04.12.1959
Neðri deild: 11. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (95)

16. mál, bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði 1960

Garðar Halldórsson:

Herra forseti. Ég mun ekki fara langt út í að svara ræðu hæstv. landbrh., sem hann var nú að enda við að flytja. Ég kemst þó ekki hjá því að víkja að örfáum atriðum í ræðu hans, og þykir mér það falla vel saman, að hann er að brigzla okkur þm. Framsfl. og nefna okkur pólitíkus og að við notum pólitíska klæki, en hann vilji tala við framleiðsluráð um þessi mál. En það vill svo vel til, að ég er þá bæði einn af pólitíakusunum og í framleiðsluráði, svo að líklega vill hæstv. ráðh. tala við aðra hliðina á mér um þetta.

Hæstv. ráðh, sagði, að ríkisstj. hefði heimild til þess að bæta bændum upp tjónið, sem þeir verða fyrir af bráðabirgðalögunum, og afstaða Sjálfstfl. væri óbreytt frá í haust, hann væri á móti lögunum. Það er nú búið að færa hér í hv. deild allsterk rök að því, að Sjálfstfl. hefur ekki getað verið óslitið á móti lögunum, því að þá hefðu þau aldrei verið sett, sbr., yfirlýsingu hæstv. fyrrv. forsrh. um, að Sjálfstfl. verði fyrrv. hæstv. ríkisstj. falli þrátt fyrir brbl. Það er ekki hægt sama daginn að vera bæði með og móti sama máll. En út af þessu vil ég spyrja hæstv. landbrh.: Úr því að hann telur, að ríkisstj. hafi heimild til að bæta bændum tjónið af brbl., hvers vegna hlutaðist hann ekki til um, að það væri tafarlaust gert, þegar hann komst í þessa ríkisstj., og hvers vegna beitti hann ekki áhrifum sínum, áður en hann komst í ríkisstj., sem þm. Sjálfstfl. og fulltrúi bænda, að Sjálfstfl. fylgdi þeirri stefnu, sem hæstv. ráðh. segir nú að Sjálfstfl. hafi alltaf haft?

Þá er það alrangt, sem hæstv. landbrh. sagði, að Framsfl. hefði haldið búvöruverðinu niðri 1934–39. Mun ég koma að því ofur litið nánar siðar í ræðu minni.

Hæstv. ráðh. sagði, að reynslan talaði skýrast. Rétt er það. Bændur hafa reynslu af forustu Sjálfstfl. í landbúnaðarmálum, og hún er allt önnur en hæstv. ráðh. vildi hér vera láta. Það þýðir lítið að tala svo hér á þessum stað. Reynslan talar skýrast.

Mál það, er hér liggur fyrir á þskj. 16 um greiðsluheimild fyrir hæstv. ríkisstj. til febr.-loka n.k., er út af fyrir sig eðlileg. En það eru vinnubrögðin, sem hæstv. ríkisstj. stofnar til hér á hinu háa Alþingi, sem eru ekki eðlileg. Það er búið að tala hér allrækilega um þau undanfarna daga, og mun ég því ekki eyða miklum tíma í að bæta þar við. En það er vegna þessara einstöku vinnubragða hæstv. ríkisstj. að vilja losna við þingmennina, áður en brbl. um verðlag landbúnaðarvara, er staðfest voru norður í Vatnsdal, — það er dálítið táknrænt, að það skyldi vilja svo til, að þau væru staðfest úti í sveit, — voru staðfest norður í Vatnsdal hinn 18. sept., falla úr gildi, sem við hv. 2. þm. Sunnl. höfum lagt fram brtt. á þskj. 46 við frv. til laga um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði á árinu 1960.

Hæstv. dómsmrh. lýsti því yfir fyrir nokkrum dögum hér á hinu háa Alþingi, að þm. mættu treysta því, að það yrði farið með brbl. í einu og öllu eftir þingræðisreglum og stjórnarskrá. Ég vil þakka þessa yfirlýsingu, ef við hana verður staðið. En það er beðið eftir því, að það verði sýnt í verki, hversu þingræðísleg meðferð brbl. verður. Frv. kom að vísu á borðin til okkar áðan, og er það vissulega fyrsta skrefið til þingræðíslegrar meðferðar, þótt fyrr hefði mátt vera, og næstu dagar munu leiða í ljós, hve mikil alvara býr þar á bak við.

