04.12.1959
Neðri deild: 10. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í B-deild Alþingistíðinda. (85)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Frsm. 2. minni hl. ( Skúli Guðmundsson ):

Herra forseti. Frv. þetta var tekið fyrir á einum fundi fjhn. í gær, og liggja fyrir þrjú nál. Frv. er um það, að ríkisstj. verði heimilt að greiða úr ríkissjóði til bráðabirgða venjuleg rekstrargjöld og önnur gjöld, er talizt geta til venjulegra fastra greiðslna þess, fyrstu tvo mánuði ársins 1960. Þetta frv. er fram borið vegna þess, að það eru ekki taldar horfur á, að unnt muni reynast að ljúka afgreiðslu fjárlaga fyrir næsta ár fyrir áramótin.

Það mun ekki vera neinn ágreiningur um það í fjhn., að það sé þörf á slíkri greiðsluheimild fyrir áramótin, þar sem, eins og nú er komið, þarf ekki að gera ráð fyrir því, að fjárlög verði þá til. En hins vegar voru menn ekki á eitt sáttir um það í n., hvernig haga skyldi meðferð málsins. Meiri hl. vill láta afgr. það nú þegar, en tveir af nm. telja, að það sé ekki tímabært, og telja, að það sé eðlilegt, að ýmislegt gangi á undan þeirri afgreiðslu hér í hv. d. eða í sameinuðu Alþingi.

Enn hefur frv. til fjárlaga fyrir næsta ár ekki verið tekið til 1. umr. Það er venja, föst venja, að við 1. umr. fjárlaga gerir fjmrh. grein fyrir fjárhagsástæðum ríkissjóðs eftir því sem þá er um þær vitað, og lýsir jafnframt, eftir því sem unnt er, framtíðarhorfum í fjármálum. Þetta hefur enn ekki verið gert á þessu þingi, og ég tel, að það sé eðlilegt, að það verði gert, áður en þingið samþykkir það frv., sem hér liggur fyrir.

Um þetta efni urðu nokkrar umræður utan dagskrár nú nýlega hér í þinginu, og hæstv. fjmrh. lét þess getíð, að líklegt mætti telja, að ekki yrði af því, að það frv. til fjári., sem nú hefur verið lagt fram, hlyti afgreiðslu á þinginu. Hitt væri sennilegra, að stjórnin mundi leggja fyrir nýtt fjárlagafrv. á framhaldsþingi. Út af þessu vil ég segja það, að það hefur áður komið fyrir, að frv., sem ríkisstj. lagði fram í byrjun þings, frv. til fjárlaga, hlaut ekki afgreiðslu, en annað nýtt var lagt fram síðar á þingi og það afgreitt. En þrátt fyrir það hefur það verið svo, að það frv., sem upphaflega var lagt fram, hefur verið tekið til 1. umr. og fjmrh. við það tækifæri gefið sina venjulegu skýrslu um fjárhagsástæðurnar.

