20.05.1960
Efri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2506 í B-deild Alþingistíðinda. (849)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. e. spurði, hvað ríkisstj. hygðist fyrir varðandi eftirgjöf á aðflutningsgjöldum af biðreiðum, sem fluttar eru inn handa fötluðu eða lömuðu fólki. Því er til að svara, að í gildandi tollskrárlögum er tiltekið 40 þús. kr. hámark á eftirgjöfinni, eins og það er tiltekið hámark á tölu þeirra bíla, sem heimilt er að láta slíka eftirgjöf ná til, 50.

Það er ætlun ríkisstj. að nota þessa heimild að fullu, þ.e. að allir þeir 150 bilar, sem væntanlega yrðu fluttir til landsins, mundu fá fulla eftirgjöf eins og lög frekast heimila, þ.e. 40 þús. kr. Lengra getur ríkisstj. ekki gengið að tollskrárlögunum óbreyttum, og það hefur ekki verið lagt til í brtt. við þetta frv., að efnisákvæðum tollskrárlaganna varðandi hámark eftirgjafarinnar verði breytt. Þetta vildi ég mega vænta að lægi alveg ljóst fyrir.

Varðandi annað atriði, sem fram kom í ræðu hv. þm., um það, að ástæðan fyrir flutningi þessarar till. minnar í Nd. hafi verið sú að losa ríkisstj. úr klípu, sem hún væri komin í, vegna þess að hún hefði keypt bifreiðar, sem hún gæti nú ekki selt, þá er það að segja, að þetta er alger misskilningur. Ríkisstj. hefur engar bifreiðar keypt. Ríkisstj. er ekki bifreiðainnflytjandi og hefur því engar bifreiðar til sölu, sem hún er í vandræðum með að selja. Það, sem hv. þm. e. t. v. á þarna við, er, að ákveðinn innflytjandi, sem flytur inn bifreiðar frá Sovétríkjunum, telur þær bifreiðar vera of dýrar, til þess að hægt sé að selja þær hér á íslenzkum markaði, þótt vitanlegt sé, að sams konar bifreiðar frá öðrum löndum séu vel seljanlegar með þeim gjöldum, sem nú gilda á þeim bifreiðum. En ríkisstj. er hér enginn beinn aðili að, svo að það, sem hv. þm. sagði um þetta, var á algerum misskilningi byggt.