31.03.1960
Efri deild: 52. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2550 í B-deild Alþingistíðinda. (933)

106. mál, ferskfiskeftirlit

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það hefur nú um alllangt skeið verið kunnugt, að gæðum okkar aðalútflutningsvöru, fisksins og fiskafurðanna, hefur hrakað allverulega á síðustu árum. Íslenzki fiskurinn var í miklu áliti fyrir nokkrum áratugum. Hann var gæðavara, sem auðvelt var að vinna markaði, og hann vann á í samkeppni við keppinauta okkar. Það er þess vegna þeim mun hörmulegra, að þróunin hefur gengið í þá átt, að þessum gæðum hefur hrakað svo mjög sem raun ber vitni um. Að hér sé um mjög þýðingarmikið tjón að ræða, má marka af ýmsum tölum, sem ég hef um þetta fengið, en eru svo hatrammlegar, liggur mér við að segja, að það er næstum því að maður kinoki sér við að nefna þær. Ég skal t.d. taka saltfiskinn, sem, eins og ég sagði í upphafi, var slík gæðavara fyrir nokkrum áratugum, að það var mjög auðvelt að selja hana og hún var á góðum vegi þá með að vinna okkur alla þá markaði, sem mögulegir voru. En samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið um saltfiskframleiðsluna á árinu 1959, á s.l. ári, kemur í ljós, að af því magni, sem flutt var út frá ársbyrjun þess árs og til 10. nóv. 1959, voru aðeins 361/2 % í fyrsta gæðaflokki, í öðrum gæðaflokki voru 34.1% og í þriðja gæðaflokki hvorki meira né minna en 23.2%. Þegar þessar prósentutölur eru lagðar saman, vantar enn talsvert í hundraðið, og er af því ljóst, að nokkur hlutinn hefur verið fyrir neðan það að vera flokkaður í þriðja flokki. Hversu gífurlega þýðingu þetta hefur, má t.d. marka á því, að verðmunurinn á 3. og 2. flokki er í kringum 11.6% og verðmismunurinn á milli 1. og 2. gæðaflokks er í kringum 10.4%, þ.e.a.s. að verðmismunurinn á 1. og 3. gæðaflokki, ef við tökum þá tvo, er talsvert mikið yfir 20% , og liggur í augum uppi, þegar hér er um útflutning að ræða, sem nemur hundruðum millj, kr., hversu gífurlegt tap það er fyrir landið og þjóðina, að flokkunarhlutföllin skuli vera þau, sem ég hef hér nefnt. Um skreiðina hef ég ekki fyllilega sambærilegar tölur, en ég hef þó fengið að vita frá áreiðanlegum heimildum, að af framleiðslunni 1959, skreiðarframleiðslunni, hafi milli 20 og 25% farið í það, sem þeir kalla úrkast, sem hvergi er söluhæft nema í gúanóverksmiðjur. Til dæmis um það, hvernig þetta hlutfall var áður, hef ég fengið upplýsingar um árið 1945 frá einum framleiðanda, sem framleiddi þá 160 tonn af skreið, en úr þessum 160 tonnum af skreið komu þá ekki nema 1200 kg af úrkasti, þ.e.a.s. hlutfallið var þá innan við 1%, sem nú er komið upp í milli 20 og 25%. Þetta eru svo hræðilegar tölur, að maður, eins og ég segi, kinokar sér við að nefna þær, og tjónið. sem þjóðin verður fyrir vegna þessarar þróunar og þessa ástands, er orðið svo mikið, að það má ekki lengur láta kyrrt liggja. Ég hef ekki tölur um hraðfrysta fiskinn, en það er mér þó kunnugt um, að kvartanir hafa komið um gæði þeirrar vöru og jafnvel að sendingum, sem sendar hafa verið til útlanda, hafi verið kastað og ekki fengizt fyrir þær neitt verð. Á öllum þessum sviðum hefur þess vegna orðið sú öfugþróun, að menn hafa nú um nokkurt árabil verið nokkuð áhyggjufullir yfir því, hvert þetta mundi leiða.

Íslenzki fiskurinn í sjónum er ein sú mesta gæðavara, sem hægt er að hugsa sér, og gæði íslenzka fisksins eru meiri og betri en hjá flestum af keppinautum okkar. Þetta lélega ástand á söluvarningnum, sem ég hef nú nefnt, er þess vegna ekki hráefninu að kenna, eins og það er, áður en veiðin fer fram, heldur er þetta ástand því að kenna, hvernig með fiskinn er farið, frá því að hann er veiddur og þangað til búið er að fullvinna hann.

