04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (87)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Frsm. 2. minni hl. (Skúli Guðmundsson) [frh.]:

Þegar gert var hlé á fundarhaldinu fyrir um það bil klukkustund, hafði ég vakið athygli á því, að ef fólki fjölgar hér á landi tiltölulega jafnmikið næstu árin og nokkur undanfarin ár, þá muni fólksfjöldinn hér á landi verða orðinn um 250 þús. eftir aðeins 17 eða 18 ár, þ.e. 70–80 þús. manna fjölgun á þessum fáu árum. En hvað verður um þetta fólk:

Hvar á að byggja, hvernig fer,

hvar á að bera að landi?

stendur í gamalli vísu. Hvar tekur þetta fólk sér bólfestu? Á að gera ráð fyrir því, að meiri hluti þess þyrpist saman á tiltölulega litlu svæði landsins, t.d. hér á suðvesturhorni landsins? Ég vil fullyrða, að slíkt væri mjög óheppilegt. Það þarf að byggja landið allt. Öll byggileg landssvæði eiga að vera setin og auðlindir landsins notaðar, hvar sem þær eru. Þetta er allra hagur. Það er hagsmunamál þeirra, sem nú búa hér í höfuðstaðnum og nágrenni hans ekkert síður en annarra landsmanna. Það er hagsmunamál þess fólks, sem nú er búsett hér í þéttbýlinu, nálægt þeim stað, þar sem við erum nú, að fólksflutningarnir utan af landsbyggðinni verði ekki óhæfilega miklir til þessara staða. Það er óheppilegt mjög fyrir afkomu þess fólks, sem dvelst í þéttbýlinu, ef þessir fólksflutningar verða of miklir, ef mjög margt fólk keppir við það um atvinnuna og um húsnæðið, svo að nokkuð sé nefnt. Það er því áreiðanlega röng stefna, sem ýmsir hinir sérfróðu menn í fjármálum og efnahagsmálum halda fram, að það eigi að draga úr landbúnaðarframkvæmdunum hér á landi. Þessar framkvæmdir þurfa þvert á móti að aukast. Og það má vel benda á það í þessu sambandi, að mikið af hinni svokölluðu fjárfestingu í landbúnaðinum er vinna fólksins í sveitum landsins, það er sparnaður þess.

Við heyrum raddir um það stundum, að bændunum mætti gjarnan og ætti gjarnan að fækka, jafnvel um helming. Þetta er náttúrlega villukenning. Hvar ætti þjóðin að taka öll milljónahundruðin, sem landbúnaðurinn leggur nú í þjóðarbúið, ef hann verður afræktur, svo að sveitirnar leggist í auðn. Það er síður en svo, að það sé offramleiðsla á landbúnaðarvörum hér. Það var óhagstæð veðrátta á Suðurlandsundirlendinu síðari hluta sumars og í haust, enda er nú svo, að það er öllu til skila haldið, að nægilega mikið af mjólk berist til Reykjavíkur og annarra kaupstaða hér á Suðvesturlandi. Það þarf að auka framleiðsluna, landbúnaðarframleiðsluna eins og aðra vöruframleiðslu hér. En til þess að landið verði allt byggt, öll byggileg svæði þess setin, þarf vitanlega að vinna að því, að lífsþægindi fólksins verði sem jöfnust um landið allt. Þess vegna má ekki draga úr framlögum hins opinbera til samgöngubóta, og það þarf að halda áfram rafvæðingu landsins með þeim hraða, sem mögulegt er. Það þarf að sjá fyrir þörfum fólksins fyrir heilbrigðis- og menningarstofnanir um land allt. Margt fleira mætti nefna.

Hagfræðingarnir og meðal annarra sá fræðimaður, sem flutti fyrirlesturinn í háskólanum á sunnudaginn var, hann segir frá því, hve mikill hluti af þjóðartekjunum í nágrannalöndunum fari til fjárfestingar þar í íbúðarhúsabyggingum og landbúnaði. Ég tel víst, að þetta sé rétt út reiknað, því að það eru til reikningsvélar nú á tímum eins og vélar til annarra hluta, merkileg tæki eins og fleiri vélategundir, og það er auðvelt að reikna þetta út. En það er áreiðanlega betra að trúa á landið en á reikningsvélar í höndum hagfræðinga, og þessar hlutfallstölur úr öðrum löndum, sem verið er að birta, t.d. viðkomandi því, hve mikið af tekjum annarra þjóða fari til framkvæmda á sviði landbúnaðar, eiga ekki að gilda fyrir okkur. Ég hef hér áður fært rök fyrir því. Það er margfalt meira óunnið hér á okkar landi í ræktunarmálum heldur en í nágrannalöndunum flestum.

Eins og ég gat um í upphafi, tel ég, að þó að ekki verði hjá því komizt að samþykkja þetta frv. fyrir áramót eða áður en þingi verður frestað, eigi ekki að gera það nú þegar, heldur eigi að fresta málinu um sinn. Það eigi ekki að fresta þinginu nú alveg næstu daga, eins og fyrirhugað mun vera, heldur eigi áður að vinna að ýmsum málum, sem fyrir liggja á þingi og þurfa að fá afgreiðslu.

Ég vil því fara fram á það við hæstv. forseta, að hann fresti nú umræðum um málið og afgreiðslu þess, þar til hæstv. fjmrh. hefur gert grein fyrir fjárhagsástæðunum við 1. umr. um fjárlagafrv. og þar til ýmis önnur mál, sem þurfa að fá afgreiðslu fyrir þinghlé, hafa verið afgreidd. Geti hæstv. forseti hins vegar ekki orðið við þeim tilmælum, þá mæli ég með því, að samþ. verði hin rökstudda dagskrá, sem 1. minni hl. fjhn. ber fram á þskj. 53.