarbúskap okkar, þ.e.a.s. meðferð innflutnings- og gjaldeyrismála, útflutningsmála, fjárfestingarmála og að nokkru verðlagsmála.

Þetta frv. verður óhjákvæmilega metið af þjóðinni í samræmi við þau grundvallarsjónarmið, sem ég nú greindi, á þessu stigi málsins með mælistiku dómgreindar hvers og eins og síðan reynslunnar, sem mun að sjálfsögðu ólygnust, en ég ætla þó að geti orðið helzt til dýrkeypt.

Nú hljóta menn fyrst að spyrja: Er líklegt, að þær lagabreytingar, sem hér ræðir um. efli framleiðslu okkar, og er sennilegt, að þær stuðli að truflanalausum rekstri atvinnutækjanna og fullri atvinnu? Treysta þær markaðina, sem útflutningsframleiðslan byggist á? Beina þær fjármagninu inn á þær brautir, sem þjóðarheildinni eru nauðsynlegastar? Stefna þær að því að tryggja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar?

Það verður að telja, að þetta frv. stefni að því að afnema í bókstaflegasta skilningi verulegan hluta þeirra hafta á gjaldeyrissölu og innflutningi, sem hafa verið í gildi um langt skeið, eða kannske væri réttara að segja: þann vísi að stjórn, sem á þeim málum hefur verið. Að vísu er það svo, að nálega allar heimildir til áframhaldandi afskipta ríkisstjórnar eða ríkisstjórna í þessum efnum verða fyrir hendi eftir sem áður. En hinu er margyfirlýst, bæði munnlega og skjallega, að innflutningur og gjaldeyrissala verði að mestu leyti óhindrað af hálfu stjórnarvalda, og verður að reikna með því, að sú sé ætlunin, enda þótt heimildirnar til takmörkunar og afskipta gefi vísbendingu um, að í hugum stjórnarherranna leynist meiri eða minni efi á því, að fyrirætlanir þeirra fái til lengdar staðizt storma raunveruleikans og reynslunnar.

Því er mjög á lofti haldið, að afnám innflutnings- og gjaldeyrishafta í núverandi formi sé hið mesta hagsmunamál alls almennings.

Þetta er engin ný kenning. Árið 1950 var sagt, að sú frjálsa verzlun, sem sigldi í kjölfar gengisfellingarinnar, mundi vega á móti allri kjaraskerðingu af hennar völdum, og þessi kenning er nú endurtekin í ýmsu formi. Nú er okkur sagt m.a. af þeim manni, sem 1950 varaði hvað mest við þessari kenningu, núv. hæstv. viðskmrh„ að aukin fjölbreytni í vöruvali muni rétta hlut launþega mjög.

Í ljósi þessara fullyrðinga er fróðlegt að athuga grg. ríkisstj. með frv. um efnahagsmál, þ.e. gengislækkunarfrv. Þar er því slegið föstu, að ein höfuðmeinsemd haftanna hafi verið sú, að þau hafi aldrei til lengdar megnað að draga úr heildarinnflutningi til landsins. Á þetta hefur verið lögð mikil áherzla og nú síðast í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn.

Nú er þessi fullyrðing að sjálfsögðu fásinna. En hún sannar það hins vegar ljóslega, að núv. ríkisstj. er út af fyrir sig ekki á móti því, að dregið sé úr innflutningi. Þvert á móti telur hún það vera grundvallarbjargræði og finnur núgildandi skipan það mest til foráttu, að hún hafi ekki verið nógu mikilvirk í því efni. Enn er hert á þessari kenningu með svofelldum orðum í þessari sömu grg., með leyfi hæstv. forseta: „Orsök greiðsluhallans er ekki sú, að útflutningsframleiðsla og gjaldeyristekjur séu ekki miklar.“ Sem sagt, gjaldeyrisstöðuna er ekki unnt að bæta nema með minnkun innflutningsins. Sú jákvæða lausn að auka gjaldeyristekjurnar og framleiðsluna er einskis virði, ef ekki er beitt hömlum gegn þeirri eftirspurn, sem skapast jafnframt með auknum tekjum innanlands. Það á að skera fyrir rætur meinsins að dómi ríkisstj. Það á sem sé að færa höftin af gjaldeyrissölu og innflutningi, en reyra þau þeim mun fastar að kaupgetu almennings og hindra þannig, að hann geti veitt sér aðkeyptan varning í sama mæli og áður.

