04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 147 í B-deild Alþingistíðinda. (90)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Umræðurnar, sem hér hafa farið fram um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði, hafa vakið á sér nokkra athygli að þessu sinni. Það var öllum ljóst, þegar komið var hingað til þings í haust, að litlar eða engar líkur væru fyrir því, að fjárlög yrðu afgreidd fyrir áramót. Það út af fyrir sig var ekki neitt nema það, sem við mátti búast, ef fjárlagaafgreiðslan átti að taka eðlilegan tíma og undirbúningur hennar væri með svipuðum hætti og verið hefur. Hins vegar hafði verið búizt við því, að 1. umr. fjárlaga færi fram, að því leyti sem hún fer fram, áður en málinu er vísað til fjvn., og fjárlagafrv. kæmi þangað, áður en þingi yrði frestað fyrir áramót.

Ég minnist þess í sambandi við umr., sem fram fóru í útvarpinu fyrir síðustu alþingiskosningar, að hæstv. fyrrv. fjmrh. lýsti því þá yfir, að hann mundi í byrjun þess þings, sem fram undan væri, leggja fyrir fjárlagafrv., eins og verið hefur. Það mundi verða greiðsluhallalaust og verða eins og fjárlagafrv. annarra ráðherra, merkilegt þingskjal, sem mundi verða farið með á sómasamlegan hátt, að maður ætlaði.

Ég verð að segja það, að ég hefði ekki trúað því, að ríkisstj., sem þessi hæstv. ráðh. á sæti í, mundi sýna honum þá óvirðingu varðandi fjárlagafrv., sem hann gekk frá og hafði lýst fyrir þjóðinni, að væri hið merkasta plagg og allir spádómar, sem fram hefðu komið í aðra átt, væru ósannir, falsspádómar, að ætla sér að taka þetta merkilega frv. og láta það í körfuna, eins og nú er boðað.

Því miður hefur það nú skeð í þingsögunni, í fyrsta sinn, að ég held, að enginn vill tala fyrir fjárlagafrv., sem fram hefur komið, og því er lýst hér yfir í hv. Alþingi, að það eigi síðar meir að leggja það í bréfakörfuna og annað eigi ekki með það að gera.

En þó að ekki væri gert mikið með þetta fjárlagafrv., sem hér var lagt fyrir í byrjun Alþingis, var þó fullkomin ástæða til þess að skýra hv. þingheimi frá því, hvernig fjárhagur ríkissjóðs stæði í dag og hvernig fjárhagur útflutningssjóðs stæði. Það nægir ekki hv. þingheimi, þó að hæstv. forsrh. hafi gefið þeim mönnum, sem í Varðarfélaginu eru, einhverjar skýrslur um þetta. (Forsrh.: Það var nú talið gott í gamla daga. ) Já, en þeir gömlu dagar eru liðnir hjá, og hæstv. forsrh. verður að fara að reyna að átta sig á því, að hinir nýju eiga að gilda.

Það, sem er því merkilegt við þetta, er það, að hér skuli eiga að fara að afgreiða heimild til ríkisstj. um fjárlagagreiðslur í byrjun næsta árs, án þess að nokkur grg. liggi fyrir um afkomu þessa árs og 1. umr. fjárlaga hafi verið hafin. Það er þetta, sem er hið sérstæða við það, sem nú er að gerast. Þessum vinnubrögðum höfum við í stjórnarandstöðunni verið að mótmæla hér undanfarna daga — og það ekki að ástæðulausu.

Því hefur verið haldið fram, að það þyrfti að gera þetta þinghlé m.a. til þess að bæta vinnuafköstin hér á hv. Alþingi. Því er nú svo varið, að það er til þess ætlazt í þingræðislandi, að hv. alþm., ekki aðeins ríkisstj., hafi áhrif á gerð þingmála. En til þess að það megi vera, þurfa þm. að vera viðstaddir, þegar um málin er fjallað og þau eru á undirbúningsskeiði. Það er öllum hv. þm. ljóst, sem hér hafa átt nokkra þingsetu, — að aðaláhrif á mál fara fram, meðan verið er að undirbúa þau, en ekki eftir að þau koma fram hér á hv. Alþingi. Þess vegna er það sama og að ætla þingmönnum það hlutverk eitt að samþykkja eða synja um afgreiðslu hér í hv. Alþingi, en ekki að hafa áhrif á mál, ef þeir eiga þá fyrst að koma hér til, þegar mál hafa verið undirbúin.

