05.05.1960
Efri deild: 70. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (894)

149. mál, símahappdrætti Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Einn válegasti sjúkdómur, sem um getur, er lömunarveiki, og hefur það löngum verið svo, að lítil úrræði hafa verið til að fyrirbyggja hann eða ráða bót á afleiðingum hans. Þó hefur nokkuð rætzt úr nú hin síðustu ár um bólusetningu við þessari veiki, og enn fremur eru ýmiss konar ráðstafanir til þjálfunar og lækningar á sjúklingum komnar allvel á veg.

Fyrir nokkrum árum var stofnað hér á landi Styrktarfélag lamaðra og fatlaðra, og hafa forustumenn þess félagsskapar sýnt frábæran dugnað, fórnfýsi og framtak við að koma upp lækningastöð, sem þegar hefur gert mjög mikið gagn. Til starfsemi þessa félags þarf auðvitað mikið fé, og hafa ýmsar leiðir þar verið reyndar. Ein er sú að efna til símahappdrættis, og var það gert fyrst á árinu 1957. Þá voru samþ. hér í Alþ. lög um það, að vinningar í slíku happdrætti skyldu vera skattfrjálsir. Nú hefur félagið efnt að nýju til slíks símahappdrættis og óskað eftir því, að vinningar í því happdrætti skuli undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum nema eignarskatti. Á því er enginn vafi, að það mundi greiða mjög fyrir árangri af þessu happdrætti, ef Alþ. yrði við þessum óskum. Frv. það, sem hér liggur fyrir, fer fram á það, að slíkir vinningar í þessu happdrætti, sem nú er efnt til á árinu 1960, skuli undanþegnir hvers konar opinberum gjöldum nema eignarskatti. Frv. er sem sagt miðað við þetta eina símahappdrætti og bundið við árið 1960.

Ég vil eindregið beina þeim tilmælum til hv. alþm., að þeir styðji þetta nauðsynjamál. Ég legg til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.