10.05.1960
Neðri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2509 í B-deild Alþingistíðinda. (855)

154. mál, alþjóðasiglingamálastofnun (IMCO)

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Síðan Sameinuðu þjóðirnar voru stofnaðar, hafa þær beitt sér fyrir ýmsum alþjóðasamtökum, sem tekið hafa fyrir alþjóðleg vandamál og reynt að leysa þau. Í þessu sambandi mætti t.d. minna á alþjóðaflóttamannastofnunina, alþjóðamenntamálasamtökin, matvælastofnunina og ýmisleg fleiri.

Hér í þessari samþykkt, sem lagt er til að staðfest verði, er tekið fyrir nýtt svið, þ.e.a.s. samgöngur á sjó. Í sambandi við samgöngur á sjó eru ýmis alþjóðleg vandamál, bæði hvað snertir öryggi skipa, siglingar þeirra og mælingar skipa og ýmislegt fleira í því sambandi. Við Íslendingar höfum verið aðilar að einni slíkri samþykkt áður og erum raunar enn, svokallaðri Kaupmannahafnarsamþykkt, þar sem Norðurlöndin eru aðilar, Holland og ýmis fleiri lönd. Ég geri ráð fyrir því, að ef þessi samþykkt, sem hér liggur fyrir til staðfestingar, verður almennt staðfest, eins og nú lítur út fyrir, þá verði Kaupmannahafnarsamþykktin svokallaða lögð til hliðar og þau lönd, sem að henni stóðu áður, muni verða aðilar að hinni nýju alþjóðasiglingamálastofnun.

Árið 1948 var fyrst byrjað að ræða um þessi mál og raunar gengið þá frá þessari samþykkt, sem hér liggur fyrir. En vegna ágreinings um nokkur atriði hefur hún ekki verið fullgilt af nægilega mörgum löndum fyrr en nú fyrir mjög stuttu eða 17. marz s.l. Þessi ágreiningur hefur verið um það, hvort stofnunin skyldi hafa afskipti af öðrum málum en tæknilegum, og þá alveg sérstaklega, hvort hún ætti að blanda sér í mál fjármálalegs og viðskiptamálalegs eðlis, en um það hefur ekki tekizt enn fullt samkomulag. Þess vegna hefur það orðið til þess, að ýmis lönd, eins og t.d. Norðurlöndin, hafa gerzt aðilar að samþykktinni með þeim fyrirvara, að þau gengju út frá, að stofnunin hefði eingöngu með að gera verkefni tækni. legs eðlis og þá náttúrlega alveg sérstaklega á sviði öryggismála og á sviði siglingareglugerða eða fyrirkomulags um alþjóðasiglingar, til þess að forðast árekstur og ýmislegt fleira í því sambandi.

Það er nú svo komið, að 29 ríki hafa staðfest samþykktina. Það er engin ástæða til, að ég lesi þau hér öll upp, þeirra er getið í bréfi skipaskoðunarstjóra, sem fylgir með frv. sem fskj.

Efni málsins er að aðalefni til það, eins og ég hef þegar minnzt lítillega á, að hafa samstöðu um stjórnarákvarðanir, sem snerta alls kyns tæknimálefni varðandi alþjóðasiglingar, og hvetja til almennra samþykkta fullkomnustu ákvæða í sambandi við mál, er varða öryggi á hafinu og afköst á sviði siglinga, og ýmislegt fleira því líkt. Síðar er í samþykktinni nánar tiltekið um starfsemina, um aðildina, um þing þessarar stofnunar, um ráð stofnunarinnar, öryggismálanefndina, um starfslið stofnunarinnar og fjármál, atkvæðagreiðslur og ýmislegt fleira, sem óþarfi er að rekja.

Ég vil aðeins geta þess um kostnaðinn við þátttöku í þessum alþjóðasamtökum, að það er gert ráð fyrir föstu gjaldi, sem er um 2000 dollarar fyrir okkur, og síðan gjald eftir tonnatölu skipastólsins, sem verður ákveðið síðar og ætti ekki að verða mjög tilfinnanlegt.

Íslendingar geta að mínu viti ekki skotið sér undan því að verða aðilar að þessum samtökum, svo mjög sem þeir eru háðir siglingum á hafinu og alveg sérstaklega þeim ráðstöfunum, sem gerðar eru til þess að bæta öryggisútbúnað skipa, sem ég tel að verði aðalverkefni þessara samtaka.

Í 1. gr. frv. er fyrirvari um, að Ísland muni taka staðfestingu sína til athugunar á ný, ef síðar yrði ákveðið, að siglingamálastofnunin skyldi einnig fjalla um mál, sem eru algerlega fjármálalegs eða viðskiptalegs eðlis, þannig að við eins og hin Norðurlöndin göngum þar með út frá, að við verðum aðilar að þessum samtökum í þeirri veru, að þar sé einungis um að ræða tæknileg atriði og mál, sem siglingar snertir.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lesa hér upp einstakar gr. eða gera grein fyrir einstökum atriðum frv. nánar en þetta, það er mjög ýtarlega rakið í bréfi skipaskoðunarstjóra, enda skýrir samningurinn sig sjálfur. Það er talið æskilegt, að við gætum gerzt aðilar að þessari samþykkt fljótlega, og þess vegna vildi ég leggja áherzlu á, að samþykktin yrði afgreidd á þessu þingi, því að í þessum mánuði á að halda hið fyrsta þing stofnunarinnar, og er gert ráð fyrir, að Íslendingar sæki það, og vænta má þar ekki aðeins nokkurs af, heldur mikils, sérstaklega á sviði öryggismálanna, og væri þá skemmtilegra, að við gætum komið þar sem fullgildir aðilar, heldur en við værum aðeins áheyrnarfulltrúar, eins og annars mundi vera.

Ég leyfi mér svo að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.