Áður en það frelsi í orði, sem nú er boðað, er veitt, hefur nýr verðgrundvöllur verið skapaður í landinu. Allar erlendar vörur hafa verið hækkaðar í verði með löggjöf um 30–80%. Innlend iðnaðarframleiðsla hefur verið hækkuð um allt að 50%, landbúnaðarafurðir um allt að fjórðungi, skattheimta ríkisins aukin um hundruð milljóna, vextir hækkaðir um 50%. Í stuttu máli: hver lífsnauðsyn, sem til verðs er reiknuð, hefur verið hækkuð í verði meira en nokkur dæmi eru til um á skömmum tíma. En jafnframt hafa launamenn verið sviptir sínum samningshelgaða rétti til sjálfkrafa samræmingar á launakjörum sínum við hinn nýja verðgrundvöll, og hæstv. ríkisstj. hefur uppi hótanir um enn frekari verðhækkanir, ef láglaunamenn kynnu að ákveða að breyta verðlaginu á vinnu sinni, þótt ekki væri nema sem svaraði til lítils hluta af verðhækkunum lífsnauðsynja. Allar aðgerðir ríkisstj. til þessa: gengisfellingin, vaxtahækkunin, nýjar og þrengdar útlánareglur bankanna, niðurskurður aðstoðar við atvinnuuppbyggingu, hljóta að leiða af sér stórfelldan samdrátt í framkvæmdum og atvinnulífi og bjóða heim atvinnuleysi og minnkandi framleiðslu. Sjálf ríkisstj. hefur með þeirri innflutningsáætlun, sem hún hefur gert fyrir yfirstandandi ár, áætlað, að svo sé nú orðið þrengt að kaupmætti almennings, að reikna megi með 20% samdrætti í vörukaupum erlendis frá eða sem svarar rúmlega 500 millj. kr. vöruverðmæti á núverandi gengi, án þess að beinar hömlur af hálfu ríkisvaldsins komi til.

Hér er í öðru orðinu sagt, að verið sé að afnema höft og veita frelsi, en í hinu orðinu er viðurkennt, að þau nýju höft, höft getuleysisins, sem jafnframt er verið að hneppa almenning í, taki ekki aðeins að öllu leyti við hlutverki núverandi stjórnar á innflutningi, að því er snertir takmarkanir á vörukaupum almennings, heldur herði svo að, að takmarkanirnar verði raunverulega stórkostlega meiri en áður. Við er svo því að bæta, að þær hömlur, sem nú gilda um innflutning, skerða á engan hátt getu manna til að veita sér innlendar framleiðsluvörur, þjónustu og nauðsynjar, heldur jafnvel auka hana, eins og hv. frsm. meiri hl. fjhn. kom hér inn á, að sumu leyti réttilega. En hin nýju höft gera þar lítinn eða engan greinarmun á og skerða stórlega alla möguleika til neyzlu þeirra gæða, sem við sjálfir framleiðum, og notkun þeirrar þjónustu, sem starfsstéttirnar veita hver annarri. Í því er höfuðmunurinn fólginn á þeirri stjórn, sem hefur verið á þessum málum, og þeirri stjórn getuleysisins, sem nú á að taka við.

Með ákvæðum þessa frv. um innflutningsmálin, eins og yfirlýst er að þau verði framkvæmd og eins og til hefur verið stofnað með öðrum aðgerðum ríkisstj., sem eru undanfari þessarar lagasetningar, er því beinlínis og markvisst stefnt að því að þvinga allan almenning til þess að takmarka við sig kaup á öllum vörum, erlendum sem innlendum, í miklu ríkara mæli en þekkzt hefur síðustu áratugina. Freklegra öfugmæli en það, að hér sé því um að ræða hagsbætur eða aukið frjálsræði, er því varla unnt að hugsa sér. Hér er ekki verið að afnema höft, heldur setja þau höft, sem verst eru og þungbærust öllum almenningi, hvað sem öllum orðaleikjum líður. En hér er annað að gerast. Það er verið að afnema þá ófullkomnu stjórn á gjaldeyris- og innflutningsmálum, sem löggjafarvaldið hefur taliðóhjákvæmilegt að hafa og allir flokkar hafa að meira eða minna leyti verið sammála um að ekki verði komizt hjá, og fá mikið af völdum þessarar stjórnar í hendur innflytjendum einum, en að nokkru í hendur gjaldeyrisbankanna, í báðum tilfellum í hendur aðila, sem að sumu leyti, að því er innflytjendur snertir, eru algerlega óábyrgir gagnvart almenningi, og að því er bankana snertir aðeins mjög óbeint. Þannig á að fjarlægja valdið í hinum mikilvægustu sameiginlegu málum þjóðarinnar, valdið til að ráðstafa þeim gjaldeyri, sem þjóðin í heild aflar og á, — fjarlægja það almenningi og þeim stofnunum, sem ábyrgð bera gagnvart honum. Og það eitt fyrir sig sýnir inn í þann hugmyndaheim, sem núverandi valdhafar lifa í.

Hitt er svo annað mál, þótt ekki sé óskylt, hver áhrif þessi tilfærsla valdsins hefur fyrir þjóðarbúskapinn. Með þeim hömlum, sem settar hafa verið á kaupgetu almennings, verður vörusölu innflytjenda skorinn stakkurinn innan tíðar, en á hinn bóginn veitist þeim ótakmarkað frelsi til kaupa á meiri hluta allra hugsanlegra innflutningsvara. Til tryggingar þessu frelsi hefur svo ríkisstj. tekið 800 millj. kr. eyðslulán án þess að gera nokkra grein fyrir því, hvernig unnt verði að endurgreiða það. Því til enn frekari tryggingar á svo að setja þriðjung þeirra vörutegunda, sem keyptar hafa verið til þessa frá jafnkeypislöndunum, öðrum en Sovétríkjunum, á frílista og leyfa ótakmörkuð kaup þeirra vara fyrir harðan gjaldeyri í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum.