Það er annað, sem er í þessu, og það er það, að þeir þm., sem eiga heima úti á landsbyggðinni, búa hér við verri hlut en hinir, er hér eiga heima. Það þarf enginn að segja mér, að þó að hæstv. ríkisstj. ætli nú að gerast kannske allmikið einræðissinnuð, þá muni hún ekki kveðja til þá menn, sem hér eru búsettir í Reykjavík, þegar hún er að undirbúa mál. En það er útilokað, að það sé hægt að fara að kveðja til í þinghléi menn, sem eru búsettir norður í landi eða vestur eða austur á fjörðum. Þess vegna er það svo, að með þessum vinnubrögðum, sem hér eru viðhöfð, er verið að meina okkur, sem búum úti á landsbyggðinni, að hafa eðlileg áhrif á þingmál. Og svo er það nú einnig þannig, að það þurfa fleiri að fjalla hér um þingmál en stjórnarliðið. Þess vegna er með þessum aðgerðum hæstv. ríkisstjórnar verið að mismuna bæði stjórnarliði og stjórnarandstöðu, þeim, sem búa úti á landsbyggðinni, og þeim, sem eru búsettir hér, til áhrifa á þingmál.

Það vita allir, að þm. verða að hafa samstarf um undirbúning þingmála, ekki sízt þeirra, sem vandasamari eru, og þeir hafa ekki nein áhrif á gerð þeirra, nema þeir séu þá til kvaddir, þegar málin eru undirbúin.

Á s.l. vori ræddum við hér á hv. Alþingi um breytingu á kjördæmaskipun. Þungamiðjan í öllum þeim umræðum frá hendi beggja aðila var sú, hvort áhrif landsbyggðarinnar, þjóðarinnar í heild, yrðu meiri eða minni á gerð þingmála og meðferð þeirra. Þeir hv. þm., er stóðu fyrir þeim breytingum, héldu því fram, að áhrifin yrðu meiri eftir þessa breytingu, það væri sannari vilji þjóðarinnar, sem þá kæmi fram eftir en áður. Og hér er svo saman komið þetta þing, sem er kjörið meir í samræmi við þjóðarviljann en áður, eins og Morgunbi. orðaði það 20. nóv., og það þing á að senda heim strax í byrjun þess, án þess að það sé farið að inna af höndum nokkur þau skyldustörf, sem því ber að vinna í upphafi þings.

Þá er því nú haldið fram, að þingmenn hafi hér ekkert að gera núna, það séu engin verkefni fyrir þessu þingi, svo að það sé bara verið að draga úr áliti þess og stofna áliti þess í hættu með því að láta þá sitja hér. Ég hef nú lýst því, hvað það er mikil nauðsyn, að þingmenn hafi áhrif á gerð þingmála, ekki sízt þeirra, sem vandasamari eru. Til þess að svo megi verða, þurfa þeir að hafa möguleika til þess, og þá möguleika hafa þeir ekki, nema þeir sitji hér á hv. Alþingi. En það er nú svo, að auk þeirra starfa, sem ég nefndi hér áðan, eins og 1. umr. fjárlaga, og fleiri atriða, sem ég kem að síðar, þá liggja hér fyrir hv. Alþingi mörg merkileg mál.

Hér liggja t.d. fyrir tillögur í húsnæðismálum. Því var að vísu lýst yfir af jafnglöggum manni og hæstv. sjútvmrh., að það væri engin ástæða til fyrir Alþingi að vera að álykta um þetta, ríkisstj. mundi gera sitt bezta í málinu, hvað sem liði öllum ályktunum Alþingis. Ég verð að segja það; að ég varð undrandi í meira lagi, þegar ég heyrði þann skýra mann mæla svo. Ef það fer að verða álit ráðh., að það skipti ekki málí, hvað hv. Alþingi ályktar, þeir muni gera sitt, hvað sem því líður, þá er hér hætta á ferðinni.

