20.05.1960
Efri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2502 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. Nd. samþykkti síðdegis í gær með samhljóða atkvæðum eina smávægilega breytingu á þessu frv., bætti við einu ákvæði til bráðabirgða.

Svo sem hv. dm. er eflaust kunnugt, hefur nú um nokkurra ára bil verið í gildi lagaheimild til handa fjmrh. til þess að fella niður aðflutningsgjöld af þeim bifreiðum, sem fluttar eru inn handa sjúklingum, sem eru fatlaðir eða lamaðir eða sjúkir með einhverjum slíkum hætti, og hefur heimildin verið bundin við 40 þús. kr. hámark í eftirgjöf og við 50 bifreiðar á ári.

Sérstök nefnd hefur starfað, skipuð þremur læknum, að því að skera úr því, hvaða sjúklingar skyldu njóta þessara sérstöku fríðinda. Nú liggja fyrir þeirri nefnd mörg hundruð umsóknir um þessi fríðindi, en heimildin tekur aðeins til 50 bifreiða. Nefndin hefur því mjög eindregið óskað eftir því, að þetta hámark yrði hækkað allverulega.

Ríkisstj. hefur því ákveðið að leggja til við Alþingi, að hámarkstalan 50 verði þrefölduð, þ.e.a.s. að heimilað verði að fella niður aðflutningsgjöld af allt að 150 bifreiðum á ári, á árunum 1960–61.

Um þetta flutti ég f.h. ríkisstj. till. í hv. Nd. í gær, og var hún, eins og ég sagði áðan, samþykkt með samhljóða atkvæðum í deildinni.

Brtt. kom að vísu fram um það að hækka töluna upp í 250, en hún var felld.

Ég vildi mega vænta þess, að þetta mál verði ekki ágreiningsefni hér í þessari hv. deild og að þessi smávægilega breyting á frv. verði ekki til þess að tefja framgang þess hér í hv. deild, og vildi mega óska þess, að frv. með þessari breytingu verði afgreitt sem fyrst úr deildinni.