20.05.1960
Efri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2503 í B-deild Alþingistíðinda. (848)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Frsm. 1. minni hl. (Björn Jónsson):

Herra forseti. Ég mun ekki ræða hér önnur efnisatriði þessa frv. en sú nýja brtt., sem hæstv. viðskmrh. hefur flutt hér, gefur tilefni til, enda þótt vissulega væru fullgildar ástæður til þess að gera það. En ég álít, að frekari umræður um málið en þegar hafa orðið séu tilgangslitlar, m.a. vegna þess, að hæstv. viðskmrh. hefur reynzt mjög ófús, bæði hér í hv. deild og í hv. Nd., til þess að svara fyrirspurnum, sem til hans hefur verið beint út af málinu eða aðalefnisatriði frv. yfirleitt, og hefur talið eðlilegast að láta þögnina tala sínu máli um fjölmörg veigamikil atriði. Þess mætti nú hins vegar vænta, að hæstv. ráðherra væri nokkru fúsari til þess að ræða þessa síðustu brtt. sína, einangraða frá öðrum atriðum í frv. En það er um hana að segja m.a., eins og hinar fyrri brtt., sem hann hefur flutt skriflega við frv., að hún á harla lítið skylt við sjálft frv. og snertir efni þess ekki, a.m.k. þá aðeins mjög óbeint. Hins vegar má segja hér sem oftar, að sama sé, hvaðan gott komi, og ekki skiptir það ýkjamiklu máli, þó að nauðsynjamáli sé hnýtt aftan í það óþurftarmál, sem um ræðir, þar sem vissa sé fyrir því, að það muni undir öllum kringumstæðum ná fram að ganga. En vissulega er það svo, að með þessari brtt., sem hér er flutt, er hreyft við stórmáli fyrir öryrkjana í landinu, þar sem er aðstaða þeirra til þess að eignast og eiga farartæki, sem geri þeim hægara um vik að gerast vinnandi menn eða jafnvel fullvinnandi þjóðfélagsborgarar.

Svo langt sem þessi till. nær að þessu leyti, má segja, að um nokkra úrbót sé að ræða. Það hefur lengi legið fyrir, eins og hæstv. ráðherra tók hér fram, að það hafa verið miklu fleiri, sem hafa þurft á þessari aðstoð að halda, heldur en þeir, sem hana hafa fengið, þ.e.a.s. fengið eftirgefin að einhverju leyti aðflutningsgjöld af bifreiðum, og þau takmörkunarákvæði, sem um þetta hafa verið, um 50 bila, hafa verið allmikils til of þröng hvað fjölda snertir, og það hefur verið reynslan, að jafnvel hundruð öryrkja, fatlaðra manna, hafa orðið að bíða jafnvel áratugum saman til þess að fá þá þjónustu, sem þjóðfélagið veitir að þessu leyti.

Ef allar ástæður væru nú í þessum efnum óbreyttar frá því, sem hefur verið, mætti ætla, að ef þessi heimild héldist eins og hún er nú fyrirhuguð, þá væri hér um sæmilega úrlausn að ræða. En því fer mjög fjarri, að fjöldi þeirra farartækja, sem aðflutningsgjöld eru gefin eftir af, sé eina atriðið, sem máli skiptir í þessu sambandi. Það, sem kannske skiptir höfuðmáli fyrir hina fötluðu menn, eru möguleikar þeirra til þess að eignast farartækin og til þess að reka þau, og ég ætla, að það sé sannast mála, að einmitt fyrir aðgerðir núv. hæstv. ríkisstj. sé nú svo komið, að aldrei hafi verið örðugra fyrir fatlað fólk eða aðra öryrkja að geta átt sæmileg farartæki en nú, jafnvel þótt eftirgjafirnar séu auknar að tölunni til, ef ekkert annað er gert samhliða.

Að undanförnu, a.m.k. tvö s.l. ár, hefur þessi heimild í tollskránni verið framkvæmd á þann hátt, að það hafa verið gefnar eftir 30 þús. kr. af aðflutningsgjöldunum, og þeir, sem þessarar aðstoðar hafa þannig notið, hafa getað komizt yfir sæmilega, litla bifreið fyrir 60– 70 þús. kr. En nú með gengisfellingunni og hækkun söluskattsins í tolli hefur slík bifreið hækkað í verði um milli 30 og 40 þús. kr. Sé upphæð eftirgjafarinnar því ekkert aukin frá því, sem verið hefur, nær hún ekki til þess að mæta þeirri hækkun, sem orðið hefur nú á þessum vetri fyrir tilverknað hæstv. ríkisstj. og bifreið, sem félli undir eftirgjafarheimildina nú, mundi þá verða heldur dýrari en heilbrigður maður þurfti að greiða fyrir hana á síðastliðnu ári.

Það má því með sanni segja, að hæstv. ríkisstj. bæði gefur og tekur, en á þann hátt, að sá, sem gjöfina á að fá, verður þó heldur verr settur en áður.