Mér þykir rétt að rekja hér með örfáum orðum gang þessara mála síðustu árin. Árið 1958 var Alþingi sett 10. okt. 1. umr. um fjárlagafrv. fór þá fram 20. okt. 1957 var Alþingi sett einnig 10. okt. og 1. umr. um fjárlagafrv. fór fram 16. okt. eða á sjöunda degi þingsins. 1956 var Alþingi sett 10. okt., 1. umr. um fjárlagafrv. fór fram 22. okt. 1955 var setningardagur þingsins 8. okt., 1. umr. um fjárlagafrv. fór fram níu dögum síðar, 17. okt. 1954 var Alþingi sett 9. okt., 1, umr. um fjárlagafrv. fór fram aðeins sex dögum síðar, þann 15. okt. 1953 er þingið sett 1. okt., fjárlögin tekin til umræðu þann 12. Og 1952 er Alþingi sett 1. okt., 1. umr. um fjárlagafrv. þann 7., aðeins sex dögum eftir þingsetningu. 1951 er þingið sett 1. okt., og 1. umr. um fjári. er 8. okt. 1950 er Alþingi sett 10. okt. og 1. umr. um fjárlagafrv. fer fram aðeins þremur dögum síðar eða þann 13. Ég get getið hér einnig um árið 1949, en þá voru haustkosningar eins og nú. Þá er Alþingi sett 14. nóv., fjárlagafrv. útbýtt nokkru síðar en venjulegt er, eða 29. nóv., hálfum mánuði eftir þingsetningu, og 1. umr. um það fór fram, áður en gert var hlé á störfum þingsins fyrir jólin, 1. umr. um frv. fór fram 20. des. Þá var Björn Ólafsson fjmrh. Þá mun frv. hafa verið vísað til n., og fór svo afgreiðsla þess að öðru leyti fram á framhaldsþinginu. Ég get einnig getið þess að síðustu án þess að hafa þessa sögu lengri, að 1947 er Alþingi sett 1. okt., fjárlagafrv. útbýtt 28. október. Af einhverjum ástæðum hefur það dregizt þá nokkuð, en 1. umr. um frv. fór fram 7. nóv. Þá var fjmrh. Jóhann Þ. Jósefsson. Þá gerist það, að nýtt frv. til fjárlaga er lagt fyrir Alþingi eftir þinghlé um jólin. Það er lagt fram 23. jan. 1948 og 1. umr. um það frv. fór fram 2. febr. En eins og ég benti á áður, þá var hið fyrra frv., sem svo dagaði uppi, tekið til 1. umr. 7. nóv. 1947, og þáv. fjmrh. gaf sína venjulegu skýrslu um afkomu ríkissjóðs og ástæður.

Þannig kemur það í ljós, þegar þetta er athugað, að það hefur ætíð verið svo, að fjmrh., hver sem hann hefur verið, hefur talið sér skylt að gefa þinginu upplýsingar um afkomu ríkissjóðs, eftir því sem séð varð nm þá hluti, skömmu eftir að þing hófust, og alltaf áður en þingi hefur verið frestað, áður en hlé hefur verið gert á störfum þingsins. Þetta hefur alltaf verið gert a.m.k. síðustu tuttugu árin, lengra hef ég ekki athugað þetta aftur í tímann. Og ég tel, að þetta eigi hæstv. núv. fjmrh. einnig að gera, jafnvel þó að margt sé óljóst nú um framtíðina í þessum efnum. Það hefur verið það áður, þegar fjmrh. hefur lagt fjárlagafrv. fyrir þingið, og jafnvel þótt svo sé, þá er auðvelt fyrir hann að gefa upplýsingar um, hvernig ástæðurnar eru nú, eftir því sem næst verður komizt, og siðar á þinginu, á framhaldsþingi, að gefa þá þinginu framhaldsskýrslu um þessi mál.

Það hefur sem sagt oft komið fyrir, að fjmrh. hefur oftar en einu sinni á sama þingi gefið slíkt yfirlit yfir afkomu ríkissjóðs og afkomuhorfur. Og ég verð að segja það, að mér finnst það heldur ógiftusamlegt, ef hæstv. núv. ráðh., sá er með fjármálin fer, byrjar sinn feril þannig að brjóta reglu, sem fylgt hefur verið undanfarið, og neita þingmönnum um upplýsingar, sem þeir eiga rétt á að fá viðkomandi þessum málum. Ég held, að hæstv. ráðh. ætti að skoða hug sinn betur og ákveða að gefa þessar sjálfsögðu upplýsingar, áður en þinginu verður frestað.

Annars þarf ekki að fara í grafgötur til að sjá það, hvers vegna þessi hraði á nú að vera á og hvers vegna stjórnin vill fresta þinginu svo skjótt sem till. liggur fyrir um. Það lítur út fyrir, að hæstv. stjórn vilji sem sagt, hvað sem tautar, losna við þingið fyrir miðjan desember, því að þá telur hún vera mikinn örlagadag í sínu lífi, að því er manni virðist. Þá falla úr gildi brbl., sem fyrrv. stjórn gaf út í septembermánuði, og þarf ég ekki að rekja efni þeirra, því að það er öllum kunnugt. Flokkur hæstv. fjmrh. gaf út í haust yfirlýsingar — endurteknar yfirlýsingar — um andstöðu við þessi brbl., og það hefur einnig komið fram, að Framsfl. er þeim andvígur. Það má því gera ráð fyrir því fastlega, að þessi brbl. njóti ekki stuðnings meiri hluta þings. En af einhverjum ástæðum hefur hæstv. stjórn ekki lagt þessi lög fyrir þingið enn þá, eins og hún hefði þó tvímælalaust átt að gera, og hún vill losna við þingið, áður en það fái tækifæri til að fjalla um þessi lög og fella þau. Með þessu móti er hæstv. stjórn og hennar stuðningsmenn, ef þeir fylgja henni á þessari braut til enda, að koma í veg fyrir það, að þingræðið fái notið sin eins og það á að gera. Og þó að fsp. hafi verið um það gerðar, þá hafa ekki fengizt svör við því frá hæstv. stjórn, hvað hún ætli að gera í því máli, þegar þessi brbl. falla úr gildi. Getur það hugsazt, að stjórnin ætli þá að gefa út ný brbl. um þau efni? Það er erfitt að trúa því, að til slíkra ráða verði gripíð, vegna þess að þar væri um að ræða mjög alvarlega misbeitingu á framkvæmdarvaldinu.