Það er ekki úr vegi að rifja upp í stuttu máli þróun verðlagsmála landbúnaðarins undanfarin ár, enda nauðsynlegt til fulls skilnings á því ástandi, sem nú ríkir, að hafa í huga sögu undanfarandi ára í verðlagsmálunum.

Fram til ársins 1934 hafði verðlag sauðfjárafurða svo til einvörðungu farið eftir verðlagi á erlendum markaði, en verðlag mjólkur og mjólkurvara miðaðist aðallega við framboð og eftirspurn á skipulagslausum innlendum markaði. Árin eftir 1930 var viðskiptakreppa hér í landi sem víðar, og fóru bændur ekki varhluta af áhrifum hennar fremur en aðrar stéttir, enda greip þá ríkisvaldið inn í. Á árinu 1934 voru sett tvenn brbl.: önnur um kjötsöluna, hin um mjólkursöluna. Samkvæmt kjötsölulögunum skyldi landinu skipt í ákveðin verðlagssvæði og sérstakri nefnd, kjötverðlagsnefnd, falið að ákveða bæði heildsölu- og smásöluverð á kjöti á hverju þessara verðlagssvæða. Svipað fyrirkomulag var á mjóikursölunni: landinu skipt í verðjöfnunarsvæði og sett verðjöfnunargjald á selda mjólk og rjóma til að verðbæta vinnsluvörur úr mjólkinni. Það þarf auðvitað ekki að taka það fram, að þessi brbl. voru hvor tveggja lögð fyrir Alþingi, svo sem skylt var, og staðfest í ársbyrjun 1935 og hétu þá: lög um ráðstafanir til að greiða fyrir viðskiptum með sláturafurðir og ákveða verðlag á þeim og lög um meðferð og sölu mjólkur og rjóma. Markmið laganna var jöfnum höndum að tryggja neytendum næga og góða vöru og framleiðendum öruggara verð, sem m.a. náðist með því að lækka verulega dreifingarkostnað varanna. Verðlagning varanna var í höndum fimm manna nefndar, en ekki Framsfl. Nefndarmenn voru skipaðir fulltrúum bæði neytenda og framleiðenda. Þetta skipulag stóð fram á valdatímabil utanþingsstjórnarinnar 1942–44, en þá var, eins og kunnugt er, ört vaxandi verðbólga, því að á rúmlega hálfu ári 1942 hækkaði vísitalan um 89 stig undir stjórn hæstv. núv. forsrh., — en þá voru líka steiktar gæsir á flugi.

Til þess að finna lausn á því vandamáli, hvernig stöðva mætti áframhaldandi verðþenslu, var svo sumarið 1943 samkv. lögum nr. 42 þ.á., um dýrtíðarráðstafanir, skipuð svokölluð sex manna nefnd, er var falið það hlutverk að finna eðlilegt hlutfalli milli kaupgjalds og afurðaverðs, og skyldi þetta svo vera grundvöllur verðlagningar landbúnaðarvara. Í þessa nefnd voru valdir tveir sérfróðir embættismenn, hagstofustjóri og form. búreikningaskrifstofu ríkisins, af hálfu hins opinbera, tveir fulltrúar tilnefndir af Búnaðarfélagi Íslands og tveir af hálfu launþegasamtakanna. Í áðurnefndum lögum um dýrtíðarráðstafanir var svo ákveðið, að n. ætti að finna hlutfalli milli verðlags landbúnaðarafurða og kaupgjalds stéttarfélaga, er miðaðist við það, að heildartekjur þeirra, er vinna að landbúnaði, verði í sem nánustu samræmi við tekjur annarra vinnandi stétta. En í framkvæmdinni hefur það reyndar orðið svo, a.m.k. síðari árin, að kaup bændanna hefur verið miðað við kaup Dagsbrúnarverkamanna einna, en ekki meðaltal af kaupi þeirra og annarra launahærri stétta. Með þessari lagagrein er lagður grundvöllur að jafnrétti bændastéttarinnar við aðrar stéttir, þótt á ýmsu hafi oltið síðan um jafnréttið, og mun ég koma lítillega að því síðar.

