06.05.1960
Efri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2538 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

149. mál, símahappdrætti Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. mun kunnugt, hefur Alþ. að undanförnu samþ. fríðindi svipuð þeim sem hér er um að ræða, til handa ýmsum happdrættum, sem rekin hafa verið í þágu málefna, sem talin hafa verið til almenningsheilla. Fjhn. hefur athugað þetta frv. og telur, að það happdrætti, sem hér er um að ræða, símahappdrætti Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, fullnægi þeim skilyrðum, sem eðlileg verða að teljast að fullnægt sé, til þess að þessi fríðindi séu veitt, og mælir því einróma með því, að þetta frv. verði samþ.