19.05.1960
Neðri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2499 í B-deild Alþingistíðinda. (836)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 2. minni hl. (Einar Olgeirsson):

Raunverulega er það, sem ég vildi nú segja, aðeins um þingsköp. Það hefur verið fellt að vísa þessu máli til nefndar. Hins vegar hefur það verið viðurkennt, að ég sem aðili í fjhn. ætti að hafa aðstöðu til þess að fjalla um þetta mál, áður en endanlega yrði gengið til atkvæða um það. Og ég álít, fyrir utan það almenna, sem ég hef þegar sett fram í sambandi við endurskoðunina á þessum málum, þá væri rétt í sambandi við þá till., sem hæstv. viðskmrh. nú hefur flutt, þá skriflegu brtt., að athuga hana nánar. Og ég er hræddur um, að sú till. mundi ekki koma að gagni, eins og hún er, en það væri rétt, að ég þá a.m.k. sem minni hl. í fjhn. fengi aðstöðu til þess að ræða við hæstv. viðskmrh. um þessa till.

Ég mun þess vegna ekki taka þetta mál til langrar umræðu nú aftur, þó að ég hefði fullan rétt og fulla ástæðu til þess, heldur aðeins beina þeirri ósk til hæstv. forseta, að hann fresti málinu, svo að mér gefist þá sem minni hl. í fjhn. tækifæri til þess að ræða við hæstv. viðskmrh. og aðstaða til þess að gefa út mitt nál. um þetta. Ég vil benda á, að það er í dag fundur í fjhn., þannig að það væri hægt að gera það nú þegar og þyrfti ekkert að tefja.