17.05.1960
Efri deild: 79. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2543 í B-deild Alþingistíðinda. (916)

166. mál, tollvörugeymslur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Flestir Íslendingar kannast við fríhafnir, sem víða eru til í öðrum löndum. Þessar fríhafnir eru með margvíslegum hætti, misjafnlega víðtækar og ólíkar reglur, sem um þær gilda. En fríhöfnum og tollvörugeymslum er það sameiginlegt, að tilgangurinn er sá fyrst og fremst, að innflytjendur vöru þurfi ekki að greiða aðflutningsgjöld af henni strax við innflutninginn, heldur geti fengið frest á slíkum greiðslum og innt þessar greiðslur af hendi jöfnum höndum eftir því, sem varan er tekin úr fríhöfninni eða tollvörugeymslunni til endursölu eða annarrar notkunar. Enn fremur er það mjög algengt, að skipafélög, útgerðarfélög, flugfélög og aðrir þeir aðilar, sem annast flutninga, hvort sem eru vöruflutningar eða fólksflutningar, notfæri sér slíkar fríhafnir eða forðageymslur og fái keypt nauðsynjar sínar að meira eða minna leyti án tollgreiðslu.

Það var árið 1907, sem fyrst voru sett lög hér um tollvörugeymslur og tollgreiðslufrest. En hin síðari ár hafa þau lög ekki verið notuð, enda ástand hér á landi, bæði um samgöngur, um innflutningsmál og um aðflutningsgjöld í heild, gerbreytt á þeirri rúmlega hálfu öld, sem síðan er liðin.

Á síðustu tveim áratugum hefur oft verið rætt um það, að nauðsyn bæri til að koma nýrri skipan á þessi mál í líkingu við það, sem tíðkast í mörgum öðrum löndum. M.a. hafa samtök innflytjenda og þá fyrst og fremst Verzlunarráð Íslands margsinnis rætt þetta mál nú um hálfan annan áratug, gert ályktanir í því efni og áskoranir til ríkisvaldsins um nýja löggjöf og nýja skipan. Enn fremur hafa skipafélög og flugfélög óskað eftir möguleikum á slíkum tollvörugeymslum og forðageymslum. Árangur af þessum umr. og áskorunum varð sá, að haustið 1958 skipaði þáv. fjmrh. nefnd fjögurra manna, til þess, eins og segir í skipunarbréfinu, að athuga og gera till: um, hvort æskilegt sé að koma hér á landi á fót svonefndum frílager eða öðru þvílíku kerfi, sem tíðkast í nágrannalöndum vorum. Í n. áttu sæti þeir Sigtryggur Klemenzson ráðuneytisstjóri, Unnsteinn Beck tollgæzlustjóri, Hjalti Pálsson framkvæmdastjóri og Gunnar Ásgeirsson stórkaupmaður. Þessi nefnd lagði mikla vinnu í að kynna sér löggjöf um þessi málefni í nágrannalöndum vorum, vinna úr þeim gögnum og velja, hver skipan mundi bezt henta okkur hér á Íslandi. Niðurstaðan varð svo það frv., sem nú hefur verið lagt fyrir hv. Ed., um tollvörugeymslur, og skilaði n. þessum till. sínum í hendur rn. í janúarlok s.l. Síðan hefur verið unnið að því að athuga þetta frv. nánar. Í öllum meginatriðum er frv. lagt fram, eins og það kom frá n., en örfáar breytingar hafa á því verið gerðar og þá í samráði við nefndarmenn. Með frv. fylgir ýtarleg grg„ sem skýrir þetta mál, og vil ég aðeins fara hér nokkrum inngangsorðum til upplýsinga meginatriðum þessa máls.

