25.05.1960
Efri deild: 84. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2533 í B-deild Alþingistíðinda. (886)

150. mál, Verslunarbanki Íslands h.f.

Menntmrh. (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti, Í frv. þessu er lagt til, að heimilt verði að stofna hlutafélag, sem heiti Verzlunarbanki Íslands h/f, og skuli hlutverk félagsins vera að starfrækja banka, sem hafi það hlutverk sérstaklega að styðja verzlun landsmanna. Er ætlazt til þess, að þessi nýi banki, ef lögin ná fram að ganga, taki við eignum og skuldbindingum og verkefnum Verzlunarsparisjóðsins. Þó er gert ráð fyrir, að hlutafé hins nýja banka verði allmiklu meira en ábyrgðarfé Verzlunarsparisjóðsins er nú. Hlutafé Verzlunarbankans h/f á að nema ekki minna en 10 millj. kr. og skulu Verzlunarráð Íslands og Félag ísl. stórkaupmanna annars vegar og Kaupmannasamtökin hins vegar safna innan sinna vébanda og leggja fram hvort um sig 5 millj. kr., en ábyrgðarmenn Verzlunarsparisjóðsins eiga að hafa forgangsrétt til að skrifa sig fyrir hlutum í félaginu að tiltölu við núverandi hlutareign þeirra í heildarábyrgðarfé Verzlunarsparisjóðsins.

Verzlunarsparisjóðurinn hefur starfað í um það bil 31/2 ár. Það var í maí 1955, sem samtök kaupsýslumanna hér fyrir forgöngu Sambands smásöluverzlana ræddust við um nauðsyn til þess að koma á fót lánastofnun, er starfa skyldi sérstaklega í þágu verzlunar landsmanna. Í október hins sama árs var komið á samtökum um stofnun sparisjóðsins, og tók hann síðan til starfa hinn 4, febr. 1956. Sparisjóðurinn hefur vaxið mjög ört. Í lok fyrsta starfsárs hans voru innlög í sparisjóðnum 23.3 millj. kr., en í lok s.l. árs höfðu innlög vaxið upp í 153.5 millj. kr.

Þessi mjög svo öra stækkun Verzlunarsparisjóðsins hefur gert það að verkum, að sparisjóðsformið hentar þessari stofnun ekki lengur. Í raun og veru er hér um banka að ræða, ekki um sparisjóð, eins og lög um sparisjóði gera ráð fyrir að slíkir sparisjóðir starfi, þótt að sjálfsögðu hafi starfsemi sparisjóðsins verið algerlega í samræmi við ákvæði þeirra laga. En þau eru þannig úr garði gerð, að innan þeirra getur líka rúmazt venjuleg bankastarfsemi, svo sem starfsemi Verzlunarsparisjóðsins er gleggst dæmi um. Það er sparisjóðnum hins vegar til nokkurs trafala, að um hann gilda ekki sams konar reglur og gilda um hina viðskiptabankana, sem starfa í þágu hinna aðalatvinnuvega þjóðarinnar, þ.e. Útvegsbankans, Iðnaðarbankans og Búnaðarbankans. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að um þennan nýja Verzlunarbanka gildi í öllum aðalatriðum hliðstæðar reglur og nú gilda um þessa atvinnubanka hina, Útvegsbankann, Búnaðarbankann og Iðnaðarbankann, sérstaklega þó um Iðnaðarbankann, svo sem eðlilegt er, þar sem hann einn þessara þriggja banka, sem ég nefndi, er hlutafélag. Auðvitað væri Verzlunarsparisjóðnum sú leið opin að gera hann upp eftir sparisjóðslögunum og koma þannig á fót einkabanka, sem engin ákvæði eru í lögum um, að ekki megi taka til starfa samkvæmt hinum venjulegu hlutafélagalögum, en það mundi vera sparisjóðnum til ýmissa óþæginda. Ábyrgðarmönnum hans og viðskiptamönnum mundi það valda ýmsum trafala. Þess vegna þótti ríkisstj. sjálfsagt og eðlilegt að veita þessari lánastofnun, sem þegar hefur unnið ágætt starf í þágu íslenzkrar verzlunar, þá fyrirgreiðslu, sem í því felst, að Alþ. setji lög, sem heimili stofnun einkabanka, Verzlunarbanka Íslands h/f, sem samkvæmt þeim sömu lögum yfirtaki eignir og skuldir og allan rekstur Verzlunarsparisjóðsins.

Það er rétt að leggja á það áherzlu, að hér er um að ræða algert einkafyrirtæki. Það er ekki ætlazt til þess, að, ríkið leggi neitt fé til þessarar bankastofnunar, svo sem t.d. átti sér stað, þegar Iðnaðarbanka Íslands h/f var komið á fót. Hins vegar er gert ráð fyrir því, að þessi banki, ef stofnaður verður, njóti hliðstæðra sérréttinda, t.d. að því er snertir skattgreiðslu, eins og viðskiptabankar hinna atvinnuveganna njóta. Er þá rétt að taka fram, að ríkisstj. telur eðlilegt, að síðar verði stofnaðir einkabankar undir svipuðum kringumstæðum og þessi banki verður væntanlega stofnaður, nái frv. fram að ganga, og njóti þeir einkabankar hliðstæðra fríðinda og hér er gert ráð fyrir til handa Verzlunarbanka Íslands h/f.

Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða einstök atriði frv. Ég geri ráð fyrir, að hv. þdm. séu orðin þau nokkuð kunnug eftir þær umr., sem fram hafa farið í hv. Nd.

Ég vil að síðustu aðeins láta þess getið, að hv. fjhn. Nd. var á einu máli um að mæla með samþykkt frv. og það hlaut samhljóða afgreiðslu í hv. Nd. mér til mikillar ánægju. Ég vil mega vænta þess, að frv. hljóti sömu afgreiðslu hér í þessari hv. d. Að lokinni þessari umr. vil ég mega leyfa mér að leggja til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.