27.05.1960
Efri deild: 85. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2535 í B-deild Alþingistíðinda. (889)

150. mál, Verslunarbanki Íslands h.f.

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur athugað þetta frv. og orðið sammála um að mæla með því, að það verði samþ. óbreytt. Eins og fram kemur í nál. á þskj. 526, eru þó hin sameiginlegu meðmæli n. með frv. byggð á ákveðnum forsendum, og er í því efni vísað til álits fjhn. Nd. En þar sem svo mikið flóð þskj. berst hv. þm. í hendur þessa daga, að varla er við því að búast, að hver einstakur hafi tíma til þess að kynna sér gaumgæfilega efni hvers einstaks þskj„ tel ég rétt að vekja athygli á því helzta, sem fram kom í nál. hv. fjhn. Nd. og er samkvæmt áður sögðu forsendan fyrir þessu nál.

Það hafði í fyrsta lagi verið rætt í n., hvort, eins og segir í áliti n., með leyfi hæstv, forseta, „eigi væri sjálfsagt, að aðrir aðilar, svo sem t.d. samvinnusamtökin eða verkalýðssamtökin og samtök sveitarfélaga, yrðu og slíkra réttinda aðnjótandi, ef þau vildu koma upp banka á sama hátt og kaupmannasamtökin nú. Er það skoðun nm. og þingflokkanna, sem þeir eru fulltrúar fyrir, að þau réttindi, sem með þessu frv. eru veitt Verzlunarbankanum, skuli og veitt slíkum aðilum, ef þeir óska þess við svipuð skilyrði og hér um ræðir, og þá með samþykkt líkra laga og lagt er til í þessu frv.“

Í öðru lagi hafði það verið rætt í hv. fjhn. Nd., hvort þau réttindi, sem með þessu frv. eru veitt Verzlunarbankanum h/f, mættu gilda fyrir það hlutafélag, ef í það væri látið erlent fjármagn. Kom í ljós, að slíkt hefði ekki verið ætlun forráðamanna málsins. Var það sameiginleg skoðun nm. og ríkisstj., er n. hafði samráð við, að það væri forsenda þeirra réttinda, er frv. veitir, að þau gildi aðeins um íslenzkt fjármagn. Yrði því síðar meir breyting á þessu, þannig að erlent fjármagn kæmi inn í Verzlunarbankann h/f sem hlutafé, væru þær forsendur, sem nú eru fyrir frv., brostnar og nýtt viðhorf skapað.

Í þriðja lagi upplýsti hæstv. viðskmrh. það í fjhn. Nd., að hann mundi í fyrirhugaðri bankareglugerð kveða svo á, að þar sem bankinn nyti skattfrelsis, mundi honum gert að skyldu að birta reikninga sína opinberlega, eins og Verzlunarsparisjóðurinn raunar hefur jafnan gert fram til þessa, og að einn af endurskoðendum reikninga bankans yrði tilnefndur af ríkisstj.

Þetta eru þær forsendur, sem þessu nál. liggja til grundvallar.

Frv. þetta, ef að lögum verður, er að því leyti merk nýjung í bankalöggjöf landsins, að hér er um að ræða stofnun fyrsta íslenzka bankans, sem er alger einkabanki. Fyrir nokkrum árum var að vísu stofnaður Iðnaðarbankinn, eins og kunnugt er, þar sem einkaaðilar eiga meiri hluta hlutafjárins, en ríkissjóður á þó allt að því helming þess hlutafjár. Að mínu áliti gætu einkabankar átt mjög mikilvægu hlutverki að gegna í íslenzku þjóðfélagi. Nýlega hefur verið samþ. löggjöf hér á Alþingi, sem felur í sér afnám á þeim hömlum á fjárfestingu, sem verið hafa að undanförnu hér á landi. Það er mitt álit, að út af fyrir sig hafi þetta verið réttmæt ráðstöfun. En fyrir hinu má þó ekki loka augum, að meðan ríkisvaldið ræður öllum starfandi bönkum og stjórnum þeirra, verður það að verulegu leyti tómt mál að tala um frjálsa fjárfestingu, jafnvel þó að menn þurfi ekki að fá leyfi hins opinbera til hennar. Aðeins fyrir þá, sem eru það fjársterkir, að þeir geti lagt fram fé an þess að leita til banka, er slíkt frelsi raunverulegt. Allir aðrir verða að jafnaði að leita á náðir ríkisvaldsins eða fulltrúa þess um útvegun lánsfjár.

Nú er um það skoðanamunur milli okkar, sem að þessu áliti stöndum, í hve ríkum mæli hið opinbera skuli hafa eftirlit með og íhlutun um fjárfestingu og rekstur einkaaðila. Skal því sú hlið málsins ekki rædd hér, hver sé hin æskilegasta skipan þeirra mála. En eitt er að vera þeirrar skoðunar, að meira eða minna víðtæk opinber íhlutun um framkvæmdir og rekstur einkafyrirtækja sé nauðsynleg, annað að vera þeirrar skoðunar, að vald ríkisstj. yfir fjármagni landsmanna og ráðstöfun þess skuli vera svo algert sem verða hlýtur, ef allar lánastofnanir í landinu lúta henni. Um það mun samkomulag í báðum hv. fjhn. Alþingis, að nokkur dreifing valdsins í þessu efni sé æskileg, enda hlytu þeir, sem væru annarrar skoðunar í því efni, þá einnig að vera andvígir starfsemi allra lánastofnana, sem lúta ekki beinni stjórn ríkisvaldsins, svo sem sparisjóða, innlánsdeilda kaupfélaga o.s.frv. Efling einkabanka hér á landi, hvort sem þeir eru reknir í þágu einstakrar atvinnugreinar, svo sem banki sá, er nú á að stofna, eða t.d. af samtökum þeim, sem áður hefur verið minnzt á, svo sem samvinnufélögum, verkalýðsfélögum eða samtökum sveitarstjórna, er trygging fyrir því, að framkvæmdir eða rekstur, sem á lánsfé þarf að halda, geti þrifizt, enda þótt ekki finni náð fyrir augum þeirra fulltrúa ríkisvaldsins, sem skipa stjórnir ríkisbankanna hverju sinni. Ég tel þetta hagkvæmt bæði frá þjóðhagslegu sjónarmiði og einnig öfluga stoð lýðræðis í fjármálum.

Enda þótt ekki hafi verið önnur leið fær að þessu sinni en sú að stofna þennan banka með sérstakri löggjöf, er það persónuleg skoðun mín, og mæli ég þar ekki í umboði hv. meðnm. minna, að vinna beri að því, að hið fyrsta verði sett almenn löggjöf um einkabanka, skilyrði fyrir stofnun þeirra, starfsreglur, réttindi og skyldur, þannig að allir, er fullnægi settum skilyrðum fyrir rekstri banka, megi gera ráð fyrir því, að þeir fái leyfi til þess að reka þá starfsemi. Auðvitað liggur ekki í þessu, að æskilegt sé, að bönkum hér á landi fjölgi ótakmarkað, það yrði auðvitað að setja skorður við því með ákvæðum um lágmarksupphæð stofnfjár banka og öðru slíku í væntanlegri löggjöf. En um setningu slíkrar löggjafar verður auðvitað ekki að ræða, fyrr en nauðsynlegum undirbúningi undir hana er lokið, þannig að slíkt kemur ekki til meðferðar á þingi því, sem nú situr.