Í fyrsta lagi hafa menn séð það, að nokkur hluti af ástæðunni fyrir þessu ófremdarástandi liggur í veiðiaðferðinni. Það er nú miklu meir en áður var lagt upp úr því að koma með mikið magn á land, en minna hirt um hitt, að varan sé góð. Er þar talin muna mestu sú þróun, sem orðið hefur yfir í miklu meiri netaveiði en áður var og þá nýju tegund neta, sem nú er notuð, nælonnetin, sem gerir það að verkum, að fiskurinn fari verr í þeim en í hampnetunum og baðmullarnetunum áður. En aðalvandræðin munu vera í því fólgin, að netaveiddi fiskurinn er ekki tekinn á land í mörgum tilfellum fyrr en hann er orðinn tveggja nátta gamall og í sumum tilfellum eldri. Þetta hefur gert það að verkum, að ástand fisksins, sem komið hefur verið á land, hefur verið fyrir neðan það í mörgum tilfellum, að fiskurinn væri nothæfur til vinnslu.

Fyrir viku birtust í blöðunum hér í höfuðstaðnum mjög athyglisverðar fregnir af þessu ástandi með stórum fyrirsögnum, og ég skal leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa eina eða tvær af þessum fréttagreinum, sem blöðunum bárust um þetta ástand í sumum veiðistöðvum.

Í Morgunblaðinu 23. þ.m. birtist grein með svo hljóðandi fyrirsögn: „Fiskurinn er óhæfur til vinnslu í fyrstihúsunum“ — og síðan segir áfram í greininni:

„Alvarlega horfir nú í frystihúsunum hér á staðnum,“ (það er í einni verstöð hér nærlendis) „og er ekki annað sýnna en að bráðlega nálgist stöðvun á vinnslu fisks þar. Nú um helgina, laugardag, sunnudag og mánudag, hafa um 580 lestir fisks borizt á land. Úr þeim hafa verið tíndar 42 lestir, sem hæfar hafa verið til vinnslu í frystihúsunum, hitt hefur farið í herzlu og lítils háttar saltað“ þ.e.a.s. 42 lestir af 580 eða í kringum 8% og þó tæplega það reyndust vinnsluhæfar. Síðan segir áfram í greininni: „Þetta stafar af því, að í land kemur ekki annað en tveggja og þriggja nátta fiskur, þar sem bátarnir eru með fleiri net en þeir komast yfir að draga á sólarhring. Hefur þetta margvíslegar afleiðingar og veldur ófyrirsjáanlegu tjóni. Í fyrsta lagi missir á þriðja hundrað manns, sem vinnur í frystihúsunum, að verulegu leyti atvinnu sína. Í öðru lagi fæst miklu minna verð fyrir þann hluta aflans, sem ekki er unninn í frystihúsunum. Að ógleymdu því atriðinu, sem þó er að líkindum alvarlegast, að hráefnið, sem þó er unnið úr, er svo hæpið, að markaðsmöguleikarnir eru í stórri hættu“.

Þetta var grein, sem birtist í Morgunblaðinu 23. marz s.l. Síðan kemur einum eða tveimur dögum síðar viðtal við framkvæmdastjóra Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, sem segir um þetta, að ástandið á þessum stað, sem fyrri greinin talaði um, væri því miður ekkert einsdæmi. Í verstöðvum hér við Faxaflóa er ástand netafisksins mjög víða jafnslæmt og jafnvel verra en á þessum stað. Hér er um slíkt stórmál að ræða, að það hlýtur að snerta afkomu þjóðarinnar, ef ekki tekst að spyrna við fótum. Þetta sagði framkvæmdastjóri Sölumiðstöðvarinnar í annarri blaðagrein um þetta mál.