En ég vil minna á það í sambandi við þetta mál, að ég og nokkrir aðrir þm. fluttum tillögu í fyrravetur í sambandi við húsnæðismálin. Sú till. náði hér ekki fram að ganga, og Alþingi fékk ekki að álykta um hana, því að þá var því haldið fram, að það væri verið að vinna að þessu máli í ríkisstj., hún hefði haft svo mikið að gera fyrstu dagana, þess vegna hefði hún ekki getað sinnt þessu máli. En hún mundi gera það, strax og tími gæfist til, og mundi leysa málið, hvað sem öllum ályktunum liði. Það hefur bara ekkert gerzt í málinu enn. Og það er fullkomin ástæða til þess fyrir hv. þm. að vita, hvað á að gerast í þessum málum, þegar þeir fara heim. Þeir verða spurðir um þetta, og þeir eru margir með ýmis erindi í sambandi við það fyrir það fólk, sem bíður eftir því, að úr þessum málum verði leyst. Og það er ekkert gaman að svara því einu til, að Alþingi hafi ekki einu sinni mátt lýsa vilja sínum í málinu.

Ég vil líka benda á það, að hér eru till. í samgöngumálum, þar sem m.a. kemur til með að hafa áhrif á fjárlagaafgreiðslu, hvort það mál verður samþ. hér á hv. Alþingi eða ekki. Það var því fullkomin ástæða til þess að fjalla um þetta mál.

Hér er líka till. um það, hvernig með skuli fara fjármál fiskveiðasjóðs. Þeir menn, sem þangað hafa átt erindi, vita það, að fiskveiðasjóður þarf að fá leyst úr sínum málum.

Hér er sem sagt fjöldi af málum, sem eru næg verkefni í byrjun þings. Og ég hygg, að það hafi oft verið byrjað hér á hv. Alþingi með minni verkefni en liggja fyrir nú, sem ekki er óeðlilegt, þar sem þetta þing er fyrsta þing að nýafstöðnum kosningum.

Þá er því haldið fram í sambandi við þingfrestunina, að höfuðástæðurnar séu tvær: Önnur hefur komið fram í blöðum stjórnarflokkanna, sem sé að draga úr kostnaði. Hin er sú, að ríkisstj. þurfi að fá vinnufrið.

Það þykir nú alltaf gott og fagurt að spara. Það var vikið að því áðan af hv. þm., sem talaði á undan mér, að hér er bara ekki neinn sparnaður á ferðinni. Það er vitað mál, að þm. halda kaupi sínu í mánuð, og það er líka vitað mál, að þennan mánuð, sem þeir þannig sitja, er þeim meinað að vinna að þingmálum, þó að þeir haldi sinu kaupi. Ég segi það sem mína skoðun, að það væri atburður, sem ég vona að hendi ekki hv. Alþingi, ef það færi að nota þennan stutta tíma til þess að gera það starfsfólk, sem hér er, kauplaust. Þetta fólk er búið að búa sig undir það að vinna hér þingtímann. Sú hefð hefur skapazt hér, að það hefur fengið kaup í þinghléi, og það á ekki möguleika á að koma sér í önnur störf. Ég treysti hæstv. forseta þessarar hv. d., ungum manni, til þess að láta það ekki henda sig, enda þótt ég verði að segja, að á þann bát hafi gefið, það traust, sem ég hef til hans borið, þá er ég það vel kunnugur honum og met hann það mikils, að ég treysti honum til að taka ekki þátt í því að fara að svipta starfsfólk þingsins launum fyrir nokkurra daga þinghlé.

Það mun því sýna sig, að þessi ráðstöfun, að fara að fresta þinginu nú, mun gera þinghaldið dýrara, en ekki ódýrara, þegar upp verður staðið. Það skal sannast, því að það þarf enginn að halda, að hv. þm. séu hér komnir til þess eins að sitja hér, en leysa ekki af höndum störf. Og þau störf þarf að vinna, þegar þingmennirnir koma til baka, fyrst þeir fá ekki að nota þennan tíma, sem þeir nú eru á kaupi, til þess að vinna að þeim.

Þá verð ég að segja það, að það er kaldhæðni örlaganna, að á fyrsta þingi, sem haldið er, eftir að þingmönnum hefur verið fjölgað hér verulega, skuli þeir, sem fyrir því stóðu, fara að tala um, að það sé sparnaður að senda þingið heim. Nei, þessi röksemd heldur ekki.