Það hafa með hækkandi aðflutningsgjöldum á undanförnum árum og áratugum hér á Íslandi skapazt miklir erfiðleikar og vaxandi fyrir innflutningsverzlanir og iðnfyrirtæki að þurfa að leysa vörusendingar sínar úr tolli í einu lagi, í stað þess að taka þær til sín og greiða af þeim gjöld jafnóðum og vörurnar eru teknar til sölu eða vinnslu. Það mun ekki tíðkast í nágrannalöndunum, að innflytjendum sé skylt að greiða í einu lagi aðflutningsgjöld af heilum vörusendingum. En til þess að komast hjá því þurfa þeir að sæta vissum reglum og það ströngum reglum um geymslu og meðferð vörunnar, meðan hún biður tollafgreiðslu. Þessar reglur eru venjulega bundnar við það, að varan sé geymd í fríhöfn eða annarri tollvörugeymslu. Um sjálfar fríhafnirnar skal ég ekki ræða hér, þær eru langviðtækasta og frjálsasta formið á tollvörugeymslum. Þá er oft um það að ræða, að allstórt landssvæði, í rauninni heil höfn eða hluti af stórri höfn er tekinn til þessarar notkunar. Á þessu fríhafnarsvæði eru svo bæði vörugeymsluhús og jafnvel verksmiðjur, og gildir að sjálfsögðu um þetta strangt eftirlit. Undirbúningsnefndin telur ekki, að fríhafnir með þeirri skipan, sem á þeim er höfð annars staðar, henti okkur hér, og leggur því til, að nokkrar tegundir tollvörugeymslna séu hér heimilaðar með lögum. Fyrir utan innflutningsverzlanir og iðnfyrirtæki má nefna það, að kaupskip, sem eru í millilandasiglingum, eiga þess víðast hvar kost í hafnarborgum að fá keyptan neyzluforða og aðrar nauðsynjar tollfrjálst í fríhöfnum eða tollfrjálsum vörugeymslum. Og sama máli gegnir um flugvélar, sem fara um millilandaflugvelli. Oft er það, að skipa- og flugfélög erlendis eiga sjálf tollfrjálsar forðageymslur til að birgja skip sín og flugvélar vistum og öðrum nauðsynjum.

Eins og ég gat um áðan, hafa hin stærri skipafélög hér og flugfélög lengi leitazt við að fá að koma upp slíkum forðageymslum og sýnt fram á það með ljósum og sterkum rökum, að þeim væri mikið fjárhagslegt hagræði að því að kaupa nauðsynjar til farartækja sinna frá erlendum útflytjendum og koma þeim hérlendis í tollfrjálsa geymslu í stað þess að þurfa að skipta við miðlara í erlendum höfnum, eins og mjög hefur verið tíðkað, og gjaldeyrissparnaður ætti að verða verulegur af þessu. í þessu frv. er einnig gert ráð fyrir að koma á þeirri skipan, að kaupskipum og flugvélum verði þetta mögulegt.

Þá má í þriðja lagi geta þess, að nokkuð er orðið um það hér á landi og fer vafalaust vaxandi á næstu árum, að iðnaðarvörur framleiddar hér á landi séu fluttar út til sölu á erlendum markaði. Þá er það oft, meira að segja oftast, að heimilt er að endurgreiða aðflutningsgjöld af þeim hráefnum, sem notuð hafa verið til þessarar framleiðslu, og enn fremur innlent tollvörugjald, ef slíkt gjald hvílir á þess háttar framleiðslu. Nú er það svo, að þessar endurgreiðslur á tollum eða aðflutningsgjöldum af hráefnum og á tollvörugjaldi eru inntar af hendi, þegar varan er flutt úr landi. Hér er gert ráð fyrir því í þessu frv., eins og mjög er tíðkað erlendis, að slíkum innlendum framleiðsluvörum, sem eiga að flytjast út og seljast þar, megi koma í sérstakar geymslur, tollvörugeymslur, þar sem þær bíða útflutnings, en þá verði þessi gjöld endurgreidd iðnframleiðendum strax þegar varan er komin í slíka tollvörugeymslu, og er það að sjálfsögðu mikill hagur íslenzkum iðnaði að þurfa ekki að bíða endurgreiðslnanna, þar til framleiðslan hefur verið flutt úr landi, en það getur oft dregizt nokkuð og jafnvel verulega, eftir að varan er fullunnin.

Þá má enn geta þess, að viðkomuflutningur eða transit-flutningur á vörum og farþegum hefur mjög aukizt hér og fer einnig mjög vaxandi vafalaust á næstu árum. Samgöngum er nú orðið háttað þannig milli Íslands og annarra landa, að hugsanlegt er og líklegt, að hér megi reka milliríkjaverzlun í líkingu við það, sem lengi hefur tíðkazt í borgum og löndum, sem liggja að alþjóðlegum umferðarleiðum. Þar sem slíkir transit-flutningar tíðkast, hafa verið settar reglur um geymslu og tollmeðferð á aðfluttum vörum og útflutningsvarningi, sem miðaðar eru við þarfir þeirra atvinnugreina, sem í kjölfar slíkra flutninga sigla. Sýnist tímabært að taka upp slíkar reglur hér, og fjallar um það einn kafli þessa frv. Ég vil nefna það til skýringar þessu, að nú hin síðustu ár hefur sérstaklega verið mikið um transit-flutninga frá Danmörku til Grænlands um Ísland, og veldur það óþarfavinnu og fyrirhöfn hjá stjórnvöldum að þurfa að gefa út sérstök leyfi í sambandi við slíka transitflutninga hverju einstöku sinni og réttara að fá um það mál almennar reglur.