Það væri því rangt að segja, að ekkert frjálsræði fylgdi hinni nýju skipan. Þegar til lengdar lætur felst þó frjálsræðið ekki í því, að fluttar verði inn meiri vörur eða betri vörur, því að kaupgetan setur þar skorðurnar. Frjálsræðið felst fyrst og fremst í því að beina vörukaupum í vaxandi mæli til Vestur-Evrópu og Bandaríkjanna hlutfallslega, en draga að sama skapi úr innflutningi frá jafnkeypislöndunum. En kröfurnar um þetta hafa lengi verið uppi og fyrst og fremst frá þrem aðilum: Í fyrsta lagi hinum erlendu aðilum, sem nú ætla að lána ríkisstj. mesta eyðslulán, sem nokkru sinni hefur verið tekið í sögu þjóðarinnar, og ríkisstjórnum þeirra stórvelda, sem að baki þeim standa. Í öðru lagi frá heildsalastéttinni. Og í þriðja lagi frá þeim ofstækismönnum, sem telja nauðsynlegt af stjórnmálaástæðum að slíta með öllu þau viðskiptalegu tengsl, sem við höfum haft við sósíalistísku löndin, og láta hatur sitt á þjóðfélagi þeirra hafa yfirhöndina yfir okkar þjóðarhagsmunum. Viljandi eða nauðug hefur núv. hæstv. ríkisstj. gerzt ambátt þessara afla allra í senn eða einstakra þeirra. Það skiptir í sjálfu sér minnstu, en hitt öllu, að þau hafa náð yfirhöndinni. Mennirnir, sem hrópuðu um þjóðarsmán og undirlægjuhátt á s.l. sumri, þegar síldarvertíðinni fyrir Norðurlandi var bjargað með aukinni sölu til Sovétríkjanna og þar með afkomu þúsunda verkafólks, sjómanna, útgerðarmanna og síldarsaltenda, geta nú vissulega að verulegu leyti hrósað sigri sinna hugsjóna. Og forstjóri Efnahagsstofnunar Evrópu, sem prédikaði hér á s.l. hausti nauðsynina á því að flytja viðskiptin meira til vestursins og setti Íslendingum kostina fyrir lánveitingum í því sambandi, getur vissulega unað erindislokum, enda hefur hann reitt af hendi gjaldið með skilum.

Hæstv. viðskmrh. hefur bæði hér í hv. d. og annars staðar fullyrt, að manni hefur virzt með barnslegri einlægni, að viðskiptum okkar við jafnkeypislöndin væri engin hætta búin af þessum ráðstöfunum. Hæstv. forsrh. hefur haft uppi þær staðhæfingar, að ef út af brygði með þessi viðskipti, væri það ekki að kenna ríkisstj. eða aðgerðum hennar, þessum eða öðrum. Og í blöðum stjórnarflokkanna erum við Alþb.-menn síðan barðir illyrðum fyrir það, að við skulum leyfa okkur að halda því fram, að hér sé stefnt út á hættulega braut hvað þessi viðskipti snertir, og okkur borin á brýn svívirðileg þjónkun við erlent vald. En nú vill svo til, að við erum ekki einir um þessar skoðanir. Mér er kunnugt um, að ríkisstj. hefur fengið mjög alvarlegar aðvaranir í sömu átt frá þeim aðilum, sem sízt verða sakaðir um sérstaka samúð með löndum sósíalismans, en telja verður að beri jafnvel eins gott skyn á þessi viðskipti og þeir hagfræðingar, sem segja ríkisstj. fyrir verkum um allar aðgerðir hennar í efnahagsmálum, bæði í þessum efnum og öðrum. Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og Samband ísl. samvinnufélaga hafa t.d. bæði í erindum til ríkisstj. látið í ljós alvarlegar áhyggjur yfir því, að hætta sé á verulegum samdrætti á innflutningi frá jafnkeypislöndunum, ef frílistinn verði eins og ráð er fyrir gert, og þá að sjálfsögðu um leið á mörkuðum okkar í þessum löndum.

