12.05.1960
Efri deild: 75. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2555 í B-deild Alþingistíðinda. (935)

106. mál, ferskfiskeftirlit

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. til laga um ferskfiskeftirlit, sem hér er til 2. umr., hefur um nokkurt skeið verið til athugunar hjá sjútvn. hv. deildar. N. sendi málið til umsagnar ýmsum aðilum, sem hún taldi að það snerti sérstaklega, bæði hagsmunalega og á annan hátt í sambandi við störf og stofnanir.

Frv. þetta er byggt á till. nefndar, sem sjútvmrn. skipaði 15. sept. 1958. Það má því segja, að málið hafi haft allgóðan tíma til undirbúnings, en samt sem áður er ráðgert, að endurskoðun á lögunum fari fram að tveim árum liðnum með hliðsjón af þeirri reynslu, sem þá verður fengin, en til þess er ætlazt samkvæmt frv., að verkefni fiskmatsráðs verði m.a. að endurskoða á næstu tveim árum lög og reglugerðir um fiskmat.

Allir eru sammála um, að hér sé um mikið nauðsynjamál að ræða, sem verði ekki lengur á frest skotið að gera raunhæfar aðgerðir í á einn eða annan hátt og sem líkast því, sem frv. felur í sér. Það er rætt um, hverjar séu orsakir þess, að meðferð og verkun fisksins hefur hrakað frá því, sem áður var, og þá um leið afleiðingar þess, sem því eru samfara, ef ekki tekst að stöðva þá óheillavænlegu þróun. Það er skoðun margra, að sú breyting, sem orðið hefur í seinni tíð á meðferð nýs fisks til hins verra, eigi m.a. rætur sínar að rekja til stríðsáranna. Þá var mikil eftirspurn eftir fiski, og svo til allur bátafiskurinn var þá seldur óverkaður og fluttur í ís til Bretlands. Fiskinum var þá oft skipað upp úr bátunum í stórar kasir, og tók aðgerðin stundum óhæfilega langan tíma, þar til henni hafði verið lokið og fiskinum komið fyrir í ís. Sjálft hráefni fisksins var þó oftast miklum mun betra þá en nú á sér stað, enda kom varla fyrir, að nokkur verstöðin við Faxaflóa eða við Snæfellsnes og viðar við land notaði önnur veiðarfæri en línu. Á þessu tímabili féll svo til öll önnur verkun fisks niður, og fjöldi sjómanna, sem voru aðaluppistaðan í sjómannastéttinni í stríðslok, hafði aldrei lært að fletja fisk í salt, skreið eða á annan hátt en gert var á stríðsárunum. Hitt er svo annað mál, að nú sérstaklega hin síðari ár er það fyrst og fremst síaukinni notkun nælonfiskinetanna um að kenna, hvað gæðum fisksins hefur hrakað. Aðalorsökin í því sambandi er talin vera sú, að bátarnir leggi miklu fleiri netatrossur í sjóinn en skipshafnir þeirra hafa tök á að vitja um daglega, en það leiðir hins vegar til þess, að mikið af fiskinum drepst í netunum og blóðhleypur og getur því aldrei orðið fyrsta flokks vara. Sumum kann að finnast, að hér sé vandinn auðleystur með því að lögbinda eða takmarka netafjölda báta, en það er álit margra, sem um þetta hafa mikið hugsað, að erfitt muni reynast að framfylgja slíkri löggjöf. Á tímabili var það einnig svo með línuna, að notkun hennar gekk úr hófi fram hvað línulengdina snerti. Þá var það, að sjómenn og útgerðarmenn bundu það í samningum sínum, að línan var takmörkuð við ákveðinn bjóðafjölda í hverjum róðri. Má vera, að heppilegast muni einnig reynast að hafa þann hátt á um takmörkun netanna, en án einhverra slíkra takmarkana er vart hugsanlegt að koma á neinni skynsamlegri skipan þessara mála.

En það eru fleiri hliðar á þessu máli, sem er jafnnauðsynlegt að bæta. Skipin sjálf verða að vera vel búin til þess, að auðvelt sé að gæta fyllsta hreinlætis, bæði í lestum og á dekki, þar sem fiskurinn er geymdur. Sama er að segja um fiskvinnslustöðvarnar hvað hreinlæti snertir, og síðast, en ekki sízt er það sjálf meðferð fisksins, að hann sé allt frá því fyrsta, að hann er innbyrtur í skipið, rétt með farinn, t.d. geta goggstungur af handahófi stórspillt hráefninu og svo er um fleira.

Sjútvn. hefur orðið sammála um að mæla með frv., að það verði samþ. með þeim breyt., sem hún hefur leyft sér að bera fram á þskj. 412. Samkvæmt því verður fiskmatsráð skipað 7 mönnum í stað 6. Við höfum leyft okkur að leggja til, að einum manni verði bætt við og sé hann tilnefndur af heilbrmrh. Það er talið sjálfsagt, að ráðinu verði skipaður framkvæmdastjóri, sem hafi með höndum hina daglegu yfirstjórn ferskfiskseftirlitsins. Loks leggur n. til varðandi tekjur af útflutningsgjaldi, að í staðinn fyrir 1% komi 1 ½%. Það þótti sýnt að athuguðu máli, að 1% mundi verða allt of lítil upphæð til þess að standast kostnað vegna eftirlitsins, enda kom það fram sem ábending frá mörgum, sem leitað var til umsagnar, að umrætt gjald mundi ná skammt.

Þá hefur af vangá fallið niður brtt. við 2. tölul. 4. gr., að í staðinn fyrir orðið „fiskmats“ komi: ferskfiskmats. Vil ég fyrir hönd nefndarinnar leyfa mér að bera þá brtt. fram skriflega nú við þessa umr., með leyfi hæstv. forseta.

Ég mun svo ekki orðlengja frekar um málið, en legg til, að hv. d. samþ. þær brtt., sem sjútvn. hefur leyft sér að bera fram, og frv. þannig breytt verði að lokinni þessari umr. vísað til 3. umr.