Það er því alveg greinilegt og hefur verið nú um nokkurt skeið, að það verður eitthvað að gera til þess að kippa þessu í lag. Það verður að gera kröfur til þess, að sá fiskur, sem veiddur er, sé ekki eyðilagður í meðförunum, hvorki með veiðitækjunum, sem hann er veiddur í, ekki af skipunum eða skipverjunum, sem veiða hann, og ekki heldur af vinnslustöðvunum, sem fá aflann til meðferðar, þegar hann er kominn í land. Þó að ég hafi nefnt hér, að nokkuð af sökinni og kannske talsvert mikill hluti af sökinni liggi í því, að hér er um að ræða fisk, sem legið hefur dauður í netum tvo eða þrjá sólarhringa, þá eru hér vissulega mörg fleiri atriði, sem til greina koma. Meðhöndlun fisksins hefur á ýmsan hátt ekki verið eins og hún ætti að vera eða talið er að hún gæti bezt verið, og skal ég í því sambandi nefna t.d., að það hefur skort á víða, að blóðgun á fiskinum færi fram eins og þyrfti, í öðru lagi, að fiskurinn hafi verið stunginn meira en æskilegt hefði verið, og ýmislegt þess háttar, sem kemur þar til greina. Það hefur líka verið á það bent, að æskilegt væri, að fiskurinn, áður en hann kemur í land, jafnvel hvort sem hann er tekinn að landi að kveldi eða síðar, þá væri hann ísaður og betur með hann farið en nú tíðkast, jafnvel þó að um stuttan tíma sé að ræða frá því að hann er veiddur og þangað til honum er landað.

Þetta allt saman eru svo ísjárverðir hlutir, að það er tæpast hægt að komast hjá því að gera einhverjar ráðstafanir til þess að bæta hér úr. Hugsunin um að auka magnið á kostnað gæðanna er orðin svo rík, að það er ekki hægt að láta hana fara fram hjá sér, án þess að einhverjar ráðstafanir verði gerðar.

Ég skal ekki frekar ræða um ástandið eins og það er, þó að ýmislegt fleira mætti um það segja. En ég skal aðeins í framhaldi af þessu geta þess, að í sept. 1958 var skipuð n. til þess að athuga þessa hluti og gera tillögur til úrbóta. Eins og segir í skipunarbréfi n. 15. sept. 1958, var verkefni hennar að athuga gaumgæfilega, hvort rétt sé að taka upp mat á nýjum fiski, hvernig því yrði við komið, kostnað við framkvæmd þess og hvaða aðilar eigi að bera kostnaðinn. Það er sjálfsagt alveg rétt, sem ýmsir hafa haldið fram, að þess sé tæpast að vænta, að á þessu verði ráðin nein varanleg og veruleg bót, fyrr en gerður sé munur á verði hins góða fisks og hins lélega fisks. Á meðan sjómennirnir eða útgerðarmennirnir fái sama verð fyrir aflann, hvort sem þar er um að ræða úrvalsvöru, gæðavöru eða lélega vöru, þá sé þess tæpast að vænta, að bót fáist á ráðin. Þess vegna hefur þeirri skoðun verið að vaxa fylgi upp á síðkastið, að það beri að flokka fiskinn og greiða hann í hlutfalli við eða í samræmi við gæði hans, sem hefur ekki verið gert til þessa.

Þessi nefnd, sem skipuð var í sept. 1958, kom upp í samráði við fyrrverandi ríkisstj. nokkru eftirliti í tilraunaskyni, sem starfaði á vertíðinni 1959 í flestum verstöðvunum hér á Suðvesturlandi a.m.k. Umsjónarmaður þessa eftirlits var svo kostaður af ríkissjóði, en eftirlitsmennirnir aðrir, sem framkvæmdu eftirlitið, voru kostaðir af sölusamtökum fiskframleiðendanna, Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna annars vegar og af Landssambandi ísl. útvegsmanna hins vegar, enda hljóta náttúrlega báðir þessir aðilar að hafa mjög ríkan áhuga á því að fá þessu máli kippt í betra horf. Árangurinn af þessu eftirliti varð nokkur. Hann var að verulegu leyti fólginn í fræðslu, bæði yfirmanns eftirlitsins og annarra, um meðferð á fiskinum og einnig í því að gera mönnum, sem með hann höndluðu á stöðunum, grein fyrir þeirri hættu, sem yfir vofði, ef þessum málum væri ekki gefinn nægilegur gaumur. Á grundvelli þessa tilraunaeftirlits, sem fram fór á vertíðinni 1959, og eftir nánari athugun á málinu skilaði n. síðan áliti um áramótin síðustu og gerði upp, hvað hún vildi leggja til að gert yrði. Þessar till. n, eru birtar sem fskj. með frv., og skal ég ekki rekja það, — hv. dm. geta þar séð, hvað n. hefur lagt til í því efni, — en á grundvelli þeirra tillagna hefur svo sjútvmrn. samið það frv., sem hér liggur fyrir.