Þessar aðvaranir stærstu útflytjendanna eru sízt að ófyrirsynju. Enda þótt ráð sé fyrir því gert, að leyfalistinn verði notaður til hins ýtrasta til þess að vernda vörukaupin frá jafnkeypislöndunum, sem engan veginn er full trygging fyrir að verði gert, verða 13–14% af þeim, að því er ríkisstj. viðurkennir, sett á frílistann og leyfður hömlulaus innflutningur hliðstæðra vara annars staðar frá. Ef Sovétríkin eru fráskilin, er hér um að ræða um 30% af vöruinnkaupum frá jafnkeypislöndunum. Nú er það svo, að hér er farið með miklu frjálsræði með tölur, svo að ekki sé meira sagt. Þegar fullyrt er, að 87% af innflutningnum, miðað við 1958, sé nú verndað til fulls, er miðað við útreikninga, sem gerðir voru út frá fyrsta uppkasti frílistans. En síðan hefur hann tekið miklum breytingum og hefur verið aukið á hann vörutegundum að innflutningsverðmæti yfir 100 millj. kr., sem að þó nokkru leyti, sennilega ekki minna en 30 millj. kr., hafa verið fluttar frá jafnkeypislöndunum, og auk þess er svo í útreikningunum miðað t.d. við sementsinnflutning upp á 20 millj., sem var 1958, en nú er alveg úr sögunni af eðlilegum og alkunnum ástæðum. Ég hef ekki haft tök á því að reikna nákvæmlega út, hve miklu hér skakkar milli þeirra talna, sem ríkisstj. gefur upp í þessu sambandi, og raunveruleikans, en ég held, að varla geti verið um að ræða, að viðbótarskerðing við þá, sem ríkisstj. hefur gefið upp og reynt að sannfæra þingheim um, sé minna en 10% af heildarinnflutningi frá jafnkeypislöndunum og þó trúlega meira til viðbótar við það, sem hún hefur áður fyllilega viðurkennt. Jónas Haralz, aðalhöfundur þessa frv., viðurkenndi á fundi fjhn., er ég gerði fsp. í þessu sambandi, að útreikningarnir um 87% verð, sem hæstv. viðskmrh. hefur hampað, væru byggðir á upphaflega frílistanum, en ekki á þeim, sem nú er ákveðinn, og þar með raunverulega viðurkennt, að um hreinar blekkingar væri hér að ræða af hálfu hæstv. ríkisstj.

Af hálfu stjórnarflokkanna er því svo haldið fram, að svo framarlega sem þær nýju frílistavörur, sem áður voru keyptar frá Austur-Evrópu, standist samkeppnina við aðrar vörur hliðstæðar, hljóti þær að halda velli og muni verða fluttar inn eins og áður. Hér stendur þó spurningin um allt annað, ef betur er að gáð, og kemur þar margt til. Í fyrsta lagi er það svo, að öll tilhneiging innflytjenda er í þá átt að kaupa hliðstæðar vörur fremur frá Vestur-Evrópu en frá jafnkeypislöndunum, enda þótt verð og gæði standist algerlega á. Ástæðurnar eru m.a. þær, að umboðslaun frá framleiðendunum eru yfirleitt mun hærri og stundum gífurlega miklu hærri og geta jafnvel í einstökum tilfellum, hvað einstakar vörutegundir snertir, numið allt að 30–40%. Hitt er þó miklu mikilvægara, að öllum umboðslaunum frá seljendum í jafnkeypislöndunum er skilað hingað beint í gjaldeyrisbankana, og eru því öll undanbrögð um full skil þess gjaldeyris útilokuð og allt óeðlilegt brask eða jafnvel ólöglegt brask útilokað, sömuleiðis skattsvik. Umboðslaun frá vesturevrópskum eða bandarískum fyrirtækjum eru hins vegar lögð inn á einkareikning viðkomandi umboðsmanna erlendis, og íslenzk gjaldeyrisyfirvöld hafa engin tök á að afla sér um þá reikninga neins konar upplýsinga. Þar hefur hinn íslenzki umboðsmaður eða innflytjandi fullkomlega frítt spil. Enn kemur það til, að full vissa liggur ávallt fyrir um rétt og raunverulegt verð þeirra vara, sem keyptar eru frá jafnkeypislöndunum, þar sem um er að ræða milliríkjasamninga. Annars staðar eru rangar upplýsingar um verð fyllilega hugsanlegar og hafa verið notaðar í stórum stíl til þess að blekkja verðlagsyfirvöld og draga á sviksamlegan hátt undan stórfelldar gjaldeyrisupphæðir og tryggja óhæfilega álagningu. Alþjóð eru kunn slík svikamál, sem upp hafa komizt, en slíkt heyrir auðvitað til hreinum undantekningum, því að jafnvel er tiltölulega auðvelt að búa svo um slík svik, að þau standist bókstaf laga.

Í sambandi við það gjaldeyrissvindl, sem þrífst í utanríkisverzluninni, og þær tilhneigingar, sem það skapar til þess að taka jafnvel óhagstæð viðskipti á vestursvæðinu fram yfir þau, sem bezt gerast við jafnkeypislöndin, er fróðlegt að minna á sem dæmi, lítið dæmi að vísu, skipasmíðarnar, en sá maður, sem um þau mál er fróðastur allra landsmanna, Hjálmar Bárðarson skipaskoðunarstjóri, hefur í skýrslu, sem ég veit að hæstv. viðskmrh. hefur í höndum, rakið hin miður heppilegu áhrif gjaldeyrisbrasksins á samninga við erlendar skipasmiðastöðvar. Bendir hann þar á, að margir þeir, sem látið hafa smiða skip erlendis, hafi tekið lélegar stöðvar, t.d. í Noregi og víðar, vanbúnar að tækjum og kunnáttu og illfærar um að skila traustu og góðu verki, fram yfir t.d. stöðvar í Austur-Þýzkalandi, sem hafa yfir að ráða fullkomnustu tækni og aðstöðu til þess að skila vel unnu verki, af þeim ástæðum einum, að skipinu, sem flutt var af vestursvæðinu, var hægt að sigla heim hlöðnu af húsgögnum og ýmsum öðrum torfengnum varningi, sem keyptur var fyrir meira eða minna illa fenginn gjaldeyri í sambandi við smíðasamningana. Það er á allra vitorði, að slík dæmi og þau ófá mætti taka um önnur viðskipti. En hin eru þó miklu fleiri líkrar tegundar, sem engar sögur fara af.

