20.05.1960
Efri deild: 81. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2507 í B-deild Alþingistíðinda. (851)

131. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál o.fl.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð enn til leiðréttingar á ummælum, sem féllu hjá hv. 5. þm. Norðurl. e. Hann sagði eitthvað á þá leið, að e.t.v. teldi ríkisstj. sér það óviðkomandi, hvort staðið væri við gerða milliríkjasamninga eða ekki, og mun þar hafa átt við þau ákvæði í viðskiptasamningi við Sovétríkin, þar sem gert er ráð fyrir innflutningi á 500 bifreiðum til landsins. En svo sem þegar hefur áður borið á góma í umr., bæði hér í þessari hv. d. og Nd., telja innflytjendur þeirra bifreiða nokkur tormerki á því, að hægt verði að öllu óbreyttu að flytja inn það magn af bifreiðum frá Sovétríkjunum. Ég vil aðeins koma fram við hv. d. nokkurri skýringu, til þess að þessi ummæli hv. þm. standi ekki óleiðrétt.

Viðskiptasamningurinn við Sovétríkin er svonefndur rammasamningur, og ákvæði hans, að því er Ísland snertir, um innflutning frá Sovétríkjunum skuldbinda íslenzka ríkið til þess elns að veita innflutningsleyfi fyrir því magni af vörum, sem í rammasamningnum er tilgreint.

Skuldbindingin, sem á íslenzka ríkinu eða íslenzkum stjórnvöldum hvílir í sambandi við innflutning bifreiðanna, eða það ákvæði samningsins, sem fjallar um bifreiðarnar, felur það eitt í sér, að íslenzkum yfirvöldum er skylt samkv. samningnum að veita innflutningsleyfi fyrir 500 bifreiðum frá Sovétríkjunum, og engum hefur dottið annað í hug en standa við þetta ákvæði samningsins. Það er öllum aðilum ljóst, bæði yfirvöldum í Sovétríkjunum og öllum innflytjendum hér, að þau leyfi verða að sjálfsögðu veitt og hafa þegar verið veitt að mjög verulegu leyti. Vandinn, sem á höndum er í þessu sambandi, er sá, að þó að leyfi sé fyrir hendi, telja innflytjendur, að hæpið sé, að markaður sé hér á landi fyrir svo mikið magn af bifreiðum frá þessu landi vegna þess verðs, sem á bifreiðunum er. En það er að sjálfsögðu algerlega rangt að telja hinn takmarkaða markað hér einungis vera því að kenna, að innflutningsgjöldin af hálfu Alþingis eða íslenzkra stjórnvalda séu svo há, að bilarnir verði þess vegna litt seljanlegir. Alveg sama mætti segja, að orsökin sé sú, að innkaupsverðið frá Sovétríkjunum sé svo hátt, að það sé þröskuldurinn í vegi fyrir því, að bilarnir finni hér allir saman fúsa kaupendur. En svo sem kunnugt er, er innflutningsverðið á a.m.k. sumum tegundum þessara bifreiða frá Sovétríkjunum hærra hingað til lands en til annarra landa, eins og t.d. til Bandaríkjanna, og meira að segja mun hærra.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál frekar. Ég vildi aðeins leiðrétta þetta atriði, sem fram kom í ræðu hv. þm., að að sjálfsögðu hefur aldrei komið annað til mála en að ríkisstj. standi að fullu og öllu við sérhverja þá skuldbindingu, sem hún hefur tekizt á hendur við gerð þessa milliríkjasamnings eins og annarra, sem íslenzk stjórnarvöld hafa gert.

Að síðustu, fyrst þessi bílamál hefur borið á góma, vil ég aðeins láta þess getið, að ríkisstj. mun ekki við það eitt láta sitja að veita leyfi fyrir því magni bifreiða frá Sovétríkjunum, sem rammasamningurinn gerir ráð fyrir, heldur mun hún og kappkosta að finna einhverja skynsamlega lausn á því vandamáli, sem í því felst, að þessar bifreiðar hafa reynzt óeðlilega dýrar fyrir íslenzkan markað. Ríkisstj. vildi gjarnan geta stuðlað að því, að hér skapaðist eðlilegur markaður á Íslandi fyrir þessa vöru frá Sovétríkjunum, því að það mundi bæta aðstöðu okkar til útflutnings þangað, og ríkisstj. mun einskis láta ófreistað í því skyni að stuðla að því, að heilbrigður markaður skapist hér á Íslandi fyrir bifreiðainnflutning frá Sovétríkjunum.