Þá er það um vinnufrið. Jú, það er ekki undarlegt, að hæstv. ríkisstj. þurfi frið til að geta unnið sín störf eins og aðrir menn. Ég verð að segja það, að mér hefur sýnzt hæstv. ráðherrar geta verið fjarri þingfundum í þessari ríkisstj. eins og öðrum, svo að það hefur ekki tafið störf þeirra, nema þau áhrif, sem þingfrestunartill. getur haft. Ég er sannfærður um það, að hæstv. ráðh. hafa eytt mestu af vinnutíma sínum undanfarna daga í að leggja niður fyrir sér, hvernig þeir ættu að komast fram hjá þingmönnunum, en þeir hafa ekki þann tíma verið að vinna að þjóðmálunum yfirleitt. Ég held, að það hafi yfirleitt verið svo, — og það er ekki nema eðlilegt, — að á fyrstu dögum þingsins séu þingfundir stuttir, og þess vegna hefðu ráðh. þeirra hluta vegna getað sinnt sínum störfum. Og eins og ég tók fram áðan, hafa þeir flestir verið fjarverandi. Ég tók t.d. eftir því í gær, að hæstv. landbrh. sat hér einn í mestallan gærdag. Og ég var farinn að velta því fyrir mér, hvort þetta væri nú þannig, að þessi hæstv. ráðh. væri hafður út undan í hæstv. ríkisstj., honum væri bara ætlað það hlutverk, að hann yrði að sitja hjá óbreyttum þingmönnum hér niðri í alþingishúsi, þegar hæstv. ríkisstj. væri að vinna að málum, sem e.t.v. þessi hæstv. ráðh. hefði ekki mátt fjalla um með þeim. Þess vegna gátu þeir gefið sér tíma til stjórnarstarfa vegna Alþingis.

En svo vil ég benda á annað. Það urðu hér stjórnarskipti í desembermánuði s.l. Sú hæstv. ríkisstj. tók við á Þorláksmessu. Hvað gerði hún? Hún kallaði saman hv. Alþingi fyrstu daga janúarmánaðar. Þurfti þessi ríkisstjórn kannske ekki að hafa vinnufrið? Það hefur kannske verið svo þá, að verkefnin væru svo lítil, að hún þyrfti þess vegna ekki að eyða í það eins miklum tíma og nú? En hér skýtur þá skökku við um margar yfirlýsingar, sem hér hafa verið gefnar í sambandi við það. Nei. þessi hæstv. ríkisstj. byrjaði sína daga þá með því að virða Alþingi það mikið, að hún kallaði það saman til funda strax eftir áramótin. Og hún vann sjálf, þó að Alþingi sæti. Því var þá ekki haldið fram, og það var ekki talið þá, að það væru frambærileg rök, að þessi

hæstv. ríkisstj. þyrfti að hafa vinnufrið og sá vinnufriður fengist ekki, meðan Alþingi sæti.

Þessi hæstv. ríkisstjórn tók þá við af vinstri stjórninni, sem hefur ekki alltaf verið talin góð, a.m.k. af hv. sjálfstæðismönnum. Hún þurfti a.m.k. að eyða vinnu í það að koma fyrir greiðsluafganginum, sem sú stjórn skildi eftir. Hún þurfti líka að eyða vinnu í það að lækka kaupið, sem Sjálfstfl. og sumir af hans liðsmönnum höfðu barizt fyrir að hækka um sumarið. Og fleiri störf leysti þessi stjórn af hendi. En allan þennan tíma lét hún Alþingi sitja hér að störfum. Hún gaf þingmönnum kost á að vinna að sínum málum, leggja fyrir Alþingi og taka þátt í þeim, bæði stjórnarsinnum sem andstæðingum. Og ég verð að segja, að það er þá eitthvað á annan veg en maður hefur heyrt, ef nú, þegar þessi ríkisstj., sem nú tekur við hreinum borðum, þarf að hafa meiri vinnufrið en aðrar ríkisstjórnir.