Það, sem er því aðalefni þessa frv., er það að setja reglur um tollvörugeymslur, þ.e.a.s. vörugeymslur, sem taka aðfluttar vörur til geymslu, án þess að þurfi að greiða gjöldin af þeim þegar í stað, og eftir því sem þær seljast eða eru teknar til vinnslu, þá verði aðflutningsgjöldin af þeim greidd. Í öðru lagi, að skipafélög og flugfélög eigi þess kost að koma sér upp forðageymslum fyrir erlendar vörur og geti tekið nauðsynjar sínar úr þeim jafnóðum og þessi farartæki þurfa á að halda, en þurfi ekki að eiga slík viðskipti við erlenda miðlara eða milliliði. Og enn fremur, eins og ég tók hér fram varðandi innlendar framleiðsluvörur, sem á að flytja út, að þær endurgreiðslur gjalda, sem þar er um að ræða, geti átt sér stað um leið og vörunni er komið í slíka tollvörugeymslu.

Í grg. þessa frv., á bls. 11, kafla V, er gerð ýtarleg grein fyrir ýmsum tegundum tollvörugeymslna: í fyrsta lagi fríhafnir, í öðru lagi frílagerar, í þriðja lagi transitlagerar eða flutninga- eða umhleðslugeymslur og í fjórða lagi svonefndir provianterings frílagerar eða tollfrjálsar forðageymslur.

Þetta frv. er um tollvörugeymslurnar sniðið aðallega eftir sænskum og dönskum fyrirmyndum og þeirri reynslu, sem fengizt hefur í þeim löndum í þessum málum.

Í þessu frv. eru í I. kafla reglur um almennar tollvörugeymslur, og þar er gert ráð fyrir því, að heimilt sé að ákveða, að tollgæzlan stofni og reki almennar tollvörugeymslur á höfnum, þar sem þess þykir þörf og húsakynni og aðrar aðstæður eru til að reka slíkar geymslur. Enn fremur er í 1. gr. veitt heimild til þess að leyfa sveitarfélögum, félögum og einstaklingum að koma á fót og reka almenna tollvörugeymslu. Í 3. gr. segir svo nánar um það, að innflutningsverzlanir, iðnrekendur, útgerðarfyrirtæki og aðrir, sem svipaðra hagsmuna hafa að gæta, geti komið vörum í tollvörugeymslur án undanfarandi greiðslu tolla og annarra aðflutningsgjalda. Enn fremur er það ákveðið sem almenn regla, að vöru, sem sett hefur verið í almenna tollvörugeymslu, skuli tollafgreiða endanlega innan eins árs, frá því að hún kom til landsins, nema ástæða þyki til að samþykkja lengri frest. Í 4. gr. segir svo um tryggingar þær, sem setja skuli ríkissjóði, og í 5. gr. nánari reglur um þær innflutningsskýrslur og þær aðrar upplýsingar, sem afhenda skuli tollstjóra til öryggis í þessum efnum.

II. kafli frv, fjallar svo um tollfrjálsar forðageymslur. Þar er gert ráð fyrir, að skipaútgerðir og flugfélög geti fengið heimild til þess að geyma vistir, útbúnað og annan forða fyrir þau farartæki í sérstökum geymslum án greiðslu aðflutningsgjalda. Slíkar geymslur eru algengar erlendis, en hingað til hafa hérlend skipafélög orðið að kaupa vistir, varahluti og annan forða hjá erlendum skipamiðlurum, þar sem skip er statt hverju sinni, við verði, sem oft er stórum hærra en ef skipt er beint við framleiðanda eða útflutningsverzlun í framleiðslulandinu, og er því augljóst hagræði að því að geta keypt þessar vörur á hagkvæmustu verði án óþarfrar milligöngu, auk þess sem við þetta sparast erlendur gjaldeyrir. Í II. kafla eru svo ýtarleg ákvæði og allströng, bæði í 9. og 10. gr., um það, hverjar kröfur skuli gera til þeirra húsakynna, sem geyma á slíkar vörur í.