Svo giftusamlega tókst þessari sex manna nefnd, að hún varð sammála um grundvöll þann, sem henni var ætlað að finna. Eftir að grundvöllurinn var þannig fenginn, var það svo hlutverk hagstofunnar samkv, dýrtíðarlögunum frá 1943 að reikna út sérstaka verðlagsvísitölu fyrir landbúnaðarvörur, og skyldu þær svo verðlagðar í samræmi við það, þannig að bóndinn fengi í sinn hlut í samræmi við aðrar vinnandi stéttir.

Haustíð 1944, er fyrsta landbúnaðarvísitalan var reiknuð út, reyndist hún vera 109.4 stig, og bar því að hækka landbúnaðarvörur svo, að kaup bændanna gæti hækkað um 9.4%. Þegar þetta var, var að setjast að völdum svokölluð nýsköpunarstjórn með meiri auðæfi milli handa en nokkur önnur ríkisstj. á landi hér fyrr og síðar. Sjálfsagt hefur hún viljað vel, ætlað mikið að gera, láta þjóðinni verða mikið úr stríðsgróðanum, ætlað að verða góð stjórn, en fara að öllu með gát, því að ekki máttu bændur fá þessa hækkun á vöruverðinu og þar með bæta kjör sín. Enn var vaxandi dýrtíð í landinu, og nú ætlaði nýja stjórnin að stöðva hækkanirnar og hafði ýmsan undirbúning, áður en hún settist í stólana. M.a. var kallað saman aukabúnaðarþing, en Búnaðarfélag Íslands var þá í forsvari fyrir bændastéttina í verðlagsmálunum, því að þá var Stéttarsamband bænda ekki stofnað. Búnaðarþingið var fengið til þess að gefa 9.4% verðhækkunina eftir gegn loforði um, að kaupgjald hækkaði ekki.

Það fór að vísu á annan veg. Þegar búið var að ákveða verðlag landbúnaðarvara óbreytt, hækkaði kaupgjald annarra stétta. Bændastéttin hafði lagt sinn hlut til viðreisnar fjárhagskerfi landsins, en sat eftir með svikin loforð, enda hafði nú annað gerzt. Hin nýja stjórn, nýsköpunarstjórnin, hafði fundið upp nýtt lögmál. Ég segi: nýtt lögmál, því að þegar litið er yfir Morgunblaðið frá þessum árum, sést, að um algera stefnubreytingu er að ræða. Áður hafði Morgunbl. varla átt nógu sterk orð til þess að lýsa þeirri bölvun, sem stafaði af vaxandi dýrtíð og verðbólgu, en í kringum áramótin 1944 og 1945 er dýrtíðin farin að hafa sínar „björtu hliðar“. Í þingræðu sem þáv. hæstv. fjmrh. flutti 5. des. 1944, segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„En hinu má heldur ekki gleyma, að dýrtíðin hefur sínar björtu hliðar. Dýrtíðin hefur sem sé verið notuð beinlínis sem miðil til þess að dreifa stríðsgróðanum meðal landsmanna, og hefur hún á þann hátt orðið áhrifamikil til þess að jafna tekjur á milli stétta þjóðfélagsins.“

Og Morgunblaðið sagði 19. jan. 1945:

„Frá stríðsbyrjun og fram á þennan dag hefur dýrtíðin beinlínis verið notuð sem miðill til þess að dreifa stríðsgróðanum milli landsmanna.“

Margar fleiri tilvitnanir þessu líkar væri hægt að nefna, en ég læt þetta nægja. Þetta var líka nýsköpun.