Þá vil ég líka minna á það, að hv. Alþfl.-menn lýstu því yfir í kosningunum, þar sem ég var þeim kunnugur, og ég held, að það hafi verið svo um land allt, að þeir mundu, þegar þeir færu að semja um stjórnarsamstarf, láta málefnin ein ráða. Það, hvernig málefnunum væri fyrir komið, væri sú niðurstaða, sem þeir mundu taka við stjórnarstefnuna. Og eigum við svo að trúa því hér á hv. Alþingi, að þessi ríkisstj. hafi orðið til, án þess að það hafi verið samið um málefnin, þegar því er yfir lýst, að það eru málefnin, sem ráða, með hvaða flokkum er unnið? Svo er því einnig haldið fram, að þessir flokkar hafi haft svo líka stefnuskrá, að það sé auðvelt fyrir þá að semja um sín mál, það taki minni tíma og minni fyrirhöfn. Og svo er farið að senda þingið heim í tvo mánuði til þess að fá vinnufrið, til þess að koma sér saman um málefnin, sem auðvitað var samið um, áður en stjórnin varð til. Nei, hér skýtur nokkuð skökku við.

Ofan á þetta bætist svo það, að Alþfl.-stjórnin sagði okkur í kosningunum, að afkoma ríkissjóðs væri góð, þar mundi enginn greiðsluhalli vera og engin vandræði á neinum sviðum. Um útflutningssjóð var okkur sagt það, að afkoma útflutningssjóðs væri nú betri en nokkru sinni fyrr.

Í grg., sem fylgdi frv. hæstv. fyrrv. ríkisstj. um útflutningssjóðslögin eða breytingu á þeim á þinginu 1959, í byrjun ársins, var það tekið fram, að útflutningssjóður væri nú búinn að greiða halla, sem væri 34 millj. frá árinu áður, og hefði 5 millj. í sjóði. Hér var því um 40 millj, kr. bætta afkomu á árinu að ræða. Og fyrst afkoman í ár er betri en nokkru sinni fyrr, er þá ástæða til þess, að það þurfi að eyða löngum tíma í að leysa þessi mál? Ég verð að segja það, að ég skil ekki, að svona lagað geti farið saman. Að vísu skal ég játa, að ég skildi ekki, hvernig þessi góða útkoma átti að verða til hjá útflutningssjóði, þegar við vorum að deila um það í kosningabaráttunni. En það var nú annar þáttur, og þeir, sem betur þóttust vita, héldu því fram, að það góða sneri upp, og þá er auðvitað að taka það, þangað til annað sannast. En svo kom bara hæstv. forsrh. á Varðarfundinn og sagðist nú þurfa að taka við vandræðamálum, sem erfitt væri að leysa, — en auðvitað tækist honum það.

Út af þessu tali og ekki sízt vegna þess, að það er höfuðskylda hverrar ríkisstj. að tala hér fyrir sínu fjárlagafrv. og gefa yfirlit yfir fjármál þjóðarinnar í byrjun hvers fjárlagaþings, þá bar auðvitað skylda til að gera það nú, ekki sízt þegar þar við bættist, að hæstv. forsrh., sem var að taka við, fer á fund í stjórnmálafélagi hér í bænum og lýsir ástandinu svo sem gert var þar.

Nei, hvernig sem þessu er velt fyrir sér, þá fær enginn mig til að trúa því, og hv. alþm. og þjóðin eru ekki svo glámskyggn að halda það, að ástæðan fyrir þingfrestuninni sé sparnaðarvilji í þinghaldinu eða það, að ríkisstj. sé að fá sér vinnufrið. Nei, það er allt annað, sem hér liggur á bak við, og hefur verið rakið hér að undanförnu. En kannske er einna stærsti bitinn í þessu öllu saman bráðabirgðalögin sælu.