Í sambandi við þetta mál má líka geta þess eða minna á það, að flokkur hæstv. fjmrh. gaf fyrirheit um það í haust til bænda, að hann mundi leggja til við Alþingi, að þeim yrði bætt það tjón, sem þeir verða fyrir af útgáfu þessara brbl. Það er alkunnugt, að ef lögin hefðu ekki verið gefin út, hefðu bændur fengið 3.18% hækkun á verði afurða sinna. Þeir áttu rétt á að fá þessa hækkun samkv. gildandi lögum, um það var ekki ágreiningur. En þrátt fyrir loforð þeirra sjálfstæðismanna um að leggja fyrir Alþingi till. um að bæta framleiðendum þetta tjón, hafa þeir ekki látið af því verða. Það eru engar till. enn frá þeim komnar um það mál. Hins vegar hafa aðrir flutt um þetta till. í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir.

Þegar frv. var til afgreiðslu í Ed., báru tveir hv. þm. þeirrar deildar fram till. um heimild fyrir ríkisstj. til að bæta framleiðendum þetta tjón, en sú till. var felld af stjórnarliðinu í

Ed., þar á meðal af þingmönnum þess flokks, sem hafði þó gefið fyrirheit um að bæta þetta tjón og leggja til nú á Alþingi, að það yrði gert.

Till. um sama efni liggur nú fyrir í þessari d. Um hana voru greidd atkv. í hv. fjhn., en stjórnarstuðningsmenn í n. greiddu atkv. gegn henni.

Ég lít svo á, eins og áður segir, að þingið þurfi að taka ýmis mál, sem nú þegar liggja fyrir, til meðferðar og afgreiðslu, áður en þinginu verður frestað. Ég tel, eins og ég hef þegar tekið fram, að hæstv. ráðherra. sem fer með fjármálin, beri að gefa venjulega skýrslu um fjárhagsástandið, áður en þinghlé verður gert. Ég tel einnig, að stj. eigi að leggja fyrir þessi umræddu brbl. og gefa þinginu kost á að fjalla um þau, þannig að þingviljinn fái að koma fram. Ýmis fleiri mál eru það, sem þegar hafa verið lögð fyrir þingið og eðlilegt er að fái afgreiðslu fyrir þinghlé. Ég lít því svo á, að það sé ekki tímabært að fresta þingi nú þegar og eðlilegt sé að fresta um sinn meðferð þessa frv. Það er enn alllangur tími, nokkrar vikur, eftir af þessu ári, en heimildarlög þau, sem hér er farið fram á, þurfa ekki að hafa tekið gildi fyrr en um áramót.

Enn er allt í óvissu um það, hvað hæstv. ríkisstj. ætlast fyrir í efnahagsmálunum. Hún mun vera með þau mál í athugun og ætla að vinna að sínum athugunum á þeim næstu vikur og gerir ráð fyrir áð geta lagt fram einhverjar till. um þau á framhaldsþinginu. Það er að sjálfsögðu ærinn vandi við þau mál að fást. Gjaldeyrisástæður eru mjög erfiðar nú, halli, eins og oft áður, á viðskiptum við útlönd, og erlendan gjaldeyri skortir. Það er ekki hægt að fá erlendan gjaldeyri til áð ljúka ýmsum nauðsynlegum greiðslum. Framkvæmd viðskiptamálanna hefur verið þannig hagað á þessu ári, sem nú er að liða, að miklu af gjaldeyristekjum hefur verið varið til hluta, sem skynsamlegra hefði verið að láta sitja á hakanum. Af því leiðir, að gjaldeyri vantar til kaupa á ýmsum nauðsynlegri vörum og til að greiða ýmislegt út úr landinu, sem þarf að borga.