Sumarið 1945 var tekin upp ný skipan í verðlagsmálunum. Þá var sett á stofn með brbl. búnaðarráð 25 manna, er hafði eiginlega það verkefni eitt að kjósa fjóra menn í verðlagsnefnd landbúnaðarvara, en form. ráðsins var sjálfkjörinn í verðlagsnefndina. Kjötverðlagsnefnd og mjólkurverðlagsnefnd voru hins vegar lagðar niður. Það er satt að segja ekki furða, þótt hæstv. landbrh. eigi góðar minningar frá þessum tíma og geti varla trúað öðru en það hafi verið Framsfl., sem hélt verðinu niðri árin á undan, svo giftusamlega tókst til á þessum árum. Búnaðarráðsmennirnir voru skipaðir af landbrh. án tilnefningar annarra aðila, og til vonar og vara, sem ekki var ástæðulaust né óþarft, var í búnaðarráðslögunum kveðið svo á, að það væri borgaraleg skylda að taka sæti í ráðinu og sitja fundi þess. Það var fyrir fram séð, hversu vinsælt það yrði.

Búnaðarráð starfaði í tvö ár og byggði verðlagninguna að nokkru leyti á grundvelli sex manna nefndar álitsins, en ekki voru þau 9.4%, sem búnaðarþing gaf eftir, tekin inn í verðlagninguna þessi árin. Búnaðarráði þótti sem sé ekki þörf á að dreifa neinu af stríðsgróðanum til bændastéttarinnar, enda var það í fullu samræmi við alla meðferð nýsköpunarstjórnarinnar á stríðsgróðanum.

Árið 1947 voru svo sett lögin um framleiðsluráð landbúnaðarins, verðskráningu og sölu landbúnaðarvara o.fl. Samkv. þeim lögum var nýrri sex manna nefnd falið að finna grundvöll verðlagningarinnar, og skyldi Stéttarsamband bænda, er þá var nýlega stofnað, tilnefna þrjá menn í nefndina, en Alþýðusamband Íslands, Sjómannafélag Reykjavíkur og Landssamband iðnaðarmanna tilnefna sinn manninn hvert fyrir hönd neytenda. Ef ekki yrði samkomulag í nefndinni, átti þriggja manna yfirnefnd eða gerðardómur, skipaður einum manni frá framleiðendum, einum frá neytendum og hagstofustjóra sem oddamanni, að ákveða verðlagsgrundvöllinn. Framleiðsluráð ákveður hins vegar vinnslu- og dreifingarkostnað varanna og annast hina endanlegu verðlagningu.

Í 12 ár hefur verðlagning landbúnaðarvara farið fram eftir þessum lögum, árekstralaust. Það er að vísu ekki nema stundum, sem sex manna nefndin hefur náð samkomulagi. En þegar það hefur ekki orðið, hefur gerðardómurinn tekið við, og báðir aðilar hafa allt til þessa árs sætt sig við úrskurði hans.

Ég hef litið svo á, að þetta samstarf fulltrúa neytenda og framleiðenda í sex manna nefndinni væri heilladrjúgt, samstarfið mundi auka gagnkvæma þekkingu og skilning á kjörum og aðstöðu þessara fjölmennustu og þýðingarmestu stétta þjóðfélagsins. Það er höfuðnauðsyn, að þessar stéttir þjóðfélagsins viti það og skilji, að hvorug getur án hinnar verið, að það er sameiginlegur hagur þeirra beggja og allrar þjóðarinnar, að þeim vegni báðum vel. Það er lífsnauðsyn neytendastéttunum, að hér sé gnægð góðra landbúnaðarafurða, en það getur ekki orðið, nema í sveitunum sé rekinn blómlegur landbúnaður, og blómlegur landbúnáður verður ekki rekinn, nema neytendur hafi næga kaupgetu til þess að geta veitt sér framleiðslu landbúnaðarins. Það hvílir því mikil ábyrgð á þeim fulltrúum stéttanna, sem með verðlagsmálin og verðlagsgrundvöllinn fara.