Ég hygg nú, að þessi bráðabirgðalög eða sá atburður verði til þess að skýra nokkuð stefnu þeirra sjálfstæðismanna, hversu heilsteypt hún er í landbúnaðarmálum sem öðrum málum. Það, sem hefur nefnilega gerzt í sambandi við þetta mál, er það, að þeir sjálfstæðismenn eiga fulltrúa í framleiðsluráði, þeim hluta þess, sem kosinn er af bændunum. Þessi fulltrúi þeirra sjálfstæðismanna tók þátt í því að segja upp verðlagsgrundvellinum frá sjónarmiði bænda, og ábyggilega hefur Sjálfstfl. verið honum sammála um, að það skyldi gert. Þeir sjálfstæðismenn áttu líka fulltrúa í þeim hluta sex manna nefndarinnar, sem neytendurnir skipuðu. Sá fulltrúi þeirra sjálfstæðismanna tók þátt í því að segja upp verðlagsgrundvellinum frá sjónarmiði neytendanna, með samþykki Sjálfstfl. vafalaust. Þessi fulltrúi þeirra sjálfstæðismanna tók þátt í því að hætta störfum í sex manna nefndinni. Vafalaust hefur hann borið sig saman við Sjálfstfl. um það. Hæstv. forsrh. tilkynnti sjálfstæðismönnum, að ef þeir styddu ekki hæstv. ríkisstjórn jafnt eftir sem áður, þó að þeir gæfu út bráðabirgðalögin, þá gæfi hann þau ekki út, en segði af sér. Þá sögðu þeir sjálfstæðismenn: Blessaður, gefðu bara lögin út, það er allt í lagi. Við verjum ríkisstj. vantrausti, eins og við höfum áður ákveðið að gera.

Þeir héldu áfram, sjálfstæðismenn. Þeir gáfu jafnhliða út tilkynningu um það, að þeir mundu nú sjá um það, að sá réttur og sú greiðsla, sem hæstv. forsrh., Emil Jónsson, ætlaði að hafa af bændastéttinni og gerði með samþykki sjálfstæðismanna, það skyldu þeir sjálfstæðismenn sjá um, að bændurnir fengju, og það skyldi ekki standa á því, þegar þeir væru komnir á þing að nýafstöðnum kosningum. Svo var þetta ekki nóg. Það þurfti að gefa út fleiri yfirlýsingar. Sumir hv. þm. vildu fara að láta kalla saman Alþingi. Þá þurfti Sjálfstfl. að lýsa yfir á nýjan leik, og þá lýsti hann yfir því, að hann skyldi fella bráðabirgðalögin á Alþingi, þegar þau kæmu þangað strax eftir kosningar. En svo heldur sagan áfram, og það er mynduð ríkisstjórn. Og þegar hv. Alþingi kom hér saman, bjuggust hv. alþm. við því, að hér á borðunum mundu koma brbl. ríkisstj. Sjálfstfl. hafði lofað því, að það skyldi verða gengið vel og drengilega fram í því máli og engin hætta væri í málinu, nema ótætis framsóknarmennirnir brygðust, þeim væri ekki alltaf treystandi. En hvað gerðist þá? Komu brbl. fram? Nei, það kom á borð þingmanna till. um að fresta Alþingi. Hver haldið þið, að hafi verið höfuðtilgangurinn með frestuninni? Það var að komast fram hjá þessum hnút. Ég hef síðan heyrt, að hæstv. fyrrv. forsrh. hafi gengið svo myndarlega fram af sinni hendi í stjórnarsamningunum, að hann hafi beygt Sjálfstfl. í þessu máli til að sjá um það, að þessi mál kæmu ekki til afgreiðslu hér í þinginu a.m.k., fyrr en þau væru gengin sér til húðar.

Nú fóru að gerast mikil vandkvæði í þessu máli, því að ótætis stjórnarandstaðan fór nú að reyna að ybba sig og vildi fá stjórnina til þess að fara að lögum. Þá kom hér hæstv. landbrh. og sagði: Þið þurfið nú ekki að efa það. Yfirlýsingar sjálfstæðismanna standa, og hér verður farið að lögum. — Og svo heldur sagan áfram. Ýmsar sagnir hafa verið uppi um það, hvenær þetta frv. yrði lagt fram hér á Alþingi, en allar hafa þær hnigið í þá átt, að það mundi ekki verða gert, fyrr en séð væri, hvað liði um þingfrestunina, og eftir þjáninganóttina í nótt skeði það, að frv. kom á borð þingmannanna, enda mun nú nokkurn veginn tryggt, hvenær þingfrestunin verður. Þetta er nú að hafa heilsteypta stefnu, vera sjálfum sér samkvæmur og halda allt það, sem lofað er.