Enn er það að athuga, að fyrirtæki í sósíalistísku löndunum framleiða undantekningarlaust samkv. fyrirframgerðum áætlunum, en ekki til birgðasöfnunar fyrir óvissa markaði. Af því leiðir, að gera verður við þau fyrirframsamninga um öll vörukaup og þá um leið vörusölu eða ella búa við mjög langa afgreiðslufresti, ef viðskipti koma þá yfirleitt til greina. Það er því algerlega tómt mál að tala um, að unnt sé að byggja viðskipti við þau á því að grípa til þeirra af einhverju handahófi, eins og nú er verið að fullyrða að hægt sé að gera, og skiptir samkeppnishæfni út af fyrir sig ekki máli að því leyti.

Í þriðja lagi kemur það svo til, að í mörgum tilfellum hafa viðskiptasamningar, einkanlega við önnur jafnkeypislönd en Sovétríkin, verið þannig, að það verð, sem byggt hefur verið á, bæði á inn- og útflutningi, hefur verið nokkru hærra en heimsmarkaðsverð. Af því leiðir, svo lengi sem sú skipan helzt, að sumar vörur frá jafnkeypislöndunum verða dýrari hér á heimamarkaði en hliðstæðar vörur annars staðar frá, enda þótt þær hafi verið jafnvel miklu ódýrari í innkaupi, ef miðað er við það vörumagn, sem fyrir þær hafi verið greitt, og þjóðhagslegur hagnaður hafi því beinlínis verið af viðskiptunum, miðað við önnur hugsanleg viðskipti.

Þær þrjár ástæður, sem ég hef nú greint frá, leiða til þess, þegar þær koma allar saman, að þær vörur, sem áður voru keyptar frá jafnkeypislöndunum, en nú eru settar á frílista, verða framvegis að öllu eða a.m.k. svo til öllu leyti fluttar inn frá öðrum viðskiptalöndum. Enn kemur það svo til, sem kannske er ekki þýðingarminnst, að fullvíst er, að hinn skerti kaupmáttur almennings og samdráttur í notkun fjárfestingarvara mun hafa víðtæk áhrif til að draga úr vörukaupum leyfisvara frá jafnkeypislöndum og þar með í þá átt eins og hinar ástæðurnar að loka mörkuðum okkar þar fyrir jafnverðmætu útflutningsmagni. En jafnvel þó að samdrátturinn yrði nú að þessu leyti stöðvaður á þessu ári við 13 eða 14%, — eða við 30%, ef Sovétríkin eru tekin út úr, — þá má vissulega segja, að það sé efnileg byrjun á því að rífa niður markaði okkar í Austur-Evrópu að geta á einu ári saxað niður nær þriðjung viðskiptanna við lönd eins og Pólland, Tékkóslóvakíu og Austur-Þýzkaland. Ég geri varla ráð fyrir, að verstu óþurftarmönnum austurviðskiptanna hafi komið til hugar, að nokkrir möguleikar væru til að ganga lengra í fyrstu lotu í þessu efni, ekki sízt þegar þess er gætt, að samningar fram í tímann voru frágengnir við sum Austur-Evrópulöndin, áður en þessar ráðstafanir allar komu til. Hitt mun ég svo draga í efa, að núv. ríkisstj. sé þess umkomin að afla annars staðar öruggra markaða, sem svara til þeirra, sem nú gloprast úr höndum hennar strax á fyrsta valdaárinu, hvort sem það hefur verið gáleysi eða bein ákvörðun.

En hvað mundi þá síðar reynast, ef áfram verður haldið á þeirri braut? Það er ekki vitað betur en að flestir möguleikar hafi á undanförnum árum réttilega verið notaðir til þess að efla markaði okkar í Vestur-Evrópu og Bandaríkjunum, eins og okkur hefur verið lífsnauðsyn að gera. En árangurinn hefur þó ekki orðið meiri en svo, að markaðir í Austur-Evrópu hafa staðið undir mestallri þeirri miklu framleiðsluaukningu, sem orðið hefur á síðari árum, og það hafa verið markaðir, sem unnt hefur verið að byggja á að ekki sveifluðust til fyrir hverjum vindgusti, enda að miklu leyti tryggðir með allt að þriggja ára samningum í senn.

Það hefur verið gumað nokkuð af því, að efnahagsráðstafanirnar í heild hafi þegar haft áhrif í þá átt að bæta gjaldeyrisstöðuna, og í því sambandi hefur verið bent á hagstæðari verzlunarjöfnuð fyrstu 3 mánuði þessa árs en á sama tíma í fyrra. Í umr. í hv. Nd. sýndi hv. 3. þm. Reykv. fram á, að þetta hefur að stórum hluta gerzt með þeim hætti að fella niður að mjög verulegu leyti kaup frá jafnkeypislöndunum, þannig að þar hafa nú safnazt innstæður upp á nokkuð á annað hundrað millj. kr., þ.e.a.s. við höfum selt, en ekki keypt í staðinn. Mun nú svo komið, að komið er í algert hámark viðskiptasamninga að þessu leyti, og öllum er ljóst, að dragist vörukaup okkar frá þessum löndum saman, þýðir það jafnmikla rýrnun markaða fyrir okkar framleiðslu.

