19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2496 í B-deild Alþingistíðinda. (831)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Í 25. gr. þingskapanna mælir svo fyrir, með leyfi hæstv. forseta:

„Ef deildin breytir aftur á móti frv. í smáu eða stóru, sendir forseti hennar það til baka forseta hinnar deildarinnar. Hafi nefnd fjallað um það þar, sendir forseti henni það þegar. Hún lætur uppi álit sitt um það, og skal það prentað og því útbýtt“ o.s.frv.

Þingsköpin mæla svo fyrir, að í tilfelli eins og þessu, þegar Ed. er búin að fjalla um málið og frv. er endursent Nd., þá skuli forseti d., svo framarlega sem málið hefur verið í nefnd í deildinni áður, senda það til þeirrar nefndar.

Nú er þetta að vísu ekki framkvæmt venjulega á þennan máta. Hins vegar eru þetta lög, og þess vegna er það svo, að fari einn nefndarmaður, sem á sæti í þeirri nefnd, sem frv. hefur verið í áður, fram á að fá slíkt mál aftur til nefndarinnar, þá styðst það alveg við lögin, þannig að ég álít þess vegna, að það væri eiginlega lögbrot, ef deildin yrði ekki við þeim tilmælum, sem ég hef sett fram um, að málið fari til fjhn. Raunverulega átti að senda það til fjhn. samkvæmt lögum, samkv. 25. gr. þingskapanna, áður en málið kæmi nú aftur til umræðu, bara af sjálfu sér að senda það þangað, svo að ég vil alveg eindregið mælast til þess á grundvelli þessara laga, að menn verði við því að leyfa málinu að fara til fjhn.