Þarna er hnúturinn, sem þeir í stjórnarliðinu hafa verið að fást við núna undanfarið. Ástæðan til þess, sem gerzt hefur hér s.l. viku, eru erfiðleikar á stjórnarheimilinu innbyrðis. Þess vegna er allt þetta brölt, öll þessi tilhneiging til þess að koma hv. Alþingi af sér. Og nú segir sagan, að fyrst ekki þótti ráð að koma hér á hv. Alþingi með frv. til laga um það, að 15. des. 1959 skyldi falla niður, þá verði bara gefin út brbl. um að framlengja brbl. um verðfestingu landbúnaðarafurða. Þetta eru síðustu fregnir, sem er af þessu að segja. Það væru nokkur tíðindi, ef hæstv. ríkisstjórn gæfi út brbl., nokkrum dögum eftir að hv. Alþingi er farið heim, og það er ekki undarlegt, þó að þeir hv. alþm. og sú hæstv. ríkisstj., sem hugsar sér að halda á málum á þann veg, telji dagana, þangað til hún geti losnað við hv. Alþingi. En hvort sem það tekst deginum fyrr eða seinna, þá breytir það ekki um verknaðinn, sem hér á að gera. Og hvað sem öllu liður um þessar sagnir, þá er eitt víst, að 15. des. kemur, fyrst hin leiðin þótti ekki fær, og þá er þetta mál óleyst og Alþingi á að vera farið heim, svo að það á ekki að vera viðstatt til þess að leysa úr þeim vanda, sem þá skapast. Við skulum vona, að það verði ekki á þann veg, sem spáð hefur verið. Þá taka framleiðsluráðslögin gildi, og nýtt verðlag verður ákveðið samkv. þeim. En merkilegt má það heita, ef hæstv, ríkisstj. hefur hugsað sér, að þannig yrði að farið, að hún hefði þá ekki hagað sínum vinnubrögðum á annan veg en hér hefur gerzt.

Ég gat um það hér í upphafi máls míns, að þetta Alþingi, sem hér er nú saman komið, væri talið af þeim sjálfstæðismönnum réttari mynd af þjóðarviljanum en fyrr, og ég lýsti því hér í gær, að þeir teldu samkomu þess sögulegan viðburð. Þegar á s.l. vetri var verið að ræða hér kjördæmamálið, sagði hæstv. núv. dómsmrh. þessi orð, með leyfi hæstv, forseta:

„Við skulum ekki dylja okkur þess, að einmitt á hinum síðustu árum hefur ískyggilega sótt í þá átt, að einhverjir aðilar hafi viljað taka til sín það vald, þau úrslitaáhrif í málefnum þjóðarinnar, sem Alþingi eitt á að hafa. Þetta hefur m.a. komið af því, að allir verða að játa, að Alþingi nú er og hefur ekki verið rétt mynd af þjóðarviljanum. Myndin er stórkostlega skekkt.“

Og síðar segir sami hæstv. ráðherra:

„Og það er þessi skekking myndarinnar af þjóðarviljanum, sem hefur átt ríkan þátt í því, að Alþingi hefur verið og er enn í bráðrí hættu um að missa úr höndum sér þau ráð yfir íslenzkum þjóðmálum, sem það verður að hafa og því ber að hafa, ef lýðræðið á að vera í heiðri haft.“

Þetta sagði þessi hæstv. ráðherra, sem nú stendur fyrir því, að þetta hv. Alþ., sem kjörið er samkv. því, sem hann sjálfur lagði til og taldi vera rétta mynd af þjóðarviljanum, skuli nú sent heim, það skuli ekki fá að starfa. En hv. Alþingi þarf einnig að gæta sín gegn þeim ríkisstjórnum, sem vilja taka til sín meira vald og meiri áhrif í málefnum þjóðarinnar, þeim málefnum, sem Alþ. á að ráða um. Það er vegna þess, sem við hér í stjórnarandstöðunni höfum á undanförnum dögum barizt gegn þeim áformum hæstv. ríkisstj. að þverbrjóta hér reglur og venjur, og það hefur nokkuð áunnizt, þó að það sé ekki svo sem þurft hefði. En hæstv. ríkisstj. á að gæta sín í því og hefur fengið nokkra ráðningu, svo að von er til, að hún sjái betur að sér, áður en hún leggur út í næsta leik.