Í þessu frv. er lagt til, að komið verði á fót stofnun, sem annist eftirlit með meðferð og gæðum nýs og ísaðs fisks, sem landað er til vinnslu, frá því að fiskurinn kemur í skip og þar til hann er tekinn í vinnsluna. „Ferskfiskeftirlitið skal framkvæma gæðaflokkun á fiski, sem ætlaður er til vinnslu, þegar tímabært þykir,“ stendur í frv., en af ýmsum ástæðum er ekki gott að setja tímatakmörk um þetta, heldur verður að fara að þessu gætilega, á meðan þessi breyting er að komast á. Síðan er í frv. gerð grein fyrir því, hvernig yfirstjórn þessa ferskfiskeftirlits skuli skipuð, og segir um það í 3. gr., að þar skuli vera fulltrúar Landssambands ísl. útvegsmanna, Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna, skreiðarframleiðenda, fulltrúi S.Í.F. og ýmsir aðrir aðilar, sem þar eiga hlut að máli. Enn fremur er sjómönnum ætlað að eiga þar einnig hlut að og framkvæmdastjórnum viðskiptabankanna, sem veita útgerðarmönnum og fiskframleiðendum lán til starfsemi sinnar. Enn fremur er gert ráð fyrir, að fiskmatsstjóri verði í þessu eftirlíti og forstöðumaður rannsóknarstofu Fiskifélags Íslands, sem hefur verið eiginlega, að segja má, prímus mótor í öllum þessum athugunum og stjórnað þeim tilraunum, sem gerðar hafa verið á þessu sviði. Þessu fiskmatsráði, sem hefur verið lagt til að það verði nefnt, er síðan ætlað að endurskoða á næstu árum öll lög og reglugerðir viðvíkjandi mati, að úrskurða ágreining, sem rísa kann vegna framkvæmdar þess, og vinna að aukinni fræðslu um fiskverkun og meðferð afla og skipuleggja hvers kyns áróður til þess að auka skilning á og tilfinningu fyrir vöruvönduninni, og að lokum að skipuleggja í samvinnu við rannsóknarstofu Fiskifélags Íslands og láta framkvæma tilraunir og rannsóknir, er miða að bættri meðferð sjávaraflans. Kostnaðurinn við þessa starfsemi er ætlazt til að verði greiddur af sjóði, sem sé í vörzlu fiskmatsráðs, er fái tekjur sínar af útflutningsgjaldi af sjávarafurðum, sem nemi 10/00 af fob-andvirði þeirra.

Ég tel, að hér sé um svo þýðingarmikið og merkilegt mál að ræða, að það verðskuldi hina fyllstu athygli allra hv. alþm., og ég er víss um, að það er í samræmi við óskir bæði útvegsmannanna sjálfra og þeirra, sem að fiskvinnslustöðvunum standa, að hér verði tilraun gerð, svo að ég orði það nú ekki ákveðnar, til þess að reyna að komast út úr því ófremdarástandi, sem við erum nú að komast í og þegar komnir í að nokkru leyti í þessum málum öllum. Sú afturför, sem hér hefur átt sér stað, er beinlínis óhugnanleg, og ef svo heldur áfram sem horfir í þessu efni, án þess að nokkuð verði að gert, þá er að mínu viti stefnt í algert óefni.

Ég held, að ef allir aðilar, sem nefndir hafa verið til í þetta fiskmatsráð, til þess að stjórna ferskfiskeftirlitinu, koma sér saman og sýna af heilum hug viðleitni í því að reyna að bæta hér úr, þá væri talsvert að gert til þess að koma þessum málum í betra horf og að það væri a.m.k, stungið við fótum og tilraun gerð til þess að koma nauðsynlegum breytingum á.

Ég skal svo ekki hafa um þetta fleiri orð. Öllum hv. dm. er þetta mál sjálfsagt að meira eða minna leyti kunnugt, bæði af viðtölum við þá, sem um þessi mál hafa mest fjallað, útvegsmennina og þá, sem að vinnslustöðvunum standa, og þess vegna ekki nauðsynlegt að rekja það hér frekar, en ég vil vænta þess, að sú hv. n., sem málið fær til meðferðar, kynni sér hjá þessum aðilum, hvernig málin standa og á hvern hátt væri æskilegast úr að greiða. Ég held þó, að þetta frv., sem hér er lagt fyrir og byggist á till. nefndarinnar, sé rétt byrjunarspor í þessu máli og þess vegna berí að lögfesta það sem fyrstu tilraun til þess að koma lagi hér á.