30.05.1960
Neðri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2560 í B-deild Alþingistíðinda. (942)

106. mál, ferskfiskeftirlit

Frsm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Sjútvn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar frv. til laga um ferskfiskeftirlit á þskj. 233, svo og á þskj. 450, eins og það var sent þessari hv. d., nokkuð breytt af hv. Ed.

Frv. þetta var athugað af n. á tveim fundum, og á þessum fundum mættu þeir Bergsteinn Á. Bergsteinsson fiskmatsstjóri og dr. phil. Þórður Þorbjarnarson, forstöðumaður rannsóknarstofu Fiskifélags Íslands, en báðir höfðu þeir setið í n., sem samdi þetta frv. Nm. ræddu við þá um hin ýmsu atriði í frv. þessu svo og almennt um fiskmat og vöruvöndun, og gáfu þeir nm. þær upplýsingar, sem þeir óskuðu eftir.

Nm. voru allir á einu máli um að mæla með samþykkt þessa frv., enda þótt einstakir nm. áskildu sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt., sem fram kynnu að koma, eins og segir í nál. á þskj. 524.

Ég tel ekki ástæðu til þess að rekja einstakar greinar þessa frv., en grg. sú, sem fylgir frv., er mjög ýtarleg, svo og fylgiskjal það, sem er prentað með, en það eru tillögur og grg. n. þeirrar, sem sjútvmrn. skipaði í sept. 1958 til þess að semja þetta frv.

Þá gerði og hæstv. sjútvmrh. grein fyrir frv. og tilgangi þess í ræðu sinni hér í þessari hv. d. við 1. umr. málsins.

Með frv. þessu er hugsað að leggja inn á nýjar brautir í sambandi við mat, ef hægt er, þ.e.a.s. að framkvæmt verði gæðamat á fiskinum að staðaldri sem hráefni. Slíkt mat hefur ekki átt sér stað hingað til, þótt hins vegar hafi gilt um það reglur, þó sérstaklega um útbúnað fiskiskipa og báta og aðgerðarstöðva, og svo um meðferð aflans, sbr. reglugerð, sem sett var skv. lögum um fiskmat frá 1948. Í reglugerð þessari er einnig gert ráð fyrir því, að hægt sé í einstökum tilfellum að gera ferskfiskmat á fiski, ef gæði hans stæðust ekki það, sem ætlazt var til af kaupanda fisksins. Einmitt þau atriði, sem ég nú gat um, er ætlunin að yfirfæra undir stjórn ferskfiskeftirlitsins, eins og segir í þessu frv., ef það verður að lögum, og þessu eftirliti er ætlað að framkvæma gæðaflokkun á fiski, sem ætlaður er til vinnslu, þegar tímabært þykir.

Þá er ferskfiskeftirlitinu í frv. ætlað að endurskoða á næstu tveimur árum lög og reglugerðir þær, sem eru í gildi um fiskmat.

Hinn 1. jan. s.l. voru liðin 50 ár síðan skyldumat var lögfest hér á landi. Þáverandi ráðh. Hannes Hafstein lagði fyrir Alþ. 1909 frv. til laga um fiskmat. Frv. þetta var samið og flutt samkv. þáltill., sem samþ. var á Alþ. 1908, og öðlaðist gildi 1. jan. 1910. Fyrsti vísirinn að opinberu fiskmati hér á landi var hins vegar fjárveiting sú, sem tekin var á fjárlög 1904 og 1905 til þess að launa tvo yfirfiskmatsmenn á gæðum fiskfarma, annan í Reykjavík og hinn á Ísafirði. Till. um þessa ráðstöfun kom frá stórkaupmannasamkundunni í Kaupmannahöfn og kaupmannaráðinu í Reykjavík, eins og segir í athugasemdum við frv. það, sem ég gat um áðan.

Yfirmat það, sem hér var um að ræða, var ekki skyldumat, það var aðeins kjörmat, og gátu útflytjendur ráðið því þar af leiðandi, hvort þeir notuðu matið eða ekki. Reynslan af þessu mati, meðan það var frjálst, var hins vegar sú, að fiskframleiðendur óskuðu fremur eftir því, að matíð yrði lögboðið, enda var svo gert. Fyrstu lögin, sem giltu um fiskmat á útfluttum fiski, giltu eingöngu um útflutning á saltfiski til Spánar og Ítalíu, enda saltfiskur þá eina tegundin af fiski, sem flutt var út, og viðskiptalöndin Spánn og Ítalía.

Allt frá þessum tíma hefur þessi löggjöf að sjálfsögðu tekið miklum breytingum, eftir því sem nýting sjávaraflans hefur orðið fjölbreyttari og þróazt í það horf, sem hún er í dag. Nú gilda lög um fiskmat, sem skylda, að allur fiskur, sem fluttur er út frá Íslandi og hefur komið hér á land, skuli metinn af löggiltum matsmönnum og háður eftirliti þeirra, en fiskmat ríkisins sá aðili, sem hefur mál þessi með höndum. Í dag munu flestir, ef ekki allir sammála um, að opinbert mat í einhverri mynd sé sjálfsagt og reyndar nauðsynlegt til þess að tryggja sem bezt sölu á hinum erlendu mörkuðum.