Við þessar athyglisverðu upplýsingar get ég svo bætt þeim, að á fyrstu 3 mánuðum fyrra árs voru vörukaup frá jafnkeypislöndunum 36% á móti 64% frá frjálsgjaldeyrislöndunum. En á sama tíma í ár hrapaði innflutningur okkar frá jafnkeypislöndunum í 29% á móti 71% frá frjálsgjaldeyrislöndunum, en það svarar til nær 20% samdráttar í viðskiptum okkar við jafnkeypislöndin á þessum 3 mánuðum. Þetta sýnir auðvitað, að hér er alls ekki um að ræða neinn raunverulega hagstæðari gjaldeyrisjöfnuð en áður hvað þetta áhrærir, heldur eingöngu það, að fyrirheitin ein um hömlulausan innflutning frá frjálsgjaldeyrislöndunum hafa þegar sett viðskipti okkar við jafnkeypislöndin í hættu. En hvað mundi þá, þegar þau koma raunverulega til framkvæmda?

Samdráttur viðskipta okkar við jafnkeypislöndin er vafalítið ein mesta hætta, sem atvinnulífi okkar stafar í bráðina og framleiðslu okkar af þeim breytingum, sem nú á að gera í verzlunarmálunum. En því fer þó víðs fjarri, að það sé eina hættan. Margt kemur þar fleira til. Ég vil t.d. nefna hinn sérstaka frílista yfir ýmsar iðnaðarvörur, sem veita á ótakmarkaðan innflutning á að 6 mánuðum liðnum. Þar er um að ræða iðnaðarframleiðslu, sem við höfum sjálfir framleitt að miklu leyti og getum sparað okkur gjaldeyri fyrir. Nú á að sleppa innflutningi erlendra iðnaðarvara lausum til höfuðs þessum atvinnugreinum. Gálgafresturinn, sem viðkomandi iðngreinum er gefinn, gefur strax til kynna, að hér sé hætta talin á ferðum. Jafnvel þótt okkar framleiðsla sé samkeppnishæf að öllu leyti, hlýtur ótakmarkað framboð hins erlenda varnings að hafa sín áhrif til samdráttar, og í ýmsum tilfellum er ekki um að ræða neina tollvernd, a.m.k. eins og nú standa sakir. Það má vel vera, að þessar iðngreinar, sem hér eiga sérstaklega hagsmuna að gæta, séu þær, sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. talaði hér um að hefðu þróazt, til mikils ógagns fyrir þjóðina, að manni skildist, á undanförnum árum í skjóli haftanna og það eigi af þeim ástæðum að ganga milli bols og höfuðs á þeim. En hitt er þó augljóst, að í ýmsum greinum er um að ræða stórframleiðslu, sem hefur mikla atvinnulega þýðingu fyrir þjóðina, t.d. framleiðslu málningarvara, sápugerðir, skógerðir, fatagerð o.s.frv. Þess mætti og vænta, að hæstv. ráðh. gætu upplýst, hvaða athuganir hafi verið gerðar á örlögum þessara iðngreina, sem varða afkomu hundraða verkafólks.

Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að þegar þessi listi var upphaflega útbúinn, hafði ríkisstj. t.d. ákveðið að setja tunnur og keröld á þennan sérstaka frílista og leyfa ótakmarkaðan innflutning á þeim skv. því, og þetta mun hafa verið gert þrátt fyrir eindregin mótmæli síldarútvegsnefndar. Hins vegar hefur þessu af einhverjum ástæðum verið breytt nú og ákvörðun tekin um það, eftir að þetta mál var afgreitt úr hv. Nd., að taka þetta út af listanum. Ég vil að sjálfsögðu fagna þessu, því að þarna er um stórkostlegt hagsmunamál að ræða fyrir verkamenn í tveimur stærstu bæjum Norðurlands og þar að auki um mikið öryggismál að ræða fyrir síldarútgerðina. Og ég vildi vonast til þess, að hæstv. ríkisstj. rynni í fleiri greinum að þessu leyti en hún hefur þegar gert og taki til greina skynsamlegar ábendingar frá viðkomandi iðngreinum og þeim, sem hafa mestra hagsmuna að gæta í sambandi við aðrar iðngreinar.

En ég vil ítreka spurningu mína um það, hvaða rannsókn hafi farið fram á því, hvernig fari um þær iðngreinar, sem hér hafa hagsmuna að gæta og eru mjög mikilsverðar, og á hverra tillögum það sé byggt, að þessi listi hefur verið saminn. Þegar efnahagsráðunautur ríkisstj., Jónas Haralz, var um þetta spurður á fundi fjhn., svaraði hann því einu til, að málið væri í athugun í nefnd. En ég vil þá spyrja: Tekur ríkisstj. ákvarðanir um samningu svona lista án þess, að nokkrar athuganir hafi farið fram?