Að sögn ráðh. í núverandi ríkisstj. eftir nýafstaðnar kosningar og þegar þeir eru annars staðar staddir en hér á hæstv. Alþingi skortir ríkissjóð og útflutningssjóð mikið fé til viðbótar þeim tekjum, sem þessir sjóðir nú hafa, til þess að mæta fyrirsjáanlegum útgjöldum. Heyrzt hefur, að hæstv. forsrh, hafi nefnt 250 millj. á fundi í stjórnmálafélagi hér í Reykjavík.

Stjórnin hefur sér til aðstoðar, við athugun á þessum fjárhags- og efnahagsmálum, sérfræðinga. Hún hefur hagfræðinga í sinni þjónustu og hugsar sér að fá þeirra álit um úrlausnir, áður en hún leggur fram sínar till. Það er ekkert við það að athuga, þó að hinir sérfróðu menn séu kvaddir til aðstoðar um þessi mál, slíkt hefur oft verið gert áður. En þó að till. séu ekki komnar í þessu efni frá hæstv. núv. ríkisstj., þá er allmikið um það rætt og ritað, hver sé höfuðorsökin til þess, að sá vandi er nú fyrir dyrum í þessum efnum, sem raun ber vitni um, og þá jafnframt mikið um það rætt, til hvaða ráða þurfi helzt að grípa til þess að koma fram umbótum. Venjulegasta víðkvæðið hjá hinum sérfróðu mönnum er það, að hér sé of mikil fjárfesting, sem þeir nefna svo. Þetta orðskrípi, sem nýlega hefur verið tekið í íslenzkt mál, fjárfesting, mun, býst ég við, fundið upp einmitt af hagfræðingum. Ég segi orðskrípi, vegna þess að þetta orð gefur alls ekki til kynna það, sem þessir vísu menn segja að það eigi að tákna. Margt það, sem hagfræðingarnir segja að sé fjárfesting, er það ekki. Það er auðvelt að taka dæmi um það.

Ef maður leggur peninga sína í það að byggja hús, þá segja þeir, að það sé fjárfesting. Maðurinn getur selt þetta hús á næsta ári og fengið peninga sína aftur. Þá eru þeir lausir á ný, hans peningar. En þetta er fjárfesting. Annar maður, sem eyðir sínum afgangstekjum í ýmislegt annað, ýmsan óhófslifnað, við skulum segja í brennivín, akstur um borgargötur á síðkvöldum og ýmislegt, sem þar með fylgir, hann hefur aftur á móti fest sitt fé þannig, að það er ekki sjáanlegt, að hann nái því nokkurn tíma aftur eða hafi af því nokkurn arð. Þetta sýnist mér frá mínu leikmannssjónarmiði vera fjárfesting hjá þessum manni. En það er nú bezt að fá úr því skorið hjá hinum sérfróðu, og þess vegna lýsi ég þessu háttalagi fyrir hagfræðingi og segi við hann: Er þetta ekki fjárfesting? — Nei, nei, nei, þetta er neyzla, segir hann. Þeir hafa nefnilega fundið upp fleira en þetta orðskrípi: fjárfesting, hinir hagfróðu menn, þeir hafa fundið svo fallegt orð yfir eyðsluna. Lengur er ekki talað um eyðslu, það er talað um neyzlu. Þetta er miklu finna.

Og nýyrðasmiðirnir segja: Fjárfesting er allt of mikil. Það er of lítið eftir af þjóðartekjunum til neyzlu, þegar búið er að borga alla þessa fjárfestingu. — Afleiðingin er sú að þeirra dómi, að lífskjör þjóðarinnar batna ekki, meðan þannig er áfram haldið. Þetta segja þeir. Til þess að lífskjör þjóðarinnar geti batnað, þá þarf hún að hafa meira til neyzlu.

