28.05.1960
Neðri deild: 90. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2549 í B-deild Alþingistíðinda. (927)

166. mál, tollvörugeymslur

Frsm. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, frv. til l. um tollvörugeymslur o.fl., á þskj. 495, hefur verið til athugunar í fjhn. hv, d. Á þeim eina fundi, sem málið var rætt á, voru allir nm. mættir nema hv. 3. þm. Reykv., sem var fjarverandi. Auk nm. sátu þennan fund þeir ráðuneytisstjóri Sigtryggur Klemenzson og herra Unnsteinn Beck tollgæzlustjóri, og þeir veittu nm. ýmsar upplýsingar varðandi efni frv. Allir viðstaddir nm. voru á einu máli um að mæla með, að frv. þetta yrði samþ.

Í frv. þessu felast töluverð nýmæli, sem ættu að geta orðið til úrbóta og hagræðis við tollafgreiðslu vara. Að vísu voru hér lög til frá árinu 1907, nr. 53, um tollvörugeymslur, en þau náðu aðeins til fárra vöruflokka og máttu teljast úrelt orðin. Á síðari árum hefur hins vegar vaknað allmikill áhugi meðal kaupsýslumanna og framleiðenda og flutningafélaga hérlendis um, að komið yrði upp fríhöfn eða a.m.k. einhvers konar tollvörugeymslu. Mun fyrst hafa verið vakið máls á þessu efni á aðalfundi Verzlunarráðs Íslands árið 1944. En í septembermánuði árið 1958 skipaði þáv. fjmrh. nefnd til þess að undirbúa málið, og mun frv. það, sem hér liggur fyrir, vera í samræmi við till. þeirrar nefndar.

Meginefni frv. er það, að ríkið getur ýmist sjálft eða heimilað öðrum að setja upp almennar tollvörugeymslur, tollfrjálsar forðageymslur, tollfrjálsar verzlanir eða flutningageymslur. Allt ætti þetta að geta verið til hagræðis fyrir atvinnulífið í landinu. Innflytjendum og raunar neytendum líka er það mikil hagsbót, ef gerð eru stórinnkaup á vörum á þeim tíma árs, þegar verð þeirra kann að vera lægst, en þurfa síðan ekki að greiða aðflutningsgjöld af vörunum fyrr en eftir hendinni, eftir því sem sala þeirra fer fram. Iðnframleiðendum eru það og þægindi að geta framleitt vörur til útflutnings og látið þær í tollvörugeymslu og fengið þá endurgreiddan framleiðslutoll og aðflutningsgjöld af hráefnum, sem í vörurnar fóru. Skipafélögum og flugfélögum ættu tollfrjálsu forðageymslurnar að vera til stórbóta og ýta undir, að þessi félög flytji innkaup sín á ýmsum vörum heim til Íslands, en kaupi vörurnar ekki erlendis, eins og svo mjög hefur tíðkazt að undanförnu. Og að lokum er ekki ótrúlegt, að flutningageymslurnar gætu orðið smávísir að þeirri fríhöfn, sem vonandi á einhvern tíma eftir að rísa upp í Reykjavík, því að enn er svo að sjá, að flutningar á sjó muni um ófyrirsjáanlega framtíð vera ódýrustu flutningarnir, og þá sýnist lega Íslands á alfaraleið milli tveggja heimsálfa vera sérlega vel fallin til þess að verða með fríhöfn bækistöð mikillar og blómlegrar millilandaverzlunar.

Að öllu málinu athuguðu telur fjhn. d. því, að með þessu frv. sé spor stigið í rétta átt, og mælir með því, að það verði samþykkt.