Með þessu frv. eru afnumin þau ákvæði gildandi l., að heimildar þurfi að afla til meiri háttar framkvæmda. Þar er fylgt þeirri sömu meginhugsun, sem liggur að baki breyt. á skipan innflutnings- og gjaldeyrismálanna, að ákvörðunarrétturinn skuli tekinn úr höndum hins opinbera — opinberra stofnana — og fenginn í hendur þeirra, sem hafa fjárráðin. Loku virðist nú eiga að skjóta fyrir það, að það sjónarmið ráði um fjárfestingu og framkvæmdir, sem fyrst og fremst tekur tillit til hagsmuna heildarinnar. Peningavaldið á að taka þar eitt við stjórn og gróðasjónarmiðið ráða úrslitum.

Það er augljóst, að fjárfestingarframkvæmdir verða minni en áður. Fyrir því er séð jafnhliða frelsinu með verðhækkununum á framleiðslutækjum og byggingarefni, með hækkun vaxta, styttingu lánstíma fjárfestingarsjóðanna, skipulagðri lánsfjárkreppu og löghelgun á ráni sparifjár úr byggðarlögunum og að síðustu, en ekki sízt launalækkunum þeirra, sem hafa mesta þörf á að byggja íbúðir yfir sig.

Það er þegar sýnt, hvert þessi stefna leiðir í ýmsum greinum. Fjármagnið, sem ekki er hneppt í fjötra Seðlabankans, leitar ekki í. kaup nýrra framleiðslutækja og til atvinnuuppbyggingar. Kaup fiskiskipa umfram þau, sem ráðin voru, áður en núv. ríkisstj. tók við völdum, eru að mestu eða öllu úr sögunni. Og ekki er vitað um neinar stærri framkvæmdir, sem fyrirhugaðar eru til eflingar útflutningsframleiðslunni. Bygging nýrra íbúðarhúsa mun svo til hverfa úr sögunni á þessu ári í öllum byggðarlögum utan Reykjavíkur og næsta nágrennis, en dragast þar stórlega saman. Sem dæmi um þetta skal ég geta þess, að í næststærsta bæ landsins, Akureyri, þar sem byggðar hafa verið allt að 200 íbúðir á ári á undanförnum árum, munu á þessu sumri ekki verða byggðar fleiri en 10–15 íbúðir, eða jafnvel enn færri. Sama saga er að gerast alls staðar annars staðar. Í Dalvík, sem hefur verið vaxandi athafnabær og hefur verið að byggjast upp á undanförnum árum, voru byggðar um 20 íbúðir á s.l. ári. Í ár verða þær ekki fleiri en 2, ef þær verða þá nokkrar. Framkvæmdir bænda í byggingum og stofnun býla eru að stöðvast. Fregnir berast um, að mikilvirkar jarðvinnsluvélar landbúnaðarins, sem unnið hafa nótt með degi undanfarin ár, muni víða standa óhreyfðar í sumar. Nýjar býlamyndanir má marka af því, að allt útlit er fyrir, að innflutningur dráttarvéla skipti á þessu ári ekki nema fáum tugum, ef til vill ekki nema 30–40 vélum, en innflutningur á þeim 1958 var milli 400 og 500, og var þó engan veginn hægt að fullnægja þeirri eftirspurn, sem eftir þeim tækjum var. Það er vissulega von, að hæstv. ríkisstj. sé hreykin af því að þurfa nú ekki lengur að hafa sérstaka nefnd til þess að úthluta slíkum tækjum. Og horfur eru á, að bændur geti e.t.v. ekki leyst einu sinni út áburðinn á tún sín nú í vor.

Þannig er sama, hvert litið er. Dauð hönd efnahagsaðgerðanna er að leggjast yfir atvinnulífið í bæjum og sveitum víða um landið, samhliða því sem sjálf launakjör almennings eru skert, svo að dæmalaust er. Þannig er frelsið í raun og framkvæmd. Hins vegar eru horfur á, að veruleg gróska muni í ár og á næstunni hlaupa í byggingu verzlunarstórhýsa hér í höfuðborginni og útþenslu ýmissa verzlunar- og braskfyrirtækja.