Bændastéttin er eina stéttin í þessu landi, sem hefur búið við skertan rétt til þess að ákveða sjálf kaup sitt og kjör, þar sem gerðardómur sker úr, ef ekki næst samkomulag við fulltrúa neytenda um verðlagsgrundvöllinn. Vafalaust er þetta ákvæði, gerðardómurinn, komið inn í framleiðsluráðslögin fyrir áhrif frá neytendum, því að ekki hafa bændur óskað eftir því fyrirkomulagi, að þeir einir ættu sitt undir gerðardómi. Það er því alveg furðulegt, að það skyldu verða neytendasamtökin eða nánar tiltekið stjórnir þeirra félagssamtaka neytenda, er tilnefna menn í sex manna n., er verða til þess að gera þessa merku löggjöf um samstarf framleiðenda og neytenda óvirka með því að leggja fyrir fulltrúa sinn í sex manna n. að hætta þar störfum 17. sept. s.1.

Þeirra eina afsökun á slíku glapræði er, að þeir hafa ekki gert sér ljóst, hvað af gæti hlotizt og nú er fram komið, þar sem eru brbl. hæstv. ríkisstj. frá 18. sept. s.l. Ég óska samtökum launastéttanna þess af heilum hug, að þau þurfi aldrei að standa frammi fyrir sams konar gerræði af hálfu ríkisvaldsins og bændur standa nú. Það má öllum ljóst vera, að takist þetta tilræði við bændastéttina, er þar með opnuð leið til sams konar aðgerða gegn hverri annarri stétt þjóðfélagsins, hvenær sem ofbeldisgjörn ríkisstjórn teldi sér það henta. Það er ekki hægt að trúa því að óreyndu, að nokkur stétt þjóðfélagsins vilji, að slíkt fordæmi sé fyrir hendi.

Þótt kjaraskerðing sú, sem bændur munu verða fyrir af brbl., komi sér að sjálfsögðu illa, er það ekki aðalatriði þessa máls. Hitt er aðalatriði, að á þeim er brotinn skýlaus réttur, lagalega viðurkenndur réttur, sem hefur verið lögfestur síðan 1943, að þeir skuli bera svipað úr býtum fyrir sitt erfiði og aðrar vinnandi stéttir. En með brbl. eru raunverulega felldar úr gildi þrjár greinar í framleiðsluráðslögunum, sem um það fjalla, að bændur beri svipað úr býtum og aðrar vinnandi stéttir, og þar með jafnréttisákvæðið. Hin skjótu viðbrögð fyrrv. hæstv. ríkisstj. að setja þessi brbl. strax daginn eftir að félagssamtök neytenda leggja fyrir fulltrúa sína í sex manna nefndinni að hætta störfum benda ótvírætt í þá átt, að þar hafi samstarf á milli verið, að hæstv. ríkisstj. hafi sjálf skapað þetta tilefni til setningar brbl. óneitanlega hefði verið eðlilegast, þar sem hér var um hreint lagabrot að ræða frá hálfu neytendasamtakanna, að hætta störfum í sex manna n., að hæstv. ríkisstj. hefði sett brbl., sem hefðu gert sex manna n. og gerðardóminn starfhæfan. Framleiðsluráðslögin kveða svo á, að þessir aðilar skuli nefna menn í sex manna n. og gerðardóminn. Það er ekki hægt annað að sjá, bæði af þessum viðbrögðum hæstv. fyrrv. ríkisstj. og setningu laganna um niðurfærslu verðlags og launa o.fl. frá 30. janúar s.l., en það hafi verið markvis stefna hennar og þeirra aðila, sem hana studdu, að gera hlut bændastéttarinnar lakari en annarra stétta. Við setningu þeirra laga var sá háttur upp tekinn, að skiptaverð á fiski til bátasjómanna og fiskverð það, sem aflaverðlaun til togarasjómanna miðast við, skyldi breytast í samræmi við vísitölu hvers tíma án nokkurra takmarkana. En afurðaverð til framleiðenda landbúnaðarvara mátti hækka aðeins ársfjórðungslega og því aðeins, að vísitalan hækkaði um tvö stig minnst. Og þá var einnig vísitölunni breytt þannig, að áður var hún 185 stig, en nú færð í 100, svo að þessi 2 stig, sem nú þarf til þess, að verð landbúnaðarvara megi breytast, jafngilda 3.7 stigum áður, og gæti verið um veruleg afföll að ræða á landbúnaðarvöruverðinu. Með þessu eru framleiðendur landbúnaðarafurða settir skör lægra en sjómennirnir, en áður höfðu báðar þessar stéttir búið við hið sama að því leyti, að afurðaverð þeirra var ákveðið til eins árs í senn. Gagnvart framleiðendum landbúnaðarvara bættist svo það, að þegar samið var um verðlagsgrundvöllinn 1958, var gert ráð fyrir, að Dagsbrúnarkaupið hækkaði um 6%, og grundvöllurinn byggður á því. Reynslan varð hins vegar sú, að Dagsbrúnarkaupið hækkaði um 9.5%, og voru því framleiðendur landbúnaðarvara hlunnfarnir um 31/2 % af kaupi sínu eða 3.18% af afurðaverðinu í heild. Það er að vísu rétt, að samkv. framleiðsluráðslögunum var ekki skylt að bæta framleiðendum landbúmaðarvara þetta, fyrr en nýr verðlagsgrundvöllur kæmi á þessu ári. En þegar sjómennirnir höfðu fengið hliðstæða lagfæringu á s.l. vetri, var það a.m.k. réttlætismál, að þessi leiðrétting yrði gerð, um leið og niðurfærslulögin voru sett á s.l. vetri. En hæstv. ríkisstjórn og stuðningsflokkar hennar voru á annarri skoðun. Hlutur bændastéttarinnar skyldi að þeirra áliti gerður lakari en annarra stétta. Jafnvel Sjálfstfl., sem nefnir sig flokk allra stétta og telur, að sér einum sé til þess trúandi að gæta hagsmuna bændanna og sveitanna, gat ekki unnt bændum jafnréttis í þessu máli. Varla er þó rétt, a.m.k. eftir síðustu ræðu hæstv. landbrh., að þvertaka fyrir það, að Sjálfstfl. hafi á þeim tíma gert ráð fyrir, að bændur fengju leiðréttingu með verðlagsgrundvellinum s.l. sumar, þótt viðbrögðin yrðu önnur, þegar til kom, þegar hann studdi hæstv. fyrrv. ríkisstj. til þess að setja brbl. 18. sept. s.l. Þar vann hann það „fyrir vinskap manns að víkja af götu sannleikans“. Vinskapurinn, skyldleikinn við Alþfl. mátti sín þar meira en styðja að því, að bændastéttin fengi að njóta landslaga.