Ef þetta, sem þeir segja, er þýtt á venjulegt íslenzkt mál, sem er skiljanlegt öllum þorra manna, þá er kenningin þessi: Framfarirnar eru of miklar, eyðslan er of lítil. — Og til þess að bæta lífskjör þjóðarinnar þarf að draga úr framförunum, en auka eyðsluna.

Ég er ekki lærður hagfræðingur, og það er kannske þess vegna, sem ég efast allmikið um sannleiksgildi þessara kenninga. Ég tel þvert á móti, að eyðsla margra manna í þjóðfélaginu sé of mikil, hún ætti að vera minni. Það eru margir einstaklingar í þessu þjóðfélagi, sem lifa — ja, ég held, að mér sé óhætt að segja, óhófslífi. Þeir eyða óeðlilega miklu fé í byggingu íburðarmikilla húsa yfir sig og sitt fólk, í dýr húsgögn í þessi hús, og þeir hafa skapað sér lífsvenjur ýmiss konar, sem eru dýrar. Þessi eyðsla, óþarflega og óheppilega mikil eyðsla margra einstaklinga í þjóðfélaginu, veldur því, að það vantar peninga til annarra nauðsynlegri hluta, til ýmiss konar framkvæmda til hagsbóta fyrir almenning í landinu.

Já, þeir birta sínar kenningar, hagfræðingarnir, ekki aðeins þeir innlendu, þeir, sem hér eiga heima, íslenzkir hagfræðingar, heldur einnig vísir menn í öðrum löndum, fræðimenn á þessu sviði, og það er vitanlega hlustað hér eins og annars staðar á þeirra kenningar. Og þeir koma hingað stundum til okkar lands til þess að uppfræða fólk um lögmál hagfræðinnar og viðskiptalífsins og gefa bendingar um það, hvernig Íslendingar ættu nú að haga sér, til þess að þeim megi vel vegna. Það var einn slíkur maður á ferðinni hér í Reykjavík fyrir nokkrum dögum. Maður þessi er aðalforstjóri Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu, og á sunnudaginn var mun hann, eftir því sem segir í dagblöðum, hafa flutt erindi í hátíðasal háskólans, og erindi þetta fjallaði einkum um þau viðhorf, sem stofnun viðskiptabandalags sex- og sjöveldanna í Evrópu skapar viðskiptum Íslendinga í Vestur-Evrópu. Það er sagt, að þessi forstjóri sé víðkunnur fjármálamaður og hafi gegnt hinum ábyrgðarmestu stöðum. Þetta er vafalaust skýr maður og fær. Þetta er viðfelldinn maður. Ég sá hann hér fyrir tveimur eða þremur árum, þá var hann á ferð hér á landi líka. Þessi maður flutti fyrirlestur, eins og ég hef áður vikið að, í háskólanum um síðustu helgi. Ég ætla ekkí að fara að rekja hér þennan fyrirlestur eða lesa upp frásagnir af honum úr blöðunum, — ég var þar ekki viðstaddur og heyrði ekki hans málflutning, — en það er þó sérstaklega eitt atriði, sem fram kom í fyrirlestri hans, eftir því sem hermt er í blöðum, sem mér finnst ástæða til að minnast á. Í blaðinu, sem ég hef hér, þar sem sagt er frá fyrirlestrinum, eru millifyrirsagnir, þar sem skipt er niður í kafla í blaðinu, og fyrirsögnin yfir einum kaflanum er þannig: „Mikil fjárfesting í íbúðarhúsum og landbúnaði.“ Hann talar þar fyrst um íbúðarhúsin, hér hafi mikið fé verið fest í íbúðarhúsabyggingum, — og það er rétt, það er mikið. Hann bendir á það, að vissulega séu íbúðarhúsin nauðsynleg, en þó megi engin þjóð eyða meiru í þau en hún hefur ráð á. Og hann segir, að það geti ekki verið rétt af Íslendingum að eyða miklu meira í húsnæði en aðrar Evrópuþjóðir gera. Ég veit náttúrlega ekki, við hvað hann hefur miðað sinn samanburð, trúlega kannske haft þar til hliðsjónar höfðatöluna. Ég veit það ekki. Eða hvort hann hefur kynnt sér húsnæðisástandið í nokkrum löndum og byggt sinn samanburð að einhverju leyti á því.