Auk þess er svo þess að geta, að rekstrarkostnaður bifreiða hefur hækkað a.m.k. um 25% og útlit fyrir, að hann hækki miklu meira, og að sjálfsögðu torveldar það enn mjög öryrkjum og þeim frekar en öllum mönnum öðrum að eiga slík farartæki, sem þeim er þó brýnni þörf á en öðrum.

Ég held því, að það sé ljóst, að enda þótt allir öryrkjar gætu nú fengið viðstöðulausar eftirgjafir á bifreiðum til sinna nota á þann hátt, sem verið hefur, þá sé aðstaða þeirra að þessu leyti mun lakari en áður og lakari en aðstaða heilbrigðra manna var fyrir nokkrum vikum.

Ég tel því, að það sé alger lágmarksnauðsyn, að um leið og bifreiðum til öryrkja er fjölgað, þá séu eftirgjafirnar um leið hækkaðar um a.m.k. 100%. Jafnvel þó að það sé gert, fær ríkið nokkra tolla og aðflutningsgjöld af peningunum og hefur þess vegna engan skaða af því að úthluta þeim á þennan hátt. Og það er vissulega meira en nógur baggi fyrir fatlað fólk og öryrkja að bera þann aukna rekstrarkostnað á bifreiðar, sem nú hefur verið stofnað til.

Í sambandi við þetta og til þess að sýna það enn betur, að fjöldi bifreiðanna er ekki eina atriðið, sem skiptir máli fyrir öryrkjana í þessu sambandi, vil ég leyfa mér að kynna hv. deild tillögur, ályktanir, sem Landssamband fatlaðra, Sjálfsbjargarfélögin, gerði á fundi sínum s.l. sumar hér í Reykjavík. Þar er skorað á hið háa Alþingi: 1) Að breyta heimildargrein í lögum nr. 27 29. maí 1957, um tollskrá o.fl., þannig, að eftirgjöf aðflutningsgjalda af farartækjum til öryrkja verði aukin í samræmi við þær hækkanir, sem orðið hafa á bifreiðum og mótorhjólum, og ég bið menn að hafa það í huga, að þar er átt við þær hækkanir, sem urðu á árinu 1958. 2) Að eftirgjöfin á aðflutningsgjöldum verði afskrifuð á fimm árum. 3) Að fellt verði niður á bifreiðum öryrkja 160–200% leyfisgjald. 4) Að fella niður þungaskatt af bifreiðum öryrkja. 5) Að öryrkjar fái að leggja farartækjum sínum án tillits til umferðarlaga, ef þörf krefur. 6) Að hækka um helming tölu þeirra bifreiða, sem árlega er úthlutað til öryrkja. 7) Að fulltrúi frá Landssambandi fatlaðra verði skipaður í nefnd þá, sem úthlutar farartækjum með tollaeftirgjöf.

Nokkrum af þessum réttmætu óskum hinna fötluðu er unnt að fullnægja, án þess að lögum sé breytt. Þannig er upphæð eftirgjafanna, sem er eitt stærsta atriðið í þessu sambandi, algerlega á valdi hæstv. ríkisstj., sömuleiðis heimild til afskrifta á fimm árum. En fötluðu fólki hentar illa, bæði af fjárhagsástæðum og öðrum augljósum ástæðum, og mun verr en heilbrigðum að eiga og reka úr sér gengnar bifreiðar. Þess vegna er brýn nauðsyn á því, að því sé unnt að endurnýja þær tiltölulega oftar en öðrum.

Ég mun ekki flytja brtt. um þessi efni nú, þar sem svo er ástatt, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar mundu geta haft það sér til afsökunar að fella þær, að frekari breytingar á frv., eins og gangur málsins hefur verið hér á hv. Alþingi, mundi þýða, að það félli í heild sinni. Hins vegar kemst ég ekki hjá því að spyrja hæstv. ráðherra, hvað ríkisstj. ætlast fyrir um upphæð eftirgjafanna og hvaða aðrar ráðstafanir hann hyggst gera í þessu efni.

Ef ekki verður um meiri eftirgjafir að upphæð til að ræða en áður, fer ekki hjá því, að það verði lýðum ljóst, að flutningur þessarar till. nú stafi ekki af öðru en að ríkisstj. er komin í klípu með bifreiðar, sem hún hefur fest kaup á, en hefur enga kaupendur að vegna þeirra verðhækkana, sem hún hefur jafnframt lögfest á þessum farartækjum, en að það sé ekki hugmyndin raunverulega að hjálpa öryrkjunum, svo að neinu gagni sé.

Ég vil þó að svo komnu máli ætla, þó að ég viti, að þetta sé aðalástæða til flutnings þessarar tillögu, að þá sé hæstv. ríkisstj. þó ekki með öllu óljúft að nota tækifærið til þess, að þetta mætti verða að einhverju gagni fyrir öryrkjana. En það mun skýrast af þeim upplýsingum, sem ég vona að hæstv. ráðherra gefi um það, hvaða upphæðir ríkisstj. hyggst gefa eftir, hvort þarna er raunverulega um það að ræða, að öryrkjar fái bifreiðar ódýrari en áður, eða hvort það er um það eitt að ræða, að ríkisstj. sé að reyna að losa sjálfa sig úr leiðinlegri klípu, sem hún er komin í.