Réttlætiskennd Sjálfstfl. í garð bændastéttarinnar hefur jafnan átt sín takmörk. Það sýnir sagan. Hinu kemst hann eðlilega ekki hjá sem allra stétta flokkur, að tala blíðlega til þeirra, bæði á mannfundum og í Morgunblaðinu. Yfirlýsingar þingflokks og miðstjórnar Sjálfstfl. út af brbl. eru einstök plögg, sem vakið hafa mikla eftirtekt úti um landið vegna þess, hve vandræðaleg þau eru. Öll meðferð þess máls síðan í sept. s.l., yfirlýsingar Sjálfstfl., skrif í Morgunbi. og það, sem gerzt hefur hér á hinu háa Alþingi, sýnir ljóslega, að Sjálfstfl. stendur á glóðum. Og ylurinn af þeim góðum er farinn að leita óþægilega upp eftir líkamanum síðustu dagana, það sýndu viðbrögð stjórnarliðsins s.l. nótt.

Herra forseti. Ég mun nú ljúka máli mínu, en vil að lokum endurtaka það, sem ég áðan sagði. Það er beðið eftir því, bæði hér á hinu háa Alþingi og úti um tandið, að hæstv. ríkisstjórn sýni í verki yfirlýsingu hæstv. dómsmrh., að meðferð brbl. verði í einu og öllu eftir þingræðisreglum og stjórnarskrá, og framleiðendur landbúnaðarvara bíða líka eftir og munu fylgjast vel með, hvort og hvernig Sjálfstfl. stendur við þær yfirlýsingar sínar, að framleiðendum landbúnaðarvara verði bætt þau 3.18%, sem þeir eru búnir að eiga inni árlangt.