Sú hugmynd, sem fram kemur í frv., sem hér liggur fyrir, er víssulega mjög athyglisverð og ekki fram komin að ástæðulausu. Mjög hefur viljað brenna við hjá íslenzkum fiskframleiðendum, að vara sú, sem flutt er út, standist ekki það gæðamat, sem ætlazt er til, bæði af fiskmatinu, svo og eigendum vörunnar sjálfum. Það liggur í augum uppi, að það er ekki nema tvennt, sem getur valdið slíku, lélegt hráefni eða slæm meðhöndlun, nema hvort tveggja sé.

Í grg. þeirrar n., sem samdi þetta frv., er einmitt bent á þau atriði, sem geta verið orsakir lélegrar vöru, svo sem ónóg aðgæzla og umönnun aflans, bæði í skipum og verstöðvum. Þá er einnig bent á þá staðreynd, að eins og veiðiaðferðum er nú háttað og enginn eða lítill verðmismunur gerður á einnar nætur, tveggja eða þriggja nátta fiski, þá sé eingöngu hugsað um aflamagnið, en ekki gæði vörunnar, sem vinna á úr hráefninu. Í þessu sambandi langar mig til að skjóta því hér inn, að fyrir þessu þingi liggur till. til þál. um takmörkun neta og veiðitíma með netum, sem ég er meðflm. að, en hv. 1. flm. till. hefur gert grein fyrir henni hér í Sþ. Teldi ég, að einmitt það mál, sem þar um ræðir, ætti væntanlegt ferskfiskeftirlit að láta sig miklu skipta, auk þess sem mér finnst persónulega, að athuga eigi, hvort ekki sé rétt að stytta mjög þann tíma, sem netaveiðar eru leyfðar, eða algerlega banna þær á háhrygningartímanum.

Þá er það eitt atriði, sem ég vildi ekki láta hjá líða að benda á í sambandi við gæðamat á fiskafurðum fluttum á erlendan markað, en það er hin svokallaða sólídaríska ábyrgð, sem svo oft hvílir á öllum útflytjendum. Mér er kunnugt um, að sá háttur hefur verið á hafður hjá ýmsum sölusamtökum um tíma, en málum þannig komið nú, að það sé að breytast hins vegar í það horf, að hver einstaklingur taki meiri ábyrgð á sinni vöru. Mér er hins vegar ljóst, að það eru víssir erfiðleikar í sambandi við útflutning í þessu tilfelli, að skemmd vara getur komið fram, enda þótt hún hafi farið heil úr höfn, og hér stafa þá af skemmdir í sambandi við flutninginn til viðkomandi sölustaðar. Engu að síður er þetta atriði, sem væntanlegt ferskfiskeftirlit þyrfti að taka til athugunar í sambandi við heildarlöggjöfina.

Ég ætla hér ekki að dæma um það, hvaða form er hentugast að hafa í framtíðinni, hvort hér á að vera um að ræða matsmenn, sem kostaðir eru af ríkinu sjálfu eða hins vegar af fiskframleiðendum. Ég vil þó mega geta þess, að fyrir hv. sjútvn. þessarar d. hefur legið erindi frá fiskmatsmönnum í Hafnarfirði, þar sem þeir óska, að leiðrétting eða breyt. sé gerð á fiskmatslögunum. Við höfum að sjálfsögðu talið eðlilegast, að þessi breyt. eða þessi athugun verði send til ferskfiskeftirlitsins, sem hefur þessi mál samkvæmt frv. til athugunar, þegar endurskoðuð verði þessi löggjöf.

Þá sýnist og eðlilegt, að þegar ferskfiskeftirlitið tekur til starfa, eins og vonir standa til, þá verði gerðar ýmsar ráðstafanir til þess að styrkja og koma á betri vöruvöndun hjá þeim aðilum, sem framleiða fiskafurðir. Það sýnist því eðlilegt, að upp verði tekin sem skyldunámsgrein í stýrimannaskólanum kennsla í meðferð og verkun fiskaflans, eins og kemur fram í nál. sjútvn., svo og í frv. því, sem hér var lagt fyrir.

Það liggur í augum uppi, að þjóð, sem byggir jafnmikið lífsafkomu sína á sjávarfangi og við Íslendingar, verður að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að vanda sem bezt þá vöru, sem unnin er úr sjávarafurðum, til þess að við verðum sem bezt samkeppnisfærir á erlendum mörkuðum. En eins og kunnugt er, eru um eða yfir 90% af öllum útflutningsafurðum okkar sjávarafurðir. Það er ekki nægjanlegt að tryggja okkur réttinn til þess að veiða fiskinn, ef varan, sem við ætlum að vinna úr honum, er skemmd og óhæf til sölu á erlendum markaði.