Þegar annað um þrýtur, taka hv. stjórnarsinnar til þess ráðs að afsaka þetta frv. með því, að hin nýja skipan spari ríkinu verulegt fjármagn, hér sé verið að leggja niður dýrt og viðamikið skriffinnskubákn og öll framkvæmd verði hér eftir ákaflega einföld í sniðum og ódýr. Það er rétt, að innflutningsskrifstofan hefur um 20 manns í þjónustu sinni við þau störf, sem nú á að Leggja niður í núverandi formi, og hefur til umráða hluta af skrifstofuhæð. Nú mun ráðið, að gjaldeyrisbankarnir setji upp á nýtízku skrifstofuhæð við Laugaveginn sameiginlega gjaldeyrisstofnun með miklu starfsliði og tveimur skrifstofustjórum. Auk þess koma svo til hinir sérstöku trúnaðarmenn ríkisstjórnarinnar, sem frv. gerir ráð fyrir, og tæpast verða þeir ólaunaðir. Í þessari skrifstofu, sem nú er verið að setja upp, mun vera ætlað að framkvæma skýrslugerðir fyrir allar leyfisveitingar og sundurliðun þeirra eftir gjaldaflokkum, löndum og tegundum gjaldeyris. Þar á að gefa skýrslur um alla gjaldeyrissölu bankanna, bæði gegn frílistum og leyfum, sundurliðaða eftir löndum og vörutegundum. Slíkar skýrslur hefur innflutningsskrifstofan unnið og gefið þeim, sem þeirra þarfnast, mánaðarlega, og hafa þær verið byggðar á nákvæmu bókhaldi. Engar slíkar skýrslur hafa verið gerðar af öðrum stofnunum, sem þyki það áreiðanlegar og aðgengilegar, að hægt sé að nota þær í ýmsum tilfellum, og innflutningsskrifstofan hefur að þessu leyti verið nokkurs konar bráðabirgðahagstofa, sem ráðuneyti og bankar og sjálf ríkisstj. hafa byggt á. Þá hefur innflutningsskrifstofan m.a. annazt innheimtu leyfisskatta upp á rúmlega 100 millj. kr. á ári. Sú innheimta heldur að sjálfsögðu áfram og verður auðvitað ekki kostnaðarminni en áður. Auk hinnar fyrirhuguðu gjaldeyrisskrifstofu bankanna og hinna sérstöku trúnaðarmanna ríkisstj. og ráðuneytanna kemur svo stóraukið starf bankanna sjálfra, þar sem er sjálf afgreiðsla leyfa, viðtöl og annað, sem því til heyrir, og krefst það nýrra starfsmanna.

Hæstv. viðskmrh. hafði hér uppi við 1. umr. málsins þær fullyrðingar, að meðferð gjaldeyrismálanna yrði hér eftir svo einföld og ódýr, að bankarnir mundu vera fúsir til að taka hana að sér án nokkurs endurgjalds.

Manni skildist helzt, að starfið yrði hér eftir nálega ekki neitt. En hann sagði jafnframt, að leyfisgjöldin, sem greiða á, væru í því einu skyni að kosta verðlagseftirlitið.

Auðvitað geri ég ráð fyrir, að bankarnir gætu vel unnið þetta starf án gjalds, því að þeim hefur til þessa verið séð fyrir aðstöðu til slíks gróða, að litið högg sæist þar á vatni, þótt nokkur aukin störf kæmu til. En það sannar auðvitað ekkert um það, að hér sé um neinn eða neins konar sparnað að ræða. Hið rétta er, að engar líkur eru til, að hér verði um neins konar sparnað að ræða, því að að sjálfsögðu er það almenningur, sem að síðustu innir greiðsluna af hendi, þó að bankar kunni að einhverju leyti að gera það. Framkvæmdin verður ekki einfaldari í sniðum en áður.

Það er óhjákvæmilegt að allra dómi að framkvæma eins og verið hefur þá margháttuðu skýrslugerð um flokkun og notkun gjaldeyris og því um líkt, sem ég gat hér um og innflutningsskrifstofan hefur annazt og t.d. hagskýrslur um innflutning og gjaldeyrisnotkun hafa verið byggðar á. Eini verulegi munurinn er sá, að framkvæmdin verður nú í höndum stofnunar með öðru nafni og annars starfsliðs að einhverju leyti.

Gert er ráð fyrir, að verðlagseftirlit haldist að nafninu til a.m.k. fyrst um sinn, og við það vinnur um helmingur af starfsliði innflutningsskrifstofunnar. Þar að auki á að setja verðlagseftirlitinu, skv. frv., sem nú er verið að útbýta í hv. d., 5 manna yfirstjórn, og tæpast verður hún ólaunuð. Mér virðist því, að það sé frekar stefnt að því að stofna til þess að gera alla framkvæmd þessara mála flóknari, skipta því niður í fleiri ráð, fleiri nefndir, fleiri trúnaðarmenn ríkisstj. en áður. Og er líklegt, að það kunni svo að fara, að þegar nýtt og óvant starfslið tekur að verulegu leyti nú við þessum störfum, sem nauðsynlegt er að vinna í þessu sambandi, að þá muni framkvæmdin a.m.k. fyrsta sprettinn verða jafnvel miklu dýrari en áður.

Ég hef hér drepið á nokkur þeirra atriða, sem verða svör við þeim spurningum, sem fram hljóta að vera bornar, þegar þetta frv. og sú stefna, sem það boðar, eru metin, og ég nefndi í upphafi máls míns. Ég tel ekki ástæðu til, svo mjög sem þetta mál hefur þegar verið rætt, að taka fleiri atriði hér til meðferðar, þótt vissulega séu þau mörg, sem vert væri að gera frekari skil. En ég ætla, að fullljóst sé, að þetta frv. og þó sérstaklega sú stefna, sem því er bundin, hljóti að leiða til samdráttar í atvinnulífinu og í framleiðslunni, spilli mörkuðum okkar og hafi í för með sér hættulega skuldasöfnun, í sem skemmstu máli hafi þveröfug áhrif á allan þjóðarbúskap okkar við þann, sem hæstv. ríkisstj. fullyrðir, þegar hún og talsmenn hennar eru að gylla það fyrir þingi og þjóð. Ég tel því höfuðnauðsyn, að þetta frv. verði fellt.