Það er rétt, eins og ég minntist á áðan, það hefur verið og er óhóf í húsabyggingum hjá mörgum mönnum. Íbúðarhús hér á landi og þó líklega ekki sízt hér í höfuðstaðnum hafa verið miklu dýrari í byggingu en þau hefðu þurft að vera, ef skynsamlega hefði verið á málum haldið af öllum þeim, sem þar hafa komið nærri. Og óþarflega íburðarmikil hús margra einstaklinga hafa gleypt mikið af því fjármagni, sem þjóðin getur með góðu móti varið til húsabygginga. Það hefur farið of mikill hluti þess í slíkar byggingar, og af því hefur það leitt, að það hefur of litið fjármagn verið fyrir hendi til þess að byggja yfir margt af fólki hæfilegar íbúðir, viðunandi góðar, en íburðarlausar. En það er þetta, sem ætti að sitja fyrir. Það mætti sem sagt spara mikið í húsabyggingum, ef minna væri um glæsihúsin, en á móti kemur þá það, að mikið þarf að byggja ár hvert vegna fólksfjölgunarinnar.

En þá eru það ummæli hans um landbúnaðinn. Þau koma hér á eftir, og mig langar að fá leyfi hæstv. forseta til þess að lesa hér smáklausu úr blaðinu, þar sem sagt er frá fyrirlestri þessa fræðimanns. Hann segir svo:

„Fjárfesting í landbúnaði er auðvitað sjálfsögð. En skilyrði til landbúnaðar eru vissulega ekki svo góð á Íslandi, að þau réttlæti miklu meiri fjárfestingu í þessari atvinnugrein en gert er annars staðar í Evrópu. Vitað er, að mikið af þessari fjárfestingu hér á landi er því ekki hagkvæmt þjóðarbúinu. Og á sama tíma vantar fé til endurnýjunar fiskiskipaflotans.“

Þannig hljóða þau orð. Hann er búinn að segja það, áður í fyrirlestrinum, að hér á landi sé fjárfestingin í íbúðarhúsum og landbúnaði um 16% af þjóðarframleiðslunni. Hann sundurliðar þetta ekki, en hann bætir við: Á móti 5% að meðaltali í sömu greinum í VesturEvrópu, — þ.e.a.s. hann ber saman fjárfestinguna í þessum greinum, íbúðarhúsum og landbúnaði, hér hjá okkur og í Vestur-Evrópulöndum. Hann segir, að það fari 16% af þjóðarframleiðslunni hér hjá okkur í þetta tvennt, en ekki nema 5% í Vestur-Evrópu. En hvað segja menn um slíkan samanburð? Er nokkur heil brú í því að bera það fram, að það megi ekki leggja hlutfallslega meira af þjóðartekjunum til landbúnaðarframkvæmda hér en í nágrannalöndunum ýmsum? Hvað eigum við að segja um lönd eins og Holland eða Danmörku, sem láta mun nærri að séu fullræktuð? Hér aftur á móti eru tiltölulega nýlega byrjuð stórátök í ræktunarmálum, og þar eru geysilega mikil verkefni óleyst enn, verkefni, sem þarf að snúa sér að af miklu afli. Það er lífsnauðsyn, að ræktunarstarfinu verði haldið áfram, það verði aukið, en ekki verði úr því dregið. Þetta er lífsnauðsyn fyrir þjóðina, jafnt fyrir efnahagslega og menningarlega afkomu hennar.

Það hefur verið ör fólksfjölgun hér á landi síðustu árin. Það mun láta nærri, að um næstliðin áramót hafi fólksfjöldinn hér á landi verið 170 þúsund manns. Og ef fólkinu fjölgar tiltölulega jafnmikið á næstu árum og um nokkur undanfarin ár, sýnist mér, að eftir aðeins 17–18 ár hér frá verði mannfjöldinn hér á landi um 250 þúsund. Það er um 80 þúsund manna viðbót á þessum fáu árum. ( Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi mikið eftir ólokið af ræðu sinni.) Ég á dálítið eftir. (Forseti: Þá vil ég biðja hann um að gera svo vel að gera hlé á ræðunni. ) Ég get gert það, herra forseti. — [ Frh.]