Í III. kafla segir, að ríkisstj. sé heimilt að reka verzlanir með tollfrjálsar vörur í flugstöðvum á Reykjavíkurflugvelli og Keflavíkurflugvelli, þar sem farþegum í milliandaferðum er gefinn kostur á að kaupa tollfrjálsar vörur, en þetta fyrirkomulag er þekkt á ýmsum flugvöllum í Evrópu. Nokkur reynsla er þegar fengin af slíkum tollfrjálsum verzlunum, eftir að slík verzlun var sett á stofn á Keflavíkurflugvelli samkv. lögum frá 1958. Rekstur þeirrar verzlunar hefur gefið góða raun. Í sambandi við þessar verzlanir er nauðsynlegt að reka tollfrjálsar geymslur og því eðlilegt, að ákvæði um þessar verzlanir sé tekið upp í þetta frv., og um það fjallar III. kafli frv„ auk nokkurra frekari ákvæða.

IV. kaflinn fjallar svo um flutningageymslur eða transit-geymslur, sem víða erlendis eru mikill atvinnuvegur, en hafa til skamms tíma verið lítt þekktar hér á landi. Þessir flutningar hafa verið leyfðir sem undantekning frá venjulegum reglum um tollmeðferð á aðfluttum vörum með stjórnarráðsleyfi hverju sinni. Eins og ég gat um, hafa þeir flutningar farið nokkuð í vöxt, sérstaklega í sambandi við flutninga til Grænlands. En það er of þunglamalegt að þurfa að sækja um stjórnarráðsleyfi hverju sinni fyrir slíkum flutningum, og hins vegar vantar hér aðstöðu til að koma við öruggu eftirliti með þeim. Með þessum ákvæðum í IV. kafla frv. er opnuð leið til að auðvelda þessa flutninga, en með því skilyrði, að viðkomandi skipa- eða flugfélög leggi til húsakynni, þar sem hægt er að geyma vörurnar undir tryggu eftirliti.

Í V. kafla eru svo ýmis nánari ákvæði um framkvæmd laganna, refsiákvæði o.fl.

Ég vil láta þessi orð nægja til skýringar þessu frv., en ég ætla, ef það verður að lögum, og það er ósk ríkisstj., að það náist samkomulag um að gera frv. þetta að lögum á þessu þingi, þá gæti það orðið til verulegra hagsbóta fyrir íslenzku þjóðina í heild á margvíslegan hátt, bæði sparað gjaldeyri og leitt til hagkvæmari innkaupa á varningi í ýmsum greinum. Á því er enginn vafi, að ef slíkar tollvörugeymslur væru til, mundu innkaup geta farið fram í miklu stærri stíl og það gæti svo haft í för með sér ódýrari og betri vörukaup. Enn fremur mundu stærri vörukaup væntanlega stuðla að því, að öruggari birgðir væru til í landinu. Enn má geta þess, að um ýmsar vörur er svo háttað, að á vissum árstímum er hægt að fá hagkvæmari kaup á þeim en öðrum, og slíkir möguleikar eins og þeir, sem þetta frv. skapar, mundu þá gera innflytjendum kleift að kaupa inn þær vörur í allstórum stíl á þeim tíma, sem hagkvæmast væri á erlendum markaði, og geyma þær hér síðan í slíkum tollvörugeymslum og greiða af þeim aðflutningsgjöld eftir því, sem þyrfti að nota þær, í stað þess að það er nú mjög oft, að innflytjendur hafa ekki fjárhagslegt bolmagn til slíkra stórra innkaupa á hentugustu tímum, þar sem greiða þarf auk verðs og flutningsgjalda öll aðflutningsgjöld, um leið og varan kemur til landsins. Fyrir skipaflota landsmanna og flugflota ætti þetta einnig að verða til góðs, og þessi farartæki gætu þá flutt heim til Íslands þann verzlunarágóða, sem er samfara slíkum skiptum eða kaupum þessara farartækja á þeirra nauðsynjum.

Ég vænti þess, að þetta frv., sem mér virðist að sé mjög vel og vandlega undirbúið af þeirri n., sem um það fjallaði, fái góðar undirtektir í þessari hv. d:, og legg til, að því sé vísað til